Skip to main content

.

 

Aldahvörf á Eiðastað - Sigurjón Bjarnason

Sigurjón BjarnasonÍ byrjun síðustu aldar kappkostuðu Íslendingar að byggja upp athafna- og menningarlíf í landinu í anda frumkvöðla 19. aldar, en undir merkjum tæknivæðingar samtímans og í takt við þróun annars staðar í hinum vestræna heimi. Samstaða skapaðist um grundvallaratriði, svo sem alhliða menntun, framfarir á sviði atvinnulífs, bættar samgöngur og almenna velferð. Landsbyggðin utan höfuðborgarsvæðisins þótti þá góður akur fyrir uppbyggingu og menningu, ekki síður en hin ört stækkandi höfuðborg, og rétt að verja talsverðu fé til þess að forða stórfelldum fólksflutningum af einu landshorni á annað. .

Heimasíða Glettings, sem haldið hefur verið úti síðan um aldamót, stóðst ekki orðið kröfur tímans og var því nauðsynlegt að setja upp nýja og bætta síðu. Þetta verk annaðist umbrotsmaður okkar, Unnar Erlingsson. Heimasíðan er fyrst og fremst ætluð til kynningar tímaritsins og útgáfufélagsins auk auglýsinga og upplýsinga um áskrift að Glettingi. Þar verður einnig að finna valdar greinar úr eldri blöðum. Lesendur eru hvattir til að skoða nýju síðuna, www.glettingur.is.

Fyrri hluti síðustu aldar var framfaratímabil, sem allir landshlutar nutu góðs af og í staðinn fóstraðist hvarvetna upp kynslóð, sem hlaut í vöggugjöf dugnað, góða menntun og menningarlegt uppeldi.

Á Eiðum á Fljótsdalshéraði var mestalla öldina gróðurreitur slíks uppeldis og mun þjóðin lengi enn njóta mannkosta þeirra sem þar komust til þroska og nutu fræðslu hinna færustu kennara og hugsuða.

Samfélagið á þessu merka skólasetri var síður en svo einangrað, þar var jafnan fylgst með því sem á döfinni var í kennslu og framfaramálum. Það urðu hins vegar örlög þess að teljast vera búið að ljúka hlutverki sínu sem menntastofnun á síðasta áratug aldarinnar, hafa mannvirki þar síðan staðið lítt notuð á annan áratug og heimamenn haft af því verulegar áhyggjur hvort framtíð staðarins geti orðið jafn björt og fortíðin.

Ekkert skal um þá hluti fullyrt en þó er það skoðun undirritaðs að úr núverandi stöðu staðarins geti leiðin aðeins legið upp á við. Svo mikil tækifæri eru ónotuð á Eiðasetri og má minna á í því sambandi að

a) flugvöllur í nágrenninu gæti tengt staðinn við aðra landshluta og jafnvel heimshluta,

b) fjölfarin þjóðleið liggur um hlað,

c) hæfileg nálægð er við þéttbýli þar sem alla almenna þjónustu er að fá,

d) mannvirki staðarins bjóða upp á fjölbreytilega notkun,

e) náttúrufegurð hefur laðað ferðafólk að staðnum, svo að þar hefur nú risið byggð orlofshúsa og hótel hefur verið rekið hvert sumar um langa hríð,

f) landrými býður upp á ótal möguleika til nýtingar,

g) fyrir hendi er góður möguleiki á því að heitt vatn verði leitt í Eiða,

h) núverandi eigandi er í góðu sambandi við heimsmenninguna.

Því hlýtur sú byggð, sem enn þrífst á Austurlandi, áfram að njóta mannlífs á Eiðum og nýta það sem þetta forna frægðarsetur hefur upp á að bjóða í framtíðinni.

Í dag er hægt að líta á Eiðastað sem ónumið land. Ekki er ólíklegt að innan tíðar muni einhverjir sjá þá möguleika sem þar eru fólgnir og er þá líklegt að menningarstraumar fari á ný að streyma þaðan út í samfélagið. Er þá ekki til einskis barist af þeirra hálfu sem í dag verja frítíma sínum í að hlú að fortíð staðarins og hugsa upp leiðir til þess að koma honum á kort menningar og mennta á nýjan leik.

Þetta Eiðablað Glettings er þannig til komið að árið 2009 tók Helgi Hallgrímsson saman ágrip af sögu Eiða frá upphafi til nútímans, sem hann kallar „Eiðasögu í hnotskurn“, í því skyni að nota það við gerð veggspjalda í fyrirhugaðri Sögustofu í Eiðaskóla, sem Samtök Eiðavina eru að koma á fót.

Útgáfufélag Glettings hefur lengi haft til athugunar að stofna til þemaheftis um Eiða, og greip nú tækifærið þegar Helgi gaf kost á að velja og stytta nokkra þætti úr Eiðasögu sinni fyrir þetta Eiðablað, rita náttúrulýsingu, og útvega ýmislegt annað efni. Raunar var úr miklu meira efni að moða en komst í þetta blað, m.a. urðu greinar um Eiðahólma og íþróttaleikvanginn á Eiðum að mæta afgangi.

Sigurjón Bjarnason