Skip to main content

.

 

Ljóðin - Guðbjartur Össurarson

Guðbjartur ÖssurarsonGuðbjartur Össurarson er fæddur á fjörðum vestur hinn 16. febrúar 1954 og ól bernskuárin á Láganúpi í Rauðasandshreppi. Eftir samvinnuskólapróf árið 1972 og síðan starfsnám hjá SÍS hóf hann störf hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga í ársbyrjun 1974. Hann starfaði hjá kaupfélaginu og dótturfyrirtækjum þess til ársins 1992 en hefur síðan rekið bókhaldsþjónustu á Höfn ásamt konu sinni, Agnesi Ingvarsdóttur.
Guðbjartur hefur glímt við vísnagerð frá bernskuárum. Að eigin sögn semur hann helst fyrir stað og stund, að eigin frumkvæði og annarra.

Músarrindill

Þú ert engum öðrum háður,
oft og lengi varstu smáður,
samt er enginn eins og þú.
Hríðarbyl og harðan vetur
hefur enginn staðist betur.
Undir steini áttu bú.

Litli fugl með stutta stélið,
stóðstu af þér vetrarélið
inn til dala, út við sjó.
Flúðir aldrei Íslands strendur
út á grænni vonarlendur,
andans kraftur aldrei dó.

Enda veiztu innst í hjarta,
aftur sérðu daga bjarta
skrýða grundir grænum lit.
Vorsins hlýju vindar kalla,
vekja músarrindla alla,
þeirra bíður starf og strit.

Sumir hljótt í holu smjúga,
hátt um loftin aðrir fljúga
enda meira á þeim ber.
Marglitar á mörgum fjaðrir,
mórauðir á litinn aðrir
og heldur lægra hreykja sér.

Mega flestir þrautir þola,
þýðir ekki neitt að vola,
aftur vorar, vinurinn.
Vorrar þjóðar vonarkyndill
vertu – litli músarrindill,
frjálsi, kviki fuglinn minn.

 

Víkingakynið

Þeir óðu um evrópska bæi,
einkum í gróðaskyni
og voru af konungakyni.
Flinkir í sínu fagi,
frekir og óeirðasamir
og heimamenn heldur gramir.

Voru þeir gjarnir til víga,
voða djarfir til kvenna
og býsna drjúgir að brenna.
Máttu víst margir hníga
til moldar af þeirra völdum.
Sátu að sumbli á kvöldum

og risu að morgni til rána,
rökuðu gullinu saman,
þá var nú glaumur og gaman.
Enginn má blikna né blána
sem brýzt inn í víkingahauga
og glímir við Gláma og drauga.

En auðinn er erfitt að geyma,
alls konar skattar af slíku,
miklu er rænt af þeim ríku.
Þeir lögðu frá landinu heima
og lentu á skerinu kalda
og settust þar sjálfir til valda.

Þó aldirnar ótaldar liðu
og auðurinn fljótt væri búinn
og fornaldar orðstírinn flúinn,
þá genin í blóðinu biðu
og birtust í víkingum sönnum,

íslenskum útrásarmönnum.
Þeir söfnuðu einnig í sjóði,
sumbluðu örlítið líka,
það er sko réttur hins ríka.
En fornaldar frjálshyggjublóði
farið var nokkuð að hraka.
Menn ráku þá bara til baka.