Skip to main content

.

 

Ljóðin - Ásmundur Þórhallsson

Austurland

Austurland, hve ann ég þínum dölum,
angan moldar, fjöllum, hamrasölum,
lækjunum sem léttir hoppa, kalla,
lynginu sem þekur flesta hjalla.

Blómunum sem blika á þínum grundum,
björkunum í fögrum skógarlundum,
fossunum sem falla í gljúfrum þröngum,
fuglunum í þínum klettadröngum.

Bárunum sem blika á þínum fjörðum,
byljunum í norðanveðrum hörðum,
ljósra nátta logagylltu tjöldum,
ljósaspili á björtum vetrarkvöldum.

Blessuð sé þín byggð um dali og firði,
blessun fylgi þeim sem einhvers virði
finnst það vera að fegra þig og gleðja,
fram til starfa syni og dætur kveðja.

 

Í hlaðinu á Skógum á fögrum morgni

Ég heyri að morgni er unaðsþýður ómar
ástarsöngur fugls á bjarkargrein.
Í sólargliti fjallsins fegurð ljómar,
ó, fagra veröld – þú ert björt og hrein.

Eyfellsk veðurfræði

Flestum kjúkum kólna fer,
kári brúkar sköllin,
árnar rjúka allar hér
eins og fjúki mjöllin.

Vor í Svínahrauni

Veldi ljóssins líður norðar, norðar,
lýstu sprotum töfra strönd og dal.
Hvert blóm, er heitast bikar ljóssins þráði,
breiðir krónu móti vorsins sól.

Dísir birtast draums í fögru veldi,
draga um hörpu lífsins fima fingur.
Það er sem hljómur ótal strengja ómi
í átt til hæða að guðdóms dýpstu brunnum.

Þú guð, er skópst þá veröld vors og drauma,
átt visku hreina ómælisins djúpa.
Ég þakka af hjarta að þú mér gafst að lifa
slíkt þúsundradda vor.

Á Mývatnsöræfum

Nú er fagurt fjöllum á,
friður yfir jörðu ríkir,
sem yndisfögur auðargná
ylja hjarta töfrar slíkir.

Fjalladís með haddinn hvíta
horfir yfir lendur víðar,
það er öllum ljúft að líta
lindir þínar, brattar hlíðar.

Kyrrðin mögnuð hugann hrífur,
hvergi truflar fossa glaumur.
Heill í leiðslu hugur svífur,
hægar rennur tímans straumur.

Ásmundur Þórhallsson

Ásmundur Þórhallsson er fæddur 28. september 1935 að Ormsstöðum í Eiðaþinghá. Að loknu barnaskólanámi lá leiðin í Alþýðuskólann á Eiðum. Hann lauk námi þar árið 1953 og búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1956. Ásmundur stundaði byggingavinnu í Austur-Eyjafjallasveit á árunum 1973–1984 og það ár tók hann sveinspróf í húsasmíði. Eftir það flutti hann aftur heim að Ormsstöðum þar sem hann hefur búið síðan. Hann starfaði sem umsjónarmaður húsa Alþýðuskólans frá 1984 til loka skólahalds á Eiðum og síðan hjá Sigurjóni Sighvatssyni, eiganda Eiða, til ársins 2009. Ásmundur er tónlistarunnandi, hefur sungið með kórum frá unga aldri og hann stundaði nám í klassískum söng um sjö ára skeið.