Skip to main content

.

 

Hvað er jafnrétti - Stefanía G. Kristinsdóttir

Stefanía Kristinsdóttir

Þegar ég tók að mér fyrir Tengslanet Austfirskra kvenna (TAK) að ritstýra kvennablaði Glettings þá var það ekki síst vegna þess að mín upplifun af íslensku og austfirsku samfélagi er að konur séu ekki sýnilegar í fjölmiðlum. Þess ber að geta að ritstjórn Glettings hefur alla tíð leitast við að tryggja gott jafnvægi kynjanna. En af hverju að gefa út kvennablað? Það er staðreynd að oftar eru tekin viðtöl við karla, karlar skrifa fleiri greinar, karlar og íþróttir eru áberandi í öllum fjölmiðlum.

Þátttaka kvenna í samfélaginu er oftar en ekki falin, t.d. innan skóla- og heilbrigðiskerfis þar sem ábyrgð byggir á trúnaði, ekki viðurkenningu samfélagsins. Fjölmiðlar beina athygli sinni að ímynd hinnar fullkomnu konu fremur en verkum og viðfangsefnum kvenna. Markaðurinn fyrir megrunarkúra, sjálfshjálparnámskeið, menningu og endurmenntun samanstendur að stórum hluta af konum sem vilja læra, upplifa, breyta og bæta. Konur eru oftar skilgreindar sem ákveðin tegund fólks í fjölmiðlum á meðan karlar sleppa oftast við þessa áráttu fyrir utan lífseiga ímynd (fordóma) hellisbúans.

En jafnrétti snýst ekki um sérstakar ívilnanir til kvenna, það snýst um jafnrétti í raun, einnig fyrir karla. Þegar horft er til stöðu kvenna í veröldinni í dag þá virðist þeim almennt ganga vel að fóta sig í síbreytilegu samfélagi sköpunar og þekkingar. Sé horft til karlmanna þá blasa við ákveðnir erfiðleikar, í skólunum eiga drengir oftar í erfiðleikum en stúlkur, karlmenn fremja fleiri glæpi en konur og aðalleikendurnir í hruninu voru karlar. Þrátt fyrir framþróun jafnréttismála þá virðist sem veröldin verði stöðugt kynjaskiptari, karlar eru orðnir sjaldséðir í kennarastétt, þeim fer fækkandi í þjónustustörfum og margir eru enn í aukahlutverki á heimilunum. Á meðan þátttaka karla í innviðum samfélagsins fer minnkandi þá verða þeir meira áberandi í fjölmiðlum sem eru yfirfullir af fréttum af körlum á verðbréfamarkaði, í skemmtanaiðnaði, í fótboltanum og í stjórnmálunum.

Í bók Gunnars Hersveins um þjóðgildin fjallar hann um kallæg og kvenlæg gildi. Kvenlæg gildi eru m.a. samvinna, skilningur, umhyggja, sköpun, innsæi, þolinmæði og hlutlægni á meðan karllæg gildir eru skilvirkni, völd, árangur, regluveldi, íhaldssemi, agi og formfesta. Á meðan konur áttu að tileinka sér dyggðir á borð við trú, von, kærleika, þakklæti, iðni, auðmýkt og virðingu þá var horft til þess að karlar tileinkuðu sér dyggðir á borð við heiðarleika, forystu, hugrekki, stefnufestu og ábyrgð. Yfirleitt er ekki ætlast til þess að karlar tileinki sér kvenlægar dyggðir né að konur tileinki sér karllægar dyggðir.

En hvað er þá jafnrétti og hvernig náum við því? Skilning manna á jafnrétti má til að mynda finna í stjórnarskrám, að allir menn séu fæddir jafnir og að öllum lýðræðissamfélögum beri að stuðla að því að allir menn hafi tækifæri til að þroskast og leita hamingjunnar. Af hverju eru staðalmyndir kynjanna enn við lýði? Er ef til vill hætt við því að við munum lifa í kynlausri veröld ef þessir meintu karl- og kvenheimar renna saman? Líkast til er það vegna síðastnefndu spurningarinnar sem við erum enn að gæla við staðalmyndir kynjanna, en eigum við að láta óraunhæfar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika standa í vegi fyrir þroska fólks? Er ekki mikilvægt að við ræðum og ályktum um hvaða gildi og dyggðir skipta okkur mestu máli í dag? Eru það ef til vill gildi og dyggðir sem geta orðið okkur leiðarljós í átt að friði og sjálfbærni? Getur ekki verið að til að nálgast markmið um frið og sjálfbærni þá þurfum við e.t.v. að rækta til jafns auðmýkt og valdsækni, þolinmæði og hugrekki, sköpunargáfu og þörf fyrir formfestu svo eitthvað sé nefnt? Gildi samfélagsins þurfa að vera sameign okkar allra og til þess að þroska þau er mikilvægt að allir taki þátt í opinberri umræðu sem oftar en ekki virðist vera vígvöllur andstæðra sjónarmiða, ekki sátta og lausna. Er ekki líklegt að á meðan karlar stýra fjölmiðlum landsins þá er hætt við að konur séu þar einungis gestir sem sjaldan eru að fjalla um sín hjartans mál heldur þau málefni sem skærast brenna hverju sinni, oftast tengd átökum af einhverju tagi.

Markmið okkar með þessu blaði er að draga fram í dagsljósið sjónarmið og viðfangsefni austfirskra kvenna og leggja þar með okkar lóð á vogarskálarnar til þess að auka megi jafnrétti og jafnvægi í opinberri umræðu. Í söfnun á efni var engin sérstök ritstjórnarstefna viðhöfð önnur en sú að höfundar væru að skrifa um það sem þeim lægi á hjarta. Tengslanet Austfirskra Kvenna og ritstjórn Glettings þakka öllum þeim konum sem sendu inn efni í blaðið fyrir þeirra framlag. Jafnframt vill Tengslanetið þakka Alcoa Fjarðaál og Landsvirkjun fyrir þeirra stuðning við verkefnið.