Skip to main content

.

 

Ljóðin - Sigurður Óttar Jónsson

Sigurður Óttar JónssonSigurður Óttar Jónsson er fæddur í Jórvík í Hjaltastaðarþinghá árið 1942 en ólst upp á Jökuldal frá átta ára aldri. Hann lærði rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og vann lengst af hjá Rarik á Austurlandi og síðast sem stöðvar­stjóri í Lagarfossvirkjun. Sigurður er búsettur á Egilsstöðum. Hann hefur sinnt fjölbreyttum áhugamálum, var um árabil virkur í Ferðafélagi Fljóts­dalshéraðs og gerði upp gamla herbíla, traktora og önnur landbúnaðar­tæki. Í seinni tíð hefur hann snúið sér meira að sólar- og vindorkuverum. Sigurður hefur haft ánægju af ljóðum og lausavísum allt frá barnæsku og vísnagerð hefur verið tómstundaiðja hans lengi.

Stund

Sælis rang um víðan vang
vegi stranga ganga,
fram á tanga, fyrir drang
ferðalangar spranga.

Óáran á Íslandi

Vaða í slori, slyddu og for,
af slúðri sporin mora.
Alla skora á í vor
út til Noregs þora.

Siðaskipti

Siðar heiðins hafið skeið,
hratt út breiðist trúin.
Vegur greiður, lífsins leið
liggur reiðubúin.

Ganga tvö

Labba um grundu létt með pund
leyndum bundin þræði.
Á Reykjalundi stað og stund
strax við fundum bæði.

Á efsta degi

Eftir dauðann dæmist pund,
daglegt brauð hvort nægði.
Frá mér Auður eina stund
öllum nauðum bægði.

Náttúruspjöll

Oft í flaustri augum gaust,
allt mitt traust þó hlaustu.
Síðan hraustu linnulaust,
lögmál NAUST þá braustu.

Ort að morgni síðari fundardags Náttúruverndar­samtaka Austurlands, NAUST, eftir gistingu með fundarfólki í Kverkfjallaskála.

Nágrannakrytur

Þá í brand og brýnu slær
birtist vandi ærinn.
Öndvert standa óskir tvær
yfir landamærin.

Lögmenn

Á vegi hálum selja sál,
svik og tál og hrekki.
Þetta er válegt vandamál
sem veldur álitshnekki.

Tunglmyrkvi

Nú skal virkjuð orkuæðin
af þeim styrk sem gafst þú mér
til að yrkja afmorskvæðin
auðn þó myrkvuð grúfi hér.

Þröng er gatan, þakin hrísi,
þar að rata virðist baks.
Gildismatið veginn vísi,
vík burt, satan, frá mér strax.

Freisting breiða veginn varðar,
viðnám eyðist sérhvert mér.
Máni skreið í skugga jarðar,
skárust leiðir okkar hér.

Yndisþrána aldrei þrýtur
oft þó lánið reynist valt.
Sorg og þjáning þverra hlýtur,
þögull máni glottir kalt.