Skip to main content

.

 

Sögustofa á Eiðum

merkiSamtök Eiðavina hafa allt frá stofnun 1998 haft á stefnuskrá sinni að kynna sögu staðarins og við endurskoðun félagslaga 2002 var skerpt á því hlutverki með því að bæta eftirfarandi ákvæði við markmið samtakanna: Að stuðla að uppbyggingu sögustofu á Eiðum þar sem rakin yrði saga skólahalds á staðnum. Á aðalfundi 2. júní 2007 var hugmynd um sögustofu kynnt og samþykkt eftirfarandi tillaga: Aðalfundur Eiðavina felur stjórn samtakanna að hefja nú þegar undirbúning að stofnsetja sögustofu á Eiðum. Leitað verði eftir hentugri staðsetningu í byggingum staðarins hjá húseiganda og samstarfi við Minjasafn Austurlands um faglega aðstoð og framtíðarskipan.

Húsnæði: Fundarmenn voru sammála um að æskilegasta húsnæði fyrir sögustofuna væri í norðurenda gamla skólahússins frá 1908/1926. Þessi hluti hússins varð fyrir litlum skemmdum þegar skólahúsið brann 1960, og stendur enn lítið breyttur.

Um er að ræða tvær samliggjandi skólastofur á neðri hæð, fyrrum nefndar Yngri- og Eldri deild. Sérstök innganga er í þennan húshluta um hinar gömlu útidyr skólans og tröppur. Óskinni var komið á framfæri við Sigurjón Sighvatsson, sem heimilaði Eiðavinum afnot af umræddum stofum. Var gengið frá samningi þess efnis vorið 2008. Samtökin þurfa aðeins að greiða fyrir ljós og hita.

Sama ár var undirbúningur hafinn við að standsetja húsnæðið. Árið 2009 var innréttingum breytt, húsnæðið málað, o.fl. Málningaþjónusta Jóns og Þórarins, Orri Hrafnkelsson, Óskar Björgvinsson og Þórhallur Eyjólfsson, stóðu aðallega að því verki. Þórarinn Þórarinsson frá Eiðum, teiknaði skipulag stofunnar, og síðar kom Björn Kristleifsson að þeirri vinnu. Allir hafa þessir menn lagt fram vinnu sína án endurgjalds. Þegar þetta er ritað er smíði og uppsetning sýningarborða langt komin.

Flestir minjagripir, bækur og myndir, voru teknir úr skólahúsinu um aldamótin 2000 og færðir opinberum stofnunum á Egilsstöðum, þ.e. Menntaskólanum, Minjasafni Austurlands og Héraðsskjalasafni Austfirðinga til varðveislu eða eignar, þó varla hafi verið formlega frá því gengið. Aðeins fáeinir þessara gripa og mynda eru til sýnis, en langflestir í geymslum. Í M.E. og á skrifstofum Fljótsdalshéraðs eru nokkur málverk úr Eiðaskóla á veggjum.

Núverandi safnstjórar telja lítil tormerki á því að lána minjagripi og myndir til fyrirhugaðrar sögustofu, ef varðveisla þeirra og öryggi yrði tryggt. Talsvert af bókum, tækjum og húsgögnum er enn geymt á Eiðum og geta samtökin fengið það sem þau óska af því fyrir sögustofuna. Ennfremur verður leitast við að safna gripum, myndum o.fl. úr eigu nemenda og kennara frá dvöl þeirra í skólanum.

Rekstur sögustofu á Eiðum má hugsa sér í ýmsu formi, og hlýtur að taka mið af annari starfsemi í húsakynnum Eiðaskóla, sem enn er í deiglunni. Ekki verður annað séð en sögustofan samræmist vel því markmiði sem eigendur hafa sett sér – og skuldbundið sig til í kaupsamningi: að viðhalda Eiðum sem menningar- og menntasetri. Einnig ætti hún að laða Eiðamenn og annað ferðafólk að staðnum og auka arðsemi hótelreksturs þar. Sögustofan þyrfti að vera opin almenningi flesta daga yfir sumarið, en annars vikulega.

Stofnkostnaður sögustofu getur orðið nokkrar milljónir króna, jafnvel þótt mikill hluti verði lagður fram í sjálfboðavinnu. Helst þyrfti að ráða mann til að hanna og setja upp sýninguna, og gera verður ráð fyrir nokkrum rekstrarkostnaði.

Treglega hefur gengið að afla styrkja til þessa verkefnis, þótt ýmislegt hafi verið reynt.

Áætlað er að leita eftir framlögum frá þeim ca. 2500 Eiðamönnum sem enn eru ofan moldar, en þeir hafa nú allir verið skráðir félagar í Samtökum Eiðavina. Virkir félagar eru þó aðeins þeir sem greiða félagsgjaldið, kr. 1000. Bókin Alþýðuskólinn á Eiðum eftir Ármann Halldórsson er til sölu á hagstæðu verði hjá formanni, svo og póstkort með myndum af Eiðum.

Sögustofan var stofnuð fyrst og fremst í þágu Eiðamanna og hlýtur að standa eða falla með áhuga þeirra. Því er hérmeð skorað á alla fyrrum nemendur og annað starfsfólk Alþýðuskólans á Eiðum að láta einhverja peningaupphæð af hendi rakna til umrædds verkefnis, eftir efnum og ástæðum hvers og eins. Samtökin hafa stofnað reikning á nafni Eiðavina í Íslandsbanka á Egilsstöðum, nr. 0568-26-001030 (Kt. 560698-3569), sem hægt er að leggja inn á. Undirritaðir stjórnarmenn veita nánari upplýsingar.

Eg., 20. apríl 2010

Stjórn Samtaka Eiðavina:
Ólafía Herborg Jóhannsdóttir, Fellabæ (form.) (Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.)
Orri Hrafnkelsson, Fellabæ (ritari)
Jóhann Grétar Einarsson, Seyðisfirði (gjaldkeri)
Oddný Vala Kjartansdóttir, Reykjavík.