Skip to main content

.

 

Ljóðin - Steinunn Ásmundsdóttir

Steinunn Ásmundsdóttir

Steinunn Ásmundsdóttir er fædd í Reykjavík 1. mars árið 1966. Hún settist árið 1996 að á Egilsstöðum og vann sem blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins á Austurlandi í hartnær áratug, en tók þá við ritstjórn héraðsfréttablaðsins Austurgluggans um nokkurra ára skeið. Hún kaus að yfirgefa róstusaman vettvang blaðamennskunnar fyrir nokkrum árum og leita skáldæðarinnar að nýju. Útgefin verk: Einleikur á regnboga, ljóð, Almenna bókafélagið, 1989, Dísyrði, ljóð, Goðorð, 1992 Hús á heiðinni, ljóð, Andblær, 1996. Ljóð, sögur og greinar í ýmsum innlendum og erlendum tímaritum og safnritum gegnum tíðina.

vi

Herðubreið ertu enn
í skýjamöttli
um herðar þér
bærast ljósþokur

öldruð og vís

hol innan
og guðirnir búa á tindinum
jötnar við ræturnar
líkt og stjórnir þú
örlögum vatns og vinda
elds og ísa

sá er klífur andlit þitt
með tóg og meitli
svo smálegt korn
úr ryki alheims.

vii

Ódáðahraun
endalaust og endanlegt
gamalgrimmt og ógurlegt
hýsir þó frjókorn lífsins
örsmá urtin hvílir þar
líkt og Eyvindur forðum
er hann fól sig í gjótum.

Ódáðahraun
svo óhagganlegt
tími þinn annar en okkar
kominn frá deiglu elds
til seiglu þess sem er.

Kynslóðir koma og fara
vilja ráðskast með þig
en týnast hver af annarri
án sérstaks hróðurs í hraun
sem eitt sinn draup í eldi
og storknaði í eilífð.

(Dísyrði, ljóð)

Þorsteinn Bergsson

Þorsteinn Bergsson er fæddur í Reykjavík árið 1964. Hann flutti ungur með móður sinni austur á Hérað og síðan að Refsstað í Vopnafirði. Þorsteinn er búfræðikandidat að mennt og er sauðfjárbóndi og þýðandi að Unaósi í Hjaltastaðaþinghá. Hann hefur birt ljóð í ritsöfnunum Íslensk alþýðuskáld (1990) og Raddir að austan (1999). Ljóðabók hans, Vébönd, kom út árið 2008.

Ótræði

Líf mitt er afborganalaus víxill
allir vextir löngu teknir út
gjalddaginn einn
án gremju eða sorgar

en ef ykkur stæði á sama
myndi ég heldur vilja staðnæmast
í brekkunni
horfa á tíbrána sindra
yfir sandinum
eða þótt ekki væri nema
ótræði
undir jökul að sjá

heldur en sama
holrifið
eftir hjól atvinnulífsins
á yfirsnúningi
af því að svo margir þurfa að kaupa sér líf
á raðgreiðslum
því rótin er slitin

líkt og í ótræðinu
þar sem hverfa harðsporar
ofan í döpin