Skip to main content

.

 

Þeir fóru á undan

Hreppsnefnd Egilsstaðahrepps 1970–1974. Frá vinstri: Magnús Einarsson, Sveinn Jónsson, Þórður Benediktsson, Vilhjálmur Sigurbjörnsson og Guðmundur Magnússon.

Þeir fóru á undan

Sigurjón Bjarnason

Tímamót urðu í skipan sveitarstjórnarmála á Fljótsdalshéraði þegar stofnað var sérstakt sveitarfélag á Egilsstöðum og nágrenni, en það gerðist árið 1947. Hið nýstofnaða sveitarfélag hét Egilsstaðahreppur og var tilgangurinn með stofnun þess að stuðla að þéttbýlismyndun á Fljótsdalshéraði og átti lífsgrundvöllur íbúa að vera þjónusta við nágrannabyggðir og landbúnaður í smáum stíl. Reyndin varð hins vegar sú að búskapur í Egilsstaðaþorpi varð aldrei arðbær en fólkið fann sér lifibrauð við hin ýmsu þjónustu- og framleiðslustörf sem tengdust nærliggjandi byggðum og jafnvel Austurlandi öllu.

Segja má að fyrsti foringi hins nýja sveitarfélags hafi verið Sveinn Jónsson, bóndi á Egilsstöðum, og hafði hann það hlutverk með hendi fyrstu tvo áratugina. Eftir að „valdatíma“ Sveins lauk dreifðist valdið nokkuð og um það leyti urðu nokkrir einstaklingar til þess að setja svip á stjórn sveitarfélagsins og atvinnulífið í Egilsstaðahreppi.

Með stjórnartíð Sveins lauk tímabili höfðingja, sem gjarna sátu lengi, jafnvel áratugum saman í forystu. Þeir leiddu sveitunga sína í hverri raun og leystu vandann með sínum aðferðum, hvort sem þær voru til vinsælda fallnar eða hlutu harða gagnrýni. Sveinn sameinaði það að vera þjóðþekktur, vinmargur og mikill baráttujaxl. Hann var áberandi persóna og auglýsti þar með uppbyggingu á Egilsstöðum út fyrir fjórðunginn. Hann var í senn aristokrat og alþýðlegur í umgengni, svo ótrúlega sem það hljómar.

Sveinn lét af störfum sem sveitarstjórnarmaður árið 1966. Þá gengu í garð nýir tímar og þótti mörgum valddreifing góðs viti og kölluðu á meiri og hraðari endurnýjun í valdastöðum. Ég er þó ekki alveg viss um að breyting þessi hafi verið til góðs og sumir hinir eldri höfðingja voru almennt farsælir í störfum og harðir málsvarar sinna samfélaga. Hygg ég að svo hafi verið um Svein á Egilsstöðum.

Það er erfitt að benda á einhvern einn arftaka Sveins í forystu Egilsstaðahrepps. Næsti oddviti varð Guðmundur Magnússon, var hann fljótlega ráðinn sveitarstjóri og gegndi hann því starfi í allmörg ár eða til ársins 1985. Guðmundur var farsæll í störfum sínum og leysti mál á friðsaman hátt og með fulltingi fjölmargra samstarfsmanna sinna. Þriggja þessara eftirkomenda Sveins og samstarfsmanna Guðmundar vil ég minnast hér. Þessir þrír áttu það allir sameiginlegt að hafa sterk ítök í hreppsnefnd Egilsstaðahrepps og atvinnulífi innbyggjara. Þeir vildu allt gera til að efla byggðarlagið og byggja upp framtíð þess, voru virkir í almennu félagslífi sem var ótrúlega fjölþætt miðað við það fámenni sem þeir lifðu í. Þessir ágætu menn áttu það líka sammerkt að þeir féllu allir frá fyrir aldur fram og var sárt saknað af samborgurum, sem ekki höfðu búist við að ævistarf þeirra yrði svo endasleppt sem raun varð á.

Ég sem þetta rita átti þess kost að kynnast þeim öllum og starfa með þeim um lengri eða skemmri tíma. Þó langt sé um liðið eru þeir ennþá ljóslifandi í minningunni og því freistandi að halda henni til haga áður en á hana fellur.

Þessir atorkusömu forystumenn voru: Magnús Einarsson, fulltrúi kaupfélagsstjóra Kaupfélags Héraðsbúa, síðar bankaútibússtjóri í Samvinnubankanum og Landsbankanum á Egilsstöðum, fæddur 30. mars 1941, dáinn 3. júní 1992.

Vilhjálmur Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Brúnáss, fæddur 1. júní 1923, dáinn 28. október 1975.

Þórður Benediktsson skólastjóri, síðar bankaútibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Egilsstöðum, fæddur 21. desember 1919, dáinn 2. maí 1977.

Magnús Einarsson

Hann var Fljótsdælingur, sonur hjónanna Einars Sveins Magnússonar og Maríu Jónsdóttur, bænda að Valþjófsstað, fæddur 30. mars 1941. Magnús gekk til mennta í Eiðaskóla, útskrifaður þaðan árið 1959. Hans menntavegur varð þó ekki lengri því að fljótlega eftir skólavistina hóf hann störf við útibú Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum, sem síðar tók við hlutverki aðalstöðva félagsins.

Magnús Einarsson

Magnús starfaði sem fulltrúi kaupfélagsstjóra árin 1961–1976. Eftir það varð hann útibússtjóri Samvinnubankans og síðast Landsbankans til dánardægurs. Hann var fyrst kjörinn í hreppsnefnd Egilsstaðahrepps árið 1966 og átti eftir að sitja í henni lengi eða til árins 1982. Best kynntist ég Magnúsi þegar ég var undirmaður hans í eitt og hálft ár þegar ég vann við bókhald kaupfélagsins.

Sem yfirmaður var Magnús nákvæmur og góður leiðbeinandi. Hann var afar reglusamur og var fyrirmynd annarra hvað það snerti. Það lék enginn vafi á því hver stjórnaði á hans vinnustað án þess að um beint ofríki væri að ræða. Magnús var býsna pólitískur og fylgdi Framsóknarflokknum alla stund. Þótti sumum persóna hans nokkuð lituð af þessu, en það var ekki háttur Magnúsar að hafa áhyggjur af eigin framgöngu. Hann naut líka góðs álits í sínum flokki og var treyst til margháttaðra trúnaðarstarfa af honum, meðal annars sat hann í oddvitaembætti Egilsstaðahrepps frá 1978 til 1982.

Magnús var með betri fundarmönnum sem ég hef kynnst og var fundarstjórn hans afar traust og mátti ljóst vera að hann hafði tileinkað sér öll undirstöðuatriði í félagsstörfum. Kom það sér vel bæði í störfum hans fyrir samvinnuhreyfinguna, á hinum pólitíska vettvangi og í öðrum Magnús Einarsson Glettingur 67 – 26. árg. 3. tbl. 2016 21 félagsstörfum, en margt var það sem Magnús lagði fyrir sig auk sveitarstjórnarstarfa.

Hann var tónlistarmaður ágætur, lék á harmoníku og trompet, en umfram allt var hann frumkvöðull að stofnun Tónskóla Fljótsdalshéraðs og fylgdi því verkefni vel úr hlaði. Á þessum árum var stofnun tónlistarskóla á landsbyggðinni ekki sjálfsagt eða eðlilegt uppátæki. Margs þurfti að gæta og fjárhagur á veikum grunni byggður. Það var þó einn besti eiginleiki Magnúsar að tryggja fjármögnun verkefna áður en í þau var ráðist. Fyrst og fremst var hann þó unnandi góðrar tónlistar og vildi hafa gott tónlistarlíf í plássinu með viðeigandi starfsemi kóra og hljómsveita. Allir sem unnu að slíkum verkefnum áttu traustan stuðningsmann hjá Magnúsi.

Margir nutu reglumennsku hans í fjármálum en mér er minnisstæðast átak okkar sem sátum í stjórn Héraðsheimilisins Valaskjálfar við endurskipulagningu peningamála þeirrar stofnunar eftir að verðbólga og okurvextir höfðu leikið hana grátt eftir miklar endurbótaframkvæmdir innanhúss. Þar kom festa og útsjónarsemi Magnúsar að góðu gagni auk þess sem kunnátta hans á sviði bankastarfsemi leiddi okkur inn á leiðir sem reyndust færar.

Ekki veit ég til þess að Magnús hafi verið mikill íþróttamaður, en þó viðhélt hann líkamlegu atgervi með hlaupum í nágrenni þorpsins og hefði því fallið vel inn í samfélag nútímans þar sem mjög er lögð stund á hvers konar líkamsrækt. Magnús stundaði skák af töluverðri ástríðu og var vel liðtækur í þeirri grein. Eins og á öðrum áhugasviðum hans var hann virkur og var gjarna mættur fyrstur manna þegar haldin voru taflkvöld í hans uppvaxandi heimabæ.

Ungur að árum hóf Magnús formlega þátttöku í safnaðarstarfi á Egilsstöðum og var formaður sóknarnefndar í allmörg ár. Þetta var einmitt á árum byggingar Egilsstaðakirkju og mikilla átaka um það hvar prestur sóknarinnar skyldi búa, en fram yfir 1970 hafði hann aðsetur í Vallanesi. Sú skipan breyttist endanlega við skipan Vigfúsar Ingvars Ingvarssonar, og hefur sóknarprestur síðan setið á Egilsstöðum.

Magnús Einarsson var glæsilegur maður í sjón, hár og myndarlegur. Hann naut sín best þar sem hafa þurfti góðan skikk á málum, en glataði, fannst mér, talsverðu af glæsileika sínum þegar hann vildi bregða á leik eða hrekkja kunningja sína. Fannst mér það illa passa við hina vönduðu persónu sem Magnús hafði að geyma. Þá var hann viðræðugóður og skilningsríkur þegar rekstur fyrirtækja og félaga var til umræðu, þar til umræðan leiddist út í flokkspólitík. Hann gat enga kosti séð á öðrum stjórnmálahreyfingum en Framsóknarflokknum og sá flokkur hafði, að mér fannst, ímynd hins algóða, sem enginn átti að voga sér að andmæla.

Verðlaunaafhending í lok Landsbankahlaups.

Eiginkona Magnúsar var Guðlaug Guttormsdóttir frá Ási í Fellum. Hún er enn á lífi þegar þetta er ritað og býr á Egilsstöðum. Þrjár dætur eignuðust þau hjónin, Maríu Eir, Arneyju og Droplaugu, en engin þeirra er búsett á Austurlandi. Magnús var traustur og ræktarsamur fjölskyldufaðir, stoltur af dætrunum og sinnti þeim af alúð. Hann var líka barngóður og hafði gott lag á að fá krakka til spjalls að hætti Hemma Gunn. Og þrátt fyrir ærnar annir í starfi heimsótti hann lengi móður sína aldraða eftir að hún var orðin sjúklingur. Umhyggja hans fyrir sínum nánustu var því aðdáunarverð og hygg ég að heimili þeirra Guðlaugar hafi verið hamingjuríkt, en þar dvaldist einnig Guðríður Ólafsdóttir, móðir Guðlaugar, nokkur síðustu árin.

Almennt er ekki hægt að segja að sópað hafi að Magnúsi utan Fljótsdalshéraðs. Egilsstaðahreppur var hans heimavöllur og við uppbyggingu hans var hugurinn bundinn. Magnús var heldur ekki brautryðjandi í eðli sínu en lipur samstarfsmaður, tókst á við þau verkefni sem bar að höndum hverju sinni. Þrátt fyrir setu sína í oddvitastóli hygg ég að í samfélagi sveitarfélaga á Austurlandi hafi hann þótt heldur aðgerðarlítill og litlaus. Ef til vill hefur hann goldið þess að hafa ekki langskólamenntun að baki eða að hafa dvalið fjarri átthögum. En það þótti einfaldlega ekki sjálfsagt á þeim árum auk þess sem hann fékk snemma gott starf og eignaðist fjölskyldu. Úr þeim ágalla bætti hann þó með iðjusemi og frábærri reglusemi sem hér er áður lýst. Öll samskipti okkar Magnúsar voru vinsamleg. Við vorum ekki alltaf sammála um alla hluti, en í sameiningu tókst okkur þó að leysa ýmsan vanda, sem ég er ekki viss um að aðrir hefðu leyst jafn farsællega.

Minningar mínar um Magnús Einarsson eru því allar bjartar og er gott að rifja upp þær stundir sem við áttum sameiginlegar. Hann lést af völdum hjartaáfalls þann 3. júní 1992.

Vilhjálmur Sigurbjörnsson

Hann var fæddur í Gilsárteigi í Eiðaþinghá þann 1. júní 1923, sonur hjónanna Sigurbjörns Snjólfssonar og Gunnþóru Guttormsdóttur. Vilhjálmur var einn þrettán alsystkina auk þess sem hann átti eina hálfsystur. Faðir hans var þekktur félagsmálagarpur og veitti þessum syni sínum örugglega traust uppeldi á því sviði.

Vilhjálmur Sigurbjörnsson

Vilhjálmur stundaði fyrst nám í Alþýðuskólanum á Eiðum, fór síðan til Akureyrar, tók þar gagnfræðapróf 1944. Eftir það útskrifaðist hann úr Kennaraskóla Íslands 1946. Þá gerðist hann kennari á Eiðum, fram til 1955, að undanskildum árunum 1948 til 1950, sem hann stundaði nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Hann réðst skattstjóri á Ísafirði 1955 og í Neskaupstað 1956 til 1962. En frá 1963 var hann framkvæmdastjóri Byggingarfélagsins Brúnás á Egilsstöðum og því starfi gegndi hann til dánardægurs. Vilhjálmur hafði því fjölbreytta reynslu að baki þegar hann flutti til Egilsstaða og tók við fyrirtæki sem átti eftir að vaxa og verða einn af stærstu vinnuveitendum á Egilsstöðum ef ekki Austurlandi öllu. Samstarf hans við aðra stjórnendur Brúnáss varð bæði farsælt og árangursríkt og ekki úr vegi að nefna nokkra helstu samstarfsmenn hans, þá Björgvin Hrólfsson, Pál Lárusson og Þórarin Hallgrímsson en marga fleiri mætti nefna sem störfuðu sem smiðir og verkstjórar hjá félaginu í lengri eða skemmri tíma. Má segja að flestir þeir iðnaðarmenn, sem síðar störfuðu á Egilsstöðum, hafi eignast sinn bakgrunn hjá Villa í Brúnás eins og hann var gjarna kallaður.

Vilhjálmur sinnti starfi sínu af mikilli alúð, var gjarna mættur kl. 6.00 á morgnana og hætti ekki seinna en aðrir á daginn. Þannig var hann samstarfsmönnum góð fyrirmynd og hygg ég að Brúnásmenn hafi ekki verið gefnir fyrir að hlífa sér. Þetta var tími „uppmælingaaðalsins“ og afkoma smiða og annarra iðnaðarmanna yfirleitt þokkaleg miðað við aðrar stéttir.

Auk umsvifamikils aðalstarfs var Vilhjálmur áhrifamaður í stjórnmálum, sat í hreppsnefnd Egilsstaðahrepps árin 1970 til 1974 og átti sæti á lista Framsóknarflokksins í Austurlandskjördæmi nokkrum sinnum. Eitt viðamesta verkefnið, sem hann hafði á félagsmálasviðinu, var formennska í rekstrarnefnd Valaskjálfar sem þá bar heitið „Húsnefnd Valaskjálfar“. Þegar hann lét af því starfi gerði hann tillögu um að sá sem þetta ritar yrði sinn eftirmaður og þótti mér að því nokkur heiður og tosaði sjálfsálitinu talsvert upp á við.

Stjórn Brúnáss hf. Frá vinstri: Eiríkur Þorbjarnarson, Þórarinn Hallgrímsson, Vilhjálmur Sigurbjörnsson, Þórhallur Eyjólfsson og Björgvin Hrólfsson.

Það er þó ekki hægt að segja að samstarf okkar Vilhjálms hafi verið mikið eða náið, en oft þurfti ég að leita til hans sem framkvæmdastjóra eins stærsta fyrirtækis þorpsins, eða áhrifamanns í sveitarfélaginu. Og þá var ekki í kot vísað því að Vilhjálmur var ekki bara vinnusamur, heldur virtist hann alltaf hafa tíma fyrir kvabb og leysti hin ótrúlegustu mál farsællega.

Vilhjálmur var afar skemmtilegur og viðræðugóður og best skemmti hann sér þegar mikið var að gerast í kringum hann, bardagamaður hvort sem var í ræðustól, samtölum eða bara við skrifborðið. Orðræða hans var ekki alltaf hefluð og gat andstæðingum í pólitík sviðið undan orðaleppunum, sem hittu oft í mark, þó að ekki væri hann alltaf málefnalegur. Hann hafði íslenskuna algjörlega á valdi sínu og gat tvinnað saman blótsyrðum, klámi og háði svo að eftir sat í minninu. Að lokinni ræðunni hló hann gjarna illkvittnislega með orðunum „en þú ert nú líka svo vitlaus, greyið.“ En þau orð gat maður líka fengið framan í sig eftir að maður hafði sannfært hann um góða hugmynd, sem hann hafði keypt og var tilbúinn að aðstoða við að koma í framkvæmd.

Vilhjálmur var þannig ekki bara grófyrtur og einstrengingslegur kjaftaskur, hann var líka opinn fyrir nýjungum og traustur samstarfsmaður enda óx Brúnás hf. undir hans forystu og vinnan með hans nánustu samstarfsmönnum gaf ríkulegan ávöxt, sem hann naut því miður ekki nema um skamma hríð.

Þegar Rótarýklúbbur Héraðsbúa var stofnaður, árið 1966, var Vilhjálmur kjörinn fyrsti forseti hans. Að öðru leyti minnist ég þess ekki að hann hafi verið mikilvirkur á sviði félagsmála utan stjórnmálastarfsins, sem átti hug hans allan, einkum ef kosningar fóru í hönd. Þó var hann tónlistarunnandi og sótti gjarna slíka viðburði, sem voru þó ekki algengir á Héraði á þessum árum. Aldrei sást hann á dansleikjum, en var þeim mun kirkjuræknari og starfaði talsvert að þeim málum, en Egilsstaðakirkja var einmitt í smíðum á síðustu æviárum hans, var vígð árið 1974. Vilhjálmur var eftir því sem ég best veit alger bindindismaður og fyrir það naut hann talsverðrar virðingar þeirra sem með honum störfuðu. Áreiðanleiki, reglusemi og dugnaður voru mannkostir sem hann átti nóg af og þannig menn verða aldrei of margir á meðal okkar.

Bridgeklúbbur var stofnaður á Fljótsdalshéraði þegar síldin var ekki lengur á meðal okkar á árunum í kringum 1968. Þar var Vilhjálmur einn af stofnendum, skemmtilegur spilafélagi og naut sín vel í þeim félagsskap.

Eiginkona Vilhjálms var Inga Warén, ættuð frá Finnlandi og áttu þau fimm börn auk þess sem Vilhjálmur átti eina dóttur fyrir hjónaband. Inga söng með kirkjukór Egilsstaðakirkju um nokkurt skeið en vann annars aldrei utan heimilis, svo ég viti. Sinnti heimilinu þeim mun betur. Öllum sem henni kynntust ber saman um að þar hafi farið merkiskona, sem alveg hefði mátt láta meira á sér bera á opinberum vettvangi, en þá var það ekki í tísku, enda sá eiginmaðurinn alfarið um það hlutverk fyrir hönd þeirra beggja. Þau bjuggu lengst að Dynskógum 5 Egilsstöðum, einbýlishúsi sem Vilhjálmur byggði snemma á ferli sínum sem framkvæmdastjóri Brúnáss. Inga lést árið 2005, hafði þá lifað sem ekkja í 30 ár, sjálfstæð í lund, kjarkmikil og æðrulaus.

Viðmót Vilhjálms var alltaf uppörvandi og hressilegt og minningin um hann bætir alltaf andrúmsloftið og kemur manni í gott skap.

Vilhjálmur lést í bílslysi á Fagradal 28. október 1975.

Þórður Benediktsson

Síðastan þeirra þremenninga vil ég nefna Þórð Benediktsson, skólastjóra, sparisjóðsstjóra og síðast bankastjóra á Egilsstöðum. Þórður var yfirmaður minn í full fjögur ár og kynntist ég honum því einna best af þessum burðarásum uppvaxandi byggðarlags á Egilsstöðum. Tvennt var það sem greindi hann frá þeim sem áður var sagt frá: Hann var ekki framsóknarmaður og hann var ekki Austfirðingur að uppruna.

Þórður Benediktsson

Þórður var fæddur að Mosfelli í Svínavatnshreppi, Austur-Húnavatnssýslu, þann 21. desember 1919, sonur Benedikts Helgasonar og konu hans, Friðrikku Guðrúnar Þorláksdóttur. Búskapurinn á Mosfelli gekk ekki sem best. Fjölskyldufaðirinn féll frá á besta aldri, barnahópurinn stór og þurfti því að skipta fjölskyldunni. Þórður var innan við tíu ára að aldri þegar hann var sendur til Helgu systur sinnar sem þá var orðin bóndakona í Seljateigi í Reyðarfirði þar sem hann ólst síðan upp. Þórður tók kennarapróf 1946 og kenndi í barnaskólunum á Eskifirði og Reyðarfirði uns hann gerðist skólastjóri barnaskólans á Egilsstöðum 1956. Meðfram því starfi hafði hann umsjón með Sparisjóði Fljótsdalshéraðs sem stofnaður var 1958 og þegar hann tók við útibússtjórastarfi Búnaðarbanka Íslands í byrjun árs 1967 voru þessar tvær lánastofnanir sameinaðar í eina.

Ekki veit ég hversu snemma Þórður hóf afskipti af opinberum málum, en á Egilsstöðum var hann mjög virkur á þeim vettvangi, fyrst kosinn í hreppsnefnd 1958 og sat í henni til ársins 1974 er hann lét af þeim störfum. Á þeim dögum þótti ekki tiltökumál þótt kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar beittu sér í atvinnulífinu enda ekki svo mörgum til að dreifa í því efni. Því var Þórður frumkvöðull í uppbyggingu Röra- og steinasteypunnar á Egilsstöðum, sat í stjórn Byggingarfélagsins Brúnáss og átti hlut í smærri fyrirtækjum. Það þótti mörgum gagnrýnivert þegar maður með þessa hagsmuni settist í stól eina bankastjórans í byggðarlaginu þó að ég telji fráleitt að hann hafi nýtt sér aðstöðu sína í því efni.

Fyrsta skóflustungan tekin að Egilsstaðakirkju. Frá vinstri: Kristján Magnússon, Guðmundur Þorleifsson, Sigurbjörn Einarsson biskup, Sigríður Fanney Jónsdóttir og Þórður Benediktsson. Skátar standa heiðursvörð.

Þórður var hins vegar hugsjónamaður af lífi og sál og eitt af hans áhugamálum var bygging kirkju á Egilsstöðum, en þessi ört stækkandi byggðakjarni heyrði undir Vallanessókn og þangað var jafnan haldið til helgra tíða þótt stundum væri messað í barnaskólanum á Egilsstöðum.

Undir lok ævinnar beitti Þórður sér fyrir byggingu Dvalarheimilis aldraðra við Lagarás á Egilsstöðum þar sem byggðar voru nokkrar litlar íbúðir í raðhúsi fyrir fólk sem hafði lokið starfsævi. Að þessu búa Egilsstaðir enn í dag, litlu íbúðirnar yst við Lagarásinn eru vinsælar og þykja einkar hentugar fyrir aldraða einstaklinga eða hjón.

Frjáls félagasamtök áttu góðan stuðning hjá Þórði, einkum man ég eftir honum styðja starf skátanna á Egilsstöðum og börnin hans störfuðu flest í þeim félagsskap. Þórður var strangur bindindismaður og varaði ungmenni sterklega við neyslu áfengis. Hins vegar reykti hann pípu og tók í nefið, það var einfaldlega alsiða og enginn að amast við því. Hann var félagslyndur, mætti á samkomur og fundi, var áhugasamur bridgespilari og fleira mætti sjálfsagt nefna.

Þórður hafði einstaklega hlýlega nærveru, hefur örugglega verið góður kennari. Hann var enginn sérstakur grínisti, þó hann hafi vissulega getað brugðið fyrir sig glettni. Þá var hún frekar í formi tvíræðni og gat komið manni á óvart, jafnvel þegar hugað var að alvarlegum hlutum.

Þórður gegndi lengi hreppstjóraembætti í Egilsstaðahreppi og hjá honum lærði ég fyrst að skilja samninga um ýmis lögfræðileg efni, svo sem kaupsamninga, veðskuldabréf, jafnvel skilnaðarsamninga og fleira. Þá var ekki lögfræðingum til að dreifa og oft leitað til næstu embættismanna sem leystu slík mál. Óbreyttir starfsmenn lánastofnunarinnar voru gjarna settir í að pikka slík skjöl eftir handriti bankastjórans, sem gat svo þjónað ýmsum tilgangi öðrum en bankanum því að bankastjórinn var ekki bara bankastjóri heldur hafði mörg önnur járn í eldinum. Handrit Þórðar voru einkar læsileg, rithöndin var skýr en engin sérstök skrautskrift.

Eftir á að hyggja finnst mér að sjaldan hafi ég lært jafnmikið og á þessum fjórum árum, sem ég starfaði undir handleiðslu Þórðar og alltaf sýndi hann unga bankamanninum föðurlegt viðmót og leiðbeindi honum um refilstigu lögfræðinnar í þessu tiltölulega fámenna og einsleita samfélagi sem Fljótsdalshérað var þá. Eiginlega hætti hann aldrei að kenna þó að hann væri hættur að starfa á vettvangi fræðslumála.

Ég er ekki viss um að Þórður hafi verið á réttri hillu sem bankastjóri þó að örlögin hafi vísað honum í þá stöðu. Hann var góðhjartaður og vildi allra götu greiða, þó að hann gæti það ekki, og fyrir kom að hann væri sakaður um að gera upp á milli viðskiptavina. Ég veit að það sárnaði honum því að hann var samviskusamur að eðlisfari og mátti ekki vamm sitt vita. Unni samt sínu samferðafólki og vildi allt fyrir það gera. Þá var hann annarrar pólitískrar trúar en þorri samborgara og varð því fyrir beittum skotum framsóknarmanna sem sátu í flestum valdastólum og höfðu Kaupfélagið sem illvinnanlegt vígi.

Einhverjir voru líka ósáttir við sameiningu Sparisjóðsins og bankans og ekki leið á löngu þangað til stofnað var útibú Samvinnubankans á Egilsstöðum undir stjórn Magnúsar Einarssonar sem um er fjallað hér á undan. Einhverjir fluttu þá viðskipti sín úr Búnaðarbankanum, en þó færri en búast mátti við því að ekki höfðu margir yfir Þórði að kvarta sem bankastjóra þó að illa væri látið stundum. Búnaðarbankinn var líka eldri og traustari bankastofnun og gat boðið viðskiptavinum sínum betri fyrirgreiðslu en Samvinnubankinn, sem var yngri, en hafði þó samvinnuhreyfinguna sem bakhjarl.

Auk talsverðra umsvifa í opinberu lífi var Þórður framkvæmdamaður fyrir eigin reikning. Hann byggði þrjú íbúðarhús á Egilsstöðum, fyrst að Laufási 8, síðan Bjarkarhlíð 4 og síðast Laugavelli 3 þar sem ekkja hans, Steinunn Guðnadóttir, býr enn í góðri elli þegar þetta er ritað.

Steinunn er fædd og uppalin á Eskifirði og eignuðust þau Þórður sjö börn. Ég hef átt því láni að fagna að kynnast þeim flestum og bera þau foreldrunum fagurt vitni, einstaklega hlýlegar og traustar manneskjur sem gott er að þekkja.

Þórður lést af völdum krabbameins í höfði þann 2. maí 1977.

Lokaorð

Það var gæfa mín að kynnast öllum þessum mönnum og tilgangurinn með skrifum þessum er að varðveita og deila með öðrum kynnum mínum af þeim. Og þó að tíminn mái sporin er ég viss um að þetta litla samfélag hér eystra hefði orðið með nokkuð öðrum brag ef þeirra hefði ekki notið við. Samanburður minn við Svein á Egilsstöðum, sem var þeirra undanfari, er kannski ekki beinlínis viðeigandi. Það þurfti hins vegar marga menn til að halda merki hans á lofti og það sem vantaði upp á höfðinglegt yfirbragð bættu þeir upp með dugnaði, einbeittum framfaravilja og frjálslegu fasi, sem fleytti þeim langt í þeirra margvíslega leiðtogastarfi.

Allir voru þeir fúsir til forystu og leiða málefni byggðarlagsins til farsældar. Þeir hurfu líka fyrr af vettvangi en vænta mátti og var sárt saknað af ættingjum, vinum og öðru samferðafólki. Þannig fóru þeir Magnús, Vilhjálmur og Þórður á undan í tvennum skilningi.