Skip to main content

.

 

Minnismerkið á Skeiðarársandi

Minnismerkid1

Skammt er að minnast þeirra hamfara sem áttu sér stað á Skeiðarársandi þegar gos varð í Vatnajökli árið 1996, þegar heilt eldfjall, nefnt Gjálp, myndaðist undir jöklinum. Þann 5. nóvember það ár geystist gríðarlegur
vatnsflaumur undan jöklinum svo að austasti hluti brúar yfir Skeiðará lét undan og brúin yfir Gígjukvísl eyðilagðist með öllu.
Kappsamlega var unnið að endurbyggingu brúnna og var vegasamband komið á aftur aðeins 22 dögum eftir að hlaupið hófst. Endurbyggingu vegarins var þó ekki að fullu lokið fyrr en sumarið eftir.
Ummerkin eftir flóðin vöktu að sjálfsögðu athygli ferðamanna sem stöldruðu gjarna við og vildu taka ljósmyndir af brúarleifunum. Vegagerðin ákvað í framhaldinu að gera áningarstað með upplýsingaskilti og minnismerki um atburði þessa í hæfilegri fjarlægð
frá sjálfri brúnni.
Björn Kristleifsson arkitekt var fenginn til að hanna áningarstaðinn í samráði við starfsmenn Vegagerðarinnar. Það varð úr að brúarbitar með ummerkjum flóðsins voru notaðir í minnismerkið auk þess sem byggður var garður úr grjóti sem minnir á varnargarða þá sem halda skaðræðisfljótum þessum í farvegi sínum í vatnavöxtum. Staðsetningin er um það bil 1,8 km frá eystri enda Skeiðarárbrúar. Staðurinn er mjög áberandi ferðalöngum enda rétt hjá veginum.
Við minnismerkið eru rúmgóð bílastæði og upplýsingaskilti þar sem sagt er í stuttu máli frá hamfarahlaupi þessu, umfangi þess og afleiðingum. Textinn á upplýsingaskiltinu var unninn af starfsmönnum Vegagerðarinnar. Óhætt er að segja að erlendir ferðamenn jafnt sem innlendir verði fyrir djúpum áhrifum þegar þeir staldra við þetta óbrotgjarna minnismerki sem ber vitni um þau ógnaröfl sem íslensk náttúra getur leyst úr læðingi.

Texti: Sigurjón Bjarnason og Sveinn Sveinsson
Ljósmyndir: Sigurjón Bjarnason

Minnismerkid2 Minnismerkid3