Skip to main content

.

 

Sextíu ár frá silfurstökkinu - Magnús Stefánsson

Magnús Stefánsson

Við minnumst á þessum haustdögum hins einstaka íþróttaafreks Vilhjálms Einarssonar sem hann vann hinum megin á hnettinum fyrir réttum sex áratugum og markaði með því eftirminnileg spor í íþróttasögu þjóðarinnar. Við skulum rifja upp hans eigin orð um þennan atburð:

„Þrístökkskeppnin fór fram 27. nóvember. Ég þurfti að fara mjög snemma á fætur um morguninn og hafði sofið lítið um nóttina, spennan var mikil í taugakerfinu fyrir keppnina. Undankeppnin var um morguninn en aðalkeppnin eftir hádegi sama daginn. Ég komst yfir lágmarkið áreynslulaust í fyrsta stökki um morguninn. Ég hvíldi mig síðan vel fyrir aðalkeppnina í húsi sem norskur maður átti og var rétt hjá vellinum. Þá var það sem fararstjórinn sagði við mig að nú væri ferðinni borgið þar sem ég væri kominn í aðalkeppnina. Þetta voru ákaflega þægileg skilaboð því að nú var allt að vinna en engu að tapa, úr því sem komið var.

Fyrsta stökk mitt tókst þokkalega en var ógilt. Þá var það sem ég átti mína kyrrðarstund úti á miðjum vellinum, náði slökun og afslöppun og get sagt að ég hafi talað við guð minn. Mér er þetta mjög eftirminnilegt augnablik og ég kom eftir þessa slökunar- og bænastund svo endurnærður að næsta umferð gekk eins og í sögu. Þetta varð svo með léttari þrístökkum sem ég hef stokkið, þetta metstökk. Ég hugsa að einungis þegar ég stökk 16,70 m í Laugardalnum fjórum árum síðar hafi verið léttara. Það er svo undarlegt að þegar maður kemst í þetta ástand, þá gengur allt svo vel og áreynslulaust.

Fyrstu mínúturnar eftir stökkið virtust eins og hálf eilífð, stökkdómararnir rýndu í plankann og mikill óskapa léttir var það þegar hvíti fáninn kom upp. Svo var það náttúrlega stórkostleg gleði og vakti mikla athygli á íþróttavellinum þegar þarna var komið nýtt Ólympíumet. Þetta afrek kom úr svo óvæntri átt enda stökkið um hálfum metra lengra en Íslandsmet mitt.“

Þannig lýsti íþróttamaðurinn Vilhjálmur Einarsson afrekinu óvænta þegar hann vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne haustið 1956. Lýsingin er tekin úr viðtali sem höfundur þessa pistils átti við Vilhjálm fyrir tveimur áratugum – þegar liðin voru 40 ár frá silfurstökkinu (Snæfell, 2. tbl. 16. árg. 1996). Verðlaunastökk Vilhjálms í Melbourne mældist 16,26 m og margir töldu það óvæntasta afrek leikanna. Lengsta stökk hans til þessa var 15,83 m er hann setti Íslands- og Norðurlandamet á móti í Karlstad í Svíþjóð 6. október þetta sama haust.

Vilhjálmur átti eftir að vinna marga glæsta sigra á næstu árum og hæst ber árangur hans frá árinu 1960. Þann 7. ágúst jafnaði hann gildandi heimsmet í þrístökki á Laugardalsvelli þegar hann stökk 16,70 m, án efa glæsilegasta íþróttaafrek Íslendings til þess tíma. En það sem athyglisverðara er: Fullyrða má að heiðrinum af glæsilegasta afrekinu hefur engum íþróttamanna okkar sem síðan hafa gert garðinn frægan tekist að ná af Vilhjálmi.

Hann keppti svo á öðrum Ólympíuleikum sínum haustið 1960 sem voru haldnir í Róm. Miklar kröfur voru gerðar til Vilhjálms að þessu sinni, ólíkt því sem verið hafði fjórum árum fyrr og væntu landsmenn þess að hann ynni til verðlauna. Þrístökkskeppnin var jöfn og hörð, sex keppendur stukku yfir sextán metra. Heimsmethafinn, Pólverjinn J. Schmidt, bar sigur úr býtum með 16,81 m stökki og Vilhjálmur varð í fimmta sæti, stökk 16,37 m.

Fljótt á litið virðist frábær árangur að ná öðru og fimmta sæti á Ólympíuleikum en í viðtalinu, sem áður var vitnað til, kom fram að keppnismaðurinn Vilhjálmur hafði ætlað sér að ná betri árangri í Róm. Um það hafði hann meðal annars þessi orð: „... Sannaðist hér eins og svo oft áður að allt þarf að ganga upp svo að hámarksárangur náist, heppnin þarf einnig að vera með.“

Ég var í Eiðaskóla haustið góða þegar Vilhjálmur vann til verðlaunanna í Melbourne og minnist gleðinnar sem vaknaði þegar fréttin barst, um hádegi næsta dag. Þjóðin hefur lifað með vissuna um íþróttaafrek Vilhjálms í sextíu ár og hrifist af þeim en ég efast um að við gerum okkur í raun og veru grein fyrir því hversu einstakur árangur hans var eða skiljum ástæður þess að hann skaraði svo fram úr öðrum.

Glettingur sendir Vilhjálmi Einarssyni og fjölskyldu hans hamingjuóskir á þessum tímamótum.