Skip to main content

.

 

Ólst upp í Húsmæðraskólanum

Loftmynd tekin til suðvesturs yfir efsta hluta Lagarfljóts með sýn til Fljótsdals og Snæfells. Austan Fljótsins sést Hallormsstaðaskógur og utan hans (nær á myndinni) barrskógur gróðursettur á sjöunda áratug síðustu aldar. Mjóanes fremst á myndinni til vinstri. Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.

Sigurður Blöndal, fyrrum skógræktarsjóri, í viðtali við Magnús Stefánsson

Fáir þekkja betur til íslenskra skóga og skógræktar en Sigurður Blöndal. Hann hlaut uppeldi í miðjum Hallormsstaðaskógi og eftir skógræktarnám í Noregi helgaði hann skóginum starfskrafta sína í fjórðung aldar. Eftir það lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hann gegndi starfi Skógræktarstjóra ríkisins í tólf ár. Að verkalokum reistu Sigurður og eiginkona hans, Guðrún Sigurðardóttir, sér bústað við Kvíaklett í Hallormsstaðaskógi. Þar njóta þau efri áranna í nábýli við skóginn sem hefur svo lengi verið tengdur lífi þeirra og starfi. Sigurður segir lesendum Glettings frá upphafi skógræktar í landinu, ræktunarstarfi á Hallormsstað og greinir í stuttu máli frá uppruna sínum og námi.

Sigurður Blöndal á heimavelli. Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.Ég er fæddur í Mjóanesi í Skógum árið 1924. Foreldrar mínir voru Sigrún Pálsdóttir og Benedikt Blöndal. Móðir mín útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík 1901 og sérhæfði sig í vefnaði, fór fyrst til Danmerkur á vefnaðarnámskeið árið 1905. Hún var svo á lýðháskólanum í Askov á Jótlandi 1911–1913. Fyrir utan venjulegt nám í skólanum lærði hún vefnað þar hjá góðum konum. Faðir minn brautskráðist frá Hvanneyri árið 1903, stundaði einnig nám í Askov og síðan við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn þaðan sem hann útskrifaðist sem landbúnaðarkandidat árið 1909. Þá kom hann heim og gerðist kennari við Búnaðarskólann á Eiðum og kenndi þar síðustu tíu ár skólans. Hann var svo ráðinn kennari við Alþýðuskólann þegar hann tók til starfa árið 1919 og móðir mín var ráðin stundakennari.

Árið 1924 flytja þau frá Eiðum í Mjóanes í Skógum en móðir mín átti þá jörð. Þar stofnuðu þau skóla og fyrsta veturinn komu nemendur úr yngri deildinni á Eiðum. Þau gátu ekki tekið nema átta nemendur vegna húsplássins. Síðan varð þetta hreinn stúlknaskóli. Fljótlega vaknaði áhugi hjá foreldrum mínum og ýmsum fleiri að stofna húsmæðraskóla fyrir Austurland og segja má að skóli foreldra minna hafi verið fyrsti vísir að slíkum skóla. Ákveðið var að hinn nýi skóli skyldi reistur á Hallormsstað. Húsið var byggt 1929–1930 og skólinn tók til starfa 1. nóvember haustið 1930. Aðstaðan var mjög frumstæð fyrst í stað og húsið langt frá því að vera fullbyggt þegar kennsla hófst. Mér er ákaflega minnisstætt að sandhaugur var á miðju gólfi í Höllinni fram eftir öllum vetri og það var ekki fyrr en í mars að lagt var í gólfið. Þá var haldin fyrsta árshátíð skólans, 14. mars. Þann dag var árshátíðin alltaf haldin í tíð móður minnar. Ástæða þess var sú að þann dag 1929 var skólanum valinn staður á Stekknum, sem kallaður var, frá Hallormsstaðabænum. Lengi vel töluðu þau á Hallormsstað um að fara upp á Stekk þegar farið var upp í skóla.

Loftmynd, tekin 16. október 2010 og sýnir hluta byggðarinnar á Hallormsstað. Hússtjórnarskólinn er lengst til vinstri og grunnskólinn, ásamt íþróttahúsi og hóteli hægra megin við miðja mynd. Gamli Hallormsstaðabærinn er í forgrunni, hvítur með dökku þaki. Ofan grasflatarinnar sést hús Guðrúnar og Sigurðar, með ljósu þaki. Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.Skógræktarnám í Noregi

Ég ólst upp í Húsmæðraskólanum þar sem heimili foreldra minna var. Ég held ég hafi aðeins verið þrjár vikur í barnaskóla á Hallormsstað, það var allt og sumt en ég tók próf utan skóla. Foreldrar mínir kenndu mér eitthvað og ég las námsbækurnar. Á útmánuðum árið 1940 fórum við Guðmundur Helgi Þórðarson, sveitungi minn frá Hvammi á Völlum, norður til Akureyrar til að taka próf upp í annan bekk MA. Það tókst nú allt vel og við sátum saman í Menntaskólanum á Akureyri til 1945. Ég var þá búinn að ákveða að fara í skógrækt. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri hafði þar milligöngu við Landbúnaðarháskólann í Noregi. Ég fékk að vita að ég þyrfti að hafa stúdentspróf og þyrfti að vera búinn að vinna tvö ár í skógi áður en ég kæmist inn í skólann og hafa lokið prófi frá eins árs skógskóla. Ég hafði unnið við búskap foreldra minna á æskuárunum og í sumarhléum frá námi en hafði ekkert unnið í skóginum á Hallormsstað.

Ég fór svo út til Noregs í ágúst 1946 og þá kom upp úr dúrnum að ég þurfti að tala við skógræktarstjórann norska til að fá inngöngu á almennan skógskóla sem var eiginlega undirbúningur undir háskólann. Hann útvegaði mér vinnu vestur á Rogalandi. Þar vann ég á tveimur stöðum, fyrst tvo mánuði í gróðrarstöð og síðan í gróðursettum skógi sem þá var sá stærsti í Noregi. Í marsbyrjun 1947 mætti ég í verklegan skógskóla uppi í Austurdal og þar var ég fram að jólum. Þetta reyndist mér afskaplega nytsamur tími sem ég átti þarna á þessum verklega skóla. Ég var nánast eingöngu í skógarvinnu en fræðileg kennsla var sáralítil. Eftir þetta fór ég heim og var þar í rúma tvo mánuði.

Hinn 1. mars 1948 settist ég í skógskólann á Steinkjer í Þrændalögum og lauk prófi þaðan fyrir jólin 1948. Eftir áramótin fékk ég vinnu á rannsóknarstöðinni í skógrækt á Ási, þar sem landbúnaðarháskólinn var líka, og var þar í hálft ár.

Í ágústmánuði 1949 hóf ég svo nám í Landbúnaðarháskólanum og það nám tók þrjú ár, ég útskrifaðist vorið 1952. En ég komst heim í sumarfrí árið 1950. Það var mjög skemmtileg ferð, ég fór vestur í Álasund og fékk far með norskum selveiðara til Íslands og við lentum á Akureyri. Námsdvölin á Ási var skemmtileg og afar lærdómsrík. Eftir að prófum var lokið og útskriftinni vorið 1952 fórum við í þriggja vikna ferð til Mið-Evrópu, mikla og eftirminnilega ferð, til Þýskalands, Austurríkis og Sviss.

Haustmynd úr skóginum. Marglitir skógarteigarnir minna á flosaða mynd. Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.Skógarvörður og skógræktarstjóri

Snemma sumars kom ég svo heim og byrjaði að vinna hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað 1. ágúst 1952. Fyrsta verk mitt var að mæla Guttormslund sem ekki hafði áður verið kortlagður né mældur upp. Svo vann ég við að höggva brautir í skóginum með Hilmari Jónssyni sem síðar varð stórtemplari og bókavörður í Keflavík. Við unnum í þessu brautarhöggi til jóla og svo aftur næsta sumar. Ég tók svo við starfi skógarvarðar á Hallormsstað árið 1955 þegar Guttormur Pálsson lét af störfum og því starfi gegndi ég í 22 ár eða til ársins 1977.

Ég sótti um starf skógræktarstjóra eftir Hákon Bjarnason, fékk starfið og gegndi því til ársloka 1989. Það var mjög lærdómsríkur tími en ekki var auðvelt að taka við starfinu. Að vísu var búið að stofna skógræktarfélög víða um land og eru þau nú um 60 talsins. Skógræktarfélag Austurlands var til dæmis stofnað 1938. Landbúnaðurinn var á móti skógræktinni og bændur töldu sig ekki mega missa neitt land og aldrei varð fleira sauðfé á Íslandi en á síðari hluta níunda áratugarins. Vetrarfóðraðar ær urðu mest um 950 þúsund á þessum tíma. Mjög erfitt var að fá land til skógræktar. Samt tókst mér að útvega Skógrækt ríkisins landsvæði á fjórtán stöðum þennan tíma sem ég var skógræktarstjóri. Þar af voru nokkrar heilar jarðir eins og til dæmis Kollabær í Fljótshlíð sem lá að gróðrarstöðinni á Tumastöðum. Svo kom síðar að því að sauðfé snöggfækkaði í landinu, merki þess sjást afskaplega víða í bættu gróðurfari og björkin sést víða vera að skjóta sér upp.

Meðan ég var skógræktarstjóri hafði ég mikil og góð samskipti við starfsmenn Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Búnaðarfélags Íslands. Við Halldór Pálsson urðum góðir kunningjar. Þegar hann var hættur sem búnaðarmálastjóri skrifaði hann grein í Búnaðarritið sem hann nefndi Tilraunin mikla. Þar segir hann að verulega muni draga úr sauðfjárrækt í landinu og það muni losna mikið land og nú sé best að skógræktin reyni sig. Hann lagði til að tekin yrðu lönd til skógræktar. Þetta var í raun stórmerkileg grein af hendi Halldórs Pálssonar. Hún birtist síðar í afmælisriti Skógræktarinnar árið 1999.

En mest samskipti hafði ég auðvitað við Skógræktarfélag Íslands. Við stóðum saman að Ári trésins 1981 og Landgræðsluskógum 1990. Aðilar að því verkefni voru auk þess Landgræðsla ríkisins og landbúnaðarráðuneytið. Tveir formenn Skógræktarfélags Íslands, Jónas Jónsson frá Ystafelli og Hulda Valtýsdóttir, urðu meðal bestu vina minna. Ég get nefnt það sem dæmi um samstarfið við félagið að ég hafði á hendi ritstjórn ársrits þess í þrjú ár, 1988–1990. Svo tók ég að mér kennslu í skógrækt við Garðyrkjuskóla ríkisins og Bændaskólann á Hvanneyri 1988–1991.

Rauðgreni í Jórvík í Breiðdal. Mynd: S. Bl. 3. okt. 2007.

Hallormsstaðaskógur

Skógræktin hérna á Hallormsstað er náttúrlega upphafið að þessu öllu saman. Þegar ég tók við hér hafði Guttormur gróðursett talsvert magn af plöntum, sérstaklega síðustu tvö árin sem hann var skógarvörður. Hann byrjaði að planta rauðgreni eftir 1950 og jók það enn 1953–1954 og plantaði líka dálitlu lerki þau tvö ár hér inni í skógi. Norsk skógarfura var sú trjátegund sem mest var gróðursett af á landinu frá árinu 1948 og talsvert fram á sjötta áratuginn. Hún fór nú reyndar illa og mikið drapst af henni því að furulúsin ásótti hana.

Hákon Bjarnason náði í talsvert af lerkifræi frá Rússlandi og Síberíu upp úr 1950 og það fer svo að koma í gagnið 1953–1955. Rússneska lerkið hentaði mun betur hér en núna fáum við fræið að mestu úr finnskum frægörðum og þaðan fáum við úrvalsfræ. Guttormur var búinn að stækka gróðrarstöðina smátt og smátt og ég hélt því svo áfram næstu árin eftir að ég tók við. Árið 1962 komumst við upp í það að afgreiða rúmlega 400 þúsund skógarplöntur úr stöðinni. En framleiðsla garðplantna jókst til muna og þegar ég hætti var helmingur gróðrarstöðvarinnar kominn undir garðplöntur. Þessi aukning hélt svo áfram fyrstu árin eftir að ég hætti og Jón Loftsson tók við og mikið var selt til Akureyrar og Reykjavíkur auk þess sem selt var hér eystra. En framleiðslu garðplantna fyrir markað var hætt hér árið 1992 eftir fyrirmælum frá landbúnaðarráðuneytinu. Garðyrkjumenn höfðu krafist þess að Skógrækt ríkisins hætti framleiðslunni til þess að eiga ekki í samkeppni við einkageirann. Við þetta missti Skógræktin af verulegum tekjum.

Rauðgreni við Atlavíkurlæk á Hallormsstað. Mynd: S. Bl. um jól 2009.Búið var að gróðursetja í um það bil fimmtán hektara hérna í skóginum þegar ég tók við en eftir það jókst gróðursetningin til muna. Segja má að næstu tvo áratugina hafi verið plantað sextíu til hundrað þúsund plöntum árlega og metárið var 1962. Mest var gróðursett af lerki, í fyrstu einnig mikið af norsku rauðgreni en við hættum því svo smátt og smátt. Nokkuð var gróðursett af sitkagreni frá Alaska, þó aldrei mjög mikið, við töldum að hér væri ekki svæði fyrir það. Hins vegar gróðursettum við allmikið af stafafuru. Lengi vel var eingöngu gróðursett í birkiskóginn og fyrst þurfti að grisja hann. Þá kom okkur heldur betur að hafa hér tvo góða menn sem unnu við þessa skógargrisjun, Baldur og Braga Jónssyni frá Freyshólum. Þeir byrjuðu ungir að vinna í Skógræktinni 1953–1954 og störfuðu hér fram að sjötugu. Þeir unnu við grisjun, gróðursetningu og úrvinnslu viðar og urðu fljótlega fastir starfsmenn Skógræktarinnar. Þeirra handtök eru nú
ótalin hér í skóginum.

Við fengum um 400 hektara land hér fyrir utan Hallormsstað, á Hafursá og Mjóanesi og þar byrjuðum við að planta árið 1964. Þar var gróðursett mest næstu árin og síðar lagðist gróðursetning í birkiskóginn af. Stefán bóndi í Mjóanesi gaf Skógræktinni heimild til þess að gróðursetja í Mjóanesland, neðan þjóðvegar og óskaði gagngert eftir því að plantað yrði sem fyrst nálægt bænum í Mjóanesi. Þetta var mjög merkilegt í raun og veru með Stefán Eyjólfsson sem var fæddur og uppalinn á Brú á Jökuldal. Nú er sprottinn upp góður og vöxtulegur skógur á þessu svæði og vekur hann athygli þeirra sem um veginn fara.

Skógargirðingin var síðan stækkuð til suðurs þegar Ásarnir voru girtir og Buðlungavallalandið árið 1979 og þar bættust við 700 hektarar. Land það sem Skógrækt ríkisins hefur nú til umráða á Hallormsstað og nágrenni, á fimmtán km svæði meðfram Lagarfljóti, er um 2.000 hektarar að stærð. Þar af er gamli Hallormsstaðaskógurinn um 750 hektarar.

Aðalstarfið hér, fyrir utan gróðrarstöðina, var grisjun skógarins fyrir gróðursetningu barrviða og svo að ná út viðnum og gera hann kláran til sölu. Ég man að árið 1971 framleiddum við tíu þúsund girðingarstaura, mikil vinna var við að birkja þá og ydda. Ég reyndi að koma þessu í ákvæðisvinnu og gróðursetningin var líka öll unnin þannig. Skógræktin fékk afnot af húsnæði, sem Húsmæðraskólinn átti, við rafstöðina gömlu og vorum við að hokra þar á annan áratug. Þar settum við upp flettisög og flettum með henni timbri sem var tækt í borðvið. Mér er minnisstætt að árið 1971 felldum við nokkuð mikið inni í Guttormslundi og seldum þann borðvið til Kaupfélags Héraðsbúa og fengum borgað fyrir hann harðfuruverð. Kaupfélagið notaði hluta af þessu timbri til að þilja innan fundarsal sinn í nýju húsnæði. Ég man að ég var ansi montinn að leggja þetta inn í kaupfélagið. Svo kom að því að byggð var myndarleg skemma niðri í Mörk og var það eiginlega það síðasta sem ég lét framkvæma meðan ég var skógarvörður. Skemman breytti miklu og þar fengum við góða vinnuaðstöðu að vetrarlagi og gott verkstæðispláss.

Á meðan ég var skógarvörður vann hér oft um 25 manns yfir vortímann. Það var ekki hægt að koma fleirum að borði í borðstofunni, það setti hreinlega mörkin. Starfsfólkið bjó flest inni í Mörk og þar var nú ákaflega þétt skipað. Í Skálkaskjóli, sem við kölluðum, sváfu átta karlmenn og sjö stúlkur sváfu í stærsta herberginu í gamla húsinu í Mörkinni. Þetta var alls ekki talið viðunandi eftir að vinnueftirlit kom til sögunnar. Ég held satt að segja að fólki hafi samt liðið drjúgvel í Mörkinni þótt aðstaðan stæðist ekki ýtrustu kröfur. Smátt og smátt fór svo að koma til vinnu fólk sem búsett var hér á Hallormsstað. Langflestir unnu í gróðrarstöðinni og í gróðursetningarflokknum unnu fjórir til sex. Á þessum árum gróðursettum við líka uppi í Fljótsdal, á fyrstu árum Fljótsdalsáætlunar, það var gert samkvæmt reikningi. Síðar fóru bændur svo að vinna sjálfir að gróðursetningunni.

Rétt fyrir 1990 var sett hér upp þúsund fermetra gróðurhús og hugmyndin var að það dygði einnig fyrir skógarbændur. Svo snerist nú dæmið þannig að skógarbændur stofnuðu gróðrarstöðina Barra og Skógræktinni var gert að afgreiða ekki skógarplöntur nema til eigin nota.

Lerkibolir úr síðustu grisjun í Guttormslundi. Mynd: S. Bl. 25. maí 2009.Upphaf skógræktar á Íslandi

Talið er að skógrækt hefjist á Íslandi árið 1899, á Þingvöllum. Við syngjum oft erindið úr aldamótaljóði Hannesar Hafstein þar sem hann spáir að menningin vaxi í lundum nýrra skóga. Hann hafði mikinn áhuga á skógræktinni eftir að hann varð ráðherra. En það voru Danir sem hófu skógræktina hér og reyndar hófst hún líka hjá Ræktunarfélagi Norðurlands árið 1899. Það var Sigurður Sigurðsson, skólastjóri á Hólum og síðar búnaðarmálastjóri, sem ruddi brautina þar. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem gekk á skógskóla í Noregi. Hann hófst handa með því að útbúa græðireit innan við kirkjuna á Akureyri og svo mældi hann Vaglaskóg. Hann skrifaði um þetta merkilegar greinar. Ég segi því að telja verði Akureyringa með þegar upphaf skógræktarinnar
er skoðað.

En að öðru leyti var það danskur skipstjóri, Carl Ryder, sem hófst hér handa. Hann hafði verið skipstjóri á kaupskipi sem sigldi milli Kaupmannahafnar og Íslands og blöskraði berangur landsins og vildi fara að gera eitthvað í málinu. Hann safnaði svolitlum peningum til að kaupa plöntur og sendi fyrstu plönturnar til landsins árið 1899. Einar Helgason garðyrkjumaður var þá byrjaður að stúdera garðyrkju í Kaupmannahöfn og hann stjórnaði fyrstu gróðursetningunni á Þingvöllum. Skógræktarmenn telja að við það megi miða aldur skógræktarinnar á Íslandi.

Carl Ryder stofnaði síðan fyrirtæki sem nefndist Islands Skovsag og fékk í lið með sér prófessor í skógrækt við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn, Carl V. Prytz að nafni. Þeir unnu að skógræktarmálefnum Íslands þangað til íslenska ríkið tók við árið 1908 þegar fyrstu skógræktarlögin komu til framkvæmda. Þeir fengu land á Þingvöllum og líka við Rauðavatn og settu
þar á stofn gróðrarstöð. Þeir fengu einnig land til gróðursetningar á Grund í Eyjafirði. Elstu trén á Grund eru frá aldamótunum 1900. Þá höfðu þeir bæði stöð fyrir sunnan og fyrir norðan. Þeir réðu til sín ungan skógfræðing, Christian E. Flensborg sem kom fyrst hingað til lands aldamótaárið 1900. Árið eftir kom hann í fyrsta sinn að Hallormsstað. Honum tókst að fá svolitla spildu, sem nefnist Mörkin, innan við túnið á Hallormsstað til þess að setja þar upp gróðrarstöð. Þetta land var girt árið 1902 og hluti af þeirri girðingu stendur ennþá. Þar var farið að gróðursetja smátt og smátt hinar og þessar plöntur. Þetta var upphafið að skógræktinni hér á Hallormsstað.

Árið 1903 voru samþykkt lög frá Alþingi sem heimiluðu landstjórninni kaup á jörðinni Hallormsstað af Kirkjujarðasjóði til skógræktar og einnig á jörðinni Vöglum í Fnjóskadal. Lögin komu þó ekki til framkvæmda fyrr en 1905. Þá var byrjað að girða Hallormstaðaskóg og var því verki lokið 1908. Vaglaskógur var hins vegar girtur ári seinna. Hallormsstaðaskógur var orðinn mjög illa farinn á þessum árum og var ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem menn vissu að hann hafði verið fyrrum. Hann var í tvennu lagi, Útskógurinn og Innskógurinn og var alveg klofinn í tvennt af skóglausu belti.

Skógur í Hrafnsgerði í Fellum. Mynd: S. Bl. 1. ág. 2007.Eftir gildistöku skógræktarlaganna, í ársbyrjun 1908, hafði Islands Skovsag lokið hlutverki sínu og þá varð Agnar Kofoed Hansen skógræktarstjóri á vegum íslenska ríkisins. Hallormsstaður var þá orðinn opinber skógarjörð og fyrsta árið var Stefán Kristjánsson skógarvörður. Hann hafði verið starfsmaður Islands Skovsag á Hallormsstað frá því hann lauk námi í Danmörku 1905.

Guttormur Pálsson var svo skipaður skógarvörður á Hallormsstað vorið 1909 og gegndi því starfi til ársins 1955. Hann vann hér brautryðjendastarf. Hann kortlagði birkiskóglendi í fjórðungnum, sérstaklega á Héraði og birti mjög merkilega grein í ársriti Skógræktarfélagsins árið 1948, yfirlit um skógana á Héraði og stærð þeirra. Það merkilega er að stærð þeirra stenst
alveg ótrúlega vel.

Kofoed Hansen hafði beðið skógarverði sína að gefa skýrslu um birkiskóga, hvern í sínu umdæmi og þar átti að koma fram hvar væri hugsanlegt að friða skóglendi. Af friðun varð samt ekki vikið. Árið 1912 lýsti skógræktarstjóri því yfir að hann væri hættur með erlendar trjátegundir á Íslandi. Ræktun þeirra hefði gefist það illa. Eftir það sneri Kofoed Hansen sér alfarið að íslenska birkiskóginum og tókst að fá friðaðar nokkrar skóglendur, hér og hvar á landinu og standa þær enn með mikilli prýði.

Guttormur rak gróðrarstöðina hér á Hallormsstað við erfiðar aðstæður því að sáralitlir fjármunir fengust lengi vel til starfseminnar. Honum hafði tekist að útvega hálft kíló af lerkifræi frá Arkangelsk árið 1933 og uppeldi plantna af því tókst mjög vel. Hann byrjaði að planta hluta af þeim út 1937, inni við Atlavíkurstekk og síðan plantaði hann næstu tvö ár í Guttormslundi. Af þessum plöntum munu nú einar tvö þúsund hafa farið hingað og þangað um landið. Það er mjög fróðlegt að sjá tré úr þessu uppeldi norður á Hellulandi í Skagafirði, skammt innan við Sauðárkrók. Það eru greinilega Guttormslundarplöntur, mjög sveigðar undan hafáttinni.

Gríðarlegt verkefni er framundan hér í skóginum við grisjun teiga sem vaxnir eru barrtrjám og erfitt að hafa undan með þá vinnu. Mikil framför er að hér er komin viðarkyndistöð, sú fyrsta á landinu, það er stórviðburður í skógræktinni. Stöðin hitar upp skólana hér á Hallormsstað og ætlunin er að bændaskógarnir sjái henni fyrir hráefni þegar fram líða stundir en Skógræktin hér á Hallormsstað er nógu öflug til að skaffa henni hráefni enn um sinn.

Lerki plantað í gróðurvana mel á Mælivöllum á Jökuldal. Mynd: S. Bl. 9. ág. 2008.Bændaskógar

Heilmikil tímamót urðu í skógræktinni þegar svonefndri Fljótsdalsáætlun var hrundið af stað. Fljótsdalurinn var ekki síst valinn vegna þess að hægt var að nýta reynsluna frá Hallormsstað. Upphaflega var áætlað að planta á 25 árum í 1.500 hektara lands í Fljótsdal en það varð nú aldrei svo mikið. Girt var land til nytjaskógræktar á fimm jörðum í Fljótsdal og byrjað að gróðursetja á Víðivöllum ytri 25. júní árið 1970. Það telst nokkuð merkilegur dagur vegna þess að hann markar upphaf bændaskógræktar á Íslandi. Þetta tókst strax afskaplega vel, árangurinn kom fljótt í ljós og næstu ár hófst skógrækt á fleiri jörðum. Árið 1991 eru svo Héraðsskógar stofnaðir og það voru einnig mikil tímamót. Þá voru girt mikil lönd á Upphéraði, út undir Egilsstaði og tókst að fá sameiginlega girðingu fyrir marga bæi. Svo komu Norðurlandsskógar í kjölfarið og nú eru komnir bændaskógar um allt land. Skógræktin er ekki lengur bundin við efri hluta Héraðsins, hún er nú stunduð út allt Hérað. Eftir að bændaskógrækt hófst í fjörðum hér eystra urðu til svonefndir Austurlandsskógar og nú er skógrækt stunduð á 156 jörðum á Austurlandi. Búið er að taka frá 17.800 hektara lands sem merktir eru skógræktinni og gróðursett hefur verið í 7.700 hektara eða tæpan helming af fyrirhuguðu landi í Héraðs- og Austurlandsskógum.

Lerkibolir úr síðustu grisjun í Guttormslundi. Mynd: S. Bl. 28. apríl 2009.Árangurinn af þessari gróðursetningu er framúrskarandi, nánast alls staðar. Ástæðan er meðal annars sú að mikið hefur hlýnað hér á landi, til dæmis frá því á sjötta áratugnum, sumarið hefur lengst. Árangur skógræktarinnar hefur farið langt fram úr því sem maður hafði ætlað. Ég get nefnt dæmi um það. Ég skrifaði grein í vikublaðið Austurland árið 1952 um horfur í skógræktarmálum. Þá spáði ég því að tré mundu sennilega geta náð fimmtán metra hæð hérna, þessi útlendu tré. Þau eru komin í 25 metra núna og ekki neitt lát á því. Alaskaösp og sitkagreni eiga örugglega eftir að ná 30 metra hæð, að minnsta kosti, á góðum stöðum.