Náttúra Austurlands - Skarphéðinn G. Þórisson
Skarphéðinn G. Þórisson
Það er mér heiður að fá að fylgja úr hlaði tvöföldu tölublaði Glettings tileinkað 20 ára afmæli Náttúrustofu Austurlands. Náttúrustofan var stofnuð 1994 en formlega opnuð 24. júní 1995. Hér er saga stofunnar rifjuð upp og fjallað almennt um hlutverk náttúrustofa á landinu sem nú eru orðnar átta eftir að Náttúrustofa Suðausturlands tók til starfa 2013. Náttúrustofurnar hafa tengst sterkum böndum undir merki SNS og unnið sameiginlega að ýmsum verkefnum og um það er fjallað í blaðinu. Allir núverandi og nokkrir fyrrverandi starfsmenn stofunnar lögðu sín lóð á vogarskálarnar við að tryggja vandað og fjölbreytt afmælisblað. Fjölmargir fræðimenn víða að rita hér greinar um austfirska náttúru. Kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir og vonandi fáum við að njóta krafta þeirra í framtíðinni. Þakka ber stjórn Útgáfufélags Glettings samstarfið við útgáfu þessa blaðs.
Hlutverk Náttúrustofunnar er að rannsaka og vakta náttúru Austurlands svo og að fræða um hana. Verkefnið er afar víðfeðmt og því aldrei hægt að gera því öllu skil á hverjum tíma. Enginn jarðfræðingur né sjávarvistfræðingur er við stofuna og því hefur hlut þessara þátta í náttúru Austurlands lítið verið sinnt frá stofunni. Þá er brýnt að leita samstarfs við aðrar stofnanir. Í jarðfræðinni var stígið giftusamlegt spor þegar Breiðdalssetur var stofnað. Ein af þremur meginstoðum setursins er jarðfræði Austurlands. Þar er í forgrunni verk breska jarðfræðingsins dr. George P. L. Walkers sem lagði grundvöllinn að skilningi okkar á uppbyggingu jarðlagastafla Austurlands. NA hefur átt gott samstarf við setrið og vonar að svo verði um ókomna tíð.
Þegar rætt er um náttúru Austurlands hafa flestir einungis nútímann í huga, síðustu 10.000 árin. Með Vestfjörðum er Austurland elsti hluti landsins og elsta bergið um 15 milljón ára gamalt eða frá tertíer tímabilinu. Þá var náttúran gjörólík því sem við nú þekkjum. Eitt af þeim verkefnum sem ég tel að bíði NA er að rannsaka og fræða um líf og land þess tíma en fjallað er einmitt um það svið í grein í blaðinu um eina elstu fornmegineldstöðina á Austurlandi. Gegnt aðalstöðvum NA í Neskaupstað blasir Barðsnesið við með sínum Rauðubjörgum sem vitna um forna megineldstöð, þar finnast menjar lífs frá tertíer sem nauðsynlegt er að kanna betur í framtíðinni.
Annað svið sem ég tel að sinna mætti betur er hafið og huldar lendur þess. Það er ekki hvað síst brýnt þegar yfir vofir hnattræn hlýnun. Efla þarf þekkingu og fræðslu á þessu sviði og tel ég sanngjarnt að þeir sem nýta auðlindina kæmu að því máli.
Landnotkun, skipulag og náttúruvernd er svið þar sem NA ætti að leika stærra hlutverk en verið hefur eins og bent er á í blaðinu. NA tók þátt í að móta reglur um austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og gegnir hlutverki í skipulagi og vöktun friðlýstra svæða.
Eins og svo víða í fræðasamfélaginu situr fræðsla fyrir almenning oft á hakanum. Hlutverk NA í þeim efnum þarf að aukast, þó nokkurt sé eins og sést m.a. á umfjöllun um Náttúrugripasafnið. Greinar sem birtast hér í blaðinu er góð vísbending um hvernig kynna má austfirska náttúru og er það von mín að í framtíðinni verði a.m.k. ein grein tengd henni í hverju hefti Glettings sem ég er sannfærður að lifa muni um ókomin ár. Hreindýrasýningin á Egilsstöðum er líka gott dæmi um hvernig stofan getur lagt öðrum lið til að efla fræðslu.
Náttúrustofan hefur og mun vonandi áfram njóta góðs af samstarfi við þá fjölmörgu sem lagt hafa starfsmönnum hennar lið. Þeir eru alltof margir til að telja þá alla upp en þeim til heiðurs eru nokkrir kynntir til sögunnar á blaðsíðu 7. Einnig sjást þeir á myndum sem tengjast greinum í blaðinu. Val þeirra hér byggir aðallega á því af hverjum eru til frambærilegar myndir og því hverjir tengjast þeim sem þetta ritar.
Að lokum óska ég Austfirðingum og landsmönnum öllum til hamingju með afmælisblaðið sem efla mun sýn á austfirska náttúru.