Skip to main content

.

 

Villa á Skriðdalsöræfum 1964

Reynir Eyjólfsson

Síðsumars árið 1964 var ég nýkominn til Íslands frá námi í Kaupmannahöfn. Í septemberbyrjun heimsótti ég, ásamt konu minni, fólkið okkar að Eyjum í Breiðdal en þar bjó þá bróðir minn, Kjartan (1939–2013), ásamt móður okkar. Þar átti þá móðurbróðir minn, Jón Einarsson (1925–1997), lögheimili og var hann þar staddur um þessar mundir.

Þar sem veður var gott í Breiðdal þessa daga datt okkur frændum í hug að skyggnast eftir hreindýrum í Bratthálsi á Skriðdalsöræfum. Langleiðina þangað var tiltölulega auðvelt að komast eftir grófum jeppaslóða er liggur af Axarvegi milli Berufjarðar og Skriðdals til Ódáðavatna. Vötn þessi eru í um 600 metra hæð yfir sjó og eru mjög vogskorin. Sagan segir að veiðimenn úr Skriðdal hafi laumast þar að ferðamönnum og drepið þá til fjár og af því sé komið heiti vatnanna. Frá þeim eru um 5 km vestur í Bratthálsinn sem er um 800 m há grágrýtisbunga. Leiðin þangað er tiltölulega flatlend og kennileitalaus með mörgum tjörnum og pyttum.

Ekki þarf að orðlengja það að við lögðum snarlega í þennan leiðangur og vorum komnir að vötnunum um klukkan tvö eftir hádegi. Þá var sólskin á fjöllum og stillt veður en við sáum þokubakka í átt til Berufjarðar í suðri. Við gerðum okkur þó enga rellu út af því, frekar en að ætla okkur á hreindýraveiðar í leyfisleysi. Á þeim tíma voru sportveiðar lítt stundaðar á þessum slóðum en einstaka menn grönduðu einu og einu dýri sér og sínum til matar og þótti yfirleitt ekki mikið tiltökumál. Þó kom fyrir að menn væru kærðir fyrir þetta athæfi.

Við skálmuðum því bjartsýnir vestur í Brattháls; þar rákumst við loks á nokkur hreindýr og fórum að fást við þau. Felldum við eitt þeirra en ég man ekki hver skaut banaskotinu. Þeir frændur gerðu svo að dýrinu. Allt tók þetta drjúgan tíma og var degi tekið mjög að halla þegar við snerum til baka til bílsins við Ódáðavötnin. Þeir frændur báru sitt lærið hvor um öxl en ég riffilinn og skotfærin. Allt gekk eins og í sögu til að byrja með. Vindur var lítill sem enginn og því ekki hægt að taka stefnumið af honum.

En sólin var tæpast gengin til viðar þegar þokan í Berufirðinum byrjaði að fikra sig inn á öræfin, hægt í fyrstu en ekki leið á löngu áður en hún umlukti okkur með sínum gráa feldi. Það fór líka að skyggja en við komum brátt að vatni sem við héldum að væri hluti Ódáðavatnanna og því væri auðveldast að fylgja þeim til norðurs (til vinstri) og við kæmum þá einhvern tíma að bílnum. Brátt komum við að læk sem féll úr vatninu og var þar sendið fjöruborð. Við vissum eða héldum að það væri aðeins eitt affall úr Ódáðavötnunum og að það félli til austurs ekki langt frá þeim stað þar sem bíllinn var. Vorum við fegnir því að uppgötva að nú væri líklega bara smáspölur eftir. En eftir stutta göngu komum við aftur að læk og í sandinum við hann voru fótspor! Enginn vafi lék á því að við vorum komnir að sama læknum aftur! Þetta var þá bara smátjörn sem átti ekkert skylt við Ódáðavötnin. Þeir frændur voru þá fljótir að fleygja frá sér nýmetinu, hröfnum og refum væntanlega til ómældrar ánægju til viðbótar því sem áður hafði verið skilið eftir. Í fátinu, sem á okkur kom, höfðum við ekki rænu á að skera bita af glænýju kjötinu til að taka með í nesti. Þetta voru trúlega ein verstu mistökin í flani okkar.

Nú var líka komið myrkur. Við vorum fljótir að átta okkur á stöðunni sem ekki var sérlega gæfuleg: Rammvilltir, áttavitalausir, kortalausir, matarlausir, hlífðarfatalausir og langt frá mannabyggðum en þó ekki algerlega vitlausir. Okkur kom strax saman um að fylgja læknum. Hvert sem hann rynni þá myndi hann leiða okkur til byggða, sennilega til Skriðdals frekar en Suðurfjarða.

Við gengum því meðfram læknum sem fljótlega rann niður eftir gili og við paufuðumst þarna áfram í þokunni og myrkrinu. Eftir um klukkutíma komum við að á sem virtist renna úr andstæðri átt við stefnu lækjarins en beygja síðan hornrétt til hægri miðað við stefnu hans. Þóttist ég þá vita að við værum komnir að Geitdalsá í Norðurdal Skriðdals þar sem hún fellur út úr Leirudal úr vestri og snarbeygir síðan til norðurs. Við ættum því að fylgja ánni til norðurs, það er til hægri. Þessa vitneskju hafði ég úr smalamennsku á Geitdalsafrétti 1952 og ferð inn að Líkárvatni, sem er suðvestan Ódáðavatna, árið 1955. Þeir frændur gáfu lítið út á þetta álit mitt og bróðir minn fór meira að segja niður að ánni og rak hendina niður í hana til að fullvissa sig um í hvaða átt hún rynni. Reyndist það vera í samræmi við kenningu mína. Ekki man ég hvað klukkan var þegar hér var komið sögu en við vorum að mestu leyti komnir niður úr þokunni og það var talsvert mikið myrkur. Við gengum meðfram ánni og alllöngu seinna komum við að ármótum þar sem tvær þverár féllu í hana hinum megin frá, önnur frá vinstri (suðvestri) en hin frá hægri (norðvestri). Þetta vissi ég að hlutu að vera Innri- og Ytri-Sauðá á Geitdalsafrétti og þar með var staðsetning okkar alveg örugg. Þá var ekki annað eftir en að þrælast áfram eftir kindagötunum meðfram ánni til efstu bæja í Norðurdal Skriðdals. Að reyna að fara aftur til bílsins við Ódáðavötn kom aldrei til greina enda hefði það verið óðs manns æði eins og allt var í pottinn búið.

Við römbuðum því áfram í myrkrinu, fegnir því að vita hvar við vorum staddir enda fengum við það staðfest með kennileitum sem við þekktum: Klappará, Rauðabergsár, Bjarnastaðaskógur, Dalhús. Tíminn silaðist áfram og smám saman fór að birta af degi. Við Jón frændi vorum ekki í neinni gönguþjálfun og Kjartan bróðir skemmti sér við að horfa á okkur skjögrast áfram líkt og nýgelta hunda eins og hann sagði! Þreytan fór líka að segja til sín þegar á leið og urðum við oft að setjast niður og hvíla okkur. Ferðin gekk því seint. Þegar við loks komumst út að Hátúnum, efsta bæ í Norðurdal okkar megin við ána, var orðið albjart og klukkan líklega um átta. Bóndann þar þekkti ég ekkert en bróðir minn ákvað að banka upp á hjá honum til að fá far yfir ána en við Jón nenntum ekki að bíða eftir því og sulluðumst á sokkaleistunum yfir ána og er mér minnisstætt hvað hún var köld. Við undum svo leistana eftir mætti og fórum í stígvélin aftur og svo kom Hátúnabóndinn með Kjartan á traktor skömmu síðar.

Handan árinnar, í bænum Geitdal, þar sem við þekktum vel til, var okkur tekið með kostum og kynjum, heitu kaffi, smurbrauði og komið í rúmið en áður höfðum við látið vita af okkur símleiðis til fólksins í Eyjum sem var orðið hrætt um okkur. Síðdegis fengum við svo jeppaeiganda í Skriðdalnum til að aka okkur inn að Ódáðavötnum þar sem bíllinn beið okkar í þokunni en henni létti víst ekki í viku.

Mér telst svo til að við höfum gengið um 30 km í þessari ferð sem tók um 18 klukkustundir samtals. Lítt fann ég til svengdar enda hef ég alla tíð verið matgrannur. Ég fann heldur aldrei til kulda enda var veður milt og kyrrt allan tímann. Hefði hins vegar farið að rigna eða komið slydda er óvíst hvernig farið hefði og eins ef við hefðum ekki rekist á þennan tjarnarpoll með læknum sem leiddi okkur til byggða.

Ég lærði þarna auðvitað þá lexíu fyrir lífstíð að fara aldrei neitt án áttavita, vona það bezta en vera viðbúinn því versta. Seinna á ævinni gerðist ég talsverður fjallgöngu- og útivistarmaður; hef oft lent í svartaþoku og einu sinni í blindbyl án þess að villast nokkurn tíma.