Skip to main content

.

 

Í hafi þjóðanna - Sigurjón Bjarnason

Sigurjón Bjarnason

Löngum hefur Austurland verið skilgreint sem afskekktur landshluti. Sama gildir Ísland, viðerum ekki í alfaraleið, segja sumir. Í skjóli þessa teljum við okkur vera undir aðra sök seldir en nágrannabyggðir eða aðrar þjóðir.

Þennan hugsunarhátt tel ég vera varhugaverðan af ýmsum ástæðum. Fyrir skömmu las ég bók Gísla Pálssonar um „manninn sem stal sjálfum sér“. Þar segir frá manni fæddum á 18. öld á Jómfrúreyjum í Karabiska hafinu. Hann var af blönduðum kyn­stofni en barst um Vesturálfu til Íslands þar sem hann átti sína starfsævi en dó þó um aldur fram. Höfundur bókarinnar leitar mjög að fordómum samtímans og viðhorfum heimamanna til þessa framandi innflytjanda. Ekkert kemur fram sem varpar skugga á samskipti hans við innfædda, þvert á móti giftist hann íslenskri konu, stundar heiðarlega atvinnu og skilar drjúgu dagsverki þrátt fyrir skamman aldur.

Í þessu Glettingsblaði kynnum við til sögunnar mann sem hefur víða farið, er heimilisfastur á fjar­lægasta horni jarðkringlunnar, en á eigi að síður stóran hóp vina og kunningja hér um slóðir. Hann hefur auðvitað frá mörgu að segja, enda fróður um marga hluti. Lögfræðiþekking og sögukunn­átta hans leiðir hann að þeirri staðreynd að hið alþjóðlega lagaumhverfi nútímans sé á svipuðuþróunarstigi og réttarskipan Íslendinga á söguöld. Þá voru vissulega til samskiptareglur og dómar voru felldir yfir þeim sem brutu þær. Sama gildir um samskipti þjóða á milli á vorum dögum. Vitrustu og víðsýnustu menn veraldar, fulltrúar þjóða sinna, koma saman, ráða ráðum sínum, gera milliríkjasamninga. Þeir samþykkja síðan harð­orðar ályktanir ef út af er brugðið

Þjóðir heimsins í nútímanum eiga það þó sam­eiginlegt með hinum íslensku hetjum fornaldar að enginn formlegur aðili sér til þess að dómum sé fullnægt. Á alþjóðavettvangi lifum við á stigi blóðhefnda rétt eins og íslenskir fjölskyldufeður á söguöld. Hið svokallaða alþjóðasamfélag er enn í frumbernsku.

Austurland er órjúfanlegur hluti af hinni víðu veröld. Dæmi um það er saga Smára Geirssonar um hvalveiðar við Íslandsstrendur, sem vænt­anlega kemur út í bókarformi innan skamms. Hægur vandi er að benda á álverksmiðju Alcoa við Reyðarfjörð, en dæmin eru allt í kringum okkur sé nánar að gáð. Sumum líkar þessi alþjóð­lega tenging miður, öðrum betur. En þessi saga er ekki ný, hún er gömul og menningarstraumar nágrannaríkjanna hafa borist hingað óslitið fráupphafi Íslandsbyggðar, stundum með meiri hraða en gott er að átta sig á þar sem heilt úthaf skilur á milli.

En skyldi Ísland eða Austurland sérstaklega vera stöðugt í sviðsljósinu? Aldeilis ekki, enda eins gott, hvorki fyrir þá ljósfælnu eða hina sem sífellt sækj­ast eftir athygli. Við tilheyrum bara ósköp venju­legu fólki búandi í einu af hinum fjölmörgu ólíku þjóðlöndum jarðarinnar. Stundum stöndum við okkur vel og þá koma fréttir. Stundum klúðrum við hlutum rækilega og það þykir líka tíðindum sæta. Málið er að sýna lítillæti, taka vel á móti aðkomufólki, og umfram allt að halda í góða siði og venjur. Í slíku umhverfi gerast góðir hlutir, þó að af þeim fari ekki alltaf sögur.