Skip to main content

.

 

Erum vér Íslendingar eða hvað? - Gunnar Gunnarsson

Gunnar GunnarssonHver er ímynd Austfirðinga af sjálfum sér og hver viljum við að hún sé? Hvað gerum við fyrir þá sem sækja okkur heim og hvernig hegðum við okkur þegar við förum annað, ef við á annað borð förum eitthvað? Hversu vel fylgjumst við með því sem gerist annars staðar og hversu mikinn áhuga höfum við á því?

Ég hef stundum velt fyrir mér vilja Austfirðinga til að taka þátt í samstarfi á landsvísu. Stundum virðist mér eins og við höfum lítinn áhuga á að fara út úr fjórðungnum eða taka þátt í því sem er að gerast utan hans. Þar skiptir ekki öllu hvort um er að ræða mannamót, landssamtök eða fá þaðan fréttir.

„Við tókum ekki þátt í góðærinu, við erum saklaus og eigum ekki að borga skuldirnar.“ Að mestu leyti rangt. Austfirðingar fóru nánast „all-in“ og fasteignamarkaðurinn bólgnaði út hraðar en fígúra í teiknimynd, sem óvart hefur stungið vatnsslöngu upp í sig.

Þetta er svipuð gagnrýni og Íslendingar hafa setið undir. Við viljum fá allt en enga ábyrgð taka eða neinu fórna á móti. Hlutfall erlendra frétta er mun lægra hér en annars staðar. Við viljum að útlendingar heimsæki landið, fíli það geðveikt og eyði peningum en okkur er eiginlega alveg sama um þeirra land.

Tökum ögn staðbundnara dæmi. Ég hef oft heyrt sögur af því að austfirsk þjónustulund sé ekki til. Ég taldi mér trú um að það væri argasta della og þóttist hafa sannanir fyrir öðru. Tvö dæmi frá því í sumar hafa fengið mig til að endurskoða þá afstöðu.

Fyrst voru það puttaferðalangarnir sem ég tók upp í bílinn á sunnudagsrúntinum. Þau höfðu ætlað að fara frá Egilsstöðum upp að Hengifossi og nóg virtist hafa verið af ferðum miðað við bílafjöldann á planinu við Hengifoss. Samt höfðu þau verið á ferðinni í fjóra tíma, án þess að nokkur tæki þau upp í, voru snúin við og komin drjúgan spöl til baka þegar ég renndi við. Hin sagan var um manneskjuna sem var rukkuð um 250 krónur fyrir að skjótast á salernið í vegasjoppu.

Eru þetta þær sögur sem við viljum að spyrjist út um okkur? „Velkomnir í heimsókn – borgið!“

Sturla Guðmundsson fjallar í grein í þessu tölublaði Glettings um ímynd Egilsstaða sem ferðamannastaðar, en greinin er byggð á samanburðarrannsókn sem hann gerði fyrir meistaraverkefni sitt. Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar um Barðsneshlaupið, sem margir gera sér ferð austur til Norðfjarðar til að taka þátt í. Við ræðum við Birgi Einarsson, fyrrum skólastjóra á Breiðdalsvík, um ýmislegt sem hann hefur upplifað á lífsleiðinni og Hjörleifur Guttormsson fræðir okkur um Grænland. Þetta er meðal þess sem er í Glettingi að þessu sinni.

Njótið.

Gunnar Gunnarsson