Skip to main content

.

 

Að breyta fjalli - Sigurjón Bjarnason

Sigurjón Bjarnason

Stefán Jónsson fréttamaður skrifaði ágæta bók með þessum titli sem vakti athygli á þeirri tíð. Breytingin var þó aðeins fólgin í vörðukríli á hæsta tindi, sem hækkaði fjallið reyndar um einn til tvo metra.

Síðan hefur mikið breyst og þykir lítil frétt þó að krukkað sé í eitt og eitt íslenskt fjall. Þau eru lögð vegum, rutt niður heilu hlíðunum í þágu samgangna, ár og lækir færðir úr stað og rennsli þeirra breytt til orkuöflunar. Og síðast en ekki síst, við gerum þau hol að innan til að komast leiðar okkar í gegnum þau.

Þegar þetta er ritað styttist í gagnveg til Neskaupstaðar frá öðrum byggðum Austurlands, lárétt undir Harðskafa og Hólafjall. Um leið leggja fleiri og fleiri leiðir sínar á fæti um austfirsk fjöll og firnindi, tylla sér á tinda, þræða einstigi eða hvílast á grænum bölum þar sem gripið er til nestis. Þessu fylgir líka ákveðið rask, gönguleiðir eru merktar og stikaðar, jafnvel gerðir stígar. Segja má að nú fyrst séu Austfirðingar að leggja undir sig Austurland. Og fjöllin taka breytingum sem aldrei fyrr!

Ferðafélögin á Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð hafa aldrei verið öflugri og fleiri og fleiri taka þátt í ögrandi verkefnum þeirra um leið og léttar gönguferðir eru vinsæl afþreying fjölskyldunnar.

Á ferðum hins gangandi er margt að skoða. Náttúran í sínum fjölbreytilegustu myndum, gróður og grjót, líf og list. Austfirsk jarðfræði er nú að öðlast verðskuldaða athygli fræðimanna, sem bera hróður hennar um veröld víða og um leið og við holum innan fjöllin birtast okkur nýjar steintegundir sem okkar ágæta fræðafólk tekur til varðveislu og gerir aðgengilegar fyrir gesti og komandi kynslóðir.

Hver framkvæmd færir okkur nýjan lærdóm. Við kynnumst landinu, sjáum nýja möguleika. Við finnum líka betur hvers maðurinn er megnugur og mikilvægt er að týna ekki þekkingunni, heldur að halda henni til haga. Á því byggjast framfarir.

Meðan á öllu þessu gengur viljum við þó varðveita íslenska náttúru ósnerta. Eða svona nokkurn veginn. Það verður að játa að erfitt er að lifa í landi sem er látið algjörlega ósnert. Við tölum um að náttúran verði að njóta vafans, en erum við ekki alltaf að taka áhættu í því efni þegar við ryðjum vegi, gröfum göng, tínum steina, ræktum tún, byggjum hafnir o.s.frv., o.s.frv.? Og þá sleppi ég að nefna loft- og lagarmengun af útblæstri, notkun plasts og annarra aðskotaefna, sem ekki brotna niður í náttúrunni á skömmum tíma og eru jafnvel klárlega heilsuspillandi.

Því miður virðist jarðarbúum ekki vera að takast að koma jafnvægi á þessi mál, enda þarf til þess gífurlegt sameiginlegt átak þar sem enginn má skerast úr leik.

Megi Austfirðingum auðnast að ganga þannig um náttúruna að landið verði fegurra um leið og það verður aðgengilegra og loftið hreinna. Þannig bjóðum við komandi kynslóðum upp á góða heilsu og holla lifnaðarhætti og verðum aðilar að því stórátaki sem framundan er í umverfismálum veraldar um leið og við gerum heimabyggð okkar eftirsóknarverða til búsetu.