Vöxtur lúpínu í Fjarðabyggð
Elín Guðmundsdóttir, Kristín Ágústsdóttir og Guðrún Óskarsdóttir
Það hefur ekki farið fram hjá íbúum Fjarðabyggðar að alaskalúpínan (Lupinus nootkatensis) hefur vaxið hratt og orðið æ meira áberandi víðsvegar um sveitarfélagið. Á undanförnum árum hefur umræðan um lúpínu aukist og eru mjög skiptar skoðanir um ágæti hennar. Starfsmenn náttúrustofunnar kortlögðu lúpínu af loftmyndum yfir 15 ára tímabil á tveimur svæðum í Fjarðabyggð, annars vegar í hlíðinni ofan Neskaupstaðar og hins vegar í Reyðarfirði milli þéttbýlis og álvers. Tilgangurinn var að meta þá miklu aukningu sem orðið hefur í útbreiðslu lúpínu á þessum svæðum. Hér er fjallað um kosti og galla lúpínunnar og gerð grein fyrir niðurstöðum kortlagningar.
Lúpína á Íslandi
Saga lúpínu á Íslandi nær til ársins 1885 þegar henni var fyrst sáð í görðum.6,7 Um miðja 20. öld var fræjum plöntunnar safnað í Alaska og flutt til landsins og sáð með það að markmiði að græða upp gróðursnauð landsvæði.6 Lúpínan varð fljótt vinsæl meðal almennings og sérfræðinga og þótti hafa jákvæð áhrif á röskuð vistkerfi. Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins dreifðu lúpínufræjum á lítt grónum svæðum og skógræktarsvæðum. Undanfarna áratugi hefur lúpínan víða gegnt mikilvægu hlutverki í að endurheimta land á mjög gróðursnauðu svæði. Lúpínan hefur þá eiginleika að geta myndað töluverðan þéttleika og frjósaman jarðveg á tiltölulega skömmum tíma. Fjölmörg dæmi eru um að lúpína getur grætt auðnir og mela hratt upp en sækir svo út á mólendi og tegundafjölbreytni minnkar þar verulega í kjölfarið. Rannsóknir hafa sýnt að þar sem lúpínan kemst yfir mólendi er tegundafjölbreytni mun minni en á aðliggjandi mólendissvæðum þar sem hún hefur ekki numið land.8,9 Rannsóknir á lúpínubreiðum í Skaftafellsþjóðgarði hafa sýnt gríðarlega útbreiðsluaukningu lúpínu. Frá 1988 til 2000 þrettánfaldaðist stærð þeirra svæða sem lúpínan þakti.10
Framandi ágengar tegundir
Með loftslagsbreytingum, auknum umsvifum mannsins, vöruflutningum, ferðalögum og öðrum afleiðingum hnattvæðingar flytjast nú plöntu- og dýrategundir mun auðveldar á milli staða og út fyrir heimkynni sín en áður. Þær tegundir sem breiðast út utan náttúrulegra búsvæða sinna, oftast af mannavöldum, teljast til framandi tegunda. Einungis brot af þeim framandi tegundum, sem flytjast milli landa og heimshluta, ná fótfestu í nýjum heimkynnum. 1,2 Í flestum tilvikum bætast þessar tegundir við þær tegundir sem fyrir eru og valda ekki skaða. Aðeins brot af þeim verða ágengar. Ágengar tegundir eru þær sem breiðast út með þeim hætti að þær ógna því lífríki sem fyrir er. Dreifing og vöxtur ágengra framandi tegunda telst vera ein af meginógnum við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu.2 Lúpína er skilgreind sem framandi ágeng tegund hér á landi.3,4 Nýjar tegundir geta í tilvikum þar sem búsvæði henta þeim vel og náttúruleg samkeppni er ekki til staðar dreift sér mjög hratt og haft mikil áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika nýs búsvæðis. Það er ekki endilega reyndin á upprunastað tegundarinnar þar sem mögulega eru aðrar tegundir til staðar sem halda henni í skefjum.1 Af um 135 skilgreindum framandi tegundum á Íslandi eru sjö skilgreindar ágengar. Þær eru: alaskalúpína, skógarkerfill, mosinn hæruburst, spánarsnigill, búrasnigill, húshumla og minkur. Auk þess eru 18 tegundir skráðar mögulega ágengar.1
Dreifing
Alaskalúpínan hefur átt auðvelt með að dreifa sér með sjálfsáningu þar sem ekki gætir beitar eða þar sem beitarálag er lítið og er svo komið að hún finnst í dag á öllu láglendi landsins og á nokkrum hálendissvæðum. Lúpínan vex jafnt á auðnum, mólendi, mosaheiði og í lágvöxnum runnagróðri. Þar sem vatn getur borið fræ, t.d. niður gil með lækjum og ám, á plantan auðvelt með að breiðast hratt út. Lúpínubreiður eru almennt gisnari og skammlífari á þurrum svæðum á norðanverðu landinu en sunnar, sem skýrist að miklu leyti af minni úrkomu á Norðurlandi.9 Staðargróður nær frekar að halda velli og tegundafjölbreytni getur jafnvel aukist.7
Lúpínan er ljóssækin og vex því illa þar sem kógur, kjarrlendi eða annar þéttvaxinn gróður er til staðar.7 Lúpínuplantan er talin geta náð 20-30 ára aldri8 og nær hver einstaklingur að koma fyrir veglegum fræforða í jarðvegi á lífsleið sinni. Fræforðinn getur lifaði í jarðvegi mörgum árum eftir að plantan visnar. 11
Hlíðin ofan Norðfjarðar í september 2010. Lúpínuflekkirnir eru auðþekktir, ljósgrænir. Örin bendir á rannsóknasvæðið (ljósm. SGÞ).
Áhrif
Þar sem lúpína sáir sér í gróðurlendi minnkar tegundafjölbreytni plantna töluvert í samanburði við nærliggjandi landsvæði.8 Mólendistegundir, á borð við beitilyng, krækilyng, sortulyng, holtasóley og blóðberg, hörfa þegar lúpína nemur land.7,9 Í staðinn koma inn tegundir á borð við vallarsveifgras, skriðlíngresi, ætihvönn, skógarkerfil, túnfífil, brennisóley, elftingu, tildurmosa, engjaskraut,9,12 snarrót, njóla og þistil. Lúpínan visnar oft og verður gisnari í miðjum breiðum eftir 15-25 ár en í sumum tilfellum halda þær miklum þéttleika töluvert lengur.7 Það er afar misjafnt hvaða tegundir koma eftir að lúpínan hefur hörfað. Líklega byggir það á mögulegum fræforða í nágrenni lúpínubreiða. Ef stutt er í mólendi er líklegt að mólendisgróður nái að vaxa ágætlega upp þegar lúpínan hefur loks hopað. Ef það er hins vegar lengra í fræforðann, líkt og á mörgum söndum og auðnum er ólíklegra að háplöntugróður vaxi mikið þar upp.9
Útbreiðsla lúpínu frá 1998 til 2013 ofan Neskaupstaðar. Rautt táknar lúpínufláka árið 1998, gult 2008 og grænt árið 2013.
Lúpína í Fjarðabyggð
Undanfarin ár hefur Náttúrustofa Austurlands fylgst með lúpínubreiðum á afmörkuðum svæðum ofan Neskaupstaðar og austan þéttbýlisins á Reyðarfirði. Lúpínuflekkir hafa verið kortlagðir á loftmyndum frá Loftmyndum ehf. í eigu Fjarðabyggðar á 15 ára tímabili, frá 1998 til 2013 og flatarmál þeirra reiknað út. Þó ekki sé um úttekt á raunverulegri dreifingu lúpínu á Norðfirði og Reyðarfirði að ræða gefur úttektin mynd af því hversu hratt hún dreifir úr sér á þessum svæðum.
Rannsóknasvæðið í júní 2015 (ljósm. SGÞ).
Í Neskaupstað var svæðið til að meta vöxt lúpínu milli ofanflóðavarnarvirkja undir Drangagili og Tröllagiljum, á svæði sem ekki hefur orðið fyrir raski vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir. Svæðið er ofan byggðar á Blómsturvöllum á milli Tungulækjar í vestri og Stekkjarlækjar í austri. Heildarflatarmál kortlagða svæðisins var um 123.400 m2 og frá um 40 m til 160 m h.y.s. Neðri mörk ákvörðuðust af byggð og efri mörk af því hversu langt upp fjallið loftmyndir sem notaðar voru við kortlagninguna náðu. Árið 1997 einkenndist hið kortlagða svæði af graslendi, mosaþembu og lyngmóa með smárunnum á víð og dreif, auk þess var myndarlegur skógræktarreitur í Eyþórslundi.12
Árið 1998 var flatarmál lúpínu á rannsóknasvæðinu í Neskaupstað 3.960 m2 og náði ekki að þekja sem nemur nema um hálfum fótboltavelli. Árið 2008 þakti lúpínan um 18.600 m2 eða ríflega tvo fótboltavelli og árið 2013 var heildarflatarmál lúpínu 48.200 m2 eða um sex fótboltavellir. Á tíu ára tímabili frá 1998-2008 varð nærri fimmföldun á stærð lúpínubreiða. Á fimmtán ára tímabili frá 1998-2013 var tólfföldun á stærð lúpínubreiða, eða úr því að vera um 3% af heildarflatarmáli svæðisins í 40%.
Á Reyðarfirði var útbreiðsla lúpínu kortlögð á afmörkuðu svæði milli þéttbýlisins og álversins, frá Ýsuhvammi í vestri að afleggjaranum að Mjóeyrarhöfn í austri. Heildarflatarmál kortlagða svæðisins var mun stærra en í Neskaupstað, eða um 1.530.700 m2, frá sjávarmáli upp í um 120 m h.y.s. Þetta svæði var gróðurkortlagt árið 1998 og einkenndist þá einkum af hálfgróinni mosaþembu og lyngmóa.13
Útbreiðsla lúpínu frá 1998 til 2013 á Reyðarfirði. Rautt táknar lúpínufláka árið 1998, gult 2009 og grænt árið 2013.
Árið 1998 var flatarmál lúpínu á rannsóknasvæðinu á Reyðarfirði um 10.200 m2 og var orðið 206.000 m2 árið 2009 og árið 2013 var heildarflatarmál lúpínu orðið 353.200 m2 eða um fjörutíu og sex fótboltavellir. Á ellefu ára tímabili frá 1998-2009 varð nærri tuttuguföldun á stærð lúpínubreiða. Á fimmtán ára tímabili frá 1998-2013 þrjátíu og fimmfaldaðist stærð lúpínubreiða á rannsóknasvæðinu, eða úr því að vera tæplega 1% af heildarflatarmáli svæðisins í 23%.
Kostir lúpínu og eiginleikar
Alaskalúpínan (Lupinus nootkatensis) er belgjurt sem lifir í sambýli við bakteríur af Rhizobium ættkvíslinni. Rhizobium bakteríur mynda hnýði á rótum belgjurtanna og vinna köfnunarefni, sem er nýtanlegt lúpínunni, úr andrúmsloftinu. Þessi eiginleiki er afar mikilvægur því hann hjálpar plöntum í næringarsnauðum jarðvegi. Þegar belgjurtir hafa runnið sitt skeið, og niðurbrot plöntuleifa á sér stað, nýtist köfnunarefnið öðrum plöntum og getur þar með aðstoðað við að byggja upp frjósaman jarðveg til frambúðar.5 Hún er öflug og bindur auk þess mikið kolefni. Plantan þykir vegna þessa afar hentug uppgræðsluplanta og gagnast vel á auðnum og í ófrjósömu landi.
Það svæði sem lúpínan hafði lagt undir sig árið 2013 hafði árið 1998 verið tæplega 70% mosaþemba, um 11% lyngmói og 8% graslendi. Meirihluti svæðisins (65%) sem lúpínan hafði þá skriðið yfir var hálfgróinn, eða að meðaltali með 50% þekju, 13% var fullgróinn og 7% minna en 10% gróinn.13
Lúpína hefur aukist mikið í Fjarðabyggð á sl. 15 árum og er sú mikla aukning, sem hér er færð í tölur, augljós hverjum þeim sem farið hefur um Fjarðabyggð. Sumstaðar hefur lúpínan grætt upp áður ógróin svæði, en víða hefur hún farið yfir mólendi og skemmt berjalönd og gert svæði illfær vegna þéttleika og hæðar. Þá hefur hún eyðilagt vaxtarstaði sjaldgæfra tegunda eins og t.d. í Neskaupstað þar sem þekktir fundarstaðir stinnasefs og lyngbúa hafa horfið í lúpínu. Reynt hefur verið að halda lúpínu í skefjum í Fólkvangi Neskaupstaðar með því að rífa hana upp með rótum og slá, en með ómarkvissum hætti þó. Nokkur árangur hefur náðst á afmörkuðum litlum svæðum þar sem hún hefur verið upprætt, en það verður erfitt að eiga við lúpínubreiðuna sem skríður niður Stóralæk á mörkum Fólkvangsins.
Framtíðin
Alaskalúpínan hefur verið töluvert rannsökuð hér á landi og ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með það að leiðarljósi að takmarka útbreiðslu og/eða stöðva dreifingu hennar.13,14,15 Það er ljóst að lúpínan er komin til að vera og er orðin hluti af íslensku vistkerfi. Plantan er afar umdeild og fáar tegundir í íslenskri náttúru hafa valdið jafnmiklum deilum, hvort heldur á kaffistofum eða í ritdeilum milli ólíkra fylkinga í vísindaheiminum. Skiptar skoðanir eru um ágæti hennar og hentugleika og fólk virðist geta rökrætt kosti hennar og galla endalaust. Ekki er hægt að neita því að lúpínan hefur gegnt mikilvægu hlutverki í uppgræðslu á afar gróðursnauðum svæðum, klætt auðnir og bundið sanda. Á slíkum svæðum er gallinn þó oft sá að langt er í fræuppsprettu svo litlar líkur eru á að mólendi eigi eftir að vaxa upp úr lúpínubreiðunum, nema til komi frekari sáningar. Að sama skapi þarf ekki að deila um það að lúpínan getur dreift sér hratt og hefur til að mynda tekið yfir stór mólendissvæði víða um landið. Landgræðslan hefur sett sér strangar notkunarreglur um lúpínuna.16 Þá hefur notkun plöntunnar verið bönnuð á friðlýstum svæðum, svæðum ofar 400 m h.y.s. og á landslagsgerðum sem njóta sérstakrar verndar.17 Lúpína vex nú þegar á nokkrum stöðum ofan þessarar skilgreindu hæðar, t.d í um 640 m h.y.s. í Grágæsadal og um tíma óx hún í um 830 m h.y.s. við Sigurðarskála í Kverkfjöllum.18
Mikilvægt er að bregðast fljótt við ef lúpínan nemur land á svæði þar sem hennar er ekki óskað, áður en hún getur farið að mynda fræ og dreifa sér um stór svæði. Sveitarfélög og landeigendur þurfa að gera upp við sig hvort þeir telji lúpínuna kost eða galla á landsvæðum sínum og gera markvissar áætlanir til að ná tökum á útbreiðslu hennar þar sem hún er talin óæskileg. Það þarf að kortleggja dreifingu tegundarinnar, leggja fram markvissa aðgerðaráætlun og tryggja fjármagn til verksins til langs tíma.
Í Stykkishólmi hafa verið gerðar vel heppnaðar tilraunir til að hefta útbreiðslu og dreifingu lúpínu eða jafnvel eyða henni allri. Þar hefur lúpína, ásamt öðrum ágengum framandi tegundum, verið slegin eða eitrað fyrir henni. Niðurstöður rannsókna þar leiddu í ljós að sláttur virkaði betur en eitrun þar sem plöntueitrið virkar á allan gróður og getur gert illt verra ef ekki er staðið vel að því. Fróðlegt verður að sjá hvort lúpínubreiðurnar á Reyðarfirði og í Neskaupstað víkja fyrir öðrum gróðri á næstu 15-20 árum, og þá hvaða gróðri.
Tilvísanir
1. Umhverfisstofnun (á. á.). Framandi tegundir. Skoðað 18.11.2015 á http://www.ust.is/einstaklingar/liffraedileg-fjolbreytni/framandi--tegundir/
2. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins (á.á.). Ágengar framandi tegundir. Skoðað 18.11.2015 á http://agengar.land.is/index.php/agengar-tegundir
3. Aagot V. Óskarsdóttir [ritstj.] (2011). Náttúruvernd. Hvít bók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.
4. Borgþór Magnússon (2010). NOBANIS - Invasive Alien Species Fact Sheet – Lupinus nootkatensis. Skoðað 15.12.2015 á https://www.nobanis.org/globalassets/speciesinfo/l/lupinus-nootkatensis/lupinus_nootkatensis.pdf
5. Landgræðsla ríkisins (á. á.). Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis). Skoðað 29.04.2016 á http://land.is/2016/01/22/alaskalupina-lupinus-nootkatensis/
6. Náttúrufræðistofnun Íslands (á. á.). Alaskalúpína. Skoðað 29.04.2016 á http://www.ni.is/grodur/agengar-plontur/alaskalupina
7. Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni D. Sigurðsson (2001). Gróðurframvinda í lúpínubreiðum. Fjölrit RALA nr. 207. Reykjavík: Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
8. Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni D. Sigurðsson (2003). Áhrif alaskalúpínu á gróðurfar. Náttúrufræðingurinn 71(3-4), 98-111.
9. Borgþór Magnússon [Náttúrufræðistofnun Íslands] (2012, 28. mars). Gróðurframvinda í lúpínubreiðum endurmetin [myndband]. Sótt á https://www.youtube.com/watch?v=G6muNzAlj-c
10. Kristín Svavarsdóttir, Þórunn Pétursdóttir & Guðrún Gísladóttir (2004). Distribution Dynamics of Exotic Nootka Lupin (Lupinus nootkatensis) on a Braided River Plain in Skaftafell National Park, Iceland. Í: Wild and Cultivated Lupins. From the Tropics to the Poles. Proceedings of the 10th International Lupin Conference, Laugarvatn, Iceland, 19th-24th June 2002. E.V. Santen and G.D. Hill (ritstj.). International Lupin Association.
11. Bjarni Diðrik Sigurðsson og Borgþór Magnússon (2004). Frævistfræði Lúpínu. Náttúrufræðingurinn, 72(3-4), 110-116.
12. Guðrún Á. Jónsdóttir (1999). Description and mapping of vegetation in Reyðarfjörður, Iceland. Neskaupstaður: East Iceland Nature Research Institute.
13. Menja von Schmalensee og Róbert Arnar Stefánsson (2009). Ágengar plöntur í Stykkishólmi. Útbreiðsla alaskalúpínu, skógarkerfils, Spánarkerfils og bjarnaklóar og tillögur um mótvægisaðgerðir. Fjölrit Náttúrustofu Vesturlands nr. 15. Stykkishólmi: Náttúrustofa Vesturlands.
14. Þorvaldur Örn Árnason (2011). Að hemja alaskalúpínu á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 81(3-4), 108-114.
15. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins (2010). Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi. Útbreiðsla, varnir og nýting. Skýrsla til umhverfisráðherra. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins.
16. Landgræðsla ríkisins (á.á.). Stefna landgræðslu ríkisins í notkun á alaskalúpínu til landbóta. Skoðað 5. nóvember 2015 á http://land.is/frodhleikur-radhgjoef/landgraedhsluploentur?layout=edit&id=19
17. Reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000 og reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 651/2010.
18. Guðrún Á. Jónsdóttir (2010). Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Tillaga að verndaráætlun. Neskaupstaður: Náttúrustofa Austurlands.
Mynd
Veröld sem var, eyrarrós í Kringilsárrana. Myndin tekin í gróðurleiðangri Náttúrustofu Austurlands 17. ágúst 2006 (ljósm. SGÞ).