Skip to main content

.

 

Dyrfjöll jarðminjagarður

Dyrfjöll jarðmynjagarður - Urðardalur, Stórurð og Dyrfjöll.  Mynd: Ómar Runólfsson.

Ásta Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands

– verðug viðurkenning á einstöku landsvæði

Svæðið við Héraðsflóann; Húsey, Úthérað og Kollumúlinn, Dyrfjöll og Víknaslóðir í Borgarfirði eystra er einstaklega fjölbreytt í jarðminjum og geymir merkilega jarðsögu. Á svæðinu er að finna litfagrar leifar fornra megineldstöðva, fjölbreytilegar bergtegundir og steindir, merkilega landmótun frá kuldaskeiðum ísaldar í eggjum og skörðum, jökulgörðum og berghlaupum, að ógleymdum merkjum um háa sjávarstöðu í ísaldarlok og loks setstrendur nýliðinna alda. Það er því ekki að ástæðulausu að fram hafa komið hugmyndir um að gera þetta heillandi landsvæði að jarðminjagarði eða „GeoPark“, svæði sem er viðurkennt alþjóðlega sem áhugavert sakir einstakra jarðmyndana og náttúrufars.

Borgarfjarðarsvæðið, þ.e. frá Ósfjöllum til Loðmundarfjarðar, er annað stærsta líparítsvæði landsins, aðeins Torfajökulssvæðið er stærra. Líparítið, nú oftast nefnt rýólít í fræðibókum, hefur ljósa veðrunarliti, er oft hvítt, gult eða rauð- eða grænleitt, sem skýrir litadýrð fjallanna. Mögulegt er að hægt sé að teygja svæðið undir setlög Héraðsflóans yfir í Kollumúla sem einnig er að miku leyti gerður úr súrum bergtegundum.

Fá svæði á landinu búa yfir jafnmörgum fornum megineldstöðvum. Talið er að á tertíer hafi fjórar eldstöðvar verið virkar; Dyrfjalla-/Njarðvíkureldstöðin, Borgarfjarðar-/Breiðavíkureldstöðin, Álftavíkureldstöðin og Herfjallseldstöðin. Norðan flóans, milli Vopnafjarðar og Héraðs, eru svo litfagrar leifar enn einnar megineldstöðvar; Fagradalseldstöðvarinnar, sem talin er hafa verið virk fyrir um 15 milljónum ára og því líklega elst megineldstöðva austanlands. Leifar hennar birtast með stórfenglegum hætti í gulum berglögum Þerribjargs í Kollumúla, skreyttum miklum berggöngum, keilugöngum og bergæðum.

Hrikalegt útsýni af Dyrfjallstindi.  Mynd: Skúli Júlíusson. Þerribjarg í Kollumúla, glæsilegir berggangar.  Mynd: Kristinn Þorsteinsson.

Eldvirknin á þessu svæði hefur verið óvenjuleg og ofsafengin miðað við nútímaeldstöðvar á Íslandi. Áberandi bergtegund er flikruberg, sambrædd gosmöl, oftast græn eða gráleit með ljósari flikrum, sem myndast hefur í ógurlegum eldskýjum í forsögulegum sprengigosum og finnst t.d. sem þykkt, bleikt lag við Dyrfjöll og gulleit í Kollumúla. Flikruberg finnst einnig í Hvítserk þar sem það er áberandi hvítt eða bleikleitt eftir birtu, sundurskotið dökkum bergæðum. Berggangar, fornar aðfærsluæðar eldstöðvanna, skera jarðlögin víða, þó hvergi jafn áberandi og í Hvítserk og Þerribjargi í Kollumúla, handan Héraðsflóans. Gangarnir eru líka einstaklega greinilegir í ljósu líparítinu eins og sést vel ef gengið er í Innra-Hvanngil í Njarðvíkum. Víða má sjá bergstanda, ævafornar gígfyllingar, eins og á Beinageitarfjalli og í Dyrfjöllum. Inni á milli litríkra eldfjallaleifa finnast svo hefðbundnari blágrýtis- og móbergsfjöll, en Dyrfjöllin sjálf eru einmitt gerð úr blágrýti og móbergi, þó rætur þeirra séu fjölbreyttari. Í Loðmundarfirði verður blágrýtið allsráðandi og er suðurhlíð fjarðarins dæmigerð blágrýtismyndun. Svæðið er einnig þekkt meðal steinasafnara en fjöldi sjaldgæfra hálf eðalsteina finnst í tengslum við hinar fornu eldstöðvar og jarðhita sem þeim fylgdi.

Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi um ástæðu þessa svæðisbundna mikla magns súrs bergs á basalteyjunni Íslandi. Ein skýring, sem fyrir löngu síðan var fleygt fram, er sú að um sé að ræða uppbræðslu á molum úr grænlenskri skorpu sem urðu eftir þegar Norður-Atlantshafið opnaðist milli Grænlands og Noregs fyrir u.þ.b. 50 milljónum ára. Megineldstöðvarnar hafi því verið að gjósa, hið minnsta að hluta til, „endurunninni“ grænlenskri skorpu. Þessar gömlu kenningar eru nú studdar nýjum aldursgreiningum á zirkon-kristöllum sem fundist hafa í Hvítserk og eru taldar 100–200 milljón ára gamlir. Landmótun ísaldarjökla er áberandi. Hvergi þó með glæsilegri hætti en í Dyrfjöllunum sjálfum þar sem Dyrnar hafa myndast af veðrun og rofi tveggja hvilftarjökla sem náð hafa að naga sig í gegnum fjallið og skilja eftir hinar glæsilegu dyr. Víða má sjá hvilftir, eggjar og horn sem einkenna landmótun smájökla í ísaldarlok. Í dölum eru víða jökulminjar, svo sem jökulgarðar og jaðarurðir og á nokkrum stöðum sjást berghlaup, þar sem hlutar fjallshlíða hafa hrunið niður í lok ísaldar, stundum nefnd hraun

Strendur eru vogskornar rofstrendur með háum brimklifum og björgum, þar á meðal eru Blábjörg, stórfenglegur stuðlabergsveggur sem rís þverhníptur úr sjó, gerður úr stórum, sexstrendum stuðlum. Í víkum og vogum eru litlar setstrendur, þær víðáttumeiri eru sendnar en þær smærri malar- og grjótfjörur.

Á Úthéraði eru jökulsorfnar klappir áberandi, oft fallega jökulrákaðar og skreyttar Grettistökum, stórum steinum sem jökullinn skildi eftir sig þegar hann hopaði í ísaldarlok. Á milli klapparása eru dældir með þéttum, leirkenndum jarðlögum sem halda vel uppi vatni og svæðið því víða votlent, bæði mýrlendi eða blár, tjarnir og smærri stöðuvötn. Þessi skilyrði hafa gert Úthérað og Húsey að kjörlendi margra mó- og votlendisfugla. Við Héraðsflóann er gott dæmi um samspil setflutninga jökulvatna og rof sjávaralda. Héraðssandur er kjörbúsvæði landsels, en eitt stærsta selalátur landsins er rétt innan við ósa Jöklu í Húsey. Á víðáttumiklum Héraðssandi er merkileg veðrun og rof sem sést vel í sandöldum og hólum. Þessi strönd á sér merkilega sögu sem er verðugt rannsóknarefni. Innar er að finna merki um forna sjávarstöðu en í þessum jarðlögum finnast m.a. skeljar kuldkærra skeldýra frá ísaldarlokum

Ströndin sjálf er sendin, mynduð að mestu af gríðarlegum framburði Jöklu og að hluta til Lagarfljóts. Jökla hefur í gegnum tíðina verið stórtækust íslenskra jökulvatna og borið fram milljónir tonna af sandi og leir, sérstaklega í hamfarahlaupum sem alloft hafa orðið í ánni, hugsanlega í tengslum við eldvirkni í Vatnajökli, þó enn hafi ekki verið gerðar á orsökum þeirra fullnægjandi rannsóknir. Þannig hefur sandströndin færst fram um einhverja kílómetra á síðastliðnum öldum eins og rekja má í búsetusögu, sérstaklega staðsetningu lendinga og verslunarstaða fortíðar. Nú verður allur þessi framburður eftir í uppistöðulónum á hálendinu, í Hálslóni og Ufsarlóni sem valda mun miklum breytingum á ströndinni á næstu áratugum.

Það landsvæði, sem hugsað er sem jarðminjagarður, er þó ekki einvörðungu merkilegt í jarðfræðilegum skilningi, heldur er það einstakt í gróðurfari. Á þessum slóðum vaxa margar sjaldgæfar plöntur og sumar þeirra vaxa hvergi annars staðar. Hvort það stafar af nálægð við Evrópu, sérstökum jarðvegi sakir óvenjulegrar efnasamsetningar berggrunnsins á íslenskan mælikvarða eða veðurfarslegra þátta, skal ósagt látið, en hitt er víst að blómskrúð er mikið og fátíðar plöntur gleðja gests augað. Dýralíf er einnig áhugavert. Fuglalíf er mikið og svæðið mikilvægt á heimsmælikvarða, sérstaklega hvað varðar kjóa, lóm og ýmsa andfugla. Hreindýr eru algeng í fjalllendinu og niðri á sléttum síðvetrar og fram á vor. Í ám og lækjum er nokkuð um laxfiska.

Segja má að allt svæðið sé í fjölbreytileika sínum kennslubók í jarð- og bergfræði og landmótun sem er nátengd þróun lífríkis og síðast búsetu á svæðinu. Sambúð lands og lýðs, oft við erfiðar aðstæður, endurspeglast í eyðibýlum og sögnum sem dýpka upplifun ferðamannsins og er listamönnum andagift auk hrikalegrar náttúru. Víknaslóðir og nágrenni hafa lengi glatt göngumenn í fjölbreytileika sínum og sífellt leita fleiri eftir fræðandi ferðalögum. Það er því ekki að ástæðulausu sem þær hugmyndir hafa kviknað að fá Dyrfjallasvæðið viðurkennt sem jarðminjagarð svo það hljóti þann virðingarsess sem því ber.