Skip to main content

.

 

Nýsköpunarsjóður námsmanna og náttúrustofan

Kristín Ágústsdóttir og Skarphéðinn G. Þórisson

Nýsköpunarsjóður námsmanna er styrktarsjóður sem hefur starfað frá árinu 19921 og hefur þann megintilgang að útvega háskólanemum sumarvinnu í sínu fagi við rannsóknarverkefni innan fyrirtækja og stofnana. Á tímabilinu 1999 til 2004 fékk Náttúrustofa Austurlands sex styrki til slíkra verkefna fyrir sjö námsmenn í náttúruvísindum. Þeir ólust allir upp á Austurlandi nema einn. Verkefnin eru aðgengileg á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Nemarnir og verkefnin

Karólína Einarsdóttir, B.Sc. nemi í líffræði velti árið 2004 fyrir sér spurningunni: Af hverju eru lyngbúi og súrsmæra sjaldgæfar tegundir á Íslandi?2 Hún skoðaði hvort blóm- og fræmyndun austfirsku einkennistegundanna súrsmæru (Oxalis acetosella) og lyngbúa (Ajuga pyramidalis) væru takmarkandi þættir fyrir stækkun stofna þessara tegunda. Rannsóknir fóru fram á Borgarfirði eystra, Loðmundarfirði, Njarðvík og Norðfirði og fólust m.a. í því að safna fræjum tegundanna í poka og telja þau að blómgun lokinni. Í ljós kom að fræsöfnun fyrir súrsmæru var heldur seint á ferð og því var ekki hægt að draga neinar ályktanir af þeirri rannsókn. Hvað lyngbúann varðaði þá taldi Karólína að stofnstærð hans á hverjum stað hefði áhrif á fjölda fræja sem hvert blóm framleiðir. Þannig að þegar stofninn næði ákveðinni lágmarksstærð færi fræframleiðsla að aukast og eftir því sem stofninn stækkaði og þéttleiki ykist yrði fræframleiðsla hverrar plöntu meiri. Karólína er nú í doktorsnámi í vatnalíffræði við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð.

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, B.Sc. nemi í líffræði, skoðaði Möguleika á notkun plantna sem vaktara á loftmengun frá álverum6 sumarið 2001. Verkefnið gekk út á að finna algengar íslenskar plöntur eða plöntuhópa sem svara áhrifum mengunar frá álverum og gætu orðið mikilvægar við vöktun á áhrifum mengunar á gróður frá álverum. Aðalbjörg Birna komst að því að fáar rannsóknir tengdar efnistökunum höfðu verið gerðar á Íslandi og að erlendum og íslenskum rannsóknum bar ekki alltaf saman. Hennar niðurstaða var sú að ekki væri hægt með góðum rökum að benda á ákjósanlegar íslenskar vísitegundir til að vakta mengun frá álverum og að frekari rannsóknir væru mikilvægar til að bæta þekkingu á svörun íslenskra plöntutegunda við styrk hinna ýmsu mengunarefna. Aðalbjörg Birna starfar nú sem teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.


Vinstri: Karólína Einarsdóttir ásamt Hjörleifi Guttormssyni skoða lyngbúa í Norðfirði sumarið 2004 (ljósm. KÁ).
Hægri:
Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir við gróðurrannsóknir í Reyðarfirði sumarið 2005 (ljósm. KÁ).

Hnísilsýkingar í hreindýrskálfum3 var viðfangsefni Berglindar Guðmundsdóttur meistaranema í líffræði árið 2004. Niðurstöðurnar urðu síðan hluti af meistaraprófsritgerð4 Berglindar við læknadeild Háskóla Íslands undir handleiðslu Karls Skírnissonar 2006.

Verkefnið var eitt af fjórum verkefnum sem tilnefnd voru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands af 161 verkefni sem sjóðurinn styrkti árið 2003. Það var mikill heiður fyrir Berglindi og aðstandendur verkefnisins að lenda í þessum hópi þó verðlaunin féllu henni ekki í skaut á Bessastöðum þann 15. janúar 2004.

Eftir að mastersnáminu lauk starfaði Berglind hjá heilbrigðissviði Reykjavíkurborgar þar til hún lést af völdum krabbameins langt um aldur fram í október 2014.


Vinstri: Berglind Guðmundsdóttir á Bessastöðum í janúar 2014 ásamt leiðbeinendum sínum Karli Skírnissyni t.v. og Skarphéðni G. Þórissyni t.h. (ljósm. Karl Skírnisson).
Hægri:
Berglind Guðmundsdóttir safnar spörðum hreindýrskálfa til rannsókna 7. júní 2003 á Vesturöræfum (ljósm. SGÞ).

FRÉTTATILKYNNING FRÁ NÁTTÚRUSTOFU AUSTURLANDS 8. JANÚAR 2004

„Sumarið 2003 voru rannsakaðar sníkjudýrasýkingar í hreindýrskálfum sem héldu til á Heinabergsdal á Mýrum, á Gerpissvæðinu og á Snæfellsöræfum. Spörðum hreindýrskálfa var safnað í þremur sýnatökuferðum á hverju þessara þriggja svæða og síðan leitað í sýnunum að sníkjudýrum sem lifa í meltingarvegi hreindýra. Þegar leið á sumarið tóku að finnast egg þráðorma og bandorms, svonefnds mjólkurmaðks, sem einnig sníkja í meltingarvegi sauðfjár hér á landi. Þá voru hreindýrskálfarnir á Mýrum og á Gerpissvæðinu einnig smitaðir af þráðormi af ættkvíslinni Capillaria. Þar er hugsanlega um sérstakt hreindýrasníkjudýr að ræða því tegundin hefur ekki fundist í sauðfé hér á landi enn sem komið er.

Vísindalega séð vakti þó mesta athygli fundur tveggja tegunda sníkjudýra af ættkvíslinni Eimeria. Um er að ræða hýsilsérhæfða einfrumunga sem kallaðir eru hníslar en fjölmargar slíkar tegundir eru þekktar í öðrum dýrum hér á landi, sumar hverjar illræmdir sjúkdómsvaldar. Annar hreindýrahnísillinn líkist um margt tegund sem lýst var árið 1936 í Rússlandi en hinni tegundinni hefur enn sem komið er ekki verið lýst í vísindaheiminum þannig að þar er á ferðinni áður óþekkt tegund. Unnið er um þessar mundir að því að lýsa báðum þessum tegundum. Talið er að hníslarnir hafi verið í hreindýrunum sem hingað voru flutt frá Finnmörku í lok 18. aldar og að þeir hafi viðhaldist í íslenska stofninum allar götur síðan.

Umsjónarmenn verkefnis: Skarphéðinn G. Þórisson hreindýrasérfræðingur á Náttúrustofu Austurlands og Karl Skírnisson dýrafræðingur á Tilraunastöðinni á Keldum.“


Vinstri: Böðvar Þórisson
Hægri: Skarphéðinn Smári Þórhallsson

Böðvar Þórisson, B.Sc. nemi í líffræði og Skarphéðinn Smári Þórhallsson, B.Sc. nemi í landfræði, veltu fyrir sér sambúð hreindýra og nytjaskóga á Fljótsdalshéraði 2002.5 Þeir röktu sögu hreindýra á Austurlandi og sögu Héraðsskóga í ljósi þess ,,...að klæða skyldi skógi allt nýtanlegt skógræktarland á Fljótsdalshéraði á næstu 40 árum...” samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1989. Þeir röktu fyrri rannsóknir þar sem víða komu fram áhyggjur af því að sambúð hreindýra og nytjaskógræktar á Héraði gæti reynst erfið. Einnig skoðuðu þeir þær tillögur sem nefndir og ráð höfðu lagt til svo forðast mætti trjáskemmdir af völdum hreindýra. Þeir sendu 100 skógarbændum spurningalista til að kanna mat þeirra á skemmdum samhliða því að þeir skoðuðu gögn um dreifingu og fjölda hreindýra samkvæmt vetrartalningum 1991-2001. Þeir lögðu til ítarlegri rannsóknir á áhrifum hreindýra á skógrækt og nánara mat hlutlausra aðila á skógarskemmdum. Bent var á að við lokauppskeru eru 400-600 tré á hektara þar sem plantað var 3000-4000 trjám. Það var því ljóst að flest skemmd tré hverfa við grisjun skóganna. Þeirra niðurstaða var í stuttu máli að erfitt geti reynst að koma í veg fyrir skemmdir í nýskógum en eftir að skógurinn er orðinn 8-12 ára gamall og hefur náð um 2-3 m hæð sé vandamálið yfirleitt úr sögunni. Böðvar Þórisson starfar nú við fuglarannsóknir hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Skarphéðinn Smári er sjálfstætt starfandi á Egilsstöðum.


Tarfur Bolason gæðir sér á víði í Eiðaþinghá í tilefni af 17. júní (ljósm. SGÞ).

Skráning og flokkun fjörugerða og fjöruvista8 var viðfangsefni Ingu Dagmarar Karlsdóttur B.Sc. nema í líffræði sumarið 2000. Markmið verkefnisins var að finna staðlaðar aðferðir til að flokka og skrá fjörur á Eskifirði og við norðanverðan Reyðarfjörð. Inga Dagmar útbjó flokkunarlykil þar sem fjörunum var skipt í fimm fjörugerðir og svo árósa. Fjörugerðirnar voru: Þangfjara, malarfjara, klapparfjara, hnullungafjara og blönduð fjara. Innan hverrar fjörugerðar voru nokkrar undirgerðir. Flokkunarlykillinn var sérhæfður fyrir rannsóknarsvæðið og þyrfti að staðfæra til notkunar á öðrum svæðum. Inni í Eskifirði voru skúfþangsfjörur ríkjandi en malarfjörur voru algengari utar í firðinum sem benti til að þar væri minni stöðugleiki og meiri hreyfing á undirlagi. Að mati Ingu Dagmarar veitir flokkun fjörunnar dýrmætar upplýsingar sem gagnast vel til að meta verndargildi og nýtingu einstakra svæða. Inga Dagmar starfar nú sem sjúkraþjálfari í Reykjavík.


Vinstri: Inga Dagmar Karlsdóttir á hreindýraslóðum í Sandvík (ljósm. SGÞ).
Hægri: Berglind Steina Ingvarsdóttir við gróðurkortlagningu í Vesturárdal sumarið 2003 (ljósm. SGÞ).

Berglind Steina Ingvarsdóttir, B.Sc. nemi í líffræði, fjallaði um Notkun nærumhverfis og vettvangskennslu í náttúrufræði- og umhverfisfræðikennslu í Neskaupstað7 sumarið 2000. Í verkefni sínu benti Berglind Steina á ýmis svæði í Norðfirði sem væru ákjósanleg fyrir hvers konar vettvangsnám, t.d. skordýrasöfnun á þurrlendi, lífríki í vatni og ám, fuglaskoðun og margt fleira. Settar voru fram hugmyndir að verkefnum og hvernig mætti úrfæra þau. Berglind Steina rekur nú ferðaþjónustuna á Mjóeyri við Eskifjörð.

Lokaorð

Nemendaverkefnin sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna voru skemmtileg og árangursrík. Styrktarsjóðurinn er mikilvægur til að veita námsmönnum tækifæri til að kynnast faginu meðan á námstíma stendur og ekki skemmir fyrir ef slíkt er mögulegt í heimabyggð. Eindreginn áhugi er á því hjá Náttúrustofu Austurlands að endurvekja samstarf við nemendur og sækja aftur í Nýsköpunarsjóð námsmanna á komandi árum.

Tilvísanir

1. Morgunblaðið 1997. Nýsköpunarsjóður námsmanna.

2. Karólína Einarsdóttir 2004. Af hverju eru lyngbúi og súrsmæra sjaldgæfar tegundir á Íslandi? Náttúrustofa Austurlands, NA-040058.

3. Berglind Guðmundsdóttir 2003. Sníkjudýr í hreindýrskálfum - Lokaskýrsla til Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

4. Berglind Guðmundsdóttir 2006. Sníkjudýr í hreindýrum á Íslandi. Háskóli Íslands, læknadeild. Meistaraprófsritgerð.

5. Böðvar Þórisson og Skarphéðinn Smári Þórhallsson 2002. Hreindýr og skógur. Skógrækt á Fljótsdalshéraði og ágangur hreindýra í ungskógum. Náttúrustofa Austurlands, NA-020044.

6. Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir 2001. Möguleikar á notkun plantna sem vaktarar á loftmengun frá álverum. Náttúrustofa Austurlands, NA-010040.

7. Berglind Steina Ingvarsdóttir 2000. Notkun nærumhverfis og vettvangskennslu í náttúrufræði- og umhverfisfræðikennslu í Neskaupstað. Náttúrustofa Austurlands, NA-000029.

8. Inga Dagmar Karlsdóttir 2000. Skráning og flokkun fjörugerða og fjöruvista. Náttúrustofa Austurlands, NA-000028.