Skip to main content

.

 

Gamla myndin - Bílafloti Kaupfélags Héraðsbúa

gamla_myndin

Myndina tók Kristján Ólason, klæðskeri á Reyðarfirði, í tengslum við gerð bókar um fimmtíu ára starfssögu Kaupfélags Héraðsbúa sem Benedikt Gíslason frá Hofteigi skrifaði og kom út árið 1959. Myndin sýnir bílaflota kaupfélagsins og eru bílarnir á leið upp úr Skriðum, vestan undir Grænafelli, upp á Fagradal og áleiðis til Héraðs. Önnur mynd af bílunum var birt í bókinni.

Nokkuð neðan vegarins sér í hið hrikalega gil Fagradalsár og vestan þess, til hægri á myndinni, í rætur Áreyjatinds. Sunnan hans sér í mynni Áreyjadals og bærinn Áreyjar sést á miðri mynd, neðan dalsins. Kollfell rís að baki bæjarins.

Meirihluta síðustu aldar rak Kaupfélag Héraðsbúa öflugan bílaflota sem fyrst og fremst þjónaði við flutning nauðsynjavöru til íbúa Fljótsdalshéraðs og afurða bænda til Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Tilraunir með vöruflutninga á bílum yfir Fagradal hófust fljótlega eftir að bílar komu til sögunnar en skiluðu ekki árangri fyrr en Meyvant Sigurðsson réð sig til vinnu hjá kaupfélaginu. Hann ók vörum yfir Fagradal sumrin 1920 og 1921. Hægt og bítandi leystu bílar svo hestakerrurnar af hólmi. Frá því snemma á tuttugustu öld, eftir lagningu kerruvegar, sem síðar var gerður bílfær, má segja að lífæð Fljótsdalshéraðs liggi um Fagradal.

Þessir flutningar voru oft erfiðleikum bundnir, vegurinn lengi vel ófullkominn og bílarnir lakar útbúnir en síðar varð. Oft reyndi því verulega á bílstjórana en sennilega aldrei eins og snjóaveturinn mikla, árið 1951 en ekki gefst tækifæri til að rifja þá sögu upp hér.

Ljósmyndarinn, Kristján Ólason klæðskeri, veitti saumastofu KHB á Reyðarfirði forstöðu á árunum 1947-1963. Kristján var áhugasamur ljósmyndari og framkallaði filmur sínar sjálfur. Eftir að hann fór að nota litfilmur framkallaði hann þær líka sem ekki var algengt á þeim árum.

Myndin er fengin hjá Ljósmyndasafni Austurlands með góðfúslegu leyfi Magnúsar, sonar ljósmyndarans.

Heimildir:

  • Benedikt Gíslason frá Hofteigi. Kaupfélag Héraðsbúa. Fimmtíu ára starfssaga. [Akureyri] 1959.
  • Guðmundur Magnússon. Saga Reyðarfjarðar 1883-2003. Fjarðabyggð 2003.
  • Vilhjálmur Hjálmarsson. Þeir breyttu Íslandssögunni. Tveir þættir af landi og sjó. Reykjavík 1995.