Skip to main content

.

 

Smásagan

Á fjalli heilags Gabríels

Kristín Steinsdóttir

Sólin var farin að lækka á lofti þegar gemsinn hringdi. Þetta hafði verið stilltur og mollulegur dagur og þau voru á heimleið. Umferðin þéttist eftir því sem þau nálguðust borgina. Allar fimm akreinarnar voru þéttsettar, dæmigerð síðdegisumferð í helgarlok. Maðurinn beygði ofan af hraðbrautinni svo að hún ætti auðveldara með að heyra í símanum. Þar lagði hann bílnum en drap ekki á honum. Í hitasvækjunni varð kælingin að vera á.

Lág kvenröddin á hinum endanum tilkynnti að hann væri dáinn, hefði skilið við rétt eftir miðnætti.

„Hann kom aldrei til meðvitundar allar þessar vikur.“ Hún virtist vera mörg ljósár í burtu. Röddin kom og fór.

„Þetta var kannski það besta úr því sem komið var,“ sagði röddin næst þegar hún kom inn.

Þær töluðu vélrænt í nokkra stund. Hún horfði upp í fjöllin, yfir þau og heim. Seinna mundi hún ekkert úr þessu samtali annað en:

„Þetta var kannski það besta úr því sem komið var.“ Setningin hringsólaði í höfðinu og vék ekki í burtu, hvorki í vöku né svefni.

Hún hafði gleymt að spyrja eftir veðrinu en vonaði að það hefði verið stillt og bjart. Hún þekkti töfra íslenskrar vornætur og gat ekki hugsað honum betra ferðaveðurs. Sá fyrir sér lognkyrr kvöld þar sem fjöllin stóðu á haus í firðinum. Tilhugsunin um þessi kvöld fyllti brjóstið og gerði það að verkum að tárin runnu óhindrað niður kinnarnar. Hún sem hafði talið sig undir allt búna.

Maðurinn vafði teppi utan um hana og leyfði henni að gráta. Svo lagði hún aftur augun.

Þegar hún opnaði þau aftur var hún stödd í tveggja hæða timburhúsi umluktu trjám í litlum bæ við sjó. Stúlkan lá í koju inni undir súðinni og átti að fara að sofa. Stóri bróðir var búinn að segja henni sögu og sat nú og las í bók um leið og hann raulaði hana í svefn. Sum kvöld raulaði stóra systir. Hennar lög voru blíð og góð, hans stórkallaleg. Stúlkan horfði á kvistina fyrir ofan sig. Þarna var prinsinn, svínið, höllin með turnunum, galdrakerlingin, blómið og langt í burtu risinn í fjallinu. Hún skákaði þeim fram og aftur um súðina uns allt rann saman og augnlokin sigu undir raulinu hans.

Næst vaknaði hún við kaffiilm og sá að það var búið að dekka borð undir trjánum úti í garði. Þetta var einn af þessum góðu dögum þegar kátínan yfir sólskininu var svo mikil að menn báru borðstofuborðið út svo að hægt væri að drekka í sólinni. Hver talaði í kapp við annan. Það var hlegið og stundum sungið í röddum. Hann hafði fallegan bassa. Reynitrén struku húsvegginn þýðlega eins og til að minna á sig. Undirleikur við söng.

Hríðarbylurinn lamdi gluggana og hún hrökk upp við lætin. Nú var hann enn eina ferðina genginn í snarvitlausa norðanátt og kyngdi niður snjó. Þegar leið á daginn var hætt að moka göturnar og skólanum lokað. Stóri bróðir braust í búðina eftir mat og skömmu seinna kom pabbi fannbarinn heim úr vinnunni. Þegar rafmagnið fór var kveikt á kertum og spilað á spil þar til garrinn sleppti klónni og það fór að lægja. Kannski var stúlkan dálítið hrædd við snjóflóð í fjallinu fyrir ofan húsið. Hún mundi síðasta vetur en fannst hún þó vera nokkuð örugg fyrst bæði pabbi og stóri bróðir voru heima.

Hún reyndi að rifja upp síðustu jólin þeirra allra í húsinu en gat það ekki. Hvernig sem hún reyndi vildu þau ekki koma. Kannski var of sárt að muna. Þótt hún gæti ekki munað gat hún heldur ekki gleymt.

Maðurinn ræsti bílinn og þau óku upp í fjall heilags Gabríels. Vegurinn var snarbrattur með ótal beygjum og þau fóru sér hægt. Umferðin var lítil, örfáir á niðurleið, engir á leið upp nema þau. Á toppnum var alveg að verða dimmt. San Fernando dalurinn breiddi úr sér fyrir neðan. Ljósin blikuðu þúsundum saman, skínandi festar á barmi risastórrar móður.

„Mega systkini giftast?“ hafði hún einu sinni spurt hann andstutt. Það var eftir að stúlkan og besta vinkonan höfðu slegist einn kaldan rigningardag.

Hann hristi höfuðið og hló. En svo varð hann alvarlegur og sagði henni margar sögur af fólki sem hefði lent í fangelsi eða verið drepið í gamla daga af því að það giftist eða eignaðist börn saman. „Stundum vissi þetta fólk ekki einu sinni að það væri skylt,“ hafði hann sagt.

„En hvernig fara systkini þá að svo að þau týni ekki hvert öðru þegar allir giftast?“ spurði hún þrjósk. Ætlaði ekki að gefa sig. Hann fullyrti að systkini héldu alltaf saman. Þau gætu einfaldlega ekki annað.

„Það er svo margt sem bindur systkini saman,“ sagði hann. „Ekkert getur komist upp á milli þeirra.“

„Lofarðu því?“ spurði hún.

Og hann kinkaði kolli. Stúlkan róaðist við svarið og það varð úr að besta vinkonan ákvað að giftast stóra bróður en stúlkan mátti velja sér einn af mörgum bræðrum vinkonunnar. Eftir að þær ákváðu að verða mágkonur slógust þær sjaldnar.

Hvenær byrjaði þá allt að riðlast? Og í hvaða röð gerðist það? Var yfirhöfuð hægt að tala um röð?

Var það kannski þegar þau misstu móður sína? Til margra ára fannst henni að það kvöld hefði hún á vissan hátt dáið sjálf. Þá hrundi allt, hlátrarnir þögnuðu og borðstofuborðið fór aldrei framar út í sólina. Það var ekki lengur sungið í röddum því að milliröddina vantaði.

En húsið var fullt af börnum og þau höfðu haldið saman sem aldrei fyrr. Með tímanum óx upp ný millirödd og aftur var sungið.

Hvenær týndu þau þá hvort öðru? Kannski þegar nýtt fólk bættist við? Nýtt fólk sem vissi ekki um loforðið.

Uppi á fjalli heilags Gabríels var ærandi umferðarniðurinn daufur eins og væri hann við það að þagna. En á himninum kviknuðu ótal störnur og sóttu í sig veðrið eftir því sem dimmdi. Þetta voru sömu stjörnur og hann kenndi henni að þekkja á himninum heima. Sjöstjarnan, Fjósakonurnar, Tvíburarnir og Casseopean. Hún hafði aldrei getað vanist því að horfa á stjörnur annars staðar en heima. Hér var ekkert skipulag á himnafestingunni.

Á dimmum vetrarkvöldum leiddust þau inn á Hring og horfðu upp í himininn. Hún fullyrti að stjörnurnar sætu á fjallstoppunum og mætti klifra upp til þeirra. Hann átti bók með myndum sem afsönnuðu það.

Hún hafði ætlað að verða stjörnufræðingur, dreymdi um að þau sætu saman á fjallstindum og tíndu stjörnurnar ofan í poka. Söfnuðu þeim og yrðu fræg.

Upp frá því sagðist hún bara ætla að verða kvikmyndaleikkona. Þá gerði hann óspart grín að henni.

Á fjalli heilags Gabríels voru stjörnurnar nálægar. Ef hún stæði á tám gæti hún tekið þær ofan eina og eina.

Hann hafði lagt af stað laust eftir miðnætti en samt fann hún glöggt fyrir návist hans. Hér myndi hún finna hann. Finna hann meðal stjarnanna.

Hún teygði sig svo að hana verkjaði í kroppinn, teygði sig eins langt og hún mögulega gat, greip um litla stjörnu og hélt fast. Héðan í frá ætlaði hún ekki að sleppa.