Skip to main content

.

 

„Sagan heimtar sinn rétt“ - Magnús Stefánsson

Magnús StefánssonMagnús Stefánsson

Við minnumst þess nú á haustdögum að liðin eru 160 ár frá fæðingu Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnasafnara sem jafnan kenndi sig við Eyvindará. Ævistarf hans er austfirskri og um leið íslenskri menningu langtum dýrmætara en almennt hefur verið viðurkennt. Ungur hóf Sigfús söfnun og skráningu þjóðsagna og eftir því sem árin liðu varð söfnunin að sannri ástríðu sem entist honum ævina alla. Safn hans varð líka langstærsta safn þjóðfræða sem eftir einn Íslending liggur og hefði talist ríflegt æviverk þótt hann hefði ekkert annað starfað. Hann þurfti þó að vinna hörðum höndum fyrir brauði sínu, var í vistum framan af ævi en síðar kenndi hann börnum á vetrum, var kaupamaður hjá bændum á sumrum eða stundaði daglaunavinnu.

Sigfús fæddist á Miðhúsum í Eiðaþinghá árið 1855, missti föður sinn strax á fyrsta ári og ólst upp hjá Guðrúnu Oddsdóttur, föðursystur sinni, á Skeggjastöðum í Fellum. Þar var menningarheimili og bækur í hávegum hafðar. Hann sökkti sér niður í lestur ljóðabóka og ýmiss konar fróðleiks og ungur fór hann líka að lesa sögur og kveða rímur fyrir heimilisfólkið á kvöldvökum. Sagnahefðinni kynntist hann í æsku og þakkaði uppeldinu á Skeggjastöðum hversu mjög hann lagði sig fram við björgun ýmissa þjóðfræða sem annars hefði beðið glötunin ein.

Sigfús stundaði nám í Möðruvallaskóla veturna 1889–1891 og var eldri og þroskaðri en aðrir nemendur skólans. Samt féll hann sæmilega inn í hóp þeirra þótt sumum skólapilta fyndist hann „nokkuð sérlundaður og sérstaklega einkennilegur“. Hann var þá löngu byrjaður þjóðsagnasöfnun sína og skrifaði sögurnar í tvær bækur sem hann nefndi Málgu og Múgu. Sigfús hefur eflaust haft mikið gagn af skólavistinni, hann safnaði sögum nyrðra og kennararnir uppörvuðu hann og hvöttu til að halda söfnuninni áfram. Jón Hjaltalín skólastjóri komst svo að orði í viðræðu við Sigfús að sagan heimtaði sinn rétt. Þessi orð gerði Sigfús síðar að einkunnarorðum sínum.

Hann sótti til heimahaganna eftir vistina á Möðruvöllum og vann af kappi að sagnasöfnun sinni sem aldrei fyrr. Eftir aldamótin hófst hin erfiða þrautaganga Sigfúsar við að koma safninu á prent, það var orðið svo mikið að vöxtum að útgefendum fannst það ekki árennilegt. Með aðstoð góðra manna kom samt að því að Sigfús sæi árangur verka sinna og fyrstu þrjú bindi safnsins komu út á Seyðisfirði á árunum 1922–1925. Útgáfunni var svo haldið áfram syðra árið 1931 en síðasta bindið kom ekki út fyrr en 1958. Sigfús dvaldi löngum á Seyðisfirði á öðrum áratug aldarinnar en nokkur síðustu æviárin bjó hann í Reykjavík. Honum auðnaðist ekki að sjá allt safnið á prenti, hann lést árið 1935.

Segja má að Sigfús hafi ýmsu fórnað fyrir söfnunarstarfið. Hann valdi sér hlutskipti einfarans, átti ekki alltaf tryggan samastað og naut ekki fjölskyldulífs, allt í þágu ævihugsjónarinnar. Hann átti oft athvarf á Eyvindará og þar hafði hann lögheimili í mörg ár. Aðstaða Sigfúsar við fræðastörfin var frumstæðari en fólk á tölvuöld getur órað fyrir. Hann hafði ekki einu sinni borð til að skrifa við. Samt vann hann ótrúleg afrek á ritvellinum. Hann var talinn sérvitringur og hafður að skotspæni þar sem hann fór sínar eigin götur. Vissulega var hann sérstakur maður, án þess hefði líf hans ekki tekið þá stefnu sem varð.

Ýmsir hafa ritað um Sigfús Sigfússon og þjóðsagnasöfnun hans. Má þar nefna ágæta ritgerð Jóns Hnefils Aðalsteinssonar í lokabindi síðari útgáfu þjóðsagnasafnsins, grein Eiríks Eiríkssonar í 6. hefti Múlaþings 1971 og minningar Ríkarðs Jónssonar um Sigfús í bókinni Með oddi og egg, 1972. Stuðst var meðal annars við nefndar heimildir við ritun þessa pistils.

Þann 31. október síðastliðinn var opnuð sýning um Sigfús Sigfússon og verk hans í Safnahúsinu á Egilsstöðum og þann dag stóð starfsfólk safnanna þriggja í húsinu fyrir ágætri rökkurvöku til að minnast 160 ára fæðingarafmælis Sigfúsar.

Ég vil að lokum minna á þá hugmynd sem Helgi Hallgrímsson á Egilsstöðum hefur talað fyrir síðustu ár – að tímabært sé að minnast Sigfúsar Sigfússonar á verðugan hátt. Helgi vill að á Egilsstöðum verði komið á fót stofu sem kennd yrði við þjóðsagnasafnarann og nefnd Sigfúsarstofa. Þar yrðu bækur hans og handrit höfð til sýnis og fræðimönnum sköpuð aðstaða til þjóðfræðirannsókna, ekki síst á verkum Sigfúsar.