Skip to main content

.

 

Erla Dóra Vogler óperusöngkona

Ungir, austfirskir listamenn II

Erla Dóra Mynd: Kristín Arna Sigurðardóttir.

Erla Dóra Mynd: Kristín Arna Sigurðardóttir.

Ég hef sungið frá því ég man eftir mér. Mögulega er þetta í genunum því öll fjölskylda mín í móður­ætt er söngelsk þó aðeins langafi, Hreinn Pálsson, hafi reynt að gera sönginn að atvinnu á undan mér, að því er ég best þekki til.

Hina margrómuðu og skæðu leikhúsbakteríu fékk ég ofan í söngáhugann þegar ég var níu ára gömul og lék apa í uppsetningu Leikfélags Fljóts­dalshéraðs á Kardimommubænum í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Þetta var bæði mikiðævintýri og mikilvægur skóli. Ég tók þátt í mörgum leiksýningum LF á eftir Kardimommubænum, einnig með útileikhúsinu „Hér fyrir austan“ og Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum.

Um fjórtán ára aldur hóf ég söngnám heima á Egilsstöðum. Keith Reed var þá nýlega tekinn til starfa sem söngkennari við Tónlistarskólann og hreif mig og fleiri Austfirðinga með sér í ótrúlegt ferðalag þar sem upp úr stóðu ævintýra­legar óperuuppsetningar á Eiðum þar sem ég söng mín fyrstu óperuhlutverk sem og þátttaka í Kammerkór Austurlands. Keith þreyttist aldrei á að hvetja fólk til dáða og kunni að gera skýjaborgir að raunveruleika. Hjá honum tók ég 1.–7. stig í söng.
Að loknum menntaskóla fór ég suður í háskóla­nám í jarðfræði og komst að hjá Þórunni Guð­mundsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík.
Hún er mikil kjarnakona sem hefur, að því er virð­ist, óendanlegt magn ótal hæfileika. Ég lærði söng hjá Þórunni í fjögur ár meðan ég var í jarðfræði við HÍ og á þeim tíma lék ég og söng í verkum eftir hana, svo sem Kleinum, Mikið fyrir börn, og Mærþöllu sem er yndisleg ævintýraópera. Þórunn hafði mikil áhrif á mig, bæði sem manneskju og söngvara en hjá henni tamdi ég mér áherslu á túlkun og texta. Tónlistarskólinn í Reykjavík er auk þess meðal úrvalsstofnana landsins. Þangað sækir metnaðarfullt tónlistarfólk á öllum aldri og gæði kennara jafnt sem nemenda eru framúrskar­andi. Kleinur og Mikið fyrir börn voru sett upp af Leikfélaginu Hugleik en auk verka eftir Þórunni tók ég þátt í fleiri uppsetningum Hugleiks. Má þar nefna Bingó eftir Hrefnu Eggertsdóttur sem við sýndum á leiklistarhátíðinni NEATA í Lett­landi ári síðar.
Ég lauk BSc prófi í jarðfræði frá HÍ og 8. stigi í söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2007 og ákvað þá að láta á það reyna að fara út í frekara söngnám. Ég kynnti mér nokkra skóla og kennara utan landsteinanna en tók að lokum aðeins inntökupróf í Háskólann fyrir tónlist og sviðslistir í Vín. Það sem ég var hrifnust af við skólann var fjölbreytt námskeiðaval og samstarf við nema í óperuleikstjórn. Þarna lærði ég rúss­neskan, þýskan og ítalskan framburð, sviðsskylm­ingar, ljóðaupplestur, barokkdans, leiklist og fleira. Nemarnir í óperuleikstjórninni voru alltaf að setja upp nýjar sýningar sem var hluti af námi þeirra og því næg hlutverk í boði í sýningum og nemarnir duglegir við að prófa sig áfram með að storka hefð­bundnum uppsetningum og gera tilraunir með (og á) söngvurunum. Við eina slíka óperuuppsetningu kynntist ég Doris Lindner, píanó- og flautuleikara. Við fórum að vinna saman og fengum starf hjá Live Music Now samtökunum sem borga tónlistar­mönnum fyrir að flytja tónlist fyrir fólk sem af ein­hverjum ástæðum getur ekki sótt tónleikastaði, til dæmis fanga og sjúklinga. Við Doris fengum svo styrk frá Einkaháskólanum í Linz, þar sem Doris var við nám, til að gefa út geisladisk með íslenskum sönglögum. Diskurinn kom út 2010 og heitir Víra­virki. Ég útskrifaðist úr óperudeild skólans árið 2009 og fór beint í ljóða- og óratoríudeildina en lauk ekki námi þar heldur ákvað að kominn væritími til að fara heim til Íslands. 

Ég var við nám í Vín í þrjú og hálft ár en kom alltaf heim til Austurlands á sumrin og um jólin og fékkst þá eitthvað við tónlist þegar ég var heima. Við Þórunn Gréta Sigurðardóttir, píanóleikari og tónskáld, héldum nokkrum sinnum stutta jólatón­leika á dvalarheimilum aldraðra á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði, sem og í skötuveislu Kalla Sveins á Borgarfirði eystra.

Frá uppsetningu á Così fan tutte við Háskólann í Vín.

Frá uppsetningu á Così fan tutte við Háskólann í Vín.

Þegar ég var alkomin heim til Íslands tóku við mörg skemmtileg verkefni en meðfram þeim var ég í meistaranámi í jarðfræði. Ég var fastráðin í kjarnakór Íslensku óperunnar og söng í Töfra­flautunni, Il Trovatore, Don Carlo og Ragnheiði. Einnig fékkst ég nokkuð við söng í jarðarförum með Kammerkór Dómkirkjunnar undir stjórn Kára Þormars.
Ég ákvað að láta reyna á dægurlagasönginn þar sem sá draumur hafði lengi blundað í mér og ég alltaf haft miklar mætur á gullröddum Ellyjar Vilhjálms, Erlu Þorsteins, Helenu Eyjólfs, Villa Vill og Hauks Morthens og viljað syngja „löginþeirra“. Úr þeim draumi varð til hljómsveitin Dæg­urlagadraumar sem er samsett úr úrvali tónlistar­manna frá Norðfirði, auk mín. Mér finnst mjög gaman að hafa tök á að syngja bæði klassísk verk og dægurlög og hvort hefur jákvæð áhrif á hitt. Svo er styrkjum Menningarráðs Austurlands fyrir að þakka að Dægurlagadraumar urðu til og hafa leikið og sungið á Austurlandi síðastliðin fjögur sumur. Eftir heimkomuna byrjuðum við Svanur Vil­bergsson gítarleikari að vinna saman. Svanur er öflugur og einstaklega hæfileikaríkur tónlistar­maður og ég hef sungið með honum nokkrum sinnum á tónleikum í tónleikaröð sem hann stendur fyrir í Þjóðmenningarhúsinu og heitir Lofað öllu fögru. Út frá því samstarfi varð svo til samvinna okkar tveggja og Hildar Þórðardóttur, gríðarlega flinks þverflautuleikara frá Norðfirði. Við höfum spilað og sungið saman í þrjú ár undir nafninu Þrír klassískir Austfirðingar og ég vona að því samstarfi ljúki ekki í bráð enda um að ræða tvo hljóðfæraleikara í fremstu röð. Við höfum jafnvel fengið að frumflytja verk eftir austfirsk tónskáld, þau Báru Sigurjónsdóttur og Pál Ívan Pálsson.

Erla Dóra (til vinstri) og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari. Mynd: Arna Rún Rúnarsdóttir

Erla Dóra (til vinstri) og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari. Mynd: Arna Rún Rúnarsdóttir.

Sumarið 2013 var ég svo heppin að vera valin úr hópi umsækjenda til að taka þátt í verkefni í Donegal á Írlandi sem nefndist Awakening of the Horsemen og byggðist að hluta til á menningar­samstarfi milli Austurlands, Donegal og Vester­ålen. Í kjölfarið var mér svo boðið að taka þátt í öðru verkefni þá um haustið í Jersey. Í báðum verkefnunum var um að ræða þátttakendur úr öllum hornum listarinnar: myndlistarmenn, loft­fimleikamenn, dansara, leikara, ljóðskáld, leik­myndahönnuði, tónlistarmenn og fleiri. Það er alveg ótrúlega gefandi að vinna með listamönnum úr öðrum greinum og af öðrum þjóðernum og það opnaði hurðir innra með mér sem ég vissi ekki einu sinni að hefðu verið þar.
Af nýlegri verkefnum má nefna að ég söng ein­söng í Jólaóratoríunni eftir Bach undir stjórn Tor­vald Gjerde um síðustu jól og á jólatónleikum meðÁrna Friðrikssyni, Héraðsdætrum og Liljunum undir stjórn Margrétar Láru Þórarinsdóttur. Nú hef ég tekið við starfi Ferða- og menningarmála­fulltrúa Djúpavogshrepps og bý á Djúpavogi með mínum heittelskaða en sinni tónlistinni samhliða vinnunni. Á döfinni er samvinna við Evu Þyri Hilmarsdóttur píanóleikara, upptaka geisladisks með Dægurlagadraumum og tónleikar í Vallanes­kirkju með Torvald í sumartónleikaröðinni sem hann hefur haldið til margra ára og af miklum metnaði. Einnig erum við Jón Hilmar Kárason, gítarleikari með meiru, að byrja að auglýsa saman létta tónlistardagskrá sem hentar vel fyrir sam­komur og önnur tilefni.

Að lokum vil ég segja að stuðningur Menningar­ráðs Austurlands hefur verið ómetanlegur og vegna styrkja þess hafa mörg verkefni farið af stað og samstarf við aðra listamenn þróast. Þá hefur Signý Ormarsdóttir unnið aðdáunarvert starf í þágu menningar á Austurlandi. Alltaf hefur verið hægt að leita til hennar eftir ráðum og þau reynst vel.

Ef einhver á inni þakkir hjá mér, svona alveg í bláenda þessarar greinar, þá er það fjölskyldan mín sem alltaf styður við bakið á mér og letur mig aldrei, hversu undarlegar flugurnar eru sem ég fæ í hausinn. Og ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa alist upp á Austurlandi, í umhverfi með virkum leikfélögum og metnaðarfullum og drífandi tón­listarkennurum.