Skip to main content

.

 

Ljóðabækur Austfirðinga 2009

Ritfregnir

Merkilegt verður að teljast hversu ljóðin virðast halda gildi sínu „í æði múgsins og glaumsins“, sem meðal annars má marka af líflegri útgáfu ljóðabóka. Nægir að minna á Bókatíðindi 2009, sem innihalda um 40 titla. Varasamt er þó að dæma af þessu um ljóðalestur. Ljóðin gegna nú ekki sama hlutverki og fyrr á tímum, þegar mikill hluti landsmanna las kvæði góðskáldanna og lærði þau utanbókar. Ein ástæða þess er að nú yrkja flestir óbundið, án ríms og stuðla, og þann kveðskap er ekki eins auðvelt að læra. Þó er hefðbundið form aftur að ryðja sér til rúms. Íslenskar rímreglur eru svo sérstæðar og fágætar að það er skylda okkar að halda þeim við. Af 39 ljóðabókum Bókatíðinda 2009 er hvorki meira né minna en tugur eftir austfirska höfunda, sem hlýtur að vera undrunarefni. Þær skiptast nokkuð jafnt milli karla og kvenna; um helmingur höfunda er búsettur heima fyrir, en aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Verður nú reynt að gera þeim skil í stuttu máli fyrir lesendur Glettings og geta jafnframt eldri bóka eftir sömu höfunda.

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað á Stöðvarfirði 20. júlí 1996. Magnús Stefánsson, Fáskrúðsfirði, Aðalsteinn Aðalsteinsson, Fellabæ og Guðjón Sveinsson, Breiðdalsvík, hafa stýrt félaginu allar götur síðan. Útgáfa ljóðabóka var frá upphafi á stefnuskrá félagsins og fyrsta stórvirki þess var söfnun ljóða í sýnisbók austfirskrar ljóðlistar, Raddir að austan, er kom út í árslok 1999. Í henni birtust ljóð eftir 122 þálifandi höfunda, búsettra í Múlaþingi eða upp runna þaðan. Um þessa bók var ítarlega fjallað af Finni N. Karlssyni í Glettingi 10 (1), 2000. Árið 2001 hóf félagið útgáfu á bókaflokknum Austfirsk ljóðskáld, með útgáfu bókarinnar Austan um land eftir Sigurð Óskar Pálsson skjalavörð á Egilsstöðum. Bækur af þessum flokki hafa birst árlega síðan, og eru nú orðnar 9 talsins. Síðan 2002 hafa þær verið félagsbækur, þannig að félagar fá þær fyrir árgjaldið, sem nú er 3.500 kr. Auk þess hefur félagið gefið út þrjár aukabækur, sem hafa verið styrktar eða kostaðar af höfundum eða aðstandendum þeirra. Magnús Stefánsson hefur ritstýrt þeim öllum, og valið ljóðin í samráði við höfunda eða aðstandendur. Svo mjög hefur hann vandað til þeirra verka að fágætt má telja, enda smekkmaður á kveðskap, hvort sem um er að ræða hefbundið eða frjálslegt ljóðform. Útgáfa Ljóðafélagsins var með mesta móti árið 2009, því að þá komu út þrjár bækur á vegum félagsins.

(Magnús Stefánsson: Lítið félag í ljóðsins þágu. Í bókinni Á sprekamó, Ak. 2005, bls. 218-224. Ljóðelsk, austfirsk bókaútgáfa í blóma. Viðtal Steinunnar Ásmundsdóttur við Magnús í Morgunbl. 2.6. 2008. Helgi Seljan: Ljósblik á ljóðakri. Austurglugginn 8 (38), 25.9. 2009.)

Bréf til næturinnarBréf til næturinnar – Ástarsaga

Var félagsbók Ljóðafélagsins 2009, og er eftir Kristínu Jónsdóttur á Hlíð, sem er fædd 1963 alin upp á bænum Hlíð í Lóni, þar sem hún hefur alltaf átt heima og býr nú með sínar kindur. Hún fór að fást við ljóðagerð á unglingsaldri og vakti athygli er nokkur ljóða hennar birtust í jólablaði Austra 1983. Nokkur birtust í bókinni Huldumál 2003 og í Glettingi 15 (1), 2005. Ástarsaga Kristínar er mjög sérstæð ljóðabók. Um er að ræða samfelldan ljóðabálk, þar sem rakin er næstum tveggja áratuga saga höfundar af ást í meinum. Þar er kafað í kviku sálarlífsins á opinskáan og einlægan hátt, og flest eru kvæðin blandin sælu og kvöl, því eins og segir í vísunni: „Ástin hefur hýrar brár / en hendur sundurleitar / ein er mjúk og önnur sár / en þó báðar heitar.“ Þó sumstaðar votti fyrir erótík gætir skáldið þess að fara hvergi yfir mörkin í því efni. Þessi kvæði minna á ástarkvæði Páls Ólafssonar, enda ort við svipaðar aðstæður, og manneðlið breytist ekki. Í mörgum þeirra er brugðið upp myndum af umhverfi og störfum bóndans í blíðu og stríðu, fjöll og fuglar koma oft við sögu, og tungl og stjörnur varpa birtu á næturfundi. Kvæðin eru nánast öll í hefðbundnu formi og vel til þeirra vandað, þau fyrri sum nokkuð löng og magnþrungin, þau síðari styttri og fágaðri, en sannkallaðar ljóðaperlur. Í Fréttablaðinu 19. des. 2009 er heilsíðuviðtal Hólmfríðar Helgu Sigurðardóttur við skáldkonuna. Þar kemur fram að tvö forlög höfnuðu útgáfu bókarinnar. Bókin seldist upp um áramótin og varð að prenta aukaupplag. Það hefur ekki gerst áður í útgáfusögu Ljóðafélagsins.

GeislaþyturGeislaþytur

Eftir Gunnar Valdimarsson frá Teigi í Vopnafirði, var aukabók Ljóðafélagsins 2009. Gunnar er fæddur 1924 í Selárdal en ólst upp í Teigi frá þriggja ára aldri. Foreldrar hans voru Guðfinna Þorsteinsdóttir (Erla), skáld og rithöfundur, og Valdimar Jóhannesson. Listaskáldið Þorsteinn Valdimarsson var albróðir Gunnars. Guðfinna var af Skjögrastaðaætt á Héraði, sem er alþekkt fyrir skáldskap og ritlist. Gunnar var bóndi í Teigi 1951-1971, en flutti þá til Reykjavíkur, þar sem hann rak fornbókaverslun með Snæ Jóhannessyni 1977-1998. Geislaþytur er með stærstu bókum Ljóðafélagsins, 176 bls., og hefur þá sérstöðu að meirihluti hennar er minningaþættir, flestir frá æskuárum í Vopnafirði. Þeir eru ágætlega samdir, oft kímilegir og skemmtilegir aflestrar. Einn þeirra heitir Geislaþytur, og segir frá sérstöku veðurfyrirbæri, vindi sem kemur við sólarupprás. Seinni hluti bókarinnar (bls. 115-172) eru kvæði og vísur. Kvæðin eru langflest frá árunum 1949-1952, en vísur frá ýmsum tímum, margar ortar við sérstök tækifæri. Kvæði Gunnars eru vel kveðin, þar á meðal eru fagrar náttúrustemningar og ástarljóð, einnig nokkur ádeilukvæði, enda var höfundur róttækur í stjórnmálum. Þorsteinn fv. rektor, sonur Gunnars, ritar formála.

Og lífsfljótið streymirOg lífsfljótið streymir

Var önnur aukabók Ljóðafélagsins 2009, ólík hinum að útliti, því að þetta er kilja, sú fyrsta í því formi hjá félaginu, prýdd nokkrum heilsíðu-litmyndum úr náttúrunni. Höfundur hennar er Oddný Sverrisdóttir Björgvins, fædd í Reykjavík 1940, en ólst upp hjá móðurforeldrum á Fáskrúðsfirði og tók ástfóstri við fjörðinn. Oddný er kennari að mennt, víðförul mjög, og hefur lagt á margt gjörva hönd um dagana, meðal annars fengist við kennslu, ferðamál bænda, verið blaðamaður við Morgunblaðið og ritstýrt tímaritinu Listin að lifa um tólf ára skeið. Fyrstu bækur Oddnýjar voru smásagnasafnið Níu nornaljós og ljóðakverið Þegar prentljósin dansa, sem komu út samtímis 1990, og 1997 kom ferðabók hennar, Safaríparadísin Kenýa, er lýsir dýra- og mannlífi Mið-Afríku í máli og myndum. Lífsfljót Obbu frá Ási – eins og hún kallar sig stundum – var býsna strangt á köflum og bátur hennar átti það til að steyta á skeri. Ljóðin eru svipmyndir frá þessari siglingu, iðulega tengd hughrifum hinna ýmsu staða og þá ekki síst æskuslóðanna í Fáskrúðsfirði, sem hún sér í hillingum og eru haldreipi hennar í viðsjárverðum heimi. Þetta eru stemningaljóð, sem oft túlka hrifningu, eftirsjá og sorg, þrá eftir fegurð og samræmi, kyrrð og ró í faðmi fjalla og fjarða, þrá eftir bjartsýni og sakleysi æskunnar. Sum eru dálítið ótamin eins og fljótið, hefði mátt fága betur, en eiga þá kannski á hættu að missa upprunalegan sjarma. Þetta er einlæg og falleg ljóðabók, sem ekki lætur mikið yfir sér, en leynir þó mörgum gullkornum í kistu sinni.

Líf í orðum ljóðsinsLíf í orðum ljóðsins

Svo nefnist síðasta ljóðabók Sveins Snorra Sveinssonar, sem býr í heimahúsum á Egilsstöðum. Fyrsta ljóðabók hans, Andhverfur, kom út árið 1991, en síðan hafa þær birst með fárra ára millibili, og er þessi sú sjöunda í röðinni. Um tvær þær fyrstu ritaði ég stuttlega í Glettingi 6 (2), 1996, og lét þess getið að höfundi „sé mikið í mun að koma hugsunum sínum og tilfinningum í listrænan búning, og ætli sér að verða alvöruskáld.“ Það hefur gengið eftir. Vegur hans hefur vaxið með hverri bók, og nú fer ekki á milli mála að Sveinn Snorri er orðinn alvöruskáld, jafnvel í fremstu röð á skáldabekk þjóðarinnar. Um næstsíðustu bókina, Að veiða drauminn, var fjallað af Magnúsi Stefánssyni í Glettingi 16 (3), 2006. Um síðustu bókina ritaði Sigurður Ingólfsson kennari og skáld í Austurgluggann, 18. sept. 2009.
Þetta er fallegt ljóðakver (80 bls.), með táknrænni kápumynd eftir Ingunni Þráinsdóttur, en letur þess hefði mátt vera aðeins stærra. Efnislega skiptist bókin í þrjá hluta: Tvíhendur, Styttri sögur og Lengri ljóð. Tvíhendurnar eru knappt form og verka fremur sem spakmæli en ljóð. Í Styttri sögum eru 15 meðallöng ljóð, sem flest eru af heimspekilegum toga, en sum auk þess gamansöm eða hæðin. Flokkurinn Lengri ljóð inniheldur 12 kvæði, 1–4 bls. Þar tekur skáldið á hinum stóra sínum, og fjallar í einföldum en margræðum dæmisögum, sem oft eru blandnar gríni, um hverfulleik lífsins og hamingjunnar. Ljóðin eru yfirleitt óbundin. Höfundur gefur bókina út sjálfur. Skáldskapur Sveins Snorra sker sig úr flestum öðrum í nútímanum, vegna þess hversu hann er vandlega unninn og þaulhugsaður. Höfundur vegur og metur hvert orð, áður en hann raðar þeim í þessi ljóðhús, sem oftar en ekki hafa margoft verið endurbyggð. „Sá sem týnir öllu / finnur sjálfan sig“ er mottó þessarar bókar. Sveinn Snorri hefur lengi glímt við geðsjúkdóm, og í vissum skilningi hefur hann orðið að týna öllu til að finna sjálfan sig í skáldskapnum. Hann er enn á besta aldri og ætti að eiga vísan frama á þessu sviði, ef hann heldur sér við efnið eins og hingað til.

Komin til að vera, nóttinKomin til að vera, nóttin

Nýjasta ljóðabók Ingunnar (Vilhjálmsdóttur) Snædal, sú fjórða í röðinni. Ingunn er fædd 1971 og alin upp á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal. Hún er kennaralærð og hefur stundað háskólanám á Írlandi og í Reykjavík, er nú kennari í Brúarásskóla á Héraði. Ingunn byrjaði snemma að yrkja og kvaddi sér hljóðs með ljóðabókinni Á heitu malbiki 1995. Næsta bók hennar: Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást (2006) hlaut verðlaun, kennd við Tómas Guðmundsson skáld, náði metsölu í flokki ljóðabóka, og skákaði höfundi 35 ára að aldri á bekk með þekktustu ljóðskáldum Íslands. Þriðja bókin, Í fjarveru trjáa, vegaljóð, kom út fyrir jólin 2008, og var til umfjöllunar hjá Skúla Birni í Glettingi 18 (3), 2008. Þetta er næsta óvenjulegur ferill ungskálds og mun hafa komið ýmsum á óvart, ekki síst höfundinum sjálfum, sem ekki hafði tekið skáldskap sinn mjög alvarlega. Þrjár síðustu bækur Ingunnar hafa verið gefnar út af forlaginu Bjarti í Rvík.

Ljóð Ingunnar eru óbundin að formi og verka iðulega sem dálítið villt, líkt og óhemjan Jökla sem ríkti í dalnum til skamms tíma, úfin og úlfgrá. Mörg af fyrri ljóðum hennar eru tengd þessum æskuslóðum og fólkinu þar. Í Vegaljóðum yrkir hún um hughrif á ýmsum stöðum, hringinn í kringum landið. Í þessari síðustu bók hvarflar hugurinn víðar, og að því er virðist oft til yngri ára. Meginþemað er ástin í hringiðu nútímalífs, vonbrigði hennar og söknuður, og þar er lítið um bjarta tóna. Ingunn fer ekki dult með að hún hefur aðra kynhneigð en þá venjulegu, og það gerir þetta sígilda viðfangsefni að sjálfsögðu flóknara. „Ég hef ekki lært mjög margt þessi tuttugu ár af ástarsamböndum,“ segir í upphafi kvæðisins Þroski. Þó margt sé snillilega orðað í þessari ljóðabók finnst mér Ingunn ekki standa undir því sem vænta má af henni, en vonandi á hún eftir að taka út skáldlegan þroska þegar ‚nóttinni‘ léttir.

Hafrúnir- LjóðHafrúnir- Ljóð

Nýlega út komið ljóðakver (84 bls.) eftir Ólöfu Stefaníu Eyjólfsdóttur, sem er austfirsk að ætt, upp alin á Eskifirði, en hefur lengi átt heima í Reykjavík, stundað skrifstofustörf, og mun nú vera um sjötugt. Fyrsta ljóðabók hennar, Rödd úr djúpinu kom út árið 2000, sú næsta Maríutungur árið 2005 og var stuttlega getið í ritfregnum Glettings 16 (1), 2006. Ólöf hefur gefið út bækur sínar sjálf. Hún hefur numið ljóðlist hjá Þórði Helgasyni, sem hefur aðstoðað hana við yfirlestur. Ljóð Ólafar hafa yfirleitt verið laust bundin með óreglulegri stuðlasetningu, en í þessari síðustu bók reynir hún fyrir sér með ýmsa bragarhætti, bæði hefðbundna og nýlega tilkomna frá austurlöndum fjær, og þar er einnig að finna nokkrar óbundnar örsögur (prósaljóð). Yrkisefnin eru álíka margvísleg, en oftast tengjast þau náttúru landsins eða sögu þjóðarinnar, og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi hafa orðið henni að yrkisefni í öllum bókunum. Í þessari bók eru það m.a. kvæðin Íkon landsins og Lén álfurstans. Tvö kvæði undir fornyrðislagi, ort í minningu Jónasar Hallgrímssonar, eru meðal þeirra bestu í þessu kveri.

ÞarablöðÞarablöð

Er heiti nýrrar ljóðabókar eftir Aðalbjörn Úlfarsson frá Vattarnesi (f. 1928), sem lengi átti heima á Höfn í Hornafirði, sinnti þar sjómanns- og verkamannsstörfum, og lést árið 2009. Þetta er eina bók höfundar, en ýmis kvæða hans hafa áður birst í blöðum og safnritum, meðal annars í Raddir að austan (1999). Þarablöð er myndarbók, 168 bls., tileinkuð móður höfundar, og búin til prentunar af bróðurdóttur hans, Elísu Jónsdóttur á Egilsstöðum. Útgáfuna mun hann hafa kostað sjálfur. Aðalbjörn var eitt hinna dæmigerðu alþýðuskálda, sem hafa hagmælskuna í blóðinu og standast ekki ígrip hennar við ýmis tækifæri. Öll eru kvæðin í hefðbundnu formi, undir ýmsum bragarháttum, en þó ekki alltaf fylgt ströngustu rímreglum. Allnokkur kvæðanna hafa verið lagsett af Óla Fossberg og Þorvaldi Friðrikssyni og hafa eflaust verið sungin, auk þess eru hér nokkur gamankvæði ort til vina og kunningja, og allmargar lausavísur. Það eru nokkur ágæt kvæði í þessari bók, sem dæmi má nefna kvæðið Listmálarinn, sem er tileinkað Elíasi B. Halldórssyni, ort undir eins konar dróttkvæðum hætti.

Lopaljóð í sauðalitumLopaljóð í sauðalitum

Níunda ljóðabók Unnar Sólrúnar Bragadóttur. Unnur Sólrún er fædd og upp alin á Vopnafirði, kennari að mennt, og var um tíma við kennslu á Fáskrúðsfirði, en síðan í Reykjavík. Hún er af Skjögrastaðaætt eins og Gunnar Valdimarsson. Hún er nokkuð jafnvíg á bundið og óbundið ljóðform. Líklega hefur Unnur aldrei tekið skáldskapinn alvarlega, og í seinni tíð einkum notað hann sér og öðrum til hugarléttis. Þetta nýja ljóðakver fellur í þann flokk. Þetta er falleg ljóðmyndabók, með táknrænum ljósmyndum á hverri síðu, sem höfundur hefur unnið og skreytt, allar prentaðar í brúnum lit. Í fyrri hluta (20 bls.) eru rímþrautir: sléttubandavísur, sem lesa má aftur á bak eða áfram. Síðari hluti kallast Lopaljóð, þau eru mislöng, í hefðbundnu formi, og fjalla um hversdagslegar athafnir og hugsanir, en rista sjaldan djúpt. Víða er minnst á kreppuástand, en vanalega endað á uppörvunarorðum um gildi fegurðar, bjartsýni, góðvildar og þakklætis. Þessi ljóð eru hugbót í nútímanum. Bókin er 74 bls. í nokkuð stóru broti. Útgefandi er Salka, Reykjavík.

Nokkur almenn orð um kulnun sólarNokkur almenn orð um kulnun sólar

Þetta er þrettánda ljóðabók Gyrðis Elíassonar, sem birtist nú um jólin. Gyrðir er sonur Elíasar B. Halldórssonar listmálara frá Snotrunesi. Hann er nátengdur Borgarfirði og hefur dvalið þar oft á sumrum, en er nú búsettur í Reykjavík. Gyrðir er fyrir löngu orðinn landsfrægur fyrir ritverk sín, skáldsögur, smásögur og kveðskap, og þarf því ekki að kynna hann frekar. Ég hef ekki séð þessa síðustu bók, en í Bókatíðindum 2009 er þessi umsögn um hana: „Ljós og áhrifaríkur skáldskapur, prýddur þeirri myndvísi sem einkennir verk Gyrðis, blandast hér gamansemi og náttúrulýrik af ýmsu tagi, heitum tilfinningum og ótta, sem er nær yfirborðinu en oft áður. Þá geymir bókin hvassa samfélagsgagnrýni í afstöðu sinni til náttúrunnar og þess smáa sem hún geymir.“ Þess er vænst að ljóðabók Gyrðis verði til nánari umfjöllunar í Glettingi.

Og ekki lagast þaðOg ekki lagast það

Svo nefnist ný vísnabók eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson frá Vaðbrekku. „Bók þessi er gefin út af því tilefni að í ár, 2009, eru liðin 65 ár frá fæðingu höfundarins og 35 ár frá því að fyrsta bók hans kom út ... Vísnasamtíningur með ævisöguívafi, beint framhald af bókinni Ekki orð af viti, sem út kom 2004,“ segir á titilsíðu. Útgefandi er Blómaræktunarsjóður Fannafoldar 103, sem mun vera götunúmer höfundar. Þetta 46 bls. kver inniheldur, eins og fyrri bókin, nær eingöngu gamanvísur, ortar við ýmis tækifæri sem er útlistað í skýringum með þeim, einnig þrjú kvæði í svipuðum dúr. Höfundur bregður fyrir sig margvíslegum bragarháttum, enda er hann sérfræðingur í bragfræði og vinnur nú að ritgerð um íslenska stuðlasetningu sem verður áhugavert að sjá. Kverið var prentað tvisvar á liðnu ári, sem bendir til að það hafi náð góðri sölu.

Litir og ljóð IILitir og ljóð II

Eftir hinn vel þekkta rithöfund Guðjón Sveinsson á Breiðdalsvík, er ellefta ljóðabókin sem út kom á liðnu ári eftir Austfirðing. Útgefandi er eigið forlag höfundar, Mánabergsútgáfan, og dóttursonur hans, Guðjón B. Stefánsson, sá um hönnun og umbrot. Guðjón hefur fremur verið þekktur fyrir skáldsögur en ljóðagerð. Um bókina Sagan af Daníel, sem út kom í fjórum bindum 1994-1999, var ítarlega fjallað í Glettingi 14 (1), 2004, og um barna- og unglingabækur Guðjóns í sama riti, 18 (1), 2008. Fyrsta ljóðabók hans: Með eitur í blóðinu, kom út 1991 (ritfregn í Glettingi 18 (1), 2008). Sú næsta, Í garði konu minnar kom 1998 (ritfregn í Glettingi 9 (1), 1999), sú þriðja, Á afmæli konu minnar, 2002. Allar hafa þær verið skreyttar teikningum.

Árið 2008 kom frá Guðjóni bókin Litir og ljóð úr Breiðdal í sama formi og Litir og ljóð II. Báðar eru óvenju stórar og glæsilegar ljóðmyndabækur (um 175 bls.), þar sem heilsíðu litmyndir standast á við ljóð eða texta á hverri opnu. Í fyrri bókinni eru aðeins myndir úr Breiðdal, sem kallast iðulega á við ljóðefnið á sömu opnu, en í þeirri síðari er víðar leitað fanga. Í fljótu bragði skoðað, virðast bækurnar Litir og ljóð vera samtíningur kveðskapar frá ýmsum tímum og spanna allan höfundarferil skáldsins og vel það, frá tvítugsaldri til síðustu ára, en hann er nú rúmlega sjötugur (f. 1937). Kvæðin eru einnig að sama skapi misjöfn að bragformi, efni og gæðum, og því er torvelt að gefa umsögn um þau í heild. Samnefnarinn væri þá helst, að flest lýsa þau órofa tryggð og ást höfundar til átthaganna og spegla sálarlíf hans við mismunandi aðstæður, en líka er þar að finna gamankvæði og glettur. Hér verður ekki reynt að kryfja þau frekar til mergjar, enda er þess að vænta að þeim verði gerð betri skil síðar í Glettingi.

H. Hall. (febr. 2010)