Skip to main content

.

 

„Ég sem orðum ann“ Um skáldskap Einars Braga

Eysteinn Þorvaldsson

Um Skaldskap Einars BragaHér verður fjallað í stuttu máli um ljóðagerð Einars Braga – og um viðhorf hans og hugmyndir um stefnu og nýjungar í skáldskapnum. Í eftirmála einnar af ljóðabókum sínum segist Einar Bragi alltaf hafa verið verkasmár við ljóðagerð, og síðan orðrétt: „Segja má að ég hafi alltaf verið að yrkja sömu bókina eins og gamli Walt Whitman, sem mér þykir vænna um en önnur skáld. Hver hefur sitt verklag, og lítið við því að gera: þetta er nú einu sinni mitt. Ég hlýt að biðja grandvara lesendur að taka aldrei mark á öðrum ljóðabókum mínum en þeirri seinustu og reyna að týna hinum, séu þeir ekki búnir að því.“1

Þessi ummæli hljóta fyrst og fremst að vekja athygli á kröfum Einars Braga til sjálfs sín og á þeirri vandvirkni sem ljóð hans vitna um. Hann enduryrkir mörg ljóðanna, sum þeirra í bók eftir bók. Það þýðir hinsvegar alls ekki að hann hafi verið verkasmár í ljóðagerð. En þegar hann tekur saman safn ljóða sinna, í bók sem hann nefndi blátt áfram Ljóð, í ritröð Iðunnar 1983, eru þar ekki nema 64 frumsamin ljóð, svo að mörgum hefur hann vísað í glatkistuna. Einungis eru í bókinni þrjú erindi úr fyrstu bók skáldsins, tvö þeirra í smáljóði sem heitir „Báruljóð“. Þetta ljóð var áður hluti af lengra ljóði sem heitir „Á Hornafjarðarfjörum2 og hafði tekið nokkrum breytingum þegar það birtist þarna (1983) í sjötta sinn í bókum höfundarins með þeirri skýringu í efnisskrá að það sé ort í minningu föður hans. „Báruljóð“ birtist svo enn í síðustu ljóðabók Einars Braga, Ljósi í augum dagsins (2000). Í lokagerð sinni er þetta ljóð svona:

Lítill kútur
lék í fjöru
og hló,
báran hvíta
barnsins huga
dró.

Langrar ævi
yndi og vos
á sjó,
báran svarta
bylti líki
og hló.

Um Skáldskap Einars BragaÍ þessu meitlaða ljóði er sögð ævisaga sjómanns allt frá barnæsku og þar til yfir lýkur, en Sigurður faðir Einars Braga fórst við Hornafjarðarós árið 1946. Þetta er auðvitað háttbundið ljóð með ljóðstöfum og rími. Samt er form þess nýstárlegt. Hið sama gildir um mörg fleiri af ljóðum skáldsins.

En metnaður Einars Braga hneig strax í þá átt að endurnýja íslenska ljóðagerð og gæða hana nýjum áhrifaþáttum. Módernisminn hafði rutt sér til rúms í menningu Vesturlanda. Einar Bragi kynnti sér vel erlenda samtímaljóðlist. Hann dvaldist við nám í Svíþjóð á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar og þar komu fyrstu tvær ljóðabækur hans út. Þegar hann fluttist aftur heim 1953, lét hann strax að sér kveða í íslensku bókmenntalífi og hóf réttindabaráttu fyrir hönd íslenskrar ljóðagerðar. Hann stofnaði eigið tímarit, Birting, 1953 og stækkaði ritið með samstarfsmönnum tveimur árum síðar. Í Birtingi lýsir hann viðhorfum sínum til módernismans og uppgjöri við hefðbundna kvæðagerð með þessum orðum:3

Hann (módernisminn) er eftir mínum skilningi fyrst og fremst uppreisn gegn stöðnuðum formum, vélrænum stuðlarunum, óinnlifuðu orðaskvaldri, andlausri skrúðmælgi, umskriftalausum ytri lýsingum, myndlausum frásagnakvæðum og alls konan bundnu „þjóðlegu“ rausi sem var að kæfa ljóðið – og jafnframt er hann viðleitni til endurnýjunar: sköpunar nýrra ljóðforma, hreinsunar ljóðmálsins, nýbreytni í myndum, líkingum og hugmyndatengslum í þeim megintilgangi að hefja ljóðið sjálft til öndvegis.

Hér er hvorttveggja: lýsing á viðteknum kveðskaparvenjum og jafnframt eru kynnt markmiðin með nýrri stefnu í ljóðagerð. Einar Bragi var ekki einungis skáld, hann var baráttumaður sem gaumgæfði listgrein sína og hann beitti sér manna mest í umræðum þegar tekist var á um réttmæti nýjunga í ljóðlist á Íslandi um miðja síðustu öld. Hugtakið „atómskáld“ varð til um þetta sama leyti í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness og var í fyrstu notað sem skammaryrði um ungu skáldin sem leyfðu sér að yrkja í bága við rótgróna, íslenska hefð.

Nýbreytnin eða endurnýjunin sem Einar Bragi boðar í greinargerð sinni í Birtingi er ekki orðin tóm, heldur birtast öll áhersluatriðin í ljóðum hans: 1) ný ljóðform, 2) hreinsun ljóðmálsins – og 3) nýbreytni í myndum, líkingum og hugmyndatengslum. Í ljóðum Braga eru öll þessi atriði í heiðri höfð í formgerðinni.

Og ekki nóg með það. Annmarkarnir á viðtekinni ljóðagerð, sem hann tilgreinir einnig og rís gegn, finnast ekki á ljóðum hans. Stefna hans var því markviss og fékk staðfestingu í skáldskapnum. Takmark hans er að „leitast við að leysa skáldskapinn úr viðjum kvæðisins, helfjötrum dauðra hátta“ eins og hann orðar það eftirminnilega í blaðagrein þegar árið 1953.4

Þótt Einar Bragi kjósi að hverfa frá ströngum, hefðbundnum brag, nýtir hann oft sumar eigindir hans í nýstárlegri ljóðagerð sinni eins og við sáum í „Báruljóði“. Smáljóðið „Viðlag“ er svona: 5

Meðan jörðin sefur
sveipuð hvítum feldi,
fara glaðlynd vermsl
með vordrauminn um æðar henni.

Ég heyri ekki nið þeirra,
en nem í blóðinu
þöglan grun
um græna nál undir snjónum.

Í þessu ljóði er ekki rím og ekki samræmi í lengd vísuorða en hér eru ljóðstafir, að vísu sparlega notaðir (einn stuðull á móti höfuðstaf). Enda hafði Einar Bragi ekki fordæmt ljóðstafi, heldur „vélrænar stuðlarunur“. Raunar eru fá ljóð eftir hann, önnur en prósaljóðin, þar sem ekki má finna a.m.k. ávæning af ljóðstöfum sem hann notar til áherslu, til að skapa vissa hrynjandi en ekki samkvæmt vélrænu mynstri. Þetta órímaða ljóð er einmitt skáldskapur sem leystur hefur verið „úr viðjum kvæðisins, helfjötrum dauðra hátta.“ Með því að nýta ýmsar eigindir hefðbundins kveðskapar á nýjan, skapandi hátt, s.s. ljóðstafi, hrynjandi og rím, ásamt erlendum fyrirmyndum, fær ljóðagerðin ný tækifæri, nýtt frelsi. Þetta er vandasöm aðferð og ekki allra meðfæri. En Einar Bragi veldur henni prýðilega sem og önnur atómskáld og ýmsir sem á eftir þeim komu.

Hvernig birtast í ljóðum Einars Braga áhersluatriðin þrjú í áðurnefndri greinargerð hans í Birtingi, þ.e. – formið, hreinsun tungumálsins og nýtt myndmál?

Ljóðformið

Form ljóðanna, sem Bragi orti, er mjög fjölbreytilegt, allt frá afar knöppum, miðleitnum ljóðum í örfáum orðum, t.d. „Í júní“:

Fiðrildavængjum
vitjar míns glaða hjarta
júnínótt bjarta
þeyrinn sem fletti blöðum
Bláskóga á helgu dægri.

Þetta er háttbundið ljóð og rími bregður fyrir. En samt er það laust úr „viðjum kvæðisins“.

Sum ljóðin eru lengri, jafnvel í einskonar þuluformi, t.d. titilljóð Gestaboðs um nótt (1953) sem byrjar svona:

Feginn er ég nóttinni
sem hlýjum vængjum vefur
vini mína og dagsins
og mér gefur
aðra nýja:
hýreyg stjarna útí geimi
stundarlengi frestað hefur
að steypa sér í djúpið,
máninn sefur
milli skýja,
og dularfullar verur
þeysa gandreið innum glugga,
við mér stugga,
stöfum björtum
stjaka frá mér
hverjum skugga,
setjast hjá mér
kankvíslegar [. . .]

Þótt þessi ljóð, sem hér hafa verið nefnd, hafi ýmsar eigindir hefðbundins kveðskapar, hafa þau einkenni og yfirbragð frjálsrar formgerðar. Þau eru laus úr viðjum, eins og skáldið stefndi að.

En einnig orti Bragi ljóð sem eru með öllu óbundin, t.d. „Ljósin í kirkjunni“ í Gestaboði um nótt með ríkulegu myndmáli, m.a. geyma sum lýsingarorðin líkingar. Fyrri hluti ljóðsins er þessi:

Hikandi ljós
þukla syfjuðum gómum
um kvöldþvala veggi
þegjandi steinkirkju.

Haustmáni skarður
leggur róðukross dökkan
á hjarnföla bringu
kulsællar foldar.

Bragi orti mörg prósaljóð frá og með annarri ljóðabók sinni, Svani á báru (1952) og lagði eftir það góða rækt við slíkt ljóðform. Sum prósaljóðin eru útleitin og epísk og geyma jafnvel samræður. Önnur eru knöpp, t.d. „Dans“ með sérkennilegri líkingu og hugmyndatengslum:6

Enginn í salnum heyrði orð þín Ég elska, er hurfu í hringiðu lagsins umkomulausari en nývaxin blöð sem næðingar lesa lokuðum augum af óþekktum trjám handa fljótunum

Ástarjátningin verður eiginlega munaðarlaus við fæðingu í skvaldri og glaumi. Tilfinningarnar eru fólgnar í myndum úr náttúrunni.

Málbúskapur

Ljóðmál Einars Braga þróast og þroskast með hverri bók hans framan af uns það er orðið sérlega vandað og hnitmiðað í fjórðu bók hans, Regni í maí. Í þeim ljóðum, sem hann endurskoðaði eða endurorti, hefur hann jafnan fágað málið og hlúð að vægi sérhvers orðs. Í ljóðum hans ríkir stöðugt vaxandi ögun og aðgætni í orðfæri – sem leiðir til knappari málbeitingar. Málvöndun, sköpun nýrra orða og þaulhugsað, hnitmiðað orðfæri einkenna stílinn. Í þessu felst hreinsun ljóðmálsins; – engu er ofaukið, orðin eru skýr og tær og hvert þeirra á brýnt erindi. Flestar ljóðmyndirnar eru líkingar, einkum myndhverfingar; hverri þeirra er ætlað að vekja hugrenningatengsl og tilfinningar. En málrækt og virðing fyrir tungumálinu hindra hann ekki í að gera tilraunir með fjarvist málsins. Hann hefur líka ort um mikilvægi þagnarinnar í skáldskap. Í ljóði sem heitir „Í apríl“ er t.d. öllum sagnorðum úthýst:7

Ég andvarinn
við rúðu þína
ó sextán ára
og mildum
breyskum höndum
brjóst þín
og hörundsmjúkar axlir
hárið laust
og ljósið
hin ljúfu fyrirheit
hjá litlu frjói
í apríl
ég andvarinn
ó brjóst þín.

Um skáldskap Einars BragaHér ríkir auðvitað samþjöppunar-stílbragð. Það eru þagnir í ljóðinu. Lesandanum kann að finnast eitthvað vanta í það og getur auðvitað skemmt sér við að fylla það með sagnorðum og athuga hvað breytist við það.

Eitt af hinum tæru náttúruljóðum Einars Braga heitir „Á förum“. Orðfærið er fágað, markvisst og í góðu jafnvægi við skýrar ljóðmyndir, þegar farfuglinn er kvaddur:8

Á ljósfiðruðum kverkunum les ég för síðasta reyni-
bersins niðrí sarpinn um leið og þrösturinn lyftir sér
hugrakkur af haustnakinni grein og hverfur einbeittur
útyfir marglynt hafið en skilur eftir á grasflötinni
skugga af vængjum sínum í umsjá minni uns hann
vitjar þeirra aftur í vor og veifar mér kankvíslega utan-
við gluggann.

Myndir og merking

Rækt við myndmálið einkennir öll ljóð Einars Braga í margbreytilegri formgerð þeirra. Nýbreytnin í líkingum, sem hann boðaði, er ekki hvað síst fráhvarf frá viðlíkingum og aukið vægi myndhverfinga. Líkingin er þá ekki lengur aðferð til útskýringar, heldur geta myndir ljóðsins vakið mismunandi kenndir, hugrenningar og skilning hjá lesendum. Þetta var keppikefli margra módernista – að láta ljóðmyndirnar geyma yrkisefnið og skírskotanir eða hugmyndatengsl. Einar Bragi orðar aðferðina svo:9

Veruleiki ljóðs er ekki yrkisefnið sjálft heldur mynd þess. Í góðu ljóði hverfur yrkisefnið í mynd sína, verður hún. Samlíkingin hefur um aldir verið (og er kannski enn) langalgengasta aðferð skáldanna við að klæða yrkisefnið ljóðmynd sinni: þar af kemur hið hvimleiða eins og, eins og . . . Nútímaskáld erlend og hérlend leitast við að gera veruleika ljóðsins sjálfstæðari en áður, óháðari hinum ytri veruleika ljóðsins með því að sleppa samanburðarorðunum og snúa sér beint að myndinni.

Ljóð sem heitir „Lofsöngur“10 og Bragi orti í minningu móður sinnar staðfestir þetta:

Ég dái runna
sem roðna undir haust
og standa réttir
þó stormana herði
uns tími er kominn
að láta laust
lauf sitt og fella
höfuð að sverði.

Sannarlega er þetta ekki venjulegt erfiljóð með mælsku og mærð, þótt háttbundið sé. Í heildarmynd þessa ljóðs úr ríki náttúrunnar er einmitt fólginn veruleiki þess: mannlýsingin, dauðinn og tilfinningarnar:

Ljóðið „Barn“11 er svona fullskapað, aðeins níu orð:

Hvítar síður
í bók
sem bíður
skáldsins
órituð
opin.

Ljóðið allt er myndhverfing þar sem megintextinn er myndliðurinn en titill ljóðsins kenniliðurinn. Barninu er líkt við óskrifað blað og skáldið í 4. línu er sú reynsla sem á eftir að móta það.

Þótt Einar Bragi sé einn af brautryðjendum formbyltingarinnar svokölluðu í íslenskri ljóðagerð, þá stendur hann líka traustum fótum á grunni hefðarinnar eins og áður segir og gat notfært sér hana í nýstárlegum myndljóðum sínum. Eitt hið eftirminnilegasta er ljóðið „Bið“ sem birtist fyrst í bæklingnum Við ísabrot 1969, – ljóð um skáldskapinn sjálfan, um sköpun ljóðs sem vex af fræi og verður tré, og um sköpunartilfinningu skáldsins. Þetta er háttbundinn bragur með ljóðstöfum og rími en formið víkur samt frá hefðinni. Myndmálið og hugmyndatengslin eru einmitt í samræmi við þær nýjungar sem skáldið hafði kallað eftir og hvorttveggja er tengt náttúrunni og mögnum hennar, meira að segja skáldskaparguðnum okkar:

Hvílast í þögn og vaxa: vorsáð fræ
og vera sjálfur moldin sem því hlúir,
regn sól og vindur, himinn jörð og haf

hvílast í þögn og vaxa: verða tré
sem vetrarnakið bíður eitt og þráir
að finna brýnd við börkinn lítil nef.

Þá ymur tiginn álmur við og fagnar
Óðni vígður jafnt til söngs og þagnar.

Hér er hefðbundið ljóðstafamynstur, hálfrím lengi vel – milli erinda – en alrím í lokin. Og hér hverfur yrkisefnið í mynd sína, „verður hún“, eins og metnaður skáldsins stóð til.

Þetta ljóð, eins og fjölmörg önnur af ljóðum Braga, ber einkenni þeirrar grundvallarskoðunar um ljóðlist sem hann mótaði sér þegar á æskuárum. Hann var þrítugur við nám í Svíþjóð þegar hér heima stóð hörð rimma um réttmæti nýjunga í skáldskap á fundi sem Stúdentafélag Reykjavíkur efndi til 1952 og útvarpað var. Einar Bragi lagði orð í þann belg eftir á, þegar hann hafði lesið frásögn Morgunblaðsins af málflutningi manna á fundinum. Framsögumaður fyrir hönd atómskáldskaparins á þessum fundi var Steinn Steinarr. Einar Bragi lagði þetta m.a. til málanna:12

List okkar á að standa föstum fótum í íslenskum jarðvegi, listamennirnir eiga að læra allt, sem þeir mega, af erlendum kollegum, eldri sem yngri, og laga það að íslenskum staðháttum. Dýrustu kjörgripir hverrar nýrrar skáldakynslóðar verða þannig til, að hún bræðir og hreinsar fyrri alda ljóðmálm lands síns, blandar hann æðstu málmum erlendum og skírir í nýjum eldi sinnar eigin skáldsálar.

Þetta var upphafið að einörðum málflutningi Einars Braga í baráttunni fyrir endurnýjun íslenskrar ljóðagerðar. Þessi barátta var býsna hörð. Nýbreytni atómskáldanna mætti lengi vel fordómum, óvild og óvæginni andstöðu og henni er ekki enn að fullu lokið. Í þessum erjum átti Einar Bragi orðastað við marga varðmenn hefðarinnar m.a. Jóhann Kúld, Gunnar Benediktsson og Þórberg Þórðarson. Í afmælisriti Ragnars í Smára 1954 er bréf til Ragnars frá Þórbergi. Í bréfinu fer Þórbergur háðulegum orðum um óhefðbundin ljóð. Sjálfur kveðst hann hafa „ort nokkur ljóð í svo nefndum atómstíl“ og þykir honum það létt verk og löðurmannlegt. Segist hann treysta sér til að yrkja 365 atómljóð á ári og 366 hlaupárin. Slík afköst séu óhugsandi ef ljóðin væru stuðluð. Einar Bragi bregst við þessu í blaðagrein13 með því að rifja upp frásögn Þórbergs sjálfs m.a. í Hvítum hröfnum og Bréfi til Láru um yrkingarhraða hefðbundinna kvæða. Þar kveðst Þórbergur hafa ort flest hin hefðbundnu kvæði á fáeinum mínútum, þau séu „augnablikssmíð“.14 Þórbergur fær hinn margrómaða innblástur þegar hann yrkir og segir að kvæðin streymi niður í sig fullort. Einar Bragi og önnur atómskáld treystu ekki á innblástur eða „innleiðslu“ eins og Þórbergur kallar það. Að þeirra mati þarfnast lífvænleg ljóð íhugunar og sköpunar eins og önnur listaverk.

Um skáldskap Einars BragaYrkisefni

Atómskáldin, ekki síst Einar Bragi, ortu mörg náttúruljóð og náttúruverndarljóð. En þau voru líka fyrstu íslensku skáldin sem gerðu borgina og bílinn að gjaldgengu yrkisefni en hvorttveggja hefur löngum átt erfitt uppdráttar í íslenskri ljóðagerð því að rætur sveitamenningar og sveitalífs voru þrautseigar. Í ljóði Einars Braga „Bifreiðin dregur rauða æð“ eru fyrstu tvö erindin þessi:15

Bifreiðin dregur rauða æð
á regnvota götuna:
glitrandi hnoða
sem náttmyrkrið eltir
alltaf í hring
í örvita leit sinni
að ljósi.

Á fægðum geira
í grámóðu rúðunnar
hverfast í hvítum reyk
bros hendur bráðlátar varir
víngler glóandi flugur
flöktandi þöglar.

Hér má finna ljóðstafi á stöku stað til áherslu en ljóðið ber annars einkum einkenni óbundinna ljóða. Það er laust við viðjar staðnaðra hátta. Myndmálið er nýstárlegt en skýrt og sjónarhornið breytist. Í fyrsta erindinu er horft á eftir bílnum þar sem honum er ekið um götuna í rigningu en í næsta erindi er horft gegnum framrúðuna, sem þurrkurnar fægja, og þá glittir í mannlíf í bílnum, en bíll hafði nú löngum ekki þótt skáldlegt fyrirbæri. En er þetta ekki nútíminn?

Nýjungar atómskáldanna fólust nefnilega ekki eingöngu í stílnum og forminu. Heldur líka í vali yrkisefna, afstöðunni til mannlegra gilda og tilhneigingu til að vekja fólk upp af vanahugsun.

Hefðbundin ástarljóð og viðtekið fegurðarskyn verða næsta gamaldags þegar við lesum „Mansöng“ eftir Einar Braga. Enginn nema hann hafði dásamað kvenlega fegurð í mynd óléttrar konu:16

Ég elska konuna nakta
með næturgala í augum,
nývaknaða angandi lilju
laugaða hvítri morgunsól,
konuna unga ólétta
með knapprauð blóm
á bleikum þúfum
þreyjulaus af þrá
eftir þyrstum hunangsfiðrildum,
konuna stolta sigurglaða
sýnandi öllum heiminum
sinn vorsána frjóa akur,
þar sem undrið vex í myrkri
moldinni gljúpu: vex

Þessi kona er ekki bara ólétt, – hún er náttúran sjálf í allri sinni dýrð með blómum, ökrum, fuglum og fiðrildum; og hún baðar sig í sólargeislunum.

Helstu hugðarefnin í ljóðum sínum áréttar skáldið með því að tilgreina þau beinlínis í „Nafnlausu ljóði“:17

Ég sem orðum ann
nefndi einatt í auðmýkt
konu, mann
líf mold vatn,
á vörum brann
veikasta sögnin
að elska
fann mér hóglega
á hjarta lagt:
án mín fær skáldið
ekkert sagt.

Hver ert þú?

Ég er þögnin.

Mannlíf, náttúran, ást – þetta vekur skáldið til ljóða. Öll þessi yrkisefni eru samofin í ljóðum skáldsins.

Fólkið – örlög þess og barátta, reynsla, gleði og dauði, hversdagslíf og önn dagsins. Einar Bragi tók ódeiga afstöðu í þjóðmálum og hann orti mörg ádeiluljóð. Þar fór hann líka nýjar leiðir. Ádeilan á félagslegt ranglæti, hernaðarofbeldi, pólitíska hræsni og hverskonar yfirdrepsskap er sett fram ýmist með kaldhæðni eða myndum úr náttúrunni. Þekktast þeirra ljóða er ugglaust „Haustljóð á vori 1951“.18 Það er algjör andstæða hefðbundinna ádeilukvæða sem lagt hafa áherslu á stóryrði og upphrópanir. Tilefni ljóðsins var koma erlends herliðs til Íslands vorið 1951. Á herliðið er hinsvegar ekki minnst í ljóðinu, styrkur ljóðsins liggur allur í myndmálinu sem er úr ríki náttúrunnar. Gífuryrði og prédikanir finnast ekki í ljóðum Einars Braga. Eitt erindið er þetta:19

Misst hefur fallglaður fossinn
fagnaðarróminn,
horfinn er leikur úr lækjum
og lindanna niður,
drúpir nú heiðin af harmi
og hörpuna fellir.
Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?

Ýmsir baráttuglaðir menn á vinstra kantinum brugðust ókvæða við þessu ljóði, m.a. Bjarni frá Hofteigi sem spyr með þjósti í opnu bréfi til Einars Braga: „. . . heldurðu að þessi pólitísku kvæði þín, Geirfuglsmál og Haustljóð á vori hafi einhver áhrif hérna heima? Heldurðu að þau bíti fast á hina athafnasömu sölumenn vora í stjórnarstólunum? Ég fullvissa þig um að það gera þau ekki. Ég held þeim standi alveg nákvæmlega á sama um þau […] svanur á vatni er einhvernveginn ekki gilt hugtak fyrir þjóð í fjötrum, og allra síst fær það á þá sem skutu á hann.“ Og um hinn nýja ljóðstíl skrifar Bjarni gremjufullur: „Og það hefur alls ekki mátt segja hlutina berum orðum og beinum, heldur allt undir rós og í leyndarmáli.“20 Þessi skoðun Bjarna að hlutina eigi að segja berum orðum og beinum í ljóðum sýnir að sjálfsögðu beina og bera andstöðu við metnað og tjáningarmáta þeirra skálda sem Bjarni er að skamma þarna.

Og um þetta ágæta ljóð, „Haustljóð á vori 1951“, skrifar séra Gunnar Benediktsson: „Þannig mætir skáldið hernáminu 1951. Þetta er ekki réttilegt svar við þvílíkum atburðum. Og ég efast um, að réttilegt svar verði fellt í kliðmýkt þeirra krafa sem drottnandi listastefna krefst og ungu skáldin eru vanin undir og látin læra í París og Stokkhólmi.“21 Í varnarbaráttu hefðarinnar voru stóru orðin ekki spöruð. Menn heimtuðu beinskeyttan, gamalreyndan baráttukveðskap með vígorðum og herópum.

Annað ljóð af svipuðum toga og Haustljóð á vori heitir „Kvöldsýn“ í síðustu ljóðabók skáldsins, Ljósi í augum dagsins. Að yfirbragði er þetta náttúruljóð, en undir niðri logar eldur andófsins gegn vígbúnaði:

Hér endar gatan
en augað heldur áfram
silfurhvítan veg
um vog og nes
og nemur land
við ljós
á vinarkumli:
tungl yfir eldfjalli
í auðninni

Skuggar tveggja hrafna
flögra órólega um hjarn
Varið ykkur
vígarakkar:
haugbúi sefur laust
og sést ekki fyrir
fari hann á stjá
að stugga úr heiðinni
gamli jaxlinn.

Í raun og veru var Einar Bragi alls ekki verkasmár í ljóðagerðinni, þótt hann hafi orðað það svo sjálfur, – öðru nær. Hann vann m.a. stórvirki í ljóðaþýðingum og þýddi ljóð frá mörgum löndum, einkum norrænum. Hinar geysimörgu og vönduðu ljóðaþýðingar hans eru auðvitað hluti af ljóðagerðinni. Auk þess skilaði hann okkur margskonar öðrum ritverkum.

Skáldskapurinn sjálfur, sköpunarstarf skáldsins og tengslin við lesendur voru stöðug íhugunarefni Einars Braga og athyglisverð yrkisefni. Eins og flest skáld átti hann sér þá von að ljóð hans fyndu sér samastað í brjóstum okkar. Um þessi tengsl skálds og lesenda orti hann eitt af fallegustu ljóðum sínum.22 Það nefnist „Lykilljóð“:

Þennan lykil
hef ég lengi
haft í smíðum
og enn
er ég að sverfa
skeggið,
meðan ljóð mitt
leitar sér forms,
í veikri von um
að hann kunni
þó síðar verði
að ljúka upp
einhverjum kærum dyrum:
kannski rauðasta hólfi
hjarta þíns?

Tilvísanir

  1. Í ljósmálinu 1970.
  2. Svanur á báru 1950.
  3. „Talað við gesti“ (Skáldasamræður). Birtingur 3.–4./1956, bls. 19–39. Leturbr. Einars Braga.
  4. Einar Bragi: „Ljóðlist – eða laumuspil. Þjóðviljinn 14. nóvember 1953.
  5. Í ljósmálinu 1970. Birtist fyrst í Gestaboði um nótt 1953, en breytt síðar.
  6. Hreintjarnir 1962. Í Regni í maí 1957 nefnist ljóðið „Danskvæði“.
  7. Regn í maí 1957.
  8. Þetta er eitt af síðustu ljóðum Braga. Birtist í Ljósi í augum dagsins.
  9. Birtingur 4. hefti 1955.
  10. Ljóð 1983.
  11. Í ljósmálinu 1970. Ljóðið nefnist „Barnshendur“ í Við ísabrot 1969. Í Gestaboði um nótt 1953 er það hluti af ljóðinu „Manvísu“.
  12. Þjóðviljinn 19. apríl 1952.
  13. Frjáls þjóð 23. júní 1960.
  14. Formáli Hvítra hrafna 1922, bls.5.
  15. Ljóðið birtist fyrst í Regni í maí 1957 og nefnist þar „Nocturne“. Í Hreintörnum 1962 hafði það fengið ofangreindan titil.
  16. Hreintjarnir 1962.
  17. Við ísabrot 1969.
  18. Svanur á báru 1952. Ártalið í titlinum felldi skáldið niður í seinni útgáfum og gaf ljóðinu þá víðari skírskotun.
  19. Svanur á báru 1952.
  20. Þjóðviljinn 4. maí 1952.
  21. Þjóðviljinn 18. júlí 1954. Aðdróttuninni er ekki hvað síst beint að Einari Braga og Thor Vilhjálmssyni
  22. Ljóð 1983.