Skip to main content

.

 

Um kápumyndina

Glettingur

Um kápumyndina

Loftmynd tekin sunnan undir Glettinganesi með sýn til norðvesturs. Fjallið Glettingur er í forgrunni með skyggð klettaflug í austurhlíðum. Glettinganesið með vitanum blasir við í skini haustsólar, undir snarbröttum hlíðum fjallsins. Á þessum afskekkta og óaðgengilega stað var síðast búið árið 1952. Norðan við nesið er Hvalvík og yfir henni Dagmálafjall, þá Brúnavík og fjöllin austan Borgarfjarðar: Stekkhvammsfell (yst), Búrfell, Gránípa og Geitfell. Norðan þeirra sést ysti hluti Borgarfjarðar og bærinn Snotrunes, undir Nesfjalli, þá Njarðvík og fjöllin norðan hennar. Handan þeirra sér á Héraðsflóa og Héraðssand, Kollumúla og ysta hluta Hlíðarfjalla. Lengst í fjarska sér til Langaness þar sem Gunnólfsvíkurfjall ber við himin.

Skarphéðinn G. Þórisson tók myndina 11. október 2003.

Ármann Halldórsson ritaði um Gletting og Glettinganes

Glettingur er tröllslegt heiti, enda úfið og grett brotasár fjallsins, er að hafinu snýr. Sigfús [Sigfússon] telur þó, sem hans er von og vísa, nafnið runnið frá „glettingum láðs- og lagarvætta", en eigi svip landsins og legu á mjórri rein milli ógnandi hamrafluga og úthafs. Skessa fjallsins er Gletta, móðir Gellivarar í Staðarfjalli og Gríðar í Breiðuvík. (S. S. IV, 251).

Nesið skagar fram í opið haf framundan fjallinu, lágt, fremur jarðgrunnt. Sums staðar er það harðlent, en annars staðar með bleytudrögum, urðarjaðrar vel grónir liggja upp hlíðar. Það er varla fram úr 500 m, þar sem lengst er milli fjalls og fjöru, en upp undir 1 km á breiddina frá suðri til norðurs. Það liggur áveðra og óvarið fyrir hafátt, blágrýtisklappir í sjó fram með gjögrum og snösum, m. a. skerst bergskora með ólgandi sjó gegnum tanga skammt niður af vitanum og utan við hana djúp gauð inn í klappir, kölluð Gusa. Þar eru brimgos og skáhöll súlan, sem stendur úr gatinu.

Illfært er með lausahesta yfir Fláa upp af Hvalvík og niður á nesið um Gjána. Sú leið var farin, þegar heyjað var á Hvalvík frá G[lettinganesi], heyið borið. Gjá og Fláar eru hættusvæði í vetraráfreðum, og var því settur vír til handstyrkingar um versta kaflann á leiðinni eftir 1930. Til Borgarfjarðar er um tveggja og hálfrar stundar gangur.

Sveitir og jarðir í Múlaþingi, 2. bindi, bls. 424-425.