Skip to main content

.

 

Völundarvinjar og lúpína á Austurhálendinu

Skarphéðinn G. Þórisson

Það virðist afar ríkt í mörgum að gróðursetja plöntur á ólíklegustu stöðum til að sjá hvort þær fái þrifist. Á Brúaröræfum eru nokkrir gróðurreitir sem Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum á heiðurinn af. Stærstur þeirra er skrúðgarðurinn í Grágæsadal. Völundur var frumkvöðull í ferðum og uppbyggingu ferðafélagsskála á hálendi Austurlands á seinni hluta síðustu aldar. Um hann má lesa í 24. hefti Glettings.1 Hvatinn að þessum skrifum nú er óánægja Völundar með fullyrðingar um lúpínu (Lupinus nootkatensis) í Grágæsadal í 65.–66. hefti Glettings í grein um lúpínu í Fjarðabyggð. Því var sest niður með honum og málið krufið til mergjar. Þar sagði hann líka frá öðrum gróðursetningum sínum á Brúaröræfum sem ég kýs að nefna Völundarvinjar. Einnig er saga lúpínu í Krepputungu rakin.

 


 

Lúpínan í Grágæsadal
Í greininni í 65.–66. hefti Glettings segir eftirfarandi: „Lúpína vex ... í um 640 m hæð í Grágæsadal og um tíma óx hún í um 830 m h.y.s. við Sigurðarskála í Kverkfjöllum.“2 Tilvísuð heimild var verndaráætlun austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.3 Völundur var ekki sáttur við þessa fullyrðingu og því var sest niður með honum og málið skoðað.4 Þann 17. júlí 1995 tók Völundur nýniðursettan lúpínuhnaus við veginn niður í Vöðlavík og flutti í skrúðgarð sinn í Grágæsadal (1. mynd). Lúpínan fékk nafnið óvætturin og var þannig kynnt fyrir Kára Kristjánssyni og Þórhalli Þorsteinssyni sem leist ekki á veru hennar þar. Hún blómstraði eftir ein fimm ár og bar fræbelgi. Þeir frusu og við skoðun Jóns Arnarsonar í gróðrarstöðinni Barra á Egilsstöðum kom í ljós að fræin voru óþroskuð og hefðu aldrei náð að spíra. Allan tímann hafði Völundur flugnanet utan um plöntuna til að fyrirbyggja að hún dreifði sér. Eftir þetta drapst hún og hennar sögu þar með lokið í Grágæsadal.

volundar3

Lúpína í Krepputungu Tjaldsvæði var tyrft við Sigurðarskála í Kverkfjöllum (832 m h.y.s.) á 8. áratug síðustu aldar með þökum frá Brú á Jökuldal. Á sama tíma sáðu Unnur og Brynhildur Stefánsdætur lúpínufræjum, líklega frá Hallormsstað, þar nærri.5 Árið 2009 sáust þar nokkrar litlar plöntur sem ekki voru til stórræða (2. og 3. mynd). Þórhallur Þorsteinsson á Egilsstöðum segist ganga um hlíðina ofan við tjaldsvæðið og tína lúpínu á hverju ári en aldrei orðið var við annað en litlar (minni en 10 cm) og tíkarlegar plöntur.


Þórhallur Þorsteinsson sáði lúpínufræjum við Lindarsel í Hvannalindum (610 m h.y.s.) árið 1988 eða 1989. Þar uxu nokkrir þrifalegir brúskar en eftir að blóm sáust var henni eytt, 1994 (4. og 5. mynd). Fyrir einhverjum árum rakst Þórhallur á tvo stóra blómstrandi lúpínubrúska í Krepputungu um 10 km innan við Kreppubrú. Hafði hann enga hugmynd um hver plantaði þeim þar.6 Eyddi hann þeim snarlega með eldi.


Í plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar Íslands7 er alaskalúpína skráð í reiti 6250 og 6251 en ekki 6152 þar sem Sigurðarskáli er. Við nánari skoðun staðfesti Hörður Kristinsson að í gagnagrunninum væri lúpína eingöngu skráð í þessa tvo reiti og upplýsingarnar ættaðar frá Landgræðslu ríkisins 2010. Í öðru kerfi er hún skráð í tvo samliggjandi reiti (620–485 og 620–490) vestur af Hvannalindum, við Kverkfjallaleið (6. mynd).8


Völundarvinjar Völundur hefur flutt plöntur á þrjá staði á Brúaröræfum fyrir utan Grágæsadal. Við slóðina norðaustan Fagradals er gróðurtorfa (7. mynd) sem rekja má til Völundar. Hann fékk grasfræpoka hjá Degi Kristmundssyni á Egilsstöðum og sáði úr honum þann 18. nóvember 2001, þar var þá 3°C hiti og um tommulag ófrosið. Hann bætti síðan við regnfangi (Tanacetum vulgare), rabarbara (Rheum rhabarbarum), víði (Salix spp.), burnirót (Rhodiola rosea) og melgresi (Leymus arenarius) vorið eftir. Þar eru tveir steinar og skírði Völundur staðinn Bræður. Þarna stoppuðu menn oft fyrrum í hálendisferðum því þar var gott CB samband, náðist í Möðrudal og jafnvel til Færeyja.



Við vegamót í Grágæsadal er hæð sem Völundur skírði „Prestahæð“ og er í 700 m h.y.s. Þar er „Lyklasteinn“1 og við hann Völundarvin frá 2014 með birki (Betula pubescens), gulvíði (Salix phylicifolia), maríuskó (Lotus corniculatus) og seljahnútu (Astragalus alpinus) (8. mynd). Nokkru nær Grágæsadal, í 750 m h.y.s., er „Fagrahraun“ með svipaðri vin frá 2011 eða 2012 (9. mynd) en þar er líka rabarbari. Eini áburðurinn sem þessar plöntur hafa fengið við plöntun er kúamykja frá Guðmundi á Vaði.


Sumarið 2014 plantaði Völundur fjórum burnirótum við uppgönguna að listaverkinu við Kárahnjúkastíflu og bætti síðan við 5–6 plöntum sumarið 2015 og 2016. Með þessu vildi Völundur minnast þeirra fjölmörgu fallegu burnirótarbrúska er drukknuðu í Hálslóni (10. mynd).


Völundur hefur mikinn áhuga á að kanna hvort birki þrífist í Grágæsadal og hefur sáð því þar á nokkrum stöðum. Telur hann það lofa góðu enda sést þar varla kind lengur svo ekki þarf að óttast að þær standi skógræktinni fyrir þrifum (11. og 12. mynd). Sumarið 2016 voru þær stærstu orðnar 20–30 cm háar.


Framtíðin Lúpínan er skilgreind sem ágeng, innflutt tegund. Margir hafa áhyggjur af útbreiðslu hennar á sama tíma og aðrir dá hana og prísa. Flestir eru nú samt líklega sammála því að hún eigi ekki heima á hálendi Íslands né á friðlýstum svæðum. Í 10. grein reglugerðar um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda (583/2000) segir eftirfarandi: Öll ræktun útlendra tegunda hér á landi er óheimil á friðlýstum svæðum, á landslagsgerðum er njóta sérstakrar verndar og alls staðar ofan 500 metra hæðar yfir sjó. Náttúruvernd ríkisins getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði að fenginni umsögn sérfræðinganefndarinnar. Ennfremur segir í Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs (2. útgáfa, 12. júlí 2013, bls. 52): Ein helsta ógn við líffræðilegan fjölbreytileika eru ágengar, framandi tegundir. Plöntutegundir á borð við alaskalúpínu geta ógnað líffræðilegum fjölbreytileika og breytt verulega ásýnd stórra svæða. .... Nauðsynlegt er að eyða slíkum tegundum úr lífríki garðsins svo að vistkerfi hans geti þróast á náttúrulegan hátt. Ljóst er að lúpína getur vaxið víða á hálendinu og borið fræ. Hún hefur sést í blóma í yfir 900 m hæð í Gæsavötnum9 og stórar breiður af henni eru við Laugafellsskála, norðan Hofsjökuls (13. mynd) sem er í 753 m h.y.s. Reyndar nýtur hún eflaust góðs af jarðhitanum þar. Með hnatthlýnun eykst hættan á því að hún og aðrar ágengar tegundir geti náð fótfestu á hálendinu. Hörður Kristinsson grasafræðingur er á þeirri skoðun að samfara hlýnun gæti lúpínan vaxið um allt miðbik landsins eftir 40 ár ef hún bærist þangað.10 Vonandi berum við gæfu til að koma í veg fyrir slíkt.

Tilvísanir
1. Arndís Þorvaldsdóttir 2000. „Það er gaman að segja frá því...“ Rætt við Völund Jóhannesson, fyrsta formann FFF. Glettingur 24, 10. árg. 3. tbl.: 7–14.
2. Elín Guðmundsdóttir, Kristín Ágústsdóttir og Guðrún Óskarsdóttir 2016. Vöxtur Lúpínu í Fjarðabyggð 1998–2013. Glettingur 65.–66: 31–35
3. Guðrún Áslaug Jónsdóttir 2010. Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Tillaga að verndaráætlun. Unnið fyrir svæðisráð austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. NA-100098 Neskaupstaður mars 2010.
4. Völundur Jóhannesson, munnlegar upplýsingar, 23. og 24. nóvember 2016.
5. Völundur Jóhannesson, munnlegar upplýsingar, 23. og 24. nóvember 2016.
6. Þórhallur Þorsteinsson, munnlegar upplýsingar, 24. nóvember 2016.
7. http://vefsja.ni.is/website/plontuvefsja/
8. Tölvupóstur frá Herði Kristinssyni, 9. mars 2017.
9. Þóra Ellen Þórhallsdóttir http://www.ruv.is/frett/sprenging-i-utbreidslu- lupinu 10. Hörður Kristinsson http://www.ruv.is/frett/lupina-gaeti-vaxid- -langt-inn-a-halendi-efti