Skip to main content

.

 

Gamla myndin - Stórhvalaveiðar við Ísland

Hvalstöðin á Svínaskálastekk, utan við EskifjörðHvalstöðin á Svínaskálastekk, utan við Eskifjörð.

Síðar á þessu ári kemur út ritið Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson. Í því er gerð grein fyrir hvalveiðum við Ísland frá upp­hafi byggðar í landinu og sagan síðan rakin allt til ársins 1915 þegar lög um hvalveiðibann tóku gildi.

Það voru Norðmenn sem fyrstir náðu góðum tökum á veiðum reyðarhvala og þeir hófu hval­veiðar við Ísland árið 1883. Þar með hófst blóma­skeið hvalveiða við Íslandsstrendur eða norska hvalveiðitímabilið. Þetta blómaskeið varaði allt til ársins 1915 en þá gekk í gildi hvalveiðibann samkvæmt lögum sem sett höfðu verið 1913.
Á norska hvalveiðitímabilinu voru starfræktar hvalstöðvar á Vestfjörðum og Austfjörðum. Flestar urðu stöðvarnar átta talsins á Vestfjörðumog fimm á Austfjörðum. Öll hvalveiðifélögin, sem störfuðu hér á landi á tímabilinu, voru norsk að tveimur undanskildum; hvalstöðin sem reist var á Fögrueyri í Fáskrúðsfirði var í eigu þýsks félags og félagið sem fyrst reisti stöð á Seyðisfirði viðÍsafjarðardjúp og síðar á Svínaskálastekk utan við Eskifjörð var danskt-íslenskt. Langflestir starfs­menn allra stöðvanna voru norskir en á sumum þeirra unnu einnig Íslendingar.

Fyrir utan stöðvarnar á Svínaskálastekk og á Fögrueyri risu hvalstöðvar á norska hvalveiði­tímabilinu austanlands í Hellisfirði, á Asknesi í Mjóafirði og í Hamarsvík í Mjóafirði. Reyndar var hvalstöðin á Asknesi stærsta hvalstöð veraldar þegar hún var fullbyggð. Ekki er hér talin með hvalstöð sem reist var á Norðfirði árið 1883 en hún var aldrei nýtt.
Ljósmyndir gefa sögunni mikið líf og hefur verið lögð áhersla á að safna myndum um umfjöll­unarefni ritsins. Margar myndir hafa komið í leit­irnar sem Íslendingar hafa ekki átt kost á að sjá til þessa. Myndin, sem hér fylgir, er samansett úr tveimur myndum sem norski útgerðarmaðurinn og áhugaljósmyndarinn Hans Wiingaard Friis tók af hvalstöðinni á Svínaskálastekk. Friis gerði út frá Hafnarfirði á árunum 1906–1909 en fór ferðir um landið og tók myndir, einkum á þeim stöðum sem Norðmenn höfðu umsvif. Myndasafn Friis (gler­plötur) er varðveitt í Ålesunds museum í Álasundien Ljósmyndasafn Íslands á Þjóðminjasafninu, í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri, efndi til sýningar á myndum úr safni hans árið 2007.