Skip to main content

.

 

Ljóðin - Hannes Sigurðsson

Hannes SigurðssonHannes Sigurðsson er fæddur að Skriðubóli á Borgarfirði eystra árið 1960. Flutti með fjölskyldu sinni að Eiðum árið 1971. Þar gekk hann í barnaskóla og síðan í framhaldsskólann á sama stað. Hann fluttist til Akureyrar árið 1981 og hefur búið þar síðan. Þar hefur hann fengist við ýmis störf, fiskvinnslu, sjómennsku, byggingavinnu, aðhlynningu fatlaðra og verslunarstörf. Hannes hefur frá unglingsaldri verið viðloðandi tónlist, hefur sungið í nokkrum kórum og lagt stund á klassískt söngnám. Ljóðagerð fór hann ekki að stunda að neinu ráði fyrr en um tvítugt. Ljóð eftir hann hafa birst í bókunum Rifbein úr síðum (1989) og Raddir að austan (1999).

Mamma

– tileinkað móður minni,
Jónbjörgu S. Eyjólfsdóttur

Hugur minn líður leitandi oft
um liðinna ára strönd.
Lít ég þar mynd af ljúfustu móður
með lítið barn við hönd.
Hún gætin það leiðir, geislar af ást
og gleðst við hvert eitt spor.
Saman fagna þau blómunum björtu
sem brosa um æskuvor.

Minningabrotin bera mér yl.
Þeim blómum ég heitast ann
er spruttu af gæsku gjöfullar móður
sem garðinn sinn rækta kann.
Þú skildir þar eftir ótal spor
sem aldrei burtu mást.
Þú gafst mér, mamma, gjöfina stærstu,
þú gafst mér móðurást.

Júnínótt

Sumardagsins þagnar þytur,
þráir nóttin kyrrð og ró.
Sólin gull á sæinn leggur,
sefur jörðin, fugl í mó.
Blærinn andar blítt um vanga,
bjarma slær á hjalla og tind.
Aðeins getur dýrstur drottinn
dregið slíka helgimynd.

Berst mér jarðar unaðs-angan,
áfall svalar velli og teig.
Blágresið á bakka lækjar
bergir lífsins guðaveig.
Aldan hæg við klappir kliðar,
kyssir sandinn létt og rótt.
Perlar dögg á dýjamosa
draumafagra júnínótt.

Á vindum ljóðanna

Hæðir og lægðir um huga mér þjóta,
í hafróti andans er vakinn upp kraftur.
Á ljóðanna vindum læt ég mig fljóta,
þar lygnir um stund en rýkur upp aftur.

Í organdi storminn ég stuðlunum þeyti,
stöfunum kasta og línurnar þræði.
Orðum ég stafla og stökunum hreyti,
í stálið risti mitt illviðriskvæði.

En einnig í góðviðri ljóðstafur læðist,
leitar að formi hin óræða vísa.
Við bjarmann af tungli bragurinn fæðist,
við blikandi sólstafi hendingar rísa.

Perlan sem drúpir á döggvuðum bala,
dimmbláar nætur í húminu svala,
röðull við hafsbrún og rósin til dala
renna um hugann í myndir sem tala.

Hver tilfinning ein sem í hjartanu hrærist,
hver hugsun sem lifnar í daganna flóði,
hvert nývakið orð sem á andanum nærist
óskar og þráir að verða að ljóð.

Stökur

Mikið yrði lífið létt
og léki sér við mig
ef ég gæti gróðursett
í garðinum mínum þig.

Blikna lauf um bleikan skóg
og bljúg til moldar falla.
Í ljóðum þeirra lít ég þó
lífsins fegurð alla.