Skip to main content

.

 

Og þú átt ærið verk fyrir höndum

Agnes Brá Birgisdóttir þjóðgarðsvörður í viðtali við Magnús Stefánsson

Agnes Brá á Biskupsfelli, Kverkfjöll í baksýn.

Agnes Brá á Biskupsfelli, Kverkfjöll í baksýn.

Í kynningarbæklingi Vatnajökulsþjóðgarðs má lesa eftirfarandi um stofnun þjóðgarðsins: „Samkvæmt lögum er markmiðið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins. Tilgangur friðlýsinga er að varðveita sérstök landsvæði svo að komandi kynslóðir eigi kost á að njóta þeirra á sama hátt og við gerum. Til að tryggja að tilgangi friðlýsingar verði náð gilda tilteknar umgengnisreglur á friðlýstum svæðum." Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði, tók að sér það verkefni ásamt samstarfsfólki sínu að byggja upp starfsemi nýrrar stofnunar. Hún segir lesendum Glettings frá fyrstu árum þjóðgarðsins og rifjar upp ýmislegt úr starfinu.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní árið 2008. Hann er stærsti þjóðgarður í Vestur-Evrópu og þekur um það bil 13% af landinu. Þjóðgarðurinn nær yfir Vatnajökul allan og stór svæði í nágrenni hans. Honum er skipt upp í fjögur rekstrarsvæði og nær austursvæðið frá Jökulsá á Fjöllum í vestri suður að Lónsöræfum. Engin hefð var fyrir rekstri þjóðgarða á austur- og vestursvæði þjóðgarðsins en mikil þekking á þessu sviði var á norður- og suðursvæðinu þar sem þjóðgarðarnir í Jökulsárgljúfrum og Skaftafelli voru fyrir – en þeir gengu inn í Vatnajökulsþjóðgarð við stofnun hans.

Ný hugmyndafræði
Þjóðgarðurinn hefur nú þegar verið stækkaður þrisvar sinnum á þessum fáu árum sem liðin eru frá stofnun hans. Fyrst kom Hoffellsjökull inn, síðan Askja og umhverfi hennar á norðursvæðinu og þriðja stækkunin varð þegar Langisjór var friðaður fyrir skömmu. Það geta verið margs konar ástæður fyrir því að land hljóti friðun og sé tekið inn í þjóðgarðinn, þar eru þjóðlendur, hluti ríkisjarða og einnig jarða í einkaeign. Á Hoffellssvæðinu voru það bændur sem ýttu á eftir því að fá landið sitt inn í þjóðgarðinn.

Umhverfisráðuneytið hefur haft hug á að stækka austursvæði þjóðgarðsins og fá Kreppu-tungu og hluta Brúardala inn í garðinn. Svæðisráðið lýsti sig samþykkt þessum áformum en þau strönduðu síðasta vor á andstöðu sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Segja má að Krepputungan sé kjörlendi sem þjóðgarður og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur um langan tíma annast hana sem slíka. Og eftir þjóðlendudóm flokkast hún sem afréttur án nýtingarréttar. Sveitarstjórnin mun hafa óttast að með friðun yrði veiði- og beitarréttur skertur á Brúardölum en engin slík áform eru uppi. Innsti hluti Brúaröræfa er mikilfenglegt landsvæði, sérstaklega fyrir framan jökulinn. Ég hef farið þarna um og sé fyrir mér land sem er munaðarlaust. Enginn ber ábyrgð né sinnir því og þarna er mjög mikill akstur utan slóða.

Hugmyndafræðin að baki Vatnajökulsþjóðgarðs er ný, í það minnsta hér á landi. Tvinna á saman verndun lands og nýtingu á skýrari hátt en áður hefur verið gert. Verndun er vissulega höfuðmarkmiðið en í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er líka rætt um eflingu byggðar og atvinnusköpun og að ýmis tækifæri finnist í þjóðgarði. Segja má að það sé nýtt, þetta hefur ekki áður sést í lögum um þjóðgarða á Íslandi. Landinu er skipt í verndarflokka samkvæmt alþjóðlegu kerfi og stór hluti af Vatnajökulsþjóðgarði er í verndarflokki tvö þar sem sjálfbær nýting getur átt sér stað, meðal annars til veiða og beitar.

Stjórn þjóðgarðsins
Yfir hverju svæði er svokallað svæðisráð, skipað sex mönnum. Þrír þeirra eru fulltrúar sveitarfélaga á svæðinu og þrír eru valdir af útivistarsamtökum, náttúruverndarsamtökum og samtökum í ferðaþjónustu.

Stjórn þjóðgarðsins skipa sjö manns, formaður og varaformaður stjórnarinnar sem eru skipaðir af ráðherra, oddvitar svæðisráðanna fjögurra og sá sjöundi er skipaður af umhverfissamtökum. Útivistarsamtök eiga svo áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnarinnar. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra þjóðgarðsins. Mikil umræða hefur verið um það að þjóðgarðinum sé stjórnað að sunnan þar sem framkvæmdastjórinn situr í Reykjavík. Hins vegar hef ég verið að benda á að meirihluti stjórnar sé af landsbyggðinni og ef þessir aðilar eru á einu máli um stefnumótun og önnur málefni þjóðgarðsins sé réttara að segja að honum sé stjórnað af landsbyggðarmönnum. Fram hefur komið vilji stjórnar til að flytja framkvæmdastjórann til Hafnar í Hornafirði og það er bara spurning hvenær það verður að veruleika. Þetta snýst kannski líka um það að flytja störf út á land og við höfum dæmi um það hér eystra sem hefur gefist vel, Skógrækt ríkisins sem hefur aðalstöðvar á Egilsstöðum.

Snæfellsskáli 2012. Mynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson.

Snæfellsskáli 2012. Mynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson.

Garðyrkju- og skógfræðingur
Ég bý á Eyvindará, skammt fyrir utan Egilsstaði, ásamt sambýlismanni mínum, Halldóri B. Warén. Við eigum saman tvo unga syni og einnig býr hjá okkur sonur Halldórs sem er menntaskólanemi.
Ég er fædd á Egilsstöðum og ólst upp á Héraði fyrstu ár ævinnar og síðan á Akranesi og í Neskaupstað þar sem ég lauk gagnfræðanámi. Ég tók stúdentspróf við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi árið 1994 og hóf nám við Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi tveimur árum síðar. Þaðan útskrifaðist ég sem garðyrkjufræðingur af umhverfis- og náttúruverndarbraut. Verknámið við skólann stundaði ég allt innan skógræktargeirans og þar vaknaði áhuginn fyrir skógfræðinni. Ég ætlaði mér í upphafi að læra umhverfisfræði og meira um náttúruvernd en skógfræðin varð fyrir valinu vegna þess að á þeim tíma fannst mér hún áhugaverðari og skemmtilegri og ég mun aldrei sjá eftir því. Ég fór svo til Noregs haustið 2000 og stundaði nám við Landbúnaðarháskóla Noregs á Ási. Fyrsta veturinn var reyndar kennt í Bö á Þelamörk en næstu fjóra vetur bjó ég á Ási. Vorið 2005 lauk ég þaðan MSc prófi í skógfræði með áherslu á umhirðu skóga, vistfræði og stjórnun.

Eftir heimkomuna hóf ég störf sem skógræktarráðunautur hjá Héraðs- og Austurlandsskógum. Ég sagði starfinu lausu sumarið 2008 og var jafnvel að hugsa um að leita suður á bóginn, finna mér starf þar sem tengdist minni menntun þótt helst vilji ég búa fyrir austan. Fyrir tilviljun sá ég þá starf þjóðgarðsvarðar auglýst laust til umsóknar, um viku eftir að ég sagði starfi mínu lausu. Ég taldi að þetta hlyti að vera skemmtilegt starf og sótti um en átti ekki endilega von á því að verða ráðin. Svæðisráðið réð mig, ég man þegar formaður stjórnar hringdi til mín og tilkynnti mér að ég hefði fengið starfið og bætti svo við: „Og þú átt ærið verk fyrir höndum." Ég hrökk svolítið við og mér varð hugsað til þess að kannski væri ég að fara úr öskunni í eldinn.
Allt frá fyrstu dögum mínum í starfinu hefur þetta verið stórt og spennandi verkefni. Ég var ráðin í ágúst 2008 og kom til starfa 1. september. Þá var búið að taka á leigu litla skrifstofu hjá Þekkingarneti Austurlands á Egilsstöðum þar sem ég settist inn fyrsta vinnudaginn við hvítt skrifborð og með hvíta veggi og eina svarta tölvu og hugsaði að hér verði þjóðgarður. Svo var bara að byrja að klóra sig af stað.

Svæðisráðið hafði vissulega faglega sýn og þekkingu á málefninu og ég gat leitað til þeirra sem þar sátu. Ég þekkti hálendið ekki mikið þótt ég hefði ferðast nokkuð um það. Fyrstu árin var ég að átta mig á starfinu og kynnast svæðinu og ég er enn að læra.

Snæfellsstofa á Skriðuklaustri 2012. Mynd: Karl Vilhjálmsson.

Snæfellsstofa á Skriðuklaustri 2012. Mynd: Karl Vilhjálmsson.

Gestastofur og landvarsla
Þjóðgarðurinn rekur gestastofur í Ásbyrgi, Skaftafelli og á Skriðuklaustri, Snæfellsstofu sem tekin var í notkun árið 2010. Þær eru upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar fyrir þjóðgarðinn og nágrenni hans. Þeim er einnig ætlað að miðla fræðslu um menningu, náttúru og sögu svæðisins með sýningum og fyrirlestrum. Næsta gestastofa mun rísa á Kirkjubæjarklaustri.
Hér á austursvæðinu eru einnig reknar landvörslustöðvar á sumrin í Hvannalindum, Kverkfjöllum og við Snæfell. Þjóðgarðurinn nær ekki til Hvannalinda, þar er aðeins friðland en við sjáum um landvörsluna þar með sérstökum rekstrarsamningi og leigjum húsið af Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs. Landvarslan í Kverkfjöllum er rekin sameiginlega með Ferðafélaginu. Það er búið að vera með rekstur á þessum svæðum um fjölda ára og hjá félaginu er því mikil reynsla og þekking á landvörslu og rekstri skálanna á hálendinu. Ég hef haft ótakmarkaðan aðgang að þeirri þekkingu og það hefur reynst mér dýrmætt, ekki síst meðan ég var að ná áttum í þessu nýja starfi. Sérstaklega vil ég nefna Þórhall Þorsteinsson hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, hann er gjörkunnugur öllu þessu landsvæði og hefur verið óþreytandi að aðstoða mig við hin ólíkustu verkefni. Ég fór eina ferð með honum um svæðið haustið 2008 en tók alfarið við stjórn landvörslunnar vorið 2009. Það sumar sá ég líka um Herðubreiðarlindir og Öskju með sérstökum rekstrarsamningi við norðursvæðið.

Við landvörslu á austursvæðinu eru sex stöður, þrjár í Kverkfjöllum, ein í Hvannalindum og tvær við Snæfell. Hins vegar hefur oft verið um tíu manns sem vinnur þessi störf. Starfstíminn hefst um miðjan júní í Krepputungunni, í júlíbyrjun við Snæfell og við erum með landvörslu á svæðinu fram í september. Við höfum reynt eins og við getum að ráða fleiri menntaða landverði og einnig að fá fleiri heimamenn til starfa. Ungt fólk hér austanlands hefur ekki sýnt mikinn áhuga fyrir sumarvinnu inni á hálendinu. Þetta er þó vonandi að breytast og síðasta sumar unnu tveir Austfirðingar við landvörslu, voru í þessum tíu manna hóp á hálendinu. Ég hef svo haft fleiri heimamenn til afleysinga um skemmri tíma.

Hægt er að öðlast landvarðarréttindi með því að sækja námskeið sem Umhverfisstofnun heldur í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð. Þau eru haldin í Reykjavík en líka er boðið upp á fjarnám. Menntun landvarða er líka inni í ferðamálalínu Hólaskóla, austfirsku landverðirnir, sem störfuðu hjá mér í sumar, eru útskrifaðir þaðan.

Í Kverkfjöllum stendur Ferðafélagið fyrir göngum á jökulinn og þar er fyrsta skilyrði fyrir ráðningu í vinnu að viðkomandi geti gengið á jökul og hafi reynslu af jöklum, sé jöklaleiðsögumaður. Ef landvörsluréttindin eru svo til staðar líka – þá er það alveg eðal starfsfólk.

Börn gestkomandi í Snæfellsstofu sumarið 2010. Mynd: Gunnar Gunnarsson.

Börn gestkomandi í Snæfellsstofu sumarið 2010. Mynd: Gunnar Gunnarsson.

Gengið með landverði
Við höfum verið að auka fræðslu inni á hálendinu síðustu sumur. Farnar eru svokallaðar fræðslugöngur í öllum þjóðgarðinum á vissu tímabili sumarsins. Í Hvannalindum og við Snæfell fer landvörður með ferðamönnum í daglegar göngur um hásumarið. Hann reynir að lesa hópinn hverju sinni og hagar leiðsögninni eftir því.

Í Hvannalindum er gengið inn að Rústum og landvörðurinn bendir fólki á ýmislegt í umhverfinu sem ferðamenn reka kannski ekki augun í að öllu jöfnu, eins og til dæmis að skófir vaxa á steinum í tengslum við vindátt og eftir því hvar sandurinn bylur á steinunum. Það er svolítið merkilegt að sjá þegar gengið er inn að Rústum – þá mæta manni hlýir litir en á bakaleiðinni mæta manni kaldir, bláir litir og sandslípaðir steinar. Ferðafólkinu finnst fengur að því að uppgötva þessi smáu, eftirtektarverðu atriði í náttúrunni. Eins er fólki sagt frá umhverfinu, sögunni, þjóðgarðinum og frá vernduninni, það fer svolítið eftir hópum. Þetta er stundum kallað að lesa í landið og mörgum finnst það mjög áhugavert. Sumum finnst orðið fræðsluganga hljóma fremur einkennilega en við nefnum þessar göngur stundum aðeins: Gengið með landverði.

Þegar farið er upp á Kreppuhrygginn, ofan lindanna, að Kreppu, getur verið gott að hafa fróða manneskju með sér til að benda á ýmislegt markvert í umhverfinu sem maður tekur ekkert eftir sjálfur. Fyrir utan auglýstar fræðslugöngur grípa landverðirnir ferðamennina iðulega með sér og bjóða þeim í göngutúr. Í Hvannalindum eru það fyrst og fremst Íslendingar sem fara í göngurnar því að þeir hafa áhuga á sögu Fjalla-Eyvindar. Útlendingarnir eru meira að velta fyrir sér hvort heita lind sé að finna þarna inn frá og verða svolítið vonsviknir þegar þarna er aðeins köld lind.

Snæfellsöræfi
Við sem vinnum fyrir þjóðgarðinn höfum verið að hugleiða hver framtíð Snæfellssvæðisins verður sem náttúruparadís. Ferð inn að Snæfelli tekur orðið mun styttri tíma en áður, aðeins um einn og hálfan klukkutíma frá Egilsstöðum. Dagsumferðin um svæðið er töluverð en gisting í skálanum hefur samt minnkað, það tekur orðið svo stuttan tíma að keyra til byggða. Snæfellssvæðið er eitt áhugaverðasta útivistarsvæði fjórðungsins og við hvetjum fólk til að skreppa þangað í dagsferðir eða lengri ferðir, hvort sem er að sumri eða hausti. Í lengri ferðum má finna gistingu í Snæfellsskála, Laugarfelli, Aðalbóli og í Fljótsdal. Hægt er að fara í skoðunar- og gönguferðir og velja gönguland við hæfi allra aldurshópa. Ferðafélagið hefur staðið fyrir göngum á Snæfell og fleiri staði, einnig fyrirtæki sem nefnist Wild boys og við höfum einnig staðið fyrir göngum á fjallið. Eins höfum við skipulagt gönguferðir í Þjófadali. Það var mjög skemmtileg lengri ganga sem við efndum til tvisvar í sumar og nefndum hana Á refilstigum. Stansað var víða og spjallað um útilegumenn sem sagnir eru um að hafi dvalið í Þjófadölum og þjóðsögurnar rifjaðar upp. Auk þessa er boðið upp á daglegar ferðir frá Snæfellsskála á Vestari-Sauðahnjúk. Þaðan er útsýni inn á jökul, yfir Vesturöræfin og Hálslón og gott útsýni til Snæfells þegar þannig viðrar. Farið er á bílum nokkuð upp í hlíðina og gengið síðasta spölinn. Þessar ferðir hafa verið nokkuð vinsælar.

Snæfellsöræfin hafa löngum verið upphafspunktur lengri gönguleiða, til dæmis suður yfir Lónsöræfi sem eru friðland í umsjón Regínu Hreinsdóttur, þjóðgarðsvarðar á suðursvæði. Eyjabakkarnir og Geldingafell eru aftur á móti innan þjóðgarðsins og lítill hluti Hrauna og þar eru endimörk austursvæðisins.

Agnes Brá með norrænum ungmennum á Svínafellsjökli sumarið 2009.

Agnes Brá með norrænum ungmennum á Svínafellsjökli sumarið 2009.

Verndaráætlun fyrir austursvæði
Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er ákvæði þess efnis að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn skyldi tilbúin innan eins og hálfs árs. Slík áætlun þekkist í þjóðgörðum víða um heim og segir til um hvernig haga skuli rekstri þjóðgarða. Hún tengist einnig framkvæmdaáætlun garðsins beint, hver séu næstu skref við að brúa ár, stika leiðir, koma upp fræðsluskiltum eða vinna að stærri framkvæmdum.

Farið var að huga að þessari áætlun strax á upphafsdögum þjóðgarðsins og svæðisráðið réð Guðrúnu Á. Jónsdóttur, líffræðing í Neskaupstað, til að gera verndaráætlun fyrir austursvæðið. Hún leysti það verkefni með sóma. Mikið af hennar vinnu fólst í því að safna upplýsingum um svæðið og athuga hvaða grunnrannsóknir hefðu verið gerðar. Þá kom í ljós að enn er þeim langt í frá lokið hér austanlands, rannsóknum á berggrunni, gróðri og fleiru. Þessi vinna Guðrúnar er mikilvæg fjórðungnum með tilliti til áframhaldandi rannsókna. Unnið var að gerð áætlunarinnar í eitt og hálft ár, haldnir voru margir fundir þar sem vinnan var kynnt og reynt var að hafa eins mikið samráð og hægt var. Heimamenn sýndu þessari vinnu mismikinn áhuga en hann fór vaxandi þegar drögin voru kynnt haustið 2010. Margar athugasemdir við drögin bárust og tekið var tillit til þeirra flestra. Ráðherra undirritaði síðan áætlunina í febrúar árið 2011.

Gengið um Þjófadali sumarið 2012. Mynd: ABB.

Gengið um Þjófadali sumarið 2012. Mynd: ABB.

Náttúruvernd og sjálfbærni
Verndaráætlunin snýst fyrst og fremst um þetta þrennt, náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Þjóðgarðurinn er að sjálfsögðu fyrir alla. Megintilgangurinn er samt vissulega náttúruvernd en við viljum einnig að þar sé stunduð margs konar útivist og að einhvers konar atvinnusköpun verði í byggðunum sem að honum liggja. Meginþráður áætlunarinnar er að sætta sjónarmið verndunar og nýtingar og tryggja rúm fyrir fjölbreytta útivist og nýtingu. Þá á ég við ferðaþjónustu, veiðar og aðra hefðbundna nýtingu. Einnig er reynt að tryggja að ekki komi til árekstra milli ólíkra útivistarhópa. Mikill vilji var til að hlusta á sjónarmið sem flestra aðila við gerð þessarar áætlunar.
Vatnajökulsþjóðgarður er mestmegnis í verndarflokki tvö en um þann flokk segir meðal annars:

... stór, ósnortin eða lítt snortin landsvæði sem ætluð eru til verndar á heildstæðum, vistfræðilegum ferlum til viðhalds þeim tegundum og vistkerfum sem eru einkennandi fyrir svæðið en eru að sama skapi grundvöllur fyrir ýmis tækifæri á sviði umhverfismála, menningar og andlegra málefna, vísindafræðslu, tómstunda og ferðamennsku.

Það eru því margs konar markmið með þessari verndun, nýting landsins er leyfð og eitt af markmiðunum er að efnahagur svæðisins vænkist. Það gerist ekki af sjálfu sér, heimamenn verða sjálfir að teygja sig eftir þeim tækifærum sem þjóðgarðurinn hefur upp á að bjóða hvað varðar atvinnusköpun. Þjóðgarðurinn er griðastaður náttúru, þannig að hún fái að þróast fyrir eigin lögmálum og haldi sínu gildi. Segja má að hann geymi einstæðan fróðleik til skilnings á ferlum í náttúrunni, bæði í jarðfræði og líffræði.
Það sem við höfum fyrst og fremst að leiðarljósi eru náttúruvernd og sjálfbærni sem eru undirstaða allra okkar ákvarðana í þjóðgarðinum, hvort sem um er að ræða nýtingu, ferðamennsku eða rannsóknir.

Eyrarrós í Hvannalindum. Mynd: ABB.

Eyrarrós í Hvannalindum. Mynd: ABB.

Snæfellsstofa á Skriðuklaustri
Segja má að uppbygging starfseminnar á austursvæði þjóðgarðsins hafi gengið nokkuð hratt. Þjóðgarðurinn var stofnaður vorið 2008, ég kom til starfa þá um haustið og eitt fyrsta verkefnið var að koma á fót starfsstöð hér fyrir austan. Sumarið eftir tók þjóðgarðurinn við rekstri landvörslunnar á hálendinu, að hluta til með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og Ferðafélagi Húsavíkur. Síðan byrjaði vinnan við stjórnunar- og verndaráætlunina fljótlega og öll sú fundaherferð sem henni fylgdi og hafist var handa við byggingu gestastofunnar á Skriðuklaustri.
Sumarið 2010 gleymist seint þeim sem unnu hér á svæðinu. Þá var gestastofan opnuð, fyrsta vistvænt vottaða húsið sem reist er hér á landi, byggt eftir breskum umhverfisstaðli. Bara það eitt og sér jók umfang verkefnisins gífurlega. Þótt stofan væri opnuð um sumarið var unnið að framkvæmdum á staðnum um haustið og allt fram að jólum og húsgögn komu ekki í húsið fyrr en á miðju sumri 2011. Undirbúa þurfti sýningu um náttúru austursvæðisins og setja hana upp í gestastofunni. Þar er einnig skrifstofa þjóðgarðsvarðar og aðstaða fyrir sölu veitinga og minjagripa.

Síðasta sumar má segja að starfsemin í Snæfellsstofu hafi loksins verið komin í eðlilegan farveg eftir annríki og hraða frumbýlingsáranna og það sama má segja um störf landvarðanna inni á hálendinu. Þar var margt skemmtilegt að gerast, upplýsingaskiltum komið fyrir og leiðir merktar og stikaðar. Einnig vorum við með sjálfboðaliða í vinnu inni á hálendinu í sumar. Þá er hún eilíf, barátta landvarðanna gegn akstri utan vega og slóða og mikið verk fer í lagfæringar á skemmdunum. Markmiðið er að fjölga gönguleiðum í þjóðgarðinum og tengja hin ýmsu svæði hans betur saman og undirbúa byggingu göngubrúa eða kláfa yfir stærri ár.

Í fræðslugöngu með Eygló Harðardóttur, landverði í Hvannalindum. Mynd: ABB.

Í fræðslugöngu með Eygló Harðardóttur, landverði í Hvannalindum. Mynd: ABB.

Samvinna og fræðsla
Þjóðgarðinum er mjög mikilvægt að góð samvinna takist við þá fjölmörgu einstaklinga og hópa sem starfsfólk hans þarf að hafa samskipti við og að sátt ríki um stefnu hans og markmið. Starfsemin snertir fjölmarga hagsmunaaðila, sveitarfélög, félagasamtök, landeigendur og fleiri. Það er okkar sem störfum fyrir þjóðgarðinn að stuðla að sáttum við alla þessa ólíku hópa. Við leggjum áherslu á þessi gildi, að bera virðingu fyrir náttúru, menningu og minjum og bera virðingu fyrir ólíkum hagsmunum. Þetta eru leiðarljósin í starfsemi okkar. Segja má að framtíðarsýn þjóðgarðsins sé að vernda, viðhalda og þróa, upplifa og skapa. Þetta eru lykilorð í markmiðssetningunni.

Ég sé fyrir mér að virðing heimamanna fyrir þjóðgarðinum fari vaxandi og að þeir verði svolítið stoltir af honum og þyki bara pínulítið varið í hann. Ég hef trú á að áhugi á þjóðgarðinum og nýtingu hans muni aukast hér austanlands, ekki síst hvað varðar ferðaþjónustu. Ég hef líka trú á því að hann verði stækkaður á komandi árum. Við búum svo vel hér á Austurlandi að auðvelt er að taka á móti vaxandi fjölda ferðamanna og alveg eins á veturna. Það myndi heldur ekki skaða þjóðgarðinn þótt fleiri ferðuðust um hann, ég er þó ekki að óska eftir örtröð ferðamanna á viðkvæma staði garðsins. Mikil tækifæri eru í ferðaþjónustu í fjórðungnum og ekki síst inni á hálendinu, í því samhengi er sennilega réttast að hugsa um gæði frekar en magn.
Ekki má gleyma því að mikilvægasta hlutverk þjóðgarðs, fyrir utan verndun, er fræðsla. Ef ég gæti óskað mér einhvers væri það að austfirsk börn færu ekki í gegnum skólakerfið án þess að vera búin að heimsækja Snæfell og Kverkfjöll. Mér finnst mjög mikilvægt að ungt fólk í fjórðungnum kynnist þessu landsvæði. Við erum að stíga okkar fyrstu skref til samstarfs við austfirska skóla og héldum fund með skólastjórnendum á Austurlandi í fyrravetur og þeim leist vel á hugmyndirnar, ekki síst skólastjórnendum af fjörðunum.
Í tilefni dags íslenskrar náttúru í haust heimsóttum við miðstig allra fimmtán skóla fjórðungsins, frá Djúpavogi til Vopnafjarðar og sögðum frá hlutverki og náttúru þjóðgarðsins. Markmiðið er að öll grunnskólabörn komi einu sinni eða tvisvar í heimsókn í Snæfellsstofu og einu sinni inn að Snæfelli. Á framhaldsskólastigi verði svo farin stærri haustferð inn í Kverkfjöll. Stefnt er að því að í Snæfellsstofu verði til námsefni sem hentar öllum aldurshópum og tengist námskrá skólanna. Þar verður starfsmaður í vetur sem mun sérstaklega sinna þessu verkefni, að auka tengslin við skólana.

Að lokum vil ég láta það koma fram að ég tel mikið lán fyrir þjóðgarðinn í heild hversu gott fólk starfar í honum, hvort sem um er að ræða fast starfsfólk eða sumarfólk. Þessi stærsti þjóðgarður Vestur-Evrópu gæti þó þegið fleiri vinnandi hendur, hér á austursvæðinu eru til dæmis tveir fastir starfsmenn og við vildum gjarnan fá þann þriðja. Yfir sumarið eru starfsmennirnir níu, þrír vinna í Snæfellsstofu og landverðirnir á hálendinu eru sex.

Margt hefur áunnist á þessum fjórum árum þótt manni finnist hlutirnir aldrei gerast nógu hratt. En þetta hefur verið spennandi og skemmtilegur tími og verkefnin fram undan eru óþrjótandi.