Skip to main content

.

 

Viðtalið: Fýsnin til fróðleiks og skrifta

Helgi Hallgrímsson í viðtali við Magnús Stefánsson

Droplaugarstaðir í Fljótsdal, æskuheimili Helga, stofnað sem nýbýli úr landi Arnheiðarstaða árið 1942. Hrafnsgerðisá með fossum til hægri, Kiðuklettar neðst. Ný og gömul skógrækt í brekkunum. Mynd : Skarphéðinn G. Þórisson.

Droplaugarstaðir í Fljótsdal, æskuheimili Helga, stofnað sem nýbýli úr landi Arnheiðarstaða árið 1942. Hrafnsgerðisá með fossum til hægri, Kiðuklettar neðst. Ný og gömul skógrækt í brekkunum. Mynd : Skarphéðinn G. Þórisson.

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum, er lesendum Glettings að góðu kunnur. Hann er einn þeirra sem haldið hafa Glettingi á lífi í hálfan þriðja áratug og hefur lagt honum til meira efni en nokkur annar höfundur. Þekktastur er hann fyrir rannsóknir á íslenskri náttúru, ritstörf og fræðimennsku og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Helgi féllst á að rifja upp ýmis atvik úr lífshlaupi sínu og miðla til lesenda Glettings. Meðal annars var hann beðinn að velta fyrir sér hver sé orsök þeirrar áráttu sem hann hefur alla ævi verið haldinn til skrifta.

Ég er Fljótsdælingur, að vísu fæddur í næsta hreppi, á bænum Holti í Fellum 11. júní 1935 en fluttist með foreldrum mínum ársgamall inn fyrir Hrafnsgerðisá, að Arnheiðarstöðum í Fljótsdal og þar átti ég heima til sjö ára aldurs. Þá byggðu foreldrar mínir nýbýlið Droplaugarstaði, yst á jörðinni, við hreppamörkin. Þar ólst ég upp þangað til ég fór að heiman í skóla. Börnin gengu í farskóla í Fljótsdal á þessum árum eins og alsiða var í sveitum landsins og stundaði ég hann í þrjá vetur, tvo til þrjá mánuði á vetri, minnir mig. Kennari okkar var Guttormur Þormar í Geitagerði, vel þekktur íþróttamaður á þeim tíma.

Bækurnar himnasending.

Áhugi minn á bókum vaknaði snemma, ekki var þó mikill bókakostur á heimili foreldra minna. En þegar ég var í barnaskólanum komst ég í nokkrar merkilegar bækur sem hafa eiginlega fylgt mér alla tíð síðan. Ég get nefnt þrjár sem höfðu mest áhrif á mig. Í fyrsta lagi er það bókin Flóra Íslands eftir Stefán Stefánsson sem kom út 1901 og var
lengi vel eina bókin á því sviði. Mér fannst alveg himnasending að komast í þessa bók því að ég var þá farinn að hafa mikinn áhuga á plöntum. Ég fékk leyfi eigandans til að fá bókina lánaða og hana dagaði uppi hjá mér. Svo var Snorra-Edda til á sama bæ – þetta var á Melum í Fljótsdal – og ég hafði ákaflega gaman af að lesa goðsögurnar í henni, Gylfaginningu sérstaklega. Svo var það þriðja bókin sem ég fann í Klúku í Fljótsdal, það var Ferðabók Sveins Pálssonar. Ég varð fyrir áhrifum af þessum bókum. Mér finnst þær hafi eiginlega markað æviferilinn þótt áhuginnhafi verið vaknaður áður. Ég byrjaði síðan að safna plöntum og greina blómplönturnar eftir Flóru.

Arnheiðarstaðir í Fljótsdal, bernskuheimili Helga (1936-1942). Búið var í baðstofunni til vinstri. Myndin er tekin árið 1959. Mynd H. Hg.

Arnheiðarstaðir í Fljótsdal, bernskuheimili Helga (1936-1942). Búið var í baðstofunni til vinstri. Myndin er tekin árið 1959. Mynd H. Hg.

Ég fór svo í Eiðaskóla haustið 1948, þrettán ára gamall og var þar næstu þrjá vetur. Þar komst ég líka í merkilegar bækur – sérstaklega eina – gamla, danska stjörnufræði. Þetta var kennslubók sem Þórarinn skólastjóri átti og var í geymslu uppi á háalofti í íþróttahúsinu. Ég nappaði þessari bók, tók mér svo fyrir hendur að þýða hana á íslensku og teikna upp skýringarmyndir úr henni. Þannig komst ég svolítið inn í stjörnufræði, strax á Eiðum.

Annars voru smíðar aðaláhugamál mitt á Eiðum og smíðakennarinn, sem kom í Eiða 1949, var uppáhaldskennarinn minn. Það var Vestfirð­ingurinn Halldór Sigurðsson. Hann fékk álit á mér sem smið og kom mér til að smíða ágætan grip, ljósakrónu mikla sem þurfti bæði að renna og skera út. Síðasta veturinn fóru eiginlega allir sunnudagar í þessa vinnu. Íslenskan höfðaði ekkert sérstaklega til mín í Eiðaskóla, bókmennta­áhuginn ekki vaknaður.

Í Menntaskólanum á Akureyri
Síðan taka menntaskólaárin við. Eftir að hafa lesið fyrsta veturinn heima fór ég í Menntaskólann á Akureyri vorið 1952 og útskrifaðist sem stúdent 1955. Þarna naut ég mín miklu betur en í Eiða­skóla og kynntist mörgum ágætum mönnum meðsvipuð áhugamál. Ég fór að kynnast bókmenntum og heimspeki og síðan má segja að þær greinar hafi togast á í huga mínum við náttúrufræðina. Ég var þá farinn að greina mosa og þörunga við heldur bágar aðstæður því að bæði vantaði tæki og bækur. Síðasta veturinn í Menntaskólanum var ég svo ritstjóri skólablaðsins Munins.

Menntaskólinn á Akureyri. Helgi útskrifaðist sem stúdent frá skólanum fyrir sextíu árum (1955).

Menntaskólinn á Akureyri. Helgi útskrifaðist sem stúdent frá skólanum fyrir sextíu árum (1955).

Ég var í stærðfræðideild þar sem ég stefndiað háskólanámi í náttúrufræði. Ég stóð mig nú ekkert vel í stærðfræðinni en ég hafði áhuga fyrir eðlisfræði, stjörnufræði og efnafræði ekki síst og fór þá líka að gera tilraunir á eigin spýtur íeðlisfræðistofu skólans. Ég var svo heppinn að fá kennslu í latínu einn vetur, hún var mér mjög mikilvæg og hefur enst mér að vissu leyti alla ævi. Latínuna kenndi Brynleifur Tobíasson, þekktur maður á þeim tíma. Svo var gaman að kynnast skólameistaranum, Þórarni Björnssyni, sem var einstakur maður. Fyrir stuttu síðan lést kennari minn í Menntaskólanum, Aðalsteinn Sigurðsson sögukennari og bókavörður skólasafnsins, sem mér líkaði mjög vel við og náðum við vel saman. Hann var seigur að finna gamlar fræðibækur, jafn­vel frá Möðruvallaskóla.

Háskólanám í Þýskalandi
Ég hafði einhvern veginn fengið þá flugu í höfuðið að sjálfsagt væri að fara til Þýskalands í háskóla­nám. Það var hagstætt vegna gengis íslensku krón­unnar og svo var Þýskaland frá gamalli tíð þekkt sem land náttúrufræðinnar. Ég fór til Göttingen en háskólinn þar var helst þekktur fyrir eðlisfræðiog stærðfræði. Ég sá nú eftir á að það var ekki alveg rétt ráðið. Líffræðin var ekkert sérlega hátt skrifuð enda fór svo að ég gafst upp á náminu þar og var að síðustu í Hamborg. Vorið 1956 fór ég í tveggja mánaða reisu um Þýskaland, Sviss og Ítalíu allt til Rómar, mestan part einn míns liðs á reiðhjóli og naut fyrirgreiðslu hjá bréfvinum í þessum löndum.

Aðalbygging háskólans í Göttingen í Þýskalandi þar sem Helgi stundaði nám.

Aðalbygging háskólans í Göttingen í Þýskalandi þar sem Helgi stundaði nám.

Ég stundaði líffræðinámið í fjögur til fimm ár, með grasafræði sem sérgrein. Námið varð þó ekki samfellt, ég þurfti að gera hlé á því til að vinna fyrir mér. Veturinn 1957–1958 kenndi ég til dæmis við Eiðaskóla og haustið 1959 réð ég mig sem stundakennara við Menntaskólann á Akur­eyri. Þar kenndi ég svo eftir að ég hætti námi, alls um átta ára skeið og aðalkennslugrein mín varefnafræði. Ég hafði ánægju af starfinu og var sífellt að reyna að endurbæta kennslu í náttúrufræði með alls konar nýjungum en fékk heldur bágt fyrir hjá Steindóri, starfsbróður mínum. Árið 1958 kvæntist ég Kristbjörgu Gestsdóttur frá Múla í Aðaldal og bjuggum við saman þar til hún lést í ársbyrjun 2008. Við eignuðumst þrjú börn saman og dóttur átti hún fyrir sem nú er líka dáin.

 

Ungur háskólastúdent í  Göttingen.  Mynd: Guðmundur  Sigvaldason.

Ungur háskólastúdent í  Göttingen.  Mynd: Guðmundur  Sigvaldason.

Náttúrugripasafnið
Ég kynntist Náttúrugripasafninu á Akureyri sem þá var til húsa á fimmtu hæð í Hafnarstræti 81, rétt innan við Hótel KEA. Það var þá einungis sýn­ingasafn, opið á sunnudögum. Ég byrjaði að safna sveppum árið 1960 og þurfti að fá húsnæði fyrir safnið sem varð brátt nokkuð stórt. Einnig vant­aði mig aðstöðu til rannsókna á því. Ég fékk inni fyrir sveppina í húsnæði Náttúrugripasafnsins. Þannig æxlaðist til að ég var ráðinn safnvörður, fyrst á eins mánaðar launum á ári og gat fariðað minnka kennsluna smátt og smátt. Árið 1970 var ég kominn í fullt starf sem forstöðumaður safnsins og þá hætti ég kennslu. Þá byrjaði ég að breyta því í fræðilegt safn. Húsnæðið var sæmi­lega rúmgott og svo vorum við að smáfæra okkur niður á neðri hæðirnar eftir því sem þær losnuðu. Amtsbókasafnið var þarna til húsa og þegar byggt var yfir það fékk Náttúrugripasafnið aukið rými. Þarna vann ég svo meira og minna, allt þar til ég flutti austur í Egilsstaði árið 1987, ýmist sem forstöðumaður eða almennur starfsmaður. Þessi ár var ég venjulega við einhverjar rannsóknir á hverju sumri og vann úr þeim yfir veturinn.

Hafnarstræti 81 á Akureyri, húsnæði Náttúrugripasafnsins á starfsárum Helga við safnið. Sigurhæðir standa uppi í brekkunni. Mynd: H. Hg.

Hafnarstræti 81 á Akureyri, húsnæði Náttúrugripasafnsins á starfsárum Helga við safnið. Sigurhæðir standa uppi í brekkunni. Mynd: H. Hg.

Helgi og Ford framan við Aðalstræti 36 á Akureyri, heimili Helga. Myndin er tekin sumarið 1965. Mynd: Hjörleifur Guttormsson.

Helgi og Ford framan við Aðalstræti 36 á Akureyri, heimili Helga. Myndin er tekin sumarið 1965. Mynd: Hjörleifur Guttormsson.

Tímaritið Týli og fleiri rit
Eftir að ég fluttist til Akureyrar sem kennari hófum við, þrír grasafræðingar, útgáfu tímarits um grasafræði og nefndum það Flóru. Með mér að útgáfunni stóðu þeir Hörður Kristinsson og Steindór Steindórsson, gamli kennarinn minn og síðar skólameistari. Tímaritið kom út í sex ár, 1963–1968, og flutti fræðilegt efni og einnig efni ætlað almennum lesendum. Okkur fannst þetta ekki ganga fyllilega upp og ákváðum að skipta því. Upp úr því spruttu svo tvö tímarit. Fræðilegi hlut­inn fór í tímarit sem heitir Acta Botanica Islandica og kemur enn út. Hitt nefndist Týli og stóð ég aðallega fyrir því og vann mest að ritstjórninni. Týli kom út tvisvar á ári og lifði í fimmtán ár og markmið þess var að fjalla um náttúrufræði og náttúruvernd sem þá var nýtt hugtak í umræðu um náttúruna.

Ég var nokkuð duglegur við skriftir á Akureyrarár­unum og birti fjölmargar greinar í blöðum og tíma­ritum, til dæmis í Náttúru­fræðingnum og tímaritinu Heima er best. Þessar greinar voru langflestar um náttúrufræði og líka um þjóðtrúarfræði, eftir að komið var fram um 1980– 1985. Þá fékk ég sérstakan áhuga á þeim fræðum og skrifaði mikið um þau.

Kveikjan að því að ég fór að skrifa fyrir almenning um sveppi var sú að ég var hvattur til þess af Garð­yrkjufélagi Íslands að skrifa grein um matsveppi og birtist hún í Garðyrkjuritinu. Síðan bætti ég við þau skrif og úr varð Sveppakverið sem félagið gaf út 1979.

Helgi Hallgrímsson á vinnustað sínum, Náttúrugripasafninu á Akureyri.

Helgi Hallgrímsson á vinnustað sínum, Náttúrugripasafninu á Akureyri.

Ég byrjaði að rannsaka líf í vötnum árið 1970 í tengslum við svonefnt Láxárvirkjunarmál sem var þá mikið og heitt deilumál vegna stórvirkjunar sem áætluð var í Laxá í Þingeyjarsýslu. Þá fannst mér sjálfsagt að Náttúrugripasafnið tæki sig til og færi að rannsaka lífríki Mývatns og Laxár því að ég taldi að rannsóknir væru undirstaða ákvarðanatöku um slíkar stórvirkjanir. Þannig komst ég inn í þessa fræðigrein, vatnalíffræði, fór að greina vatnalífið og upp úr því spratt svo bókin Veröldin í vatninu, árið 1979. Námsgagnastofnun sá um aðra útgáfu bókarinnar árið 1990 og var hún mikið notuð í skólum enda ekki um annað hliðstætt námsefni að ræða.

Rannsóknarstöðin Katla
Við fluttum um tíma burtu frá Akureyri, út áÁrskógsströnd og bjuggum þar á árunum 1966–1975, á smábýli við sjóinn sem nefnist Víkurbakki. Þar komum við upp náttúru­rannsóknarstöð sem hlaut heitið Katla og var nýjung á þeim tíma hér á landi. Við keyptum, í félagi við Svein Jónsson, bónda á Kálf­skinni, og Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing, stórt íbúðarhús sem stendur þarna í sama túni og nefnist Ytri-Vík. Þar var ágætt pláss og hægt að taka á móti hópum, þar gátu þeir gist og haft sína matseld og stundað rannsóknir. Þetta var talsvert notað í nokkur ár, aðallega voru það breskir háskólastúdentar sem sóttu stöð­ina. Alltaf komu kennarar með hópunum sem leiðbeindu við margvíslegar rannsóknir, bæði á sjó og landi. Aðeins í Vestmannaeyjum var svipuð starfsemi. Þar var komið upp aðstöðu við náttúru­gripasafnið í sambandi við Surtseyjarrannsóknir.

Ytri-Vík á Árskógsströnd, hús Rannsóknarstöðvarinnar Kötlu. Mynd: H. Hg.

Ytri-Vík á Árskógsströnd, hús Rannsóknarstöðvarinnar Kötlu. Mynd: H. Hg.

Katla var rekin sem sjálfseignarstofnun og furðu vel gekk að fá styrki til starfseminnar frá ýmsum aðilum. Smávegis ríkisstyrk fengum við, einnig styrk frá sýslunni, kaupfélaginu og fleiri aðilum, jafnvel frá einstaklingum. Ég var á launum hjá Náttúrugripasafninu samhliða og vann þar eins og áður. Svo höfðum við smábúskap með þessu sem kom sér vel. Þarna fórum við að rannsaka lífið í jarðveginum – moldarlíf. Það hafði aldrei verið gert hér á landi áður. Við fengum sérstakan styrk til þess og ráðnir voru starfsmenn til verksins. Ég skrifaði um rannsóknirnar í Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands.

Minna varð úr starfsemi Kötlu en til stóð ogþað var kannski mér sjálfum að kenna. Ég var nokkuð seigur að byrja á hlutum og stofna hitt og þetta, ýmis félög og stofnanir, en úthaldið var ekki nógu gott. Með árunum varð erfiðara að útvega styrki og einnig dró úr aðsókn erlendra stúdenta vegna þess að námsferðir þeirra nutu ekki styrkja sem áður. Sveinn á Kálfsskinni keypti okkar hlut í Ytri-Vík eftir að starfsemin lagðist niður og kom þar upp ferðaþjónustu.

Náttúruverndarsamtök
Ég beitti mér fyrir stofnun Samtaka um nátt­úruvernd á Norðurlandi (SUNN) sem var fyrsta félag til verndar náttúrunni sem stofnað var fyrir almenning hér á landi. Þetta var árið 1969 og strax árið eftir voru stofnuð hliðstæð samtök hér eystra, Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) og var Hjörleifur Guttormsson aðal­hvatamaður að stofnun þeirra. Hliðstæð samtök voru síðan stofnuð í öðrum landshlutum á næstu árum. Við Hjörleifur unnum mikið saman að 

náttúruverndarmálum á þessum tíma, vorum bekkjarbræður í Menntaskólanum á Akureyri og samtímis við nám erlendis. Hann lærði líffræði í Leipzig í Austur-Þýskalandi.
Á áttunda áratugnum var starf mitt aðallega á sviði náttúruverndar, bæði fyrir SUNN og Náttúruverndarráð. Fór ég þá um allt Norðurland og kynntist vel náttúrufari fjórðungsins og helstu náttúruminjum.

Flutt til Egilsstaða
Það togaði í mig að flytja hingað austur og það gerði ekki síst skógræktin heima á Droplaugar­stöðum. Ég hafði byrjað að fást við skógrækt um tíu ára aldur og hún var mér mikið áhugamál á unglingsárunum. Við feðgarnir komum upp skógargirðingu, einni þeirri fyrstu á Héraði og síðan var þetta eitthvað sem mér fannst ástæða til að halda áfram við. Svo vildi konan mín gjarnan flytja austur.

Við fluttum svo hingað til Egilsstaða vorið 1987. Kristbjörg fór að vinna á sambýli fyrir fatlaða og vann fyrir heimilinu að nokkru leyti fyrstuárin. Árið 1989 tók ég að mér að ritstýra bók um fæðingarsveit mína, Fellahrepp, kom hún út 1991 og nefnist Fellamannabók. Aðalhöfundur hennar var Helgi Gíslason á Helgafelli.

Ég fékk ígripastarf við að skoða skógræktarlönd sem Héraðsskógar sömdu um til plöntunar. Það var talsverð vinna á sínum tíma og fólst helst í því að meta hvaða land væri ástæða til að vernda fyrir skógrækt. Þannig kynntist ég mjög vel nátt­úrunni á Upphéraði. Ég fór svo að ferðast um allt Héraðið og upp á öræfin líka í sambandi við virkjanamál. Eftir þessa vinnu kom svo dálítið rit sem nefnist Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, gefið út í skýrsluformi af sveitarfélaginu árið 2010.

Glettingur verður til
Fljótlega eftir að ég kom austur hófst umræða umútgáfu á nýju, austfirsku tímariti og Ásgeir Már Valdimarsson, sem rak Prentverk Austurlands, hafði forgöngu um að koma hugmyndinni í fram­kvæmd. Hann fór að tala um þetta við mig en ég tók lítið undir, hafði reynslu af því að norðan að standa fyrir útgáfu tímarita og vissi hvað það þýddi mikla vinnu og alls konar vafstur. Mig lang­aði eiginlega ekkert að fara í það aftur. Hann gaf sig ekki og sneri sér næst til Finns Karlssonar frá Gunnlaugsstöðum sem var bókmenntafræðingur að mennt og kennari við Menntaskólann. Hann virtist grípa hugmyndina og tók vel í þetta. Ég held að fljótlega hafi svo verið rætt við Sigurjón Bjarnason sem líka var áhugamaður um þessi mál og eftir það gat ég ekki skorast undan og gekk í félag með þeim að ritstýra þessu tímariti. Það hóf göngu sína árið 1991 og hlaut heitið Glettingur.

Brátt tók að halla undan fæti fyrir Prent­verkinu sem sá um útgáfuna fyrstu þrjú árin og árið 1994 stofnuðum við Útgáfufélag Glettings sem hefur séð um útgáfuna síðan. Var ég for­maður þess fyrstu árin. Það kom til tals á þessum tímamótum að ganga til samstarfs við Múlaþing og sameina ritin. Finnur, sem hafði þá tekið að sér ritstjórn Múlaþings, var hlynntur hugmyndinnien við Sigurjón vorum henni mótfallnir. Ég taldi að ritin gætu vel þrifist hlið við hlið, með vissri verkaskiptingu og Múlaþing, sem er ársrit, tæki lengri greinar og fræðilegri. Ég hef skrifað mikið í Gletting og einnig í Múlaþing, bæði um nátt­úrufræði og söguleg efni.

Ég á líka margar greinar í Náttúrufræðingnum, sérstaklega um plöntur og ýmis fyrirbæri í nátt­úrunni. Þegar virkjunarmálin voru í algleymingi skrifaði ég fjölda blaðagreina sem flestar birtust í Morgunblaðinu. Þær voru vissulega skrifaðar gegn stórvirkjunum og stóriðju en ég reyndi samt að vera hófsamur. Mitt sjónarmið var frekar að kynna náttúruna heldur en vera að andskotast á móti virkjunum. Ég taldi að þegar menn kynntust náttúrunni á virkjanasvæðinu betur myndu menn átta sig á að þetta væri allt of verðmætt land til að skemma það eða breyta því.

Stórvirki á ritvellinum
Segja má að nokkrar bækur hafi hreinlega sprottið upp af þessu deilumáli um virkjanirnar sem varð landsfrægt og skipti þjóðinni í tvær fylkingar, nokkurn veginn jafnstórar. Þar á meðal er bókin Lagarfljót – mesta vatnsfall Íslands sem kom út árið 2005 og er ríkulega myndskreytt. Fyrir bókina hlaut ég viðurkenningu Hagþenkis fyrir besta fræðirit ársins. Ég byrjaði að skrifa hana um aldamótin og reyndi að nota þá þekkingu sem ég hafði til að kynna þetta vatnsfall sem stóð þá til að breyta verulega. Ég var áður búinn að skrifa greinar um fossana í Jökulsá í Fljótsdal og ýmis­legt fleira varðandi Lagarfljót. Ég var alinn upp við Fljótið og hafði sérstaka tilfinningu gagnvart því og allar breytingar, sem gerðar yrðu á því, fannst mér hlytu að vera vafasamar.

Ég fór svo aftur að snúa mér að sveppunumþegar Lagarfljótsbókin var frá. Ég hafði unnið við svepparannsóknir í hjáverkum allt frá 1960, næstum alla starfsævina og alltaf verið með það í huga að koma frá mér meiriháttar verki um svepparíki landsins. Drög að þessu riti var ég búinn að semja nokkrum sinnum áður en ég flutti hingað austur, var að smábæta við skrifin, breyta og endurskrifa. Það var svo verkefni mitt næstu fimm ár að ljúka við Sveppabókina og mér tókst að koma henni á prent árið 2010.

Bókaútgáfan Skrudda gaf báðar þessar bækur út og á ég henni mikið að þakka. Fyrir Sveppabókina fékk ég Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011. Gerð bókar eins og þessarar má heita æviverk eða niðurstaða ævistarfsins og ég var mjög feginn að koma því frá enda hef ég ekkert hugsað um sveppi síðan.

Stiklað á steinum á góðviðrisdegi við Lagarfljót, við Droplaugarstaði árið 2013. Mynd: Ólöf Arngrímsdóttir.

Stiklað á steinum á góðviðrisdegi við Lagarfljót, við Droplaugarstaði árið 2013. Mynd: Ólöf Arngrímsdóttir.

Ég fór síðan að semja bók um Fljótsdals­hrepp, mína uppeldissveit, eftir að ég hafði gert sveppunum skil. Hún er nú komin á síðasta snúning og útgáfa væntanleg á næsta ári. Þar lýsi ég náttúru Fljótsdals, rek sögu sveitarinnar, birti ábúendatal jarða og þannig mætti lengi telja.

Ég er búinn að taka saman greinar sem ég hef ritað og birt um plöntur og ekki er mikið verk að búa þær til prentunar, lítið annað eftir en að velja myndir við hæfi. Þar eru meðal annars átta greinar um einkennisplöntur Austurlands úr Glettingi.

Sigfúsarstofa
Ég byrjaði ungur að skrifa um ýmisleg efni en geri mér ekki grein fyrir hvert ég sótti löngunina til þess að skapa ritverkin. Þó tel ég þessa áráttu ættgenga frekar en að hún eigi rætur í uppeldinu. Ýmsir frændur hafa verið liðtækir í þessu og má til dæmis nefna Benedikt Gíslason frá Hofteigi. Hann var sískrifandi og ég held hann hafi verið haldinn þessari áráttu. Þetta finnst í báðum ættum, Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnari var líka sískrifandi. Hann var alinn upp á Skeggjastöðum í Fellum. Móðir mín var þaðan og kynntist honum í æsku. Sigfús var í miklum metum á heimili okkar og við lásum þjóðsögurnar hans mikið. Það hafði sín áhrif, sérstaklega vakti það þennan þjóðfræðilega áhuga. Gunnar skáld var einnig í frændliðinu.

Foreldrar mínir voru báðir vel ritfærir. Faðir minn var dálítið gefinn fyrir skriftir og skrifaði dagbækur, blaðagreinar og minningagreinar. Eftir móður mína liggja skólastílar, ferðasögur og fleira sem ég gaf út í minningarriti um hana á aldarafmæli hennar árið 2012. Það tíðkaðist ekki á hennar dögum að konur væru að hafa sig í frammi.
Fyrstu ritsmíðar mínar birtust í Munin, skólablaði Menntaskólans á Akureyri 1954–1955, 

greinar og smásögur. Ég skrifaði líka heilmikið á námsárunum úti í Þýskalandi en það er aðeins til í handriti. Þar fyrir utan á ég mikið safn handrita um margs konar efni, skrifað á hinum ýmsu skeiðum ævinnar og aldrei verður gefið út. Ég hef meðal annars skrifað æviminningar mínar til 35 ára aldurs. Framhald þeirra skrifa ræðst af því hvernig heilsan og ævin endist.
Ég skrifaði greinaflokk um þjóðfræði og þjóðtrú sem birtist í tímaritinu Heima er best á árunum 1984–1985, aðallega sögur í kringum huldufólk. Svo hef ég safnað heimildum um þjóðtrúarstaði, sem ég kalla, á ölu svæðinu frá Eyjafirði og hingað austur. Meirihluti þessa safns er óbirtur og gæti verið efni í heila bók.

Ég hef miklar áhyggjur af því hvað verður um þetta safn mitt og ýmislegt annað, sem ég hef safnað, um þjóðhætti og fleira. Það er aðalvandamálið núna. Ég er að gæla við þá hugmynd að mynduð verði stofnun sem kennt yrði við Sigfús Sigfússon og nefnd Sigfúsarstofa. Það er langt síðan ég fór að vekja máls á því. Þar ættu handrit mín heima því að þau eru framhald á hans verkum.

Skrá yfir útgefin rit mín á árunum 1954–2004 birtist í bókinni Á sprekamó sem kom út á sjötugsafmæli mínu vorið 2005, hún er nú uppseld. Ritum mínum hefur fjölgað töluvert síðan.

Glettingur styður hugmynd Helga um stofnun Sigfúsarstofu þar sem æviverk þeirra frændanna yrðu í öndvegi og fræðimönnum sköpuð aðstaða til rannsókna og skrifta. Safnahúsið á Egilsstöðum virðist kjörinn staður sem heimili stofunnar en af því getur ekki orðið fyrr en húsið rís í fullri stærð. Glettingur skorar á stjórnendur Fljótsdalshéraðs að koma stofunni á fót og skapa henni aðstæður við hæfi. Á Eiðum bíður ónotað húsnæði sem gæti hentað þar til varanleg lausn fæst.

Glettingur þakkar Helga viðtalið og sendir honum góðar óskir er hann klífur næsta hjalla ævivegarins. Við væntum þess að hann sendi lesendum enn eina hugvekju í næsta blaði.