Skip to main content

.

 

Jafnrétti - Magnús Stefánsson

Magnús Stefánsson

Þetta er fallegt orð – jafnrétti – það hljómar vel og ekki er merking þess amaleg. Í samfélögum, þar sem jafnrétti ríkir, hafa allir einstaklingar jafnan rétt. En hvernig skyldi þeim málum vera háttað hér á landi? Getum við sagt að hér ríki jafnrétti og allir íbúar landsins eigi jafna möguleika?

Ég býst fastlega við að flestir Íslendingar telji sig nokkuð mikla jafnréttissinna og finnist eðlilegt að allir meðbræður þeirra og systur hafi jafnan rétt til lífs. Finnist sjálfsagt að allir landsmenn búi við skoðana- og tjáningarfrelsi, einnig að félaga- og trúfrelsi ríki í landinu, allir séu jafnir fyrir lögunum og hafi rétt til heilbrigðisþjónustu, eigi kost á menntun og atvinnu, geti notið menningar og lista og stundað íþróttir og hvað annað sem hugurinn girnist í tómstundum sínum. Fáir mæla kynjamisrétti lengur bót og sjálfsagt þykir að konum bjóðist sömu möguleikar og körlum og hafi að öllu leyti jafnan rétt á við þá. Með öðrum orðum, öllum íbúum landsins ættu því að bjóðast skilyrði til mannsæmandi lífs.

Ef allt þetta gengi eftir væri lífið auðveldara og jafnframt svipmeira en hinn grái hversdagsleiki sem blasir við mörgum einstaklingum og fjölskyldum þessa lands. Eitt stórt atriði er reyndar undanskilið í upptalningunni hér að ofan – jafnrétti til launa. Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn því að þau öfl, sem raunverulega fara með völdin í landinu, sjá sér ekki hag í því að dregið verði úr þeim mikla mun sem er á lægstu og hæstu launum.

Þessa vordaga snýst umræðan í þjóðfélaginu um fátt annað en kaup og kjör og fjölmenn stéttarfélög eru með lausa samninga. Mikill fjöldi launafólks stendur í erfiðum kjaradeilum við atvinnurekendur og útlit er fyrir harðari átök en verið hafa á vinnumarkaði um árabil. Mikill einhugur virðist meðal launafólks að standa fast við kröfuna um mannsæmandi kjör og að lágmarkslaun fyrir dagvinnu skuli duga til framfærslu. Er þá miðað við að mánaðarkaup þurfi að verða 300.000 krónur að lágmarki. Ég trúi því að nú sé komið að þeim tímamótum að fólkið með lægsta kaupið láti ekki lengur bjóða sér það sem því hefur verið skammtað.
Margt starfsfólk, sem vinnur lægst metnu verkin, hefur þurft að sætta sig við mánaðarlaun sem aðeins losa 200.000 krónur. Stór hluti öryrkja fær greiddar um 172.000 krónur á mánuði og fjöldi eldri borgara býr við ákaflega þröngan kost. Margir í þessum hópum eru fastir í gildru fátæktar og engum ætti að dyljast að kjör þeirra er brýnt að bæta. Um það virðist líka sátt meðal þorra almennings en þeir sem ferðinni ráða telja verulega launahækkun fyrirtækjunum ofviða og ógna stöðugleika í þjóðfélaginu. Margir hafa því velt fyrir sér hvort eigi að setja gróða fyrirtækjanna ofar rétti starfsfólksins til sómasamlegs lífs. Þetta hvorutveggja hlýtur þó að þurfa að haldast í hendur. Láglaunastefnan er oft réttlætt með því að launafólk geti bjargað sér með yfirvinnu og þannig náð þokkalegum heildarlaunum. Þetta ráð gagnast ekki öllum, fjölmargir eiga alls ekki kost á yfirvinnu og auk þess ættu laun fyrir dagvinnu að nægja til framfærslu.

Við getum lesið í Hagtíðindum að árið 2014 bjuggu 10% íslenskra barna á heimilum undir lágtekjumörkum. Getur hugsast að þessi börn hafi sömu möguleika í lífinu og börn sem alast upp á heimilum með viðunandi tekjur? Nei, því fer auðvitað víðs fjarri, hætt er við að þau fari á mis við fjölmargt af því sem hin betur settu njóta, bæði í leik og við nám, þar sem tekjurnar hrökkva vart til annars en að komast af. Vísbending um versnandi ástand er að tæpur þriðjungur barna stundaði ekki reglulega tómstundaiðju á síðasta ári en árið 2009 var hlutfallið 14,3%.

Ekki skal í þessum pistli tekin afstaða til þess hversu mikið laun hinna verst settu í þjóðfélaginu þyrftu að hækka, aðeins tekið undir þá sjálfsögðu kröfu að enginn þurfi að sætta sig við dagvinnulaun sem ekki eru talin nægja til framfærslu. Krafan snýst ekki einungis um sanngjarnari skiptingu kökunnar – hún varðar grundvallar mannréttindi.