Ritstjórinn

Magnús StefánssonMagnús Stefánsson

Útvarpið okkar

Við leiðum sjaldan hugann að því hversu mikil menningarbylting varð hér á landi þegar Ríkisútvarpið hóf útsendingar sínar, síðla árs 1930. Mörgum af yngri kynslóðinni finnst vafalaust ótrúlegt að jafnsjálfsögð lífsgæði og útvarpið er skuli ekki hafa fylgt þjóðinni frá fyrstu tíð. Flestir fögnuðu útvarpinu þótt gagnrýnisraddir heyrðust einnig eins og alþekkt er þegar nýjungar ryðja sér til rúms. Ekki náðu útsendingarnar um allt land strax í byrjun en það stóð til bóta eftir því sem uppbyggingu dreifikerfisins miðaði áfram og þar kom að þetta nýja fyrirbæri fékk í munni þjóðarinnar sæmdarheitið „útvarp allra landsmanna“.

Lengi vel var útvarpsstöðin aðeins ein, gamla, góða „Gufan“ eins og hún er stundum nefnd, en svo kom Sjónvarpið (1966) og Rás 2 hóf útsendingar árið 1983. Henni var í upphafi ætlað að höfða til yngra fólks en um árabil hafa báðar útvarpsstöðvarnar sent út metnaðarfulla dagskrá fyrir hlustendur á öllum aldri. Einkareknar útvarpsog sjónvarpsstöðvar komu síðan til sögunnar en reyndin hefur þrátt fyrir allt orðið sú að fólkið í landinu vill áfram eiga sitt útvarp og sjónvarp. Því fer þó fjarri að eining hafi ríkt meðal ráðamanna þjóðarinnar um Ríkisútvarpið og rekstur þess. Margir þeirra hafa viljað draga úr starfseminni og jafnvel koma rekstrinum í hendur einkaaðila og stofnuninni hafa löngum verið settar þröngar skorður.

Loksins kom svo að því að svæðisstöðvar tóku til starfa á landsbyggðinni, fyrst á Akureyri og síðan á Ísafirði og Egilsstöðum. Svæðisútvarpið á Austurlandi byrjaði starfsemi sína haustið 1987 og með því hófst blómatími þjónustu Ríkisútvarpsins hér eystra. Útvarpinu var það mikið lán og íbúum fjórðungsins, sem nutu þjónustunnar, að til forstöðu Svæðisútvarpsins valdist ötull og áhugasamur stjórnandi sem mótaði starfsemina, Inga Rósa Þórðardóttir. Hún hafði með sér ágætt starfsfólk og lengst af voru þau fjögur sem störfuðu á Egilsstöðum. Inga Rósa hafði líka lag á því að blása nýju lífi í starf fréttaritaranna til að mynda tengsl við alla anga fjórðungsins. Eftir að hún hvarf til annarra starfa héldu nýir og öflugir starfsmenn merkinu á lofti, útsendingardögum fjölgaði og vinna jókst við þáttagerð, bæði fyrir útvarp og sjónvarp. Svæðisútvarpið hafði unnið sér traust og fest sig í sessi sem öflugur miðill þar sem raddir Austfirðinga og skoðanir fengu að hljóma.

Það kom því eins og köld vatnsgusa í andlit starfsfólks Svæðisútvarpsins og Austfirðinga allra þegar stjórnendur RÚV ákváðu fyrir fjórum árum að skera blómlegt starf á Egilsstöðum niður við trog. Það sama gilti um stöðina á Ísafirði og starfsemin á Akureyri var lömuð með uppsögnum starfsfólks. Einkennilegast var hversu brátt þessar aðgerðir bar að og má hreinlega líkja þeim við skemmdarverk á stofnuninni. Hvar var þá mannauðsstefna RÚV stödd? En samkvæmt henni skal
ávallt hafa hag heildarinnar að leiðarljósi.

Aðgerðirnar voru kynntar sem leið til sparnaðar en á þessum tíma var þrengt að fjárhag stofnunarinnar. Þá var því heitið að ekki yrði dregið úr þjónustu við landsbyggðina, henni yrði sinnt úr höfuðstöðvunum syðra og einn starfsmaður RÚV er starfandi á Austurlandi.

Hrafnkell Lárusson, doktorsnemi í sagnfræði, hefur rannsakað þróun svæðisbundinna fjölmiðla á Austurlandi á árunum 1985–2010. Hann dregur í efa að stjórnendur RÚV hafi náð þeim sparnaði sem stefnt var að en gríðarleg skerðing hafi orðið á þjónustunni þegar útsendingar Svæðisútvarpsins voru lagðar niður.

Óvissa hefur ríkt um framtíð Ríkisútvarpsins um nokkurt skeið en nú er von um bjartari tíma fram undan þar sem nýr útvarpsstjóri hefur tekið til starfa. Af orðum hans má ráða að hann muni verja stofnunina fyrir frekari niðurskurði og hefja hana til vegs og virðingar að nýju. Ég skora því á einstaklinga og stjórnendur fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra stofnana í fjórðungnum að nota þessi tímamót og vinna sameiginlega að endurreisn svæðisútvarps á Austurlandi.

 

Nýjasta blaðið

Glettingur 68. tölublað
Nr. 68 - 1. tbl 2017

Nýjasta tölublað

68. tölublað
Fjöldi áhugaverðra greina um málefni Austurlands.

Efnisyfirlit
Ljóðin
Ljósmyndarinn
Völundarvinjar og lúpína á Austurhálendinu
Villa á Skriðdalsöræfum
Ritstjórinn
Gamla myndin

Panta eintak

• Þrjú tölublöð á ári.
• Áskriftarverð kr. 4.500.
• Verð í lausasölu kr. 1.800.
• Nýir áskrifendur fá eldri hefti á afsláttarverði.

Panta áskrift / eintak

Forsíðan

Borði

Áskrift

Viltu gerast áskrifandi?
• Þrjú 52 síðna tölublöð á ári.
• Áskriftarverð kr. 4.500-
Pantaðu í síma 848 3314 eða smella hér >