Skip to main content

.

 

Sveitarfélögin vinni betur saman - Magnús Stefánsson

Magnús StefánssonMargir hafa minnt á það í erfiðleikum síðustu missera hversu mikilvægt sé að efla samstöðu meðal þjóðarinnar. Með samstilltu átaki næðum við okkur fljótt upp úr þeirri kyrrstöðu sem lamað hefur þjóðlífið allt frá fjármálahruninu margnefnda. Þessi brýning á ekki síður við þegar litið er til hagsmuna Austurlands sérstaklega. Ekkert er íbúum landshlutans nauðsynlegra um þessar mundir en að gamlar væringar milli byggðarlaga séu lagðar til hliðar og sameiginlega verði tekið á fjölmörgum framfaramálum sem bíða úrlausnar. Reynslan sýnir líka að oft hefur samstaðan skilað okkur góðum árangri.

En íbúarnir hafa ekki alla tíð talað einum rómi þegar hagsmunamál Austurlands eru til umræðu. Varla er heldur við því að búast þar sem fjórðungurinn er víðlendur og aðstæður fólks ólíkar. Margt var það sem torveldaði samskipti íbúanna fyrr á árum og þættu sumar þeirra hindrana næsta fjarstæðukenndar við nútíma aðstæður. Ýmsir muna þó sjálfsagt enn hrepparíginn gamla, deilur og meting sem gátu skapast milli byggða um smávægileg atriði jafnt sem hin veigameiri mál. Margs konar ástæður gátu verið fyrir deilunum og ekki verður reynt að grafa fyrir rætur þeirra í þessum stutta pistli. Upp í hugann koma þó erfiðleikarnir sem fólk átti við að glíma vegna einangrunar í veglausum landsfjórðungi. Vegna slæmra samgangna kom það ekki af sjálfu sér að menn kynntust íbúum næstu sveita og þorpa. Ókunnugleikinn gat svo skapað tortryggni og í sumum tilfellum hefur jafnvel verið um baráttu nokkurs konar smákónga að ræða sem töldu hlutverk sitt að standa vörð um þrönga hagsmuni síns nágrennis.

Viðhorf fólksins breyttist eftir að samgöngur bötnuðu um miðja síðustu öld og hægt var að komast hindrunarlítið milli byggðarlaga. Unga fólkið kynntist jafnöldrum sínum frá öðrum stöðum í starfi og leik og lét fordóma fyrri tíðar lönd og leið. Samstarf sveitarfélaga jókst og var tekið upp með formlegum hætti, fyrst með starfsemi Fjórðungsþings Austfirðinga sem hófst á fimmta tug síðustu aldar og síðar með stofnun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi árið 1966. Hefur samstarfið varðað fjölmarga málaflokka og má þar nefna atvinnu- og heilbrigðismál, samgöngur og mennta- og menningarmál.

Mannlíf allt hefur tekið stórstígum framförum hér eystra síðustu áratugi eins og annars staðar á landinu. Segja má að fjórðungurinn nálgist það að verða eitt atvinnusvæði og fjölmargir sækja vinnu og afþreyingu út fyrir sína heimabyggð. Ekki er að efa að vaxandi samstarf hefur orðið Austfirðingum til góðs. Kynni hafa aukist milli hinna ólíku hluta fjórðungsins, um leið hefur dregið úr tortryggni og fordómum og sameiginlega hefur íbúunum gengið betur að þoka áfram ýmsum málum sem fjórðunginn varða. En þótt nokkuð hafi miðað þyrfti samvinna sveitarfélaganna enn að eflast og verða markvissari en verið hefur. Slíkt er án efa vilji fólksins og það munu sveitarstjórnarmenn finna manna best. Vonandi ná þeir að stilla betur saman strengi sína á komandi árum, öllum íbúum Austurlands til heilla.

Fyrir stuttu var tekin upp sú nýbreytni að birta ljósmyndir eftir Austfirðing í miðopnu Glettings og er þeirri venju haldið í þessu nýja blaði. Myndirnar tók áhugaljósmyndarinn Helgi Garðarsson á Eskifirði. Helgi sendi ritstjóra myndirnar á haustmánuðum og gekk frá stuttum pistli um ljósmyndaiðkun sína. Hann átti þá í baráttu við alvarlegan sjúkdóm og lést þann 20. janúar 2011. Helgi var mjög áhugasamur og duglegur við þessa tómstundaiðju og tók meðal annars myndir fyrir Morgunblaðið um árabil. Hann hélt úti heimasíðu þar sem finna má þúsundir mynda sem tengdar eru Austurlandi. Stjórn Glettings vottar fjölskyldu Helga dýpstu samúð við fráfall hans.

Magnús Stefánsson