Skip to main content

.

 

Eiðaskóli verður Óperuhús

Ragnhildur Rós IndriðadóttirRagnhildur Rós Indriðadóttir

Árið 1996 var í fyrsta sinn ráðinn söngkennari að Tónlistarskólanum á Egilsstöðum. Höfðu áhugamenn um sönglist barist fyrir því í nokkurn tíma. Til starfans réðst eldhuginn Keith Reed og kom beint úr óperuheiminum í Þýskalandi þar sem hann hafði starfað við óperuhús í nokkur ár. Það er skemst að segja frá því að þau átta ár sem hann starfaði við skólann stóð sönglíf með miklum blóma á Héraði. Hér á eftir mun ég gera grein fyrir óperusýningum á Eiðum undir hans stjórn.

Sviðsmynd úr Töfraflautunni. Tamínó (Þorbjörn Rúnarsson) og andarnir þrír (f.h. Erla Dóra Vogler, Fanney Vigfúsdóttir og Jóhann Axel Schram Reed). Ljósm. ók.

Sviðsmynd úr Töfraflautunni. Tamínó (Þorbjörn Rúnarsson) og andarnir þrír (f.h. Erla Dóra Vogler, Fanney Vigfúsdóttir og Jóhann Axel Schram Reed). Ljósm. ók.

„Það væri hægt að setja upp óperu með bara lök og tvö píanó en mig langar ekki til að gera það þannig“. Þessi orð eru höfð eftir Keith í vikublaðinu Austra 22. Október 1998. Þann 10. október hafði verið haldinn stofnfundur Óperustúdíós Austurlands á Reyðarfirði. Þar komu saman 30 manns úr fjórðungnum sem höfðu áhuga á að hjálpa Keith til þess að flytja óperu. Kosin var stjórn og reynt að hafa fulltrúa frá sem flestum byggðalögum. Það reyndist þungt í framkvæmd og því var skipað framkvæmdaráð sem í voru Jóhannes Pálsson og Elísabet Benediktsdóttir frá Reyðarfirði, Sigurður Jónsson af Seyðisfirði, Keith, eiginkona hans, Ásta B. Schram og Kristján B. Þórarinsson af Héraði. Þetta fólk tók til óspilltra málanna við það ásamt viljugum sjálfboðaliðum að setja Töfraflautuna eftir Mozart á svið. Hugmynd Keiths með Óperustúdíóinu var að gefa lengra komnum söngnemendum tækifæri til að spreyta sig á ögrandi verkefnum á heimaslóðum og læra af sér reyndari söngvurum.

Bjartar nætur í júní

Ekkert var fast í hendi með húsnæði fyrir óperuflutning og einn salur ekki nægur. Það þurfti að hýsa hljóðfæraleikara og söngvara, hafa nóg pláss til æfinga, matsal, eldunaraðstöðu..... Leitað var að heppilegu húsnæði um allt Austurland. Fljótlega varð ljóst að Eiðar hentuðu vel og leyfi fékkst hjá menntamálaráðuneytinu að nýta húsin þar. Og svo var smíðað, sagað, skúrað, sungið, spilað, sminkað, málað, eldað. Staðurinn iðaði af lífi í margar vikur á vorin og Alþýðuskólanum á Eiðum var breytt í óperuhús. Efnt var til listahátíðar sem kölluð var Bjartar nætur í júní. Fyrir utan óperurnar var oft flutt eitt stórt kórverk og skipulagðir minni tónleikar hljóðfæraleikara og söngvara á ýmsum stöðum í fjórðungnum.

Ekki var látið staðar numið við Töfraflautuna og næstu fjögur árin voru jafnmargar óperur settar upp á Eiðum. Keith var listrænn stjórnandi, leikstjóri, hljómsveitarstjóri, söngþjálfari, undirleikari, kokkur... Ásta sýningarstjóri og framkvæmdarstjóri og “alltmúligmaður”.... og stjórnin og sjálfboðaliðar stóð í ströngu. Björn Kristleifsson varð fljótt einn af lykilmönnunum. Hann tengdist óperustúdíóinu þannig að sonur hans var í söngnámi hjá Keith. Björn hafði reynslu af leikmyndagerð frá íslenska sjónvarpinu og hann skipulagði salinn og sviðið.

Skóli verður óperuhús

Hátíðasalur Eiðaskóla er í tengibyggingu á milli heimavistarálmu og kennsluálmu. Í vesturendanum er leiksvið af “skókassagerð” með kjallara undir, en salurinn var lokaður á báðum hæðum frá kennsluálmunni með þunnu skilrúmi. Suðurhliðin er einn stór gluggi.

Töfraflautan var færð upp í leiksviðinu og hljómsveitin var á gólfinu fyrir framan. Smíðaður var utan um hana hálfhringur um meter á breidd. Á sviðinu var byggð hallandi upphækkun og opnað niður í kjallarann. Þar var líka eins fermeters búr fyrir sýningarstjórann. Umgjörðin nýttist ágætlega og hljómsveitarhringurinn var skemmtilega notaður í uppfærslunni. Stóri glugginn var byrgður með plötum og ljósameistarinn staðsettur bak við handrið á kennslugangi á 2. hæð.

Gunnsteinn  Ólafsson var hljómsveitarstjóri í Don Giovanni. Hér er hann að störfum í hljómsveitar- gryfjunni.

Gunnsteinn Ólafsson var hljómsveitarstjóri í Don Giovanni. Hér er hann að störfum í hljómsveitar- gryfjunni.

Ljóst var frá upphafi að huga þyrfti að loftræsingu, salurinn rúmaði um 180 manns og var þéttsetinn fólki í fjóra tíma á hverri sýningu. Hiti og súrefnisskortur var fyrirsjáanlegt vandamál. Þetta var leyst með því að hurðin inn í bókasafnið á 2. hæð var tekin af lömum og plata með gati og áföstum meðalstórum loftblásara sett í staðinn. Glugginn á bókasafninu var hafður opinn sem og hurðin inn í kjallarann, allt annað lokað. Þegar mótorinn var látinn ganga dældi hann heita loftinu upp og út og dró í staðinn loft að utan inn í kjallarann og þaðan inn í salinn undan leiksviðinu. Gallinn var sá að stelpunum í “proppsinu” og tæknibrellunum undir sviðinu og hljóðfæraleikurunum í öftustu röð varð svo kalt af gegnumtrekknum að hurðinni var alltaf lokað fljótlega, aðrir gluggar voru opnaðir og eftir það erfiðaði mótorinn til einskis og fólkið í salnum svitnaði. Loftræstingin var því endurhönnuð árið eftir. Saumaður var 20 metra langur loftstokkur úr svörtu efni sem hlykkjaðist upp í þak í miðjum salnum. Hann var tengdur við blásarann góða, sem nú var kominn í útihurð bakatil og dældi hvíldarlaust inn í salinn fersku útilofti, algjörlega hljóðlaust.

Tilhögunin í salnum var ágæt, en ekki nógu góð, þröngt var um hljómsveit og stjórnanda. Veturinn eftir teiknaði Björn stækkun á kjallaranum sem hljómsveitargryfju en framkvæmdin reyndist of dýr. Þá kviknaði sú hugmynd að snúa salnum um 180 gráður sem reyndist á endanum betri kostur.

Í ársbyrjun 2000 var Leikfélag Fljótsdalshéraðs með sýningar í salnum og þá var sviðið framlengt út í salinn með timburgólfi. Þessi framlenging var styrkt og notuð áfram, skilrúm við kennsluganga rifin niður og byggt nýtt svið þeim megin, undir því og ganginum á 2. hæð varð til rúmgóð hljómsveitargryfja og nóg pláss fyrir hljómsveitarstjórann og sýningarstjórann. Svalir voru byggðar fyrir ljósameistarann í gagnstæðum enda og seinna aðrar fyrir textameistara. Gamla skókassasviðið var orðið að áhorfendasvæði. Salargólfið var síðan hækkað með síldartunnum og spónaplötur lagðar yfir. Í staðinn fyrir að grafa niður hljómsveitargryfju var gólfið undir áhorfendum hækkað. Árið eftir var timburgólf leikfélagsins farið og upphækkunin á salnum öll úr síldartunnum, flutningabíll með kerru og háfermi kom frá Reyðarfirði í boði Vilbergs Hjaltasonar. Fyrst í stað voru spónaplöturnar í gólfið fengnar að láni hjá Trésmiðju Fljótsdalshéraðs en fljótlega var farið að safna umbúðaplötum frá Miðási sem nýttust í gólfin og allt flutt á jeppakerru. Alltaf var gengið frá húsinu eins og tekið var við því.

Seinustu tvær óperurnar voru líka settar upp í Borgarleikhúsinu í Reykjavík og þá þurfti leikmyndin að vera þannig úr garði gjörð að hægt væri að nota hana þar á miklu stærra sviði og auðvelt að taka hana upp og flytja. Það var gert strax að lokinni síðustu sýningu á Eiðum og hún keyrð til Reykjavíkur um nóttina og sett upp daginn eftir í Borgarleikhúsinu. Margir komu að þessari vinnu en í lokin var það orðinn fastur kjarni og vann skipulega. Vinnan hófst strax eftir páska og sýningarnar voru í byrjun júní.

Textavél með íslenskum texta var á öllum sýningum nema Töfraflautunni sem sungin var á íslensku. Hinar fjórar óperurnar voru sungnar á ítölsku og þá var íslenska textanum varpað upp á vegginn fyrir ofan sviðið. Í einhverjum tilfellum var til íslenskur texti en þess má geta að Þorbjörn Rúnarsson þýddi Brúðkaup Fígarós við góðan orðstýr.

Listamenn á heimavist

Söngvarar og hljóðfæraleikarar bjuggu á heimavistinni og sumir komu með fjölskylduna með sér. Söngnemendur Keiths fengu flestir tækifæri í óperunum en voru hvergi nærri nógu margir til þess að manna heila óperu. Alltaf komu einhverjir söngvarar að, margir með mikla reynslu. Má þar nefna Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Ólaf Kjartan Sigurðarson sem sungu lykilhlutverk í Brúðkaupi Fígarós, Jóhann Smára Sævarsson sem söng Sarastro í Töfraflautunni, Hallveigu Rúnarsdóttur í Cosi fan tutti, Mörtu Halldórsdóttur í Don Giovanni og Kristínu Ragnhildi Sigurðardóttir sem tók þátt í a.m.k. þremur uppfærslum. Það var mjög lærdómsríkt að vinna með þeim fyrir þá sem styttra voru komnir. Það var stefna Keiths frá upphafi að hafa tvö sett í hverri uppfærslu, þannig að hvert sett söng tvær sýningar. Þetta taldi hann vera öruggara ef til forfalla kæmi. Þannig voru í raun tvær sviðsetningar í hvert sinn því auðvitað setja söngvarar sinn svip á hlutverkið og engar tvær raddir eru eins. Það heimafólk sem var í burðarhlutverkum í þeim flestum eru Þorbjörn Rúnarsson, Þorbjörn Björnsson, Þorsteinn Helgi Árbjörnsson, Herbjörn Þórðarson, Margrét Lára Þórarinsdóttir, Erla Dóra Vogler og Xu Wen. Þorbjörn Björnsson, Þorsteinn Helgi, Herbjörn og Erla Dóra héldu öll til framhaldsnáms og starfa erlendis við söng.

Úr Brúðkaupi Fígarós. Súsanna (Xu Wen) og Fígaró (Herbjörn Þórðarson) í giftingarhug- leiðingum. Keith lagði áherslu á að hafa börn með í öllum óperunum.

Úr Brúðkaupi Fígarós. Súsanna (Xu Wen) og Fígaró (Herbjörn Þórðarson) í giftingarhug- leiðingum. Keith lagði áherslu á að hafa börn með í öllum óperunum.

Alltaf var notuð fullskipuð hljómsveit með 30 til 40 hljóðfæraleikurum. Þeir komu margir langt að, sumir tóku þátt í flestum uppfærlsunum en aðrir komu aðeins einu sinni. Margir þeirra voru barnungir nemendur. Einnig þeir nutu leiðsangar sér eldri og reyndari hljóðfæraleika. Má þar nefna Stefán Ragnar Höskuldsson og Jón Guðmundsson flautuleikara, Pál Barna Szabó fagottleikara, Ara Þór Vilhjálmsson fiðluleikara. Mörg ungu andlitin frá Eiðum má nú sjá spilandi á tónleikum Symfóníuhljómsveitar Íslands.

Matur er mannsins megin

Það þurfti að sjá til þess að allir fengju að borða. Söngvararnir komu fyrstir á staðinn og elduðu þá sjálfir til skiptis fyrir 15-20 manns. Eftir að hljómsveitarmeðlimir, kór og allt aðstoðarfólk bættist við voru þetta 60-80 manns. Fæðið byggðist á góðum morgunmat. Einu sinni á tímabilinu sá Keith um amerískan morgunverð. Upp úr hádegi gat fólk keypt sér samloku o.fl. í sjoppu, sem Óperustúdíóið rak. Heitur matur var yfirleitt á milli klukkan 17 og 18. Hann var þó hafður í hádeginu ef sýningar eða tónleikar voru seinnipart dags. Síðan var vel útilátin kvöldhressing eftir æfingar og sýningar. Stefanía Steinþórsdóttir stóð fyrir mötuneytinu árið 1999 en Jóhanna Illugadóttir 2000. Þá voru ýmsir fengnir til að matbúa eina eða tvær máltíðir og fengu frímiða á sýningu í staðinn. Erla Salómonsdóttir lyfjafræðingur á Egilsstöðum tók mötuneytið að sér 2001-2003. Sonur hennar spilaði á klarinett í hljómsveitinni árið 2001. Hún útbjó matseðla og skipulagði, þannig að alltaf var einhver úr stjórninni eða annar sjálfboðaliði með henni við eldamennskuna en einhverjir úr hópi flytjenda sáu um uppþvottinn. Útsjónarsemi og skipulagningu þurfti við öll innkaup. Margir voru mjög liðlegir að veita góðan afslátt af vöruúttekt og ófáir gáfu hreinlega mat. Tveir velunnarar réru til fiskjar og komu með fisk í soðið. Seinustu 2 árin var fengin kona til að aðstoða við bakstur og selt kaffi og kökur í hléi á sýningum. Mötuneytið var rekið með ótrúlega litlum tilkostnaði. Margt af þessu listafólki var ungt fólk, einkum í hljómsveit og kór, og vakti það sérstaka athygli Erlu hversu kurteis og þakklát þau voru og mörgum þeirra fannst mjög merkilegt, að hún, lyfjafræðingurinn, væri að matreiða handa þeim.

Ólafur Valgeirsson kom alltaf frá Vopnafirði til þess að syngja í kórnum. Hann og kona hans Jóna Benedikta Júlíusdóttir urðu nokkurskonar staðarhaldarar því mikið starf lá í að fylgjast með húsnæðinu, salernisaðstöðu og þrifum. Sigurborg Sigurðardóttir á Egilsstöðum var líka innan handar með það.

Litið til baka

Hér hefur verið reynt að bregða upp mynd af því hvernig Óperustúdíó Austurlands nýtti Eiðastað. Sagan um Óperustúdíóið er miklu umfangsmeiri og efni í aðra grein og talsvert stærri, ef ætti að gera henni skil og öllum þeim sem þar lögðu hönd á plóg. Óperustúdíó Austurlands var stórkostlegt ævintýri. Daníel Friðjónsson sem nú kennir á klarínett í Mosfellsbæ spilaði fjórum sinnum í hljómsveitinni. Hann minnist þessa tíma á eftirfarandi hátt og talar líklega fyrir munn flestra sem voru þátttakendur í ævintýrinu.

“....í hönd fóru einhverjar ánægjulegustu tvær vikur lífs míns þó að á köflum væri þetta mjög erfitt og krefjandi. Æfingatími er mjög stuttur og því þurfa hlutirnir að gerast hratt. Það þýðir margar og langar æfingar á stuttum tíma, allt upp í 7 tíma á dag. Mikið líkamlegt álag fyrir hljóðfæraleikarana og ég man eftir tilfellum þar sem menn voru hreinlega hættir að geta spilað almennilega vegna vöðvabólgu. Ég held að á einhverjum tímapunkti í hvert einasta skipti sem ég hef verið með hafi ég hugsað með mér að þetta ætti aldrei eftir að smella saman í tíma. Það er þó fljótt að gleymast þegar hlutirnir fara að ganga vel. Þá tvíeflast menn og fara jafnvel vel fram úr sjálfum sér hvað varðar þreytumörk.(...) Það hefur hjálpað mikið til að hljóðfæraleikararnir þekkjast vel innbyrðis og því hefur yfirleitt verið mjög góður andi í hópnum, þar sem menn bakka hver annan upp. (...) Það hefur sína kosti og galla hversu breitt aldursbil tónlistarfólksins er. Kynslóðabilið er varla til og allir eru jafningjar. Hins vegar býður það einnig upp á vandamál eins og koma upp í öllum fjölskyldum. Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Menn hafa tekist á um ýmis mál og alls ekki verið sammála um allt. Þó held ég að það hafi aðeins einu sinni soðið upp úr svo ég muni. (...) Það er ótrúlegt hvað Óperustúdíóið hefur náð að koma sér vel á kortið og hversu margir virðast kannast við starfsemi þess, a.m.k. innan tónlistargeirans. Óperustúdíóið hefur brotið blað í menningarsögu allrar landsbyggðarinnar....Það er búið að vera svo gaman að sjá fyrirbærið stækka og sjá söngvarana, sérstaklega heimamenn, taka stórstígum framförum á milli ára. Ef Óperustúdíóið hyrfi af sjónarsviðinu væri farinn einn af fáum möguleikum sem ungt tónlistarfólk hefur til að taka þátt í stóru og metnaðarfullu tónlistarstarfi sem gefur þeim mikla reynslu og ánægju.

Óperustúdíóið hvarf af sjónarsviðinu, söngnemendur héldu á brott til frekara náms og Keith og Ásta fluttu til Reykjavíkur. Starfið hafði tekið toll af tiltölulega fáum og verkefnið var dýrt þó sæmilega hafi gengið að fá styrki. Mestu munaði þar um styrk frá Menningarráði Austurlands sem var mjög myndarlegur hin seinni ár og reyndar styrktu bæði sveitarfélögin og fyrirtæki í fjórðungnum af myndarskap. Þá má ekki gleyma styrktarmeðlimum.

Vorið 2004 voru í stjórninni Ragnhildur Indriðadóttir, Halla Eiríksdóttir, Karen Erla Erlingsdóttir, Anna María Pitt og Sigurður Jónsson. Ákveðið var að setja ekki upp óperu á Eiðum það árið en í samstarfi við íslensku Óperuna var óperan Carmen flutt á Eskifirði. Einnig var boðað til málþings á Héraði um framtíð og möguleika Óperustúdíósins. Mikið var horft til samstarfs við útlönd en af því varð þó ekki. Þeir sem þátt tóku í ævintýrinu búa að reynslunni og aðrir hafa tekið við keflinu því nú eru settar upp óperur í Skagarfirði.

Björn Kristleifsson, Erla Salomónsdóttir og Daníel Friðjónsson fá kærar þakkir fyrir framlag sitt til þessarar greinar.

Óperuflutningur á Eiðum:

1999 Töfraflautan eftir Mozart, fjórar sýningar
2000 Rakarinn frá Sevilla eftir Rossini, fjórar sýningar
2001 Brúðkaup Fígarós eftir Mozart, sex sýningar
2002 Cosi van tutti eftir Mozart, fjórar sýningar á Eiðum, tvær í Borgarleikhúsinu, Reykjavík
2003 Don Giovanni eftir Mozart, fjórar sýningar á Eiðum, tvær í Borgarleikhúsinu, Reykjavík