Það gustar af henni
Sigríður Dóra Sverrisdóttir í viðtali við Ágústu Þorkelsdóttur
Áður hafði Sigga Dóra nánast aldrei þurft að standa í ræðustól. En nú var það hún sem setti eða sleit flestum menningarviðburðum á Vopnafirði. Mynd: Bjarki Björgólfsson..
Sigríður Dóra Sverrisdóttir, Sigga Dóra, hefur um tveggja áratuga skeið flutt menningu til Vopnafjarðar og rifið Vopnfirðinga upp úr sófunum og frá eldhúsborðunum til þátttöku í þeim atburðum sem hún hefur flutt þeim til menningarauka. Nafn hennar var á hvers manns vörum þegar hún fékk leikhópa frá Reykjavík, myndlistarmenn, tónlistarmenn, rithöfunda, hagyrðinga, sagnamenn og fjöllistafólk af ýmsu tagi til að leggja lykkju á leið sína og heimsækja heimahérað hennar þó það væri langt frá Reykjavík, nafla þess sem flestir kalla menningarmiðstöð Íslendinga.
n af hverju varð hún menningardrottning?
Ég varð bálreið sumarið 1993 þegar Þjóðleikhúsið fór með að minnsta kosti þrjár mismunandi leiksýningar um landið en gat ekki komið til Vopnafjarðar. Þangað var svo langt að fara. Í stað þess að þusa og drekka meira kaffi fór ég að kanna málið. Komst að því að Þjóðleikhúsið og aðrir sem fóru með list um landið töldu miðasölu á Vopnafirði ekki standa undir kostnaði við að heimsækja okkur. Ég sætti mig ekki við þetta svar.
Ég hafði því næst samband við Andrés Sigurvinsson leikstjóra sem var þá með leikritið „Fiskar á þurru landi“ í gangi. Spurði hann hvað kostaði að fá sýninguna til Vopnafjarðar og byrjaði svo að safna fé til framkvæmda. Hafði aldrei gert neitt svona en reiðin hvatti mig áfram. Ég ákvað að fá leikrit til sýningar á Vopnafirði, nennti ekki lengur að hlusta á auglýsingar um listflutning á landsbyggðinni, án þess að Vopnafjörður væri með í þeirri upptalningu. Við erum ekki bara vinnulýður sem leggur til gjaldeyri, við erum fólk sem vill auðga andann og njóta góðrar menningar.
Ég spurði mig hverjir nytu þess að við erum hérna og gerum Vopnafjörð byggilegan? Svarið var nokkuð einfalt, sjávarafurðafyrirtæki, veiðifélögin, flugfélagið, olíufélög og mörg önnur þjónustufyrirtæki sem starfa á landsvísu. Þangað leitaði ég og fékk styrki, nægjanlega til að geta boðið Vopnfirðingum upp á tvær sýningar á „Fiskunum“. Seldi miða á lágu verði en byggði jafnframt upp menningarreikning í bankanum til frekari starfsemi. Síðan má segja að ég hafi ekki stoppað, hver atburðuruinn rekið annan, nýjar hugmyndir fæst og starfsemi mín breyst.
Á Vopnafjarðardögum 1994, tónlist og önnur skemmtiatriði flutt á frystihúsplaninu. Börnin og fiskframleiðslan, meginstoðir samfélagsins, eru Siggu Dóru ofarlega í huga. Mynd: Methúsalem Einarsson.
Hjálparhellurnar foreldrar Siggu Dóru, Sverrir og Hrafnhildur með barnabörnin.
Hver er ég?
Því verður sá sem les að svara. Ég er fædd á Akureyri en flutti til Vopnafjarðar á unglingsárum með foreldrum mínum. Pabbi var sjómaður og á þeim árum fluttu fjölskyldur á milli staða vegna atvinnu fyrirvinnunnar. Pabbi, Sverrir Guðlaugsson, var á Brettingi, togara Vopnfirðinga, þar til hann fór á eftirlaun og mamma, Hrafnhildur Steindórsdóttir, sem starfaði við fiskvinnslu og ræstingar, eru kjarnafólk, hafa staðið vel fyrir sínu og með sínum en njóta nú efri áranna hér á Vopnafirði. Þau hafa hjálpað mér ótrúlega mikið við að láta drauma mína rætast.
eða metið til fulls.
Hvernig var aðkomu þinni að menningarmálum háttað áður en þú tókst á við málefnið á Vopnafirði?
Bernskuheimili mitt var venjulegt alþýðuheimili þar sem heimilisfaðirinn var sjómaður. Móðirin sá um börnin þrjú og lítið um menningarneyslu utan heimilis. En í Oddeyrarskóla, undir styrkri hönd Indriða Úlfssonar skólastjóra, komst ég í kynni við leiklist og fékk ofboðslegan áhuga fyrir öllum leiksýningum. Fékk að leika stór hlutverk í skólaleikritum sem Indriði samdi. Fór svo ung að sækja sýningar Leikfélags Akureyrar og fór á tónleika enda söng ég í kór barnaskólans og afi minn var mikill aðdáandi kórsöngs. Það jók aðeins áhuga minn á þessu sviði að verabarnfóstra hjá Áslaugu og Kristjáni Jóhannssyni söngvara. En á því heimili var tónlistin númer eitt og Kristján að hefja sinn feril.
Þetta sem ég hef rakið hér á undan bjó til frjóan jarðveg fyrir það sem síðar spratt upp á mínum vegum. Barn sem finnur í nærumhverfi sínu áhuga fyrir listum og menningu mun njóta þess alla ævi og alltaf leita í þær minningar til að byggja upp gott líf og jafnvel verða skapandi listamaður. Svo er líka nauðsynlegt fyrir menningarlífið að hafa meðvitaða áhorfendur sem hafa ástríðu og fullþroska tilfinningagreind eins og það heitir trúlega nú til dags. Ég vil byggja brú milli skapandi listamanna og alþýðufólks. Ég held að báðir aðilar hafi gott af slíku. Þess vegna er ég að þessu braski, stundum í óþökk þeirra afturhaldssömu í umhverfi mínu og þeim hópi sem ég umgengst. En sama er mér, ég held áfram og eins og sumir segja, æði eins og jarðýta í málin.
Jón Stefánsson í Möðrudal á þeim fræga Bustarfells-Blesa. Stórval, vinur Siggu Dóru, gerði þann hest þjóðfrægan.
Margbreytileg menning
Ég hef ekki bara flutt leiklist til Vopnfirðinga og séð um að tæla leikhópa til okkar með barnasýningar, sumar jafnt sem vetur. Strax eftir „Fiskana“ hófst ég handa við að skapa tækifæri fyrir framhald á þessari hugsjón minni, að flytja list til okkar á landsbyggðinni. Fékk fleiri með mér að setja saman dagskrá fyrir Vopnaskak/Vopnafjarðardaga. Þar bar hæst hagyrðingakvöld og kvöld sagnameistara. Síðan vaknaði hugmyndin að fá rithöfunda til að lesa úr nýjum bókum sínum fyrir jólin. Nú kemur svokölluð rithöfundalest á nokkra staði hér austanlands í desember ár hvert.
Það er gaman fyrir mig að rifja það upp að margir höfundar hafa nánast hafið sinn frægðarferil á Vopnafirði. Arnaldur Indriðason er lítið fyrir að lesa upp úr bókum sínum en hann kom til Vopnafjarðar og las úr Sonum duftsins. Yrsa var rétt stigin fram á ritvöllinn þegar hún varð nánast fyrir áfalli að keyra til Vopnafjarðar eftir svokölluðum M-vegi. En það var vegarkafli á gömlu leiðinni okkar þar sem aðeins einn bíll komst í einu eftir veginum og vegarútskot voru merkt með stóru M-skilti þar sem hægt var að mætast. Þetta vegakerfi létum við bjóða okkur þó við værum farin að njóta menningar, stundum langt fram yfir sambærileg byggðarlög.
Mér tókst að koma upp sýningu á verkum Errós á Vopnafirði, naut þar stuðnings Garðars heitins Svavarssonar, umboðsmanns Errós. Garðar átti jörðina Vakursstaði og bjó þar á sumrum. Svo fór ég mínar leiðir sem fyrr að safna fé til að borga fyrir þetta stórvirki. Það var stór stund að kynnast Erró og sjá verk hans hanga uppi í íþróttahúsinu á Vopnafirði.
Nú, og svo var það Stórval, hann Stefán Jónsson frá Möðrudal, sem reyndar bjó á Einarsstöðum í Vopnafirði á árunum 1941–1948. Vopnfirðingar þekktu Stefán vel og kunnu af honum ýmsar sögur, bæði frá búskaparárum hans á Einarsstöðum og eins frá tíma hans í Möðrudal. Hann hafði um áratuga skeið búið í Reykjavík og þótti þar skrýtinn fugl. Fólk var ekki sammála um hvort Stefán væri bara skrýtinn eða listrænn furðufugl. En þar sem hann var hluti af byggðarlaginu hérna, fjöllunum okkar og öræfum, vakti hann áhuga minn og hugmynd mín um sýningu á verkum Stórvals, Stefáns frá Möðrudal, varð að veruleika og vakti mikla athygli á honum og menningarbrölti Vopnfirðinga. Mikil sala varð á verkum Stefáns á sýningunni og Stórval fór á kostum þegar hann hitti sýningargesti. Þekkti marga og lék við hvern sinn fingur. Við fórum með gamla manninn um þorpið og sveitina, leituðum uppi gamla vini og staði sem honum þótti vænt um. Sýningin var mikill sigur fyrir Stefán og fyrir menningarmálanefnd Vopnafjarðar.
Þetta mátti ekki seinna vera því að Stefán dó skömmu seinna. Það er merkilegt að segja frá því að ég er ekki ennþá búin að ljúka sýningu verka Stefáns. Ennþá þarf ég að svara fyrirspurnum um hvar hægt sé að fá keypt verk eftir Stórval. Við urðum miklir vinir meðan á samstarfi okkar stóð og mér þykir því vænt um að sinna þessum erindum. Kannski áttum við Stebbi Stórval það sameiginlegt að vera svolítið misskilin en jafnframt ofvirk eins og það heitir á nútíma íslensku.
Svo kom að því að ég varð að taka mér hvíld, ég var búin að nýta til fulls mínar eigin rafhlöður og ég var farin að ganga fram af mínum nánustu sem studdu mig svo vel. Ég varð að taka mér hlé og hlaða upp nýja krafta. Kominn var tími fyrir annað fólk að halda á lofti menningarfána fyrir Vopnfirðinga og aðrar álíka byggðir fjarri nafla menningarinnar í Reykjavík. En ég lagðist ekki alfarið í híði.
Sigríður Dóra Sverrisdóttir. Fjörið geislar af andlitinu og greinilega mikið að gerast!
Þátttakendur í verkefninu „Rímur og rokk“ á Vopnafirði árið 2012. Mynd: Bjarki Björgólfsson.
Listasmiðjur
Börnin og unglingarnir voru mér alltaf hugstæð. Kannski vegna þess að þau þurftu ekki að leita eftir því af hverju ég er svona skrýtin. Þau komu opin, jákvæð og glöð inn í listasmiðjur sem settar voru upp í tengslum við Vopnafjarðardaga þar sem þau unnu í heila viku með frábærum listamönnum. Komu síðan fram í Miklagarði og sýndu pabba, mömmu, afa, ömmu og öllum hinum hvað þau voru flottir listamenn með hæfileika sem áttu bara eftir að verða þroskaðri og betri.
Þjóðleikur var næsti áfangi
Undir verndarvæng Menningarráðs Austurlands hrintum við í gang Þjóðleik. Þar setja unglingar upp leiksýningar í heimabyggðum, sérskrifuð leikrit undir leikstjórn heimakrafta og/eða fag-manna. Þetta var gert í samstarfi við Þjóðleikhúsið og reyndar tími til kominn að það leikhús hefði samband við unglinga landsbyggðarinnar. Nokkrir unglingar hafa haft gagn af þessu en um framtíð þessa verkefnis þori ég lítið að segja. Vona bara að það haldi áfram og eflist.
Rímur og rokk
Nýjasta verkefni mitt er „Rímur og rokk“. Það er nánast alfarið mitt verkefni, fjármagnað í gegnum Menningarráð og marga aðila sem hafa viljað leggja þessu lið.
Við byrjuðum árið 2012 með námskeiði á Vopnafirði fyrir unglinga frá Þórshöfn, Bakkafirðiog Vopnafirði. Ég fékk Steindór Andersen, Hilmar allsherjargoða og Baldvin Eyjólfsson, heimamann fluttan suður, til að leiða krakkana. Hugmyndin var að fá þátttakendur til að finna þráðinn á milli rímna og rokks.
Fyrsti dagurinn var ógleymanlega erfiður, unglingarnir skildu ekkert hvaða erindi rímur áttu til þeirra frekar en til foreldra þeirra. Ég reyndi að segja þeim að Hilmar og Steindór væru heimsfrægir listamenn en þeim fannst Baldvin bestur! En dagarnir liðu og mínum dásamlegu börnum gafst einstakt tækifæri til að nýta sína sköpunargáfu, sína list. Þau lærðu að kveða rímur, syngja þjóðlög, spila á hljóðfæri, semja lög og texta. Við héldum síðan dásamlega tónleika 2012 í Miklagarði.
Árið 2013 komu unglingar frá Norður-Noregi, ásamt frábærum leiðbeinanda þeirra. Okkar unglingar og þeir norsku unnu saman að verkefninu „Rímur og rokk“, þarna voru að verða til listamenn á mörgum sviðum. Eftir vikuæfingar buðu unglingarnir upp á tónleika í Miklagarði. Ég hef hitt áheyrendur sem telja þann atburð nánast það besta sem flutt hefur verið í Miklagarði. Sérstaka athygli vakti þegar börnin sungust á yfir salinn í Miklagarði á norsku og íslensku, eitthvað sem aldrei gleymist. Við vorum áheyrendur þess að rímur og rokk geta sameinast. Okkar listrænu unglingar sýndu það. Eftir kvöldið hjá unglingunum frá Noregi og Norðausturlandi í Miklagarði síðastliðið vor fór ég heim og hugsaði: Kannski gerði ég eitthvað gott.
Næsta sumar förum við til Norður-Noregs og tökum þátt í þeirra verkefni. Þann atburð er ég þegar búin að fjármagna, eina vandamálið er að finna tíma þegar unglingarnir mínir eru ekki í skóla eða í verksmiðjunni sem borgar þeim gott kaup til að borga námið næsta vetur. Það situr ekki á mér að ætlast til þess að þau svíkist undan vinnu og fari bara að spóka sig í útlöndum. En trúlega tekst mér að borga krökkunum mínum kaup fyrir þá daga sem tapast meðan þeir vinna stóra sigra sem listamenn í Norður-Noregi.
Þátttakendur í verkefninu „Rímur og rokk“ á Vopnafirði árið 2012. Mynd: Bjarki Björgólfsson.
Framtíðin?
Þú spyrð hvernig ég sjái framtíðina fyrir mér. Ég hef nú aldrei nennt að velta vöngum yfir því. Við Svavar minn verðum hérna, vona ég. Ég klára
„Rímur og rokk“. Svo fæ ég einhverja nýja hugmynd, veit ekki hver hún verður. Veit ekki heldur hvort ég get komið henni í framkvæmd. Ég vil bara sjá til þess að við Vopnfirðingar fáum aðgang að menningarviðburðum sem fólk á Reykjavíkursvæðinu hefur aðgang að.
Ég er farin að sjá árangur gerða minna. Vopnfirðingar sækja betur menningarviðburði en þekkist á flestum sambærilegum stöðum, segja þeirsem hingað koma. Ég vil bara jákvætt samfélag sem vinnur vel en nýtur líka alls þess sem menningin býður upp á. Samfélag sem réttir gjaldeyri inn í þjóðfélagið en fær líka eitthvað til baka. Þá er ég ánægð.