Skip to main content

.

 

Minningar frá Eiðadvöl 1949-50

Helgi SeljanHelgi Seljan

Þegar ég fór í Eiða kveið ég virkilega fyrir, svo mikill heimalningur sem ég var, en það gladdi hugann að ég skyldi eiga að vera í herbergi með Þorsteini Kristinssyni, honum Steina Kristins, sem var mér að góðu kunnur úr skólanum heima. Herbergið okkar hét Arabía og var á annarri hæð gamla skólahússins. Ekki var nú rýmið mikið en það reyndist okkur Steina kappnóg, verst þó að borð var bara eitt, en allt bjargaðist það með afar góðu samkomulagi okkar Steina, svo góðu raunar, að ég minnist þess ekki að okkur yrði nokkurn tímann alvarlega sundurorða allan veturinn. Steini hafði ungur misst móður sína úr krabbameini og ég fann glöggt að hann saknaði hennar mjög, en hafði greinilega fullorðnast meira en þá var títt, var raunar tveim árum eldri en ég og anzi mikið eldri í raun réttri.

Ómetanlegt var það fyrir mig að fá svo góðan félaga til að deila með herbergi og þola með súrt og sætt, ef svo mátti að orði komast. Hann Þorsteinn minn er nýlátinn þegar þessar línur eru blaðfestar [2000]. Í næsta herbergi var góðvinur minn að heiman, Egill Guðlaugsson, og ævinlega jafngott til hans að leita, og með honum í herbergi Vilhjálmur Einarsson, síðar silfurdrengur í Melbourne, og reyndist einnig góður félagi.

Ég var því lánsamur í bezta falli og undarlega vel gekk mér að kynnast samnemendum mínum annars staðar frá, en frá Reyðarfirði þekkti ég langbezt bernskuleiksystur mína, Ernu Hafdísi Berg, en hún Haddy mín er farin yfir móðuna miklu fyrir margt löngu, eftir langa og erfiða baráttu við MS-sjúkdóminn, blessuð sé hennar hugljúfa minning.

Helztu félagar mínir á Eiðum urðu hins vegar þrír: Tómas Símonarson frá Neskaupstað, Kristján Gissurarson á Eiðum og Sigurður Magnússon frá Hauksstöðum á Jökuldal. Við Tómas urðum miklir trúnaðarvinir og gengum gjarnan saman í útivistartímum, þar sem Tómas sagði mér m.a. frá ástarævintýrum sínum og dáðist ég mjög að afrekum hans í þessum efnum og öfundaði auðvitað um leið.

Kristján kvaðst mjög á sama báti og ég í kvennamálum, en hans áhugi var á tónlistarsviðinu, og þótti mér hann snillingur mikill á því sviði. Við náðum afar vel saman og tónlistin hefur verið hans trúa fylgikona gegnum tíðina. Trúlega höfum við Sigurður minn þó náð bezt saman, en hann var alltaf nefndur Haukur á Eiðum, til aðgreiningar frá öðrum Sigurði Magnússyni, sem var frá Breiðavaði og því nefndur Breiði. Hafa þessi nöfn loðað undarlega við þá nafna, a.m.k. hjá gömlu Eiðafólki, en Siggi breiði er nú látinn. Við Sigurður Haukur vorum báðir sveitamenn og höfðum yndi af fé, báðir nokkrir kappsmenn í námi og raunar keppinautar um fyrsta sætið á landsprófi, en fyrst og fremst áttum við ágæta lund saman, Sigurður að vísu fjórum árum eldri og um svo margt þroskaður maður, skemmtilega kíminn og kunni þá þegar þá list að segja öðrum mönnum betur frá. Það var því oft glatt á hjalla hjá okkur þrem, Kristjáni, Sigurði og mér á síðkvöldum, en æ oftar var það að við þrír héldum hópinn.

Mesta afrek okkar, fyrir utan danskennsluna, sem síðar verður að vikið, var þó þegar við vorum þrír valdir í skemmtinefnd fyrir kvöldvöku, og ekki spillti það að hún Sella, Sigrún Haraldsdóttir frá Seyðisfirði, var með í hópnum, en af henni var ég afar hrifinn, svo áberandi að á allra vitorði var. Við lékum m.a. stutt leikrit sem sá mikli öndvegiskennari Ármann Halldórsson hafði búið til leiks eftir sögu Jóns Trausta, og þótti bara takast bærilega til; ég lék prest og greip til þess að herma eftir séra Jóni Auðuns og gekk bara ágætlega að annarra dómi, en ég raunar aldrei verið mikil eftirherma.

Mitt helzta haldreipi á þessum vetri til að nálgast fríðara kynið voru dansæfingar í skólanum, en gallinn aðeins einn, en hann var líka anzi stór, ég kunni bara ekkert að dansa, og þegar ég nú alltof sjaldan þorði að bjóða stúlku upp, þá enduðu þær fótafimiæfingar oftast nær með ósköpum og algjört öfugmæli að nefna fótafimi í þessu sambandi.

En okkur Kristjáni, vini mínum Gissurarsyni, heimamanni á Eiðum þar sem faðir hans var kennari (sá ljómandi maður Gissur Ó. Erlingsson) kom saman um að biðja Þórarin skólastjóra að halda danskennslu, sem hann tók ljúflega, en sagði að við skyldum þá sjá um alla framkvæmd, og m.a. útvega þátttakendur af báðum kynjum. Ekki var það þrautalaust, strákarnir þóttust færir í flestan sjó eða þeir kváðust ekkert kæra sig um slíkt spríkl, og ekki var betra uppi á teningnum hjá stelpunum, nema viðbrögð þeirra einkenndust mjög af kvenlegri hógværð, þær sögðust sumsé ekki kunna að dansa og enn síður kunna að kenna dans. Varð víða af þessu hin mesta sneypuför fyrir okkur félaga, en þó voru þessar dansæfingar alls þrisvar, að mig minnir, og einhver spor lærðum við nú þarna þessir fáu strákar sem þarna mættu, en stúlkurnar voru þó eitthvað fleiri. Af þessu tilefni orti ég brag og er þetta fyrsta vísan:

Kristján heitir annar en Seljan heitir hinn,
þeir heldur þykja kvensamir manngreyin.
Dag eftir dag upp á kvennahæð dólast,
dýfa haus í bleyti og hægt um þar rólast.

Fljótlega eftir að allir nemendur höfðu skilað sér fór fram málfundur undir stjórn kennara og fyrsta viðfangsefnið átti að vera um átthagana, þ.e. hver og einn frummælenda átti að mæra kosti síns staðar. Reyðfirðingarnir völdu mig og ekki vantaði mig gorgeirinn fyrir hönd minnar heimabyggðar og það gladdi mig ósegjanlega þegar Ármann kennari kvað mig hafa staðið mig hvað bezt af mörgum ágætum, en þó hefði ég ekki þurft að fara svo óvirðulegum orðum um næsta stað, það hefði verið stærsti mínusinn.

Ég mun hafa notað gamla orðræðu milli okkar Marteins vinar míns Elíassonar, sem einu sinni heima í Seljateigi spurði mig alveg óvænt hvert Eskfirðingar færu eftir dauðann, og ég svaraði af mestu einlægni að þeir færu auðvitað til guðs. Þá hafði Marteinn sagt, sigri hrósandi: „Ónei, ekki aldeilis, þeir fara til Reyðarfjarðar.“ En þannig var að kirkjugarður Eskfirðinga þá var í landi Reyðarfjarðar. Þetta þótti Ármanni að vísu það sniðugt að hann hló að, sem og salurinn allur, að undanskildum Eskfirðingum, en samt þótti honum þetta fulllangt gengið, eða lét svo, Eskfirðingum til mikillar ánægju. (H. S., 2000)


Helgi Seljan Friðriksson er fæddur á Eskifirði, 15. jan. 1934, og alinn upp hjá fósturforeldrum í Seljateigi, Reyðarfirði. Hann stundaði kennslu og skólastjórn um árabil, lengst af á Reyðarfirði, og var jafnframt með búskap í Seljateigi. Hann var alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið um 16 ára skeið, síðar félagsmálafulltrúi og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins. Helgi er fyrir löngu orðinn landskunnur fyrir skrif sín um þjóðfélagsmál og þá ekki síst í þágu þeirra sem minnst mega sín. Hann er líka vel þekktur fyrir kveðskap sinn, og 2005 kom út ljóðabók eftir hann hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi, sem nefnist Í hélu haustsins.