Skip to main content

.

 

Ármann Halldórsson - Minning - Magnús Stefánsson

Magnús StefánssonMinning

Ármann Halldórsson
kennari á Eiðum, fræðimaður og rithöfundur
fæddur 8. maí 1916, dáinn 15. febrúar 2008

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn,
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.
(Hávamál)

Ármann Halldórsson var Borgfirðingur að uppruna, hann fæddist á Snotrunesi 8. maí 1916. Þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum, Halldóri Ármannssyni og Gróu Björnsdóttur ásamt þremur systkinum. Ármann stundaði nám í Alþýðuskólanum á Eiðum veturna 1934-1936 og var síðan einn vetur í Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Hann þráði frekari menntun og leiðin lá í Kennaraskólann þaðan sem hann útskrifaðist vorið 1939.

Ármann Halldórsson

Kennsluferillinn hófst í Eiðaþinghá það sama ár og þar var hann farkennari í tvo vetur. Næstu þrjá vetur kenndi hann í Seyðisfjarðarhreppi og fór kennslan fram í skólahúsinu í Eyraþorpinu. Ármann gerðist síðan kennari við Alþýðuskólann á Eiðum árið 1944 og gegndi því starfi til ársins 1975. Síðustu starfsárin var hann forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga á Egilsstöðum en lét af störfum árið 1984.

Ármann taldi sig ekki hafa fengið köllun til kennslustarfa og sagði tilviljun hafa ráðið þegar hann sótti um kennarastöðuna á Eiðum. Engu að síður reyndist hann afburðakennari og Eiðaskóla sérstakt lán að njóta krafta hans um nærri þriðjung aldar. Mörgum nemenda Ármanns eru íslenskutímarnir í fersku minni en íslenskan var hans aðalkennslugrein. Þar hjálpaðist flest að: þekking kennarans og frábær tök á íslensku máli, hæfileiki til að vekja áhuga nemenda á bókmenntum jafnt sem málfræði og réttritun og markviss hvatning til eigin ritsmíða. Ekki spillti svo hið örugga og átakalitla vinnulag kennarans og aginn kom jafnan eins og af sjálfu sér. "Æ, krakkar mínir, látiði nú ekki svona," var það mesta sem hann þurfti að segja þá sjaldan að einhver ókyrrð varð.

Ármann lét nokkuð til sín taka í félagsmálum, sérstaklega á yngri árum. Hann var meðal annars í stjórn UÍA um tólf ára skeið og ritstýrði Snæfelli eldra, tímariti sambandsins. Mikið mæddi einnig á honum við undirbúning landsmóts UMFÍ á Eiðum árið 1952.

Ármann hafði forgöngu um stofnun ársritsins Múlaþings og var ritstjóri þess um árabil. Ritverkið Sveitir og jarðir í Múlaþingi kom út í fjórum bindum undir ritstjórn hans á árunum 1974-1978. Þetta helsta útgáfuverk Ármanns verður mikils metið um langan aldur og talið til stórvirkja. Frá hans hendi komu út fjórtán bækur, sumar frumsamdar en aðrar í hans ritstjórn. Ármann var prýðilega ritfær maður. Hann hafði á valdi sínu þennan lágværa en áleitna stíl, lifandi og blandaðan glettni. Textinn sprettur fram, eðlilega og áreynslulaust eins og flest það sem Ármann tók sér fyrir hendur.

Þótt ekki ætti fyrir Ármanni að liggja að yrkja borgfirska jörð hélt hann jafnan góðum tengslum við æskustöðvarnar. Hann vann heima á Snotrunesi lengi vel á sumrum að undanskildum sumarhléum námsáranna syðra þegar hann var við störf á Korpúlfsstöðum. Borgarfjörður átti vissan stað í hjarta hans alla ævi eins og víða má greina í ritum hans.

Eftirlifandi eiginkona Ármanns er Ingibjörg Kristmundsdóttir frá Skagaströnd. Hún flutti ung að Eiðum og þau hófu búskap árið 1952. Ingibjörg og Ármann voru samhent hjón og gagnkvæm virðing ríkti þeirra á milli. Heimilið einkenndist af rósemd og hlýju sem þeim var eðlislæg og gestrisni þeirra rómuð. Á Eiðaárunum bjuggu þau lengst af á Garði, á Egilsstöðum stóð heimili þeirra í aldarfjórðung en þau fluttu til Reykjavíkur árið 2000. Uppeldisdóttir þeirra er Eygló Eiðsdóttir sem búsett er í Reykjavík.

Útgáfufélag Glettings flytur Ármanni að leiðarlokum hugheilar þakkir fyrir hið mikla framlag hans til menningar og mennta á Austurlandi og bestu óskir fylgja Ingibjörgu, Eygló og fjölskyldu.

Magnús Stefánsson