Skip to main content

.

 

Að brjóta ísinn

Ásgeir Már Valdimarsson

Í minningu Ásgeirs Más Valdimarssonar

Í þessum fáum orðum langar mig að minnast upphafsins þegar Glettingur hóf göngu sína. Útgáfa þessa blaðs hafði talsvert langan aðdraganda. Nokkrir áhugamenn um austfirsk fræði af ýmsum toga höfðu hist óreglubundið, oftast í kjallara undirritaðs að Selási 9, og rætt hugðarefni sín á ýmsum sviðum. Óhætt er að segja að áhugasviðið var breytilegt eftir einstaklingum, en löngunin var ein: að hefja útgáfu á blaði sem helgaði sig málefnum Austurlands á sem breiðustum grunni. Markmiðið var að gera ítarlegri grein fyrir mörgu því sem birtist í þáverandi fjórðungsblöðum, sem gátu ekki fjallað rækilega um efnið sökum plássleysis og tímaskorts starfsmanna. Efnið skyldi vera líflega skrifað, laust við að vera fræðastagl, en almenningi gefinn kostur á því að skoða það sem að baki fréttanna lá á mannamáli.

Þessi hugmynd var nokkur misseri að mótast, en enginn af þátttakendum „Hrafnaþings“, en svo nefndu þeir þessar samkomur sínar, treysti sér til að fórna nægilegum tíma og hugsanlega fjármunum til að gera hana að veruleika.

Um þetta leyti flutti til Austurlands fjölskylda sem hóf rekstur prentsmiðju sem gekk undir nafninu Prentverk Austurlands. Fyrir þeim hópi fór Ásgeir Valdimarsson en hann var sonur Valdimars Jóhannssonar sem hafði stofnað og rekið bókaútgáfuna Iðunni í Reykjavík um árabil.

Þrátt fyrir ýmsa örðugleika hóf Ásgeir útgáfu tímarita á Austurlandi og sýndi í því sem öðru að hann var hugsjónamaður og taldi Austurland bjóða upp á ýmsa nýja möguleika til atvinnustarfsemi. Þegar honum bárust til eyrna hugmyndir „Hrafnaþingshópsins“, eða „Sérvitringafélagsins“ eins og sumir nefndu kompaníið um útgáfu helgaða Austurlandi, hafði hann samband við einhvern okkar. Var honum boðið á næsta fund og að vori ársins 1991 kom fyrsta tölublað Glettings út. Samstarfið við Ásgeir gekk vel framan af, en eins og búast mátti við stóð fyrirtækið völtum fótum, verkefnið Glettingur gaf takmarkað í aðra hönd og á árinu 1994 virtist útgáfan vera á enda. Þá var það sem áhugamenn tóku til við að halda útgáfunni áfram, völdu sér fljótlega aðra prentþjónustu enda var Ásgeir þá horfinn af vettvangi hér eystra.

Síðan þá hefur Glettingur verið gefinn út af félagi áhugamanna, Útgáfufélagi Glettings, og því ekki lengur rekinn í atvinnuskyni. En miklu veldur sá sem upphafinu veldur. Ef bjartsýni Ásgeirs Valdimarssonar hefði ekki notið við væri hugmyndin líklega dauð og Austurland mun fátækara af fjölmiðlum. Sakar ekki að geta þess að Glettingur hefur vakið athygli langt út fyrir fjórðunginn og er meiri hluti áskrifenda búsettur utan Austurlands og jafnvel erlendis.

Ásgeir Már Valdimarsson lést í Reykjavík þann 15. ágúst 2015.

Sigurjón Bjarnason