Eftir fallið - Magnús Stefánsson
Eftir fallið
Þessa vetrardaga erum við minnt á það hverja stund að veisluglaumurinn, sem klingt hefur í eyrum síðustu ár, er að fullu hljóðnaður. Eftir situr þjóðin með reikninginn fyrir veisluföngunum og hennar bíður hreingerningin eftir þá sem gleðinnar nutu.
Efnahagshrunið síðasta haust hefði varla þurft að koma ráðamönnum svo mjög á óvart sem raun varð á og almenningi vissulega ekki heldur. Svo glæfralegar voru aðfarir fjölmargra þeirra landsmanna sem um fjármuni véluðu og stofnuðu til hinna gríðarlegu skuldbindinga sem fólkið í landinu var síðan gert ábyrgt fyrir. Meðan allt lék í lyndi töldust þessir menn meðal fjármálasnillinga og virtust hafa ótakmarkað frelsi til að fara sínu fram, frelsi sem stjórnmálamenn höfðu skapað þeim. Margir þeirra hugsuðu þó fyrst og fremst um eigin hag enda settu græðgi og ágirnd brátt mark sitt á ýmsar þeirra athafnir. Að síðustu urðu fjármálaumsvifin sem ofvaxið mein í okkar smáa efnahagskerfi sem stóðst ekki álagið. Síðustu mánuði hefur þjóðin svo velt því fyrir sér hvernig öll þessi ósköp gátu dunið yfir - hvernig á því stóð að ekkert virkt eftirlitskerfi tók í taumana áður en að hruni var komið.
Frá haustdögum hefur lítið borið á hetjunum góðu er báru hróður hins íslenska fjármagns vítt um lönd. Margar þeirra hafa sennilega skriðið í skjól og láta sér nægja þau verðmæti sem þær kunna að hafa komið undan.
Þær skoðanir hafa heyrst að við séum öll samábyrg, þjóðin hafi sem ein heild tekið þátt í kapphlaupinu. Slíkt er víðs fjarri. Fjölmargir einstaklingar og fjölskyldur höfðu litla möguleika til að nýta sér uppgang síðustu ára. Ekki nutu því allir landsmenn velsældar og ekki hægt að segja að allur almenningur iðkaði dansinn í kringum gullkálfinn. Það gerðu fyrst og fremst þeir sem höfðu yfir fjármagni að ráða - hvernig sem þeir höfðu svo komið höndum yfir það.
Afleiðingar efnahagshrunsins leika þjóðarbúið grátt og stjórnvöld hafa í vetur staðið frammi fyrir erfiðari verkefnum en nokkru sinni í sögu lýðveldisins. Byggja þurfti fjármálakerfið upp að nýju og tryggja að tjón okkar af hruninu yrði sem minnst. Glímt hefur verið við mikla verðbólgu, verðlítinn gjaldmiðil og háa vexti svo eitthvað sé nefnt. Umræða og átök um þessi alvarlegu mál hafa sett mark sitt á þjóðlífið sem eðlilegt er og menn greinir á um leiðir. Ekki eru heldur allir á eitt sáttir um það hvernig til hefur tekist við uppbygginguna.
Í flestum fyrirtækjum landsins er róinn lífróður þessa mánuði svo að halda megi rekstrinum áfram. Mörg fyrirtæki hafa þegar orðið gjaldþrota og önnur dregið úr starfsemi og sagt upp fólki enda eykst atvinnuleysi hröðum skrefum.
Almenningur í landinu hefur ekki farið varhluta af erfiðleikum þeim sem við er að glíma. Þeim fjölgar sem ráða ekki lengur við afborganir af verðtryggðum og gengistryggðum lánum og hið langvarandi vaxtaokur er ekki fólki bjóðandi. Ekki minnka svo erfiðleikarnir þegar atvinnuleysi bætist við. Skjótra aðgerða er því þörf svo að fjöldi íslenskra heimila standi ekki frammi fyrir gjaldþroti.
Þótt erfið verkefni bíði hvert sem við lítum mun þjóðinni fyrr en síðar takast að rétta úr kútnum. Allir þurfa að leggja hart að sér og margt þarf að forðast úr hugmyndafræði tveggja síðustu áratuga til að svo megi verða. Standa þarf vörð um atvinnuvegina svo að tryggja megi vinnu fyrir allt verkfært fólk í landinu og samhjálp og samhugur þarf að vaxa á nýjan leik. Þjóðin þarf að standa sem ein heild að uppbyggingunni, sundurleitur hópur nær ekki settu marki.
Okkur mun farsælast að hugsa til þeirra gilda sem lengi hafa gefist þjóðinni best og rækta með okkur hófsemi og heiðarleika í stað harðsnúinnar peningahyggju.
Magnús Stefánsson