Skip to main content

.

 

Andy

Andrew Dennis í viðtali við Sigurjón Bjarnason

Andrew Dennis í viðtali við Sigurjón Bjarnason

Hjálpsemi Andys er viðbrugðið í gönguferðum. Hér veitir hann aðstoð við að komast yfir á í Mjóafirði. Hinn aðstoðarmaðurinn er Ólafur Hansson frá Reykjum.

Þeir sem hafa stundað gönguferðir austanlands undanfarin tíu ár hafa líklega kynnst honum Andy. Hann er Ný-Sjálendingur, skemmtilegur ferðafélagi, mjög þolinn göngumaður, greinilega þraut­þjálfaður og vel útbúinn. Hann er ævinlega tilbúinn til hjálpar og opinn fyrir því að kynnast ferðafélög­unum, fróðleiksþyrstur um mannlíf og menningu. Andy er vel mæltur á íslenska tungu þó vel megi heyra erlendan hreim. Hann hefur dvalið hjá þeim Berglind og Sævari á Mjóeyri á sumrin, hjálpað þeim við rekstur fyrirtækisins á milli þess sem hann hefur ýmist skipulagt gönguferðir eða verið þátt­takandi í ferðum sem aðrir leggja drög að. Myndir eru teknar af viðmælanda, nema annars sé getið.

En hver er hann, þessi erlendi gestur sem hefur gerst svo trúr Íslandi, og nú síðast einkanlega Austurlandi, að hann getur nánast flokkast undir það að vera heimamaður hér? Hvaðan kom hann og hvernig komst hann í kynni við Ísland og íslenska náttúru? Að maður spyrji nú ekki þessarar sveitalegu spurningar: How do you like Iceland?

Glettingur sótti Andy heim að Mjóeyri á Eskifirði fimmtudaginn 28. ágúst síðastliðinn og það sem hér fer á eftir veitir nokkur svör við þessum spurningum.

Segðu okkur fyrst frá uppruna þínum og menntun.
Ég heiti Andrew Dennis en er oftast kallaður Andy, bæði hér á Íslandi og á Nýja-Sjálandi. Ég fæddist á Norður Englandi, mamma var skosk en pabbi frá Yorkshire. Þegar ég var fimm ára fluttum við til Nýja-Sjálands. Þetta var eftir seinna stríð og þá fluttu margir Englendingar þangað. Við bjuggum fyrst í strandhverfi í Christchurch og þar fór ég beint í skóla. Ég var talinn duglegur nemandi í barnaskóla en ekki alveg eins góður þegar ég kom í menntaskóla. En í háskóla gekk námið ágætlega, þar lærði ég lögfræði og ensku, fannst gaman að enskum bókmenntum og tungumálum. Þarna kynntist ég líka fornensku (anglosaxon). Mér fannst fornenskan skemmtilegasta námsefnið á háskólaárunum, líklega vegna þess að Ný-Sjálendingar eru tiltölulega nýir innflytjendur frá Englandi og bókmenntirnar og tungumálið tengja okkur við upprunann. Saga evrópskra íbúa á Nýja-Sjálandi hefst seint á átjándu öld en fornenskar bókmenntir eru um það bil tólf til þrettán hundruð ára gamlar og mér virðast þær standa djúpt í menningu okkar.

Mér gekk mjög vel í prófum í fornenskunni og deildarstjórinn vildi að ég tæki meistarapróf í ensku og sagði mér líka að úr því ég væri svona góður í fornensku gæti ég alveg eins lært forníslensku sem þeir kölluðu „old-norse“. Ég las svo nokkrar Íslendingasögur um sumarið á ensku og sá að þetta var merkilegt efni og var því alveg til í að taka námskeið í „old norse“. Og af því að ég var að læra lögfræðina samhliða tók ég líka eftir því að lagaumhverfið var sérstakt á Íslandi á þjóðveldistímanum. Meðal annars þýddum við Hrafnkelssögu yfir á ensku á þessu námskeiði – svona 50 línur á viku – og þar með kynntist ég austurhluta Íslands í fyrsta sinni.

Meistaraprófið gekk vel hjá mér og þess vegna gat ég valið um að fara í nám til Bretlands eða Bandaríkjanna og valdi Bandaríkin. Þar stundaði ég meðal annars nám sem nefndist The Relevance of International Law, það snerist um hvort það væru lög eða aflsmunir (power politics) sem oftast réðu úrslitum þegar ófriður ríkti á milli ríkja. Í stað þess að skrifa ritgerð í þessu námi um eitthvert mál úr samtímanum skrifaði ég 100 blaðsíðna ritgerð sem nefnist „International law and the law in the Old Icelandic Sagas“ því ég hafði lesið nokkrum sinnum að alþjóðlega lögkerfið væri þá „at the blood feud stage of legal system evolution” (á blóðhefndastigi í réttarþróunarsögunni). Ég las líka meira á bókasafninu í Harward um Ísland á þjóðveldistímanum en það var næstum því ekkert til á ensku um lögbækurnar frá þesum tíma sem heita Grágás. Prófin í Harward gengu vel og þá bauðst mér að fara til Cambridge að skrifa doktorsritgerð. Svo ég ákvað að nýta mér enn frekar áhuga minn á Grágás og reyna að gera Grágás að doktorsverkefni í Cambridge.

Upphaflega vildi ég skrifa um Grágás sem merkilegt dæmi í þróunarsögu siðmenntaðra lögkerfa. En það kom smátt og smátt í ljós að þetta var of víðtækt efni fyrir mig og hefði tekið mig of langan tíma. Meðal annars gat ég ekki lesið þýsku og vissi næstum því ekkert um lagaumhverfi á miðöldum í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð. Svo ég ákvað að minnka umfang verkefnisins og skrifa heldur um nokkra þætti í Grágás – Þingskapaþátt, Lögsögumannaþátt og Lögréttuþátt. Ég sat einn í byrjun á bókasafninu í Cambridgeháskóla og þýddi Grágás fyrir sjálfan mig upp úr Konungsbókinni. Það tók heilt ár, um það bil tíu til fimmtán línur á dag, með ótal orðabækur í kringum mig. Sem betur fer hafði Vilhjálmur Finsen þýtt Konungsbók Grágásar á dönsku og Det nordiske Literatur-Samfund gefið þýðinguna út í fjórum bindum í Danmörku, tvö fyrri bindin 1852 og hin síðari 1870 og hjálpaði það mér mikið. En það var hins vegar enginn kennari eða prófessor í Cambridge sem gat hjálpað mér. Ég kom svo loks til Íslands í byrjun árs 1972 og var svo heppinn að fá skrifborð í lestrarsal Árnastofnunar og fékk svo að ljúka við ritgerðina í árslok 1973.

Vörn ritgerðarinnar gekk vel, Peter Foote og Ármann Snævarr voru andmælendur og ég var ekki lengi að ákveða að fara aftur til Íslands til þess að þýða Grágás yfir á ensku í fyrsta sinn. Naut ég þá aðstoðar Peter Foote við University College í London og líka eins aðstoðarmanns hans, Rich Perkins, sem aðallega sá um Kristinna laga þátt. En af því að þýðingin var alltaf aukastarf hjá okkur öllum og við vorum næstum því aldrei á sama staðnum og þýðingin var gefin út hjá University of Manitoba í Winnipeg, tók það um tuttugu ár að ljúka þessari vinnu. Nú er þetta merkilega lagahandrit loksins til á ensku, í tveimur bindum. Þýðingin fékk yfirleitt ágæta dóma, meðal annars sagði Gunnar Karlsson sagnfræðingur mér að það hafi komið sér vel að hafa ensku þýðinguna til hliðsjónar þegar hann gaf Grágás út á íslensku (ásamt tveim öðrum) árið 1992. En mér finnst merkilegt að þessi enska þýðing af Grágás hefur nánast hvergi verið til sölu hér á Íslandi. Ég fer oft í bókabúðir þegar ég er hér á landi og athuga hvort „bækurnar mínar“ gætu kannski verið þar til sölu, í það minnsta í búðir sem eru með margar fræðibækur og gjafabækur eins og Mál og Menning og Eymundsson. Eini staðurinn, sem ég hef séð enska útgáfu Grágás til sölu, er bókabúðin í Snorrastofu í Reykholti.

Andy kann vel við sig á bókasöfnum ekki síður en í ósnortinni náttúru.

Andy kann vel við sig á bókasöfnum ekki síður en í ósnortinni náttúru.

Beðið eftir ferðamönnum úr skemmtiferðaskipinu Island Sky til að leiðsegja þeim í þriggja stunda gönguferð um Neskaupstað og nágrenni í júní 2014. Stúlkan á myndinni er Birta Sæmundsdóttir, hún var að leggja af stað í sína  fyrstu leiðsögn sem tókst ágætlega.

Beðið eftir ferðamönnum úr skemmtiferðaskipinu Island Sky til að leiðsegja þeim í þriggja stunda gönguferð um Neskaupstað og nágrenni í júní 2014. Stúlkan á myndinni er Birta Sæmundsdóttir, hún var að leggja af stað í sína  fyrstu leiðsögn sem tókst ágætlega.

Ertu alveg hættur að vinna við Grágás?
Ég vann síðast í alvöru við Grágás árið 1995 en þá var ég þrjá mánuði að fara yfir seinna bindið heima á Nýja-Sjálandi. Þá fann ég meðal annars að vélritunarkonan í Winnipeg hafði um tuttugu sinnum sleppt nokkrum línum þar sem orðalag er endurtekið með nokkurra lína millibili svo að tíu til tuttugu orðum var sleppt í hvert skipti. En það sem mér finnst bæði merkilegt og skemmtilegt er að maðurinn, sem skrifaði Landabrigðisþátt í Staðarhólsbók á þrettándu öld, hefur gert nákvæmlega sömu villurnar því að tíu til tuttugu orðum hafði líka verið sleppt um tuttugu sinnum þegar þátturinn var skrifaður upp (um 1280), annaðhvort eftir Konungsbókinni eða frumtextanum sem hafði verið notaður þegar Konungsbókin var skrifuð (um 1250). Það hefur víst ekki alltaf verið mjög spennandi verkefni að skrifa upp Grágás um 1280 eða að vélrita hana árið 1995. En mér finnst merkilegt að þeir sem unnu þetta með 700 ára millibili hafa báðir gert alveg sömu villurnar.

En nú ætla ég kannski að snúa mér aftur að Grágás einu sinni enn. Í janúar á þessu ári fékk ég bréf frá lagaprófessor og miðaldafræðingi við University of Michigan í Bandaríkjunum sem er búinn að eiga míkrófilmu af doktorsritgerðinni minni frá Cambridge í meira en þrjátíu ár en hafði ekki lesið hana fyrr en í fyrra. Honum fannst efnið mjög athyglisvert, baðst afsökunar á því að hafa ekki lesið ritgerðina fyrr. Hann vildi setja hana á netið þar sem hún er bara til í Háskólabókasafninu í Cambridge og heima hjá mér á Nýja-Sjálandi. Við hittumst svo í Saint Andrews háskóla í Skotlandi síðasta vor þegar ég var á leiðinni til Íslands og við náðum vel saman. En ég á eftir að vinna eitthvað meira við ritgerðina því að hún er 570 blaðsíður og full af prentvillum og margt fleira þarf ég að laga áður en hún fer á netið. Ég áætla að endurskoðun ritgerðarinnar taki mig átta til tíu vikur og þetta verk verð ég að vinna hér á Íslandi en helst ekki að sumri til því að þá hef ég alltaf nóg að gera annars staðar á landinu en á bókasöfnum í Reykjavík.

Könnun á hinu 1,2 milljón hektara stöðuvatni, Fjordland, í samnefndum þjóðgarði á Nýja-Sjálandi haustið 2012. Ferðin var farin á litlum bát í fylgd með ljósmyndaranum, Craig Potton, rétt fyrir brottför Andys til Íslands þar sem íslenskt vor tekur við af ný-sjálensku hausti.

Könnun á hinu 1,2 milljón hektara stöðuvatni, Fjordland, í samnefndum þjóðgarði á Nýja-Sjálandi haustið 2012. Ferðin var farin á litlum bát í fylgd með ljósmyndaranum, Craig Potton, rétt fyrir brottför Andys til Íslands þar sem íslenskt vor tekur við af ný-sjálensku hausti.

Við skulum þá láta þessu lokið um lögfræðina en okkur langar að vita hvenær þú byrjaðir að ganga á fjöll. Og hvar.
Ég fór mikið til fjalla heima á Nýja-Sjálandi eftir að ég varð svona 14–15 ára. Á háskólaárunum fór ég oftast á skíði því að skíðamennskan bauð upp á mikið félagslíf og skemmtanir. En þegar ég hafði lokið þýðingu fyrra bindis Grágásar og var kominn til að kenna lögfræði heima í Christchurch á Nýja-Sjálandi vann ég mikið að náttúruverndarmálum og gekk þess vegna mikið á fjöll. Þó að Nýja-Sjáland – eins og Ísland – sé oft talið einhvers konar paradís vegna náttúrunnar erum við samt búin að tapa 80 prósentum af frumskóginum á láglendi, 90 prósentum mýrlendis og meðal annars hafa 58 tegundir fugla dáið út á Nýja-Sjálandi á síðustu sjö til átta hundruð árum síðan landið var fyrst byggt. Mér fannst þetta mjög sorglegt og þótt ég hefði meira en nóg að gera við kennsluna skipti ég mér samtímis mikið af náttúruverndarmálum. Og þegar ég hætti háskólakennslu vann ég áfram að náttúruvernd – skrifaði meðal annars handbækur og önnur rit um þjóðgarða og barðist fyrir friðun nýrra svæða, bæði á landi og í sjónum. Ég fékk oft að búa í óbyggðum vegna þessarar vinnu og held að ég hafi dvalið allt að þriðja hluta síðustu 30 ára í þjóðgörðum og annars staðar úti í óbyggðum.

En var Íslandi þá ekki alveg gleymt?
Nei, alls ekki. Ég kom aftur til Íslands á árunum 1978, 1983, 1984 og 1988, aðallega til að halda áfram með þýðingu seinna bindis Grágásar en líka til að missa ekki alveg samband mitt við landið. En þegar foreldrar mínir voru komnir um áttrætt fannst mér ég ekki geta farið til Íslands eins oft og áður og kom ekki hingað milli áranna 1988 og 2001. Við erum þrjú systkinin og af því að systir mín hefur unnið alla sína starfsævi í utanríkisþjónustu og var mikið erlendis lenti það oftast á mér að fylgjast með foreldrum okkar. Eftir að pabbi dó, 93 ára gamall árið 2000, datt mér í hug að skipuleggja gönguferðir á Íslandi. Ég hafði þá unnið þrjú sumur við leiðsögn á gistiheimili í óbyggðum og verið líka í leiðsögu með gönguhópum frá Bandaríkjunum. Þegar ég talaði um Ísland í þessu starfi, sem ég gerði eins oft og ég gat, fékk ég næstum því alltaf þau svör að Ísland væri talið einhvers konar ævintýraland ferðamanna og margir vildu endilega fara þangað. Svo ákvað ég að reyna að skipuleggja ferðir til Íslands og gerði það í fyrsta sinni fyrir tvo hópa frá Bandaríkjunum árið 2001.

Um þetta leyti kynntist ég líka eigendum fyrirtækisins High Places sem hefur skipulagt gönguferðir um Ísland síðan 1988. Það var stofnað í Sheffield á Englandi en eigendurnir fluttu til Nelson á Nýja-Sjálandi árið 1995 og opnuðu skrifstofu þar. Eftir að ég tók aftur upp Íslandsferðir spurðu þau mig hvort ég vildi vera leiðsögumaður fyrir þau á Íslandi og ég var ekki lengi að samþykkja það. Síðan 2002 hef ég aðallega verið hér með hópa frá High Places, oftast tvær eða þrjár tveggja vikna ferðir á sumri. Svo reyni ég líka að halda íslenskunni við á meðan ég er hér á landi því að hingað til hef ég ekki verið nógu duglegur að lesa og tala íslensku heima á Nýja-Sjálandi. En í framtíðinni ætla ég að vera duglegri að hlusta á íslenska útvarpið á netinu á meðan ég er heima.

Á skógarstíg nálægt Greymouth á suðureyju Nýja-Sjálands. Þetta er á vesturströndinni þar sem landið er ennþá skógi vaxið frá fjöru til fjalls.

Á skógarstíg nálægt Greymouth á suðureyju Nýja-Sjálands. Þetta er á vesturströndinni þar sem landið er ennþá skógi vaxið frá fjöru til fjalls.

Hvað komu margir hópar til þín í sumar?
Bara tveir sem er ekki alveg nóg en svo var ég að hjálpa til í Gönguviku í Fjarðabyggð. Og ég er alltaf að hugsa um að ferðast víðar um Ísland, ganga til dæmis frá Snæfelli um Lónsöræfi eða víðar, til dæmis að Fjallabaki eða á Langanesi. Ég hef aldrei ferðast um Vestfirði nema í eina viku á Ströndum. En í sumar fékk ég að vera nokkra daga með vinum mínum á Snæfellsnesi, í fyrsta sinni síðan 1975, og ætla að fara þangað oftar því að þar er landið mjög fallegt og víða skemmtilegar gönguleiðir. Mér finnst líka gaman að ganga eins oft og hægt er í fjöllum þar sem maður er alveg heima hjá sér – eins og mér finnst ég vera hérna í Fjarðabyggð. Á haustin hjálpa ég til við smalamennsku á Hala í Suðursveit, það gerði ég fyrst haustið 1983. Ég var áður að hjálpa til við heyskapinn á Hala nokkrar vikur á sumri en þegar ég kom aftur til Íslands, árið 2001, var ekkert fyrir mig að gera í heyskapnum lengur, vélarnar höfðu tekið við og heyskaparrómantík var ekki lengur til. En smalamennskan er ennþá mjög skemmtileg á þessu fallega jöklasvæði þó að búskapur í Suðursveit hafi minnkað mikið síðan ég kom fyrst að Hala.

Hvað ertu gamall, Andy?
Ég er jafngamall íslenska lýðveldinu, fæddur í mars 1944. Ég get þess vegna ekki borið alveg eins þungan bakpoka í margra daga ferðum og áður. Samt gekk mér ágætlega í sumar að fara átta daga samfellt í lengri göngur í Gönguvikunni og heima á Nýja Sjálandi er ég ennþá að fara nokkrum sinnum á hverju sumri í fimm til sex daga fjallaferðir. Þegar maður er orðinn sjötugur getur maður ekki reiknað með að vera leiðsögumaður næstu tuttugu árin. Svo ég þarf kannski að finna mér önnur tilefni til að koma sem oftast til Íslands.

Á Hólmatindi með hinum 8 ára Antoni Berg Sævarssyni á Mjóeyri í Gönguvikunni 2013. Þetta var annað sumarið sem Anton gekk á fimm fjöll á fimm dögum. Mynd: Kristinn Á. Þorsteinsson.

Á Hólmatindi með hinum 8 ára Antoni Berg Sævarssyni á Mjóeyri í Gönguvikunni 2013. Þetta var annað sumarið sem Anton gekk á fimm fjöll á fimm dögum. Mynd: Kristinn Á. Þorsteinsson.

Segðu nánar frá Íslandsheimsóknum þínum.
Ég var aldrei í fullu háskólanámi hér á Íslandi en þegar ég kom fyrst, á árunum 1972 og 1973, til að ljúka við doktorsritgerðina um Grágás, fór ég í tíma í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Árin 1974–1975 var ég svo hér í 18 mánuði að þýða fyrra bindið af Grágás yfir á ensku og árin 1978, 1983, 1984 og 1988 að þýða seinna bindið. Ég kom aldrei hingað bara vegna þýðingarinnar heldur líka vegna þess að mér fannst gott að vera hér, dvaldi fjóra til sex mánuði í hvert skipti. Ég vann aldrei fyrir kaupi hér á Íslandi nema á árunum 1972–1973 þegar ég var stundakennari í ensku við Háskóla Íslands en ég sparaði þá bara heima og kom þegar ég var búinn að spara nóg til ferðar. Ég get kannski líka bætt við að ég gekk ekki mikið á fjöll hér á Íslandi fyrstu árin. Það var sennilega vegna þess að ég átti aldrei bíl hér á landi og var svo líka mikill langhlaupari á þessum árum og notaði frístundir mínar aðallega til að æfa hlaup. Meðal annars hljóp ég maraþon tvisvar á meðan ég var hér á Íslandi (1983 og 1988), tvisvar í Danmörku og rúmlega tuttugu sinnum heima á Nýja-Sjálandi. Ég æfði ekki hlaup fyrst og fremst með keppni í huga heldur fannst mér gott að hlaupa. Kannski er ekki ósvipað að vera langhlaupari í Reykjavík og að búa úti á landi og fara oft í fjallgöngur.

Satt að segja á ég nú líf bæði á Íslandi og á Nýja-Sjálandi. Hér er ég oftast tólf til fimmtán vikur á sumrin því að leiðin er svo löng á milli landanna að ég get ekki látið fjórar til sex vikur í High Places leiðsögu duga. Nýja-Sjáland er þó ekki lengur eins fjarlægt og það var í gamla daga því að ég hef nú tengingu á netinu og það er alltaf hægt að fylgjast með fréttum að heiman, næstum því á hverjum degi. Svo eru til dæmis kosningar á Nýja-Sjálandi eftir nokkrar vikur og ég er búinn að sækja um eyðublöð svo að ég get kosið utan kjörstaðar. Og nú í vikunni eru líka miklar umræður um bók sem góður vinur minn er nýbúinn að gefa út. Bókin heitir ‚Dirty Politics‘ og fjallar um það sem gerist á bak við tjöldin í stjórnmálunum. Og þó ég sé langt í burtu finnst mér alveg nauðsynlegt að fylgjast með, bæði af því að mér finnst efnið skipta miklu máli og af því að höfundurinn er góður vinur minn.

Á Nýja-Sjálandi hef ég búið í Nelson, norðarlega á suðureyjunni, síðan árið 1981 en ég ólst upp í Christchurch sem er stærsti bærinn á eyjunni. Nelson er um það bil 40.000 manna, skemmtilegur menningarbær, sólríkur, stundum nefndur ‚Sunny-Nelson‘, með fallegum ströndum í fimm kílómetra fjarlægð frá miðbænum og þrem þjóðgörðum innan 90 mínútna aksturs. Ég kem til Christchurch nokkrum sinnum á ári en það er sorglegt að sjá miðbæinn eftir jarðsjálftann í febrúar 2011. Það er búið að rífa niður um tvo þriðju hluta miðbæjarins því að margar byggingarnar voru reistar úr höggnum steini eins og Alþingishúsið í Reykjavík. Sem betur fer dó enginn í fyrri skjálftanum, í september 2010 (sem var 7.1 á Richter kvarða) en seinni skjálftinn var hræðilegur, þá fórst 180 manns. Þegar ég var ungur var aldrei reiknað með jarðskjálfta á þessu svæði, þó er Nýja-Sjáland á flekamótum eins og Ísland. En á Nýja-Sjálandi eru flekarnir að rekast saman en ekki að reka sundur eins og hér á Íslandi.

Heimabær Andys, Nelson. Séð yfir miðbæinn til hafnarsvæðisins. Fjöllin í Abel Tasman þjóðgarðinum í baksýn.

Heimabær Andys, Nelson. Séð yfir miðbæinn til hafnarsvæðisins. Fjöllin í Abel Tasman þjóðgarðinum í baksýn.

Hvernig er lífið á Nýja-Sjálandi og hvað gerirðu þar?
Ég er kominn á eftirlaun svo að ég get unnið í sjálfboðavinnu að náttúruvernd og það er alltaf meira en nóg að gera á því sviði. Annars er ég höfundur, ljósmyndari og stundum leiðsögumaður og hef farið einu sinni í vetrarbyrjun í sjö vikna sjóferð til Suðurskautslandsins og skrifaði þá dagbók á netinu fyrir skólanemendur um hafísrannsóknir okkar.

Áður vann ég í fimm ár, 1988–1993, hjá góðumv vini mínum, einum þekktasta ljósmyndara á Nýja-Sjálandi. Hann rekur útgáfufyrirtæki sem gefur út bækur um náttúruvernd, aðallega myndabækur. Ég var textahöfundur og ritstjóri og annaðist líka sölumennsku og meðal annars fór ég nokkrar söluferðir á ári, aðallega um Suðureyjuna. Mér fannst dálítið erfitt að vinna hjá mínum besta vini svo að ég hætti eftir fimm ár – en fyrirtækið stendur ennþá vel og ég skrifa stundum inngang að bókunum þeirra. Ég er búinn að skrifa tíu bækur alls á Nýja-Sjálandi ásamt texta í sex eða sjö myndabækur. Eins og öllum höfundum finnst mér alltaf gaman að lesa og hafði með mér í vor nokkrar bækur um Norðurlönd og þrjár skáldsögur á ensku. En ég hef ekki haft tíma til að lesa neina þeirra því að alltaf er meira en nóg að gera hér á sumrin.

Úr miðbæ Christchurch þar sem æskuheimilið stóð. Minnismerki gert úr gólfborðum sem fundust í rústunum. Hálfhrunin steinbygging í viðgerð.

Úr miðbæ Christchurch þar sem æskuheimilið stóð. Minnismerki gert úr gólfborðum sem fundust í rústunum. Hálfhrunin steinbygging í viðgerð.

En af hverju Eskifjörður?
Þegar ég bjó í Reykjavík fyrr á árum vildi ég vita hvernig væri að dvelja í íslenskum fiskibæ, Seyðisfirði, Eskifirði eða einhverjum slíkum. Þegar ég byrjaði með High Places ferðir á Íslandi árið 2002 var bækistöð okkar á Seyðisfirði en síðan 2006 hefur hún verið á Eskifirði. Þá kynntumst við Sævar og Berglind og síðan hef ég verið sumarmaður hjá þeim – stundum kallaður ‚útlenski þrællinn á Mjóeyri‘ – á meðan ég var ekki í leiðsögu. Í byrjun unnu þau aðallega tvö við ferðaþjónustuna, Berglind og Sævar, svo að meira en nóg var að gera fyrir mig. Núna hafa þau haft þrjár stúlkur og einn strák í sumarvinnu ásamt fleira starfsfólki í Randulffssjóhúsi svo að ekki hefur verið eins mikið fyrir mig að gera nema helst þegar sumarstarfsmenn eru farnir aftur í skóla. En þá, í ágústlok, fer ferðamannastraumurinn að minnka, næstum á sama tíma og ég þarf að kveðja Mjóeyri og Eskifjörð og fara að smala í Suðursveit. Og svo að ferðast einu sinni enn löngu leiðina heim til Nýja Sjálands.

Viltu bæta einhverju við að lokum?
Ég held ég sé búinn að tala meira en nóg um sjálfan mig. En ég vil endilega nota tækifærið að þakka íbúum Fjarðabyggðar og víðar á Austurlandi fyrir vinsamlegar móttökur sem ég hef alltaf fengið síðan ég kom fyrst hingað til lands. Og bæta kannski við að ég ætla að halda áfram að koma til Íslands – og auðvitað svo til Fjarðabyggðar og Austurlands – á meðan ég get farið til þessara fallegu fjalla og fjarða með poka á baki og myndavél í hendi.