Hversdagshetjur - Magnús Stefánsson
Við sem njótum öryggis og allsnægta nútímans erum annað veifið minnt á erfiðleikana, öryggisleysið og skortinn sem alþýða landsins lifði við allt fram á okkar daga. En við aðstæður sem virtust ofviða mannlegum eiginleikum kom styrkur fólksins og æðruleysi fyrst í ljós, í stað þess að bugast og leggja árar í bát var unnið af þrautseigju það sem gera þurfti.
Í ársbyrjun 2012 var þess minnst að 70 ár eru liðin frá hrakningum breskra hermanna úr setuliðinu á Reyðarfirði á leið niður af Eskifjarðarheiði þar sem átta þeirra mættu örlögum sínum. Fjölskyldan í Veturhúsum í Eskifirði, næsta bæ við heiðina, fékk þá nótt ofurmannlegt verkefni að fást við.
Um 60 manna herflokkur lagði upp frá Reyðarfirði í ágætu og björtu veðri að morgni 20. janúar 1942. Leiðin lá um Svínadal og var ætlunin að ganga yfir Hrævarskörð til Eskifjarðar. Vegna svella og harðfennis komust þeir ekki um skörðin og þurftu þess vegna að fara mun lengri leið og þegar þeir komu loks á Eskifjarðarheiði var myrkur skollið á. Fór þá að rigna og hvessa og brátt var komin stórrigning og suðaustan hvassviðri eins og það getur verst orðið. Árnar í dalnum urðu brátt ófærar og nú hófust erfiðleikar hermannanna fyrir alvöru og helför átta þeirra.
Í Veturhúsum buggu á þessum tíma fjögur systkin, Páll, Magnús, Kristín og Bergþóra Pálsbörn með móður sinni, Þorbjörgu Kjartansdóttur. Bergþóra Pálsdóttir skrifaði greinargóða frásögn af hrakningunum og aðhlynningu hinna þrekuðu manna eftir að bræðurnir komu þeim í hús og í hendur mæðgnanna. Birtist frásögnin í 10. tbl. Lesbókar Morgunblaðsins árið 1964, var endurprentuð í Eskju, fyrsta bindi (1971) og Huldumálum (2003).
Bergþóra lýsir því hvernig eldri bróðirinn, Páll Pálsson, finnur fyrsta hermanninn þegar hann fer seint um kvöldið út í veðurofsann til að gæta að hvort gripahúsin séu vandlega lokuð. Hermaðurinn var aðframkominn og skreið á fjórum fótum gegn roki og regni. Páll bar manninn til bæjar og hann hresstist furðu fljótt eftir að hafa fengið kaffi og næringu. Hann gerði fólkinu skiljanlegt að fleiri menn væru úti í óveðrinu. Þeir bræður fóru þá strax af stað og fundu fljótt tvo menn sem komnir voru heim á tún og stefndu á ljósin á bænum. Þeir reyndu að koma fólkinu í skilning um að mikill fjöldi manna væri enn úti. Bergþóra skýrir svo frá:
Það lá nú nærri, að okkur féllust hendur við þessar fréttir, en þeir bræður fóru samt að vörmu spori út í fárviðrið og héldu áfram að veiða menn alla nóttina.
Við konurnar höfðum líka nóg að gera. Það þurfti að hjálpa svo að segja hverjum manni úr fötunum, og eðlilega þurftu allir að fá heitan drykk og einhverja næringu. Þegar það brauð, sem við áttum bakað, var gengið til þurrðar, voru bakaðar pönnukökur og flatbrauð. Reynt var að þurrka föt þeirra, en það gekk erfiðlega, vegna þess að ekki var nema eitt eldstæði í húsinu og eldiviður af skornum skammti. Við tókum allan þann fatnað, sem við áttum, til að skýla þeim með, einnig kvenfatnað. Að síðustu var ekki annað til en sængurföt, sem vafið var utan um þá, en hinir prúðu og þakklátu gestir tóku öllu vel, sem að þeim var rétt ...
Mennirnir virtust allir vera fúsir að veita aðstoð og hlúa hver að öðrum, létum við þá fara ofan í rúmin eins marga og þar gátu komist, en skiptum um eftir einn eða tvo tíma, eftir því sem á stóð.
Draga tók úr storminum um þrjúleytið um nóttina en nokkur rigning var til morguns. Aftur urðu þverárnar í dalnum væðar og um klukkan tíu kom breskur yfirforingi inn að Veturhúsum til að kanna afdrif leiðangursmanna. Fjölskyldan hafði barist alla nóttina án aðstoðar við björgunarstarfið. Og þétt var bekkurinn setinn í litla bænum, Bergþóra segir að gestirnir hafi orðið 48 þessa nótt „... og í fyrstu var þetta allt í meðvitund okkar eins og þungur draumur eða martröð.“
Svo líða heil 70 ár. Þá er Magnúsi Pálssyni frá Veturhúsum afhent viðurkenningarskjal frá ríkisstjórn Bretlands fyrir einstakt björgunarafrek fjölskyldunnar. Magnús er hógvær maður og segir þau systkinin og móður þeirra aðeins hafa gert það sem gera þurfti örlaganóttina löngu í janúar 1942. Af framgöngu fjölskyldunnar í Veturhúsum getum við ýmislegt lært.
Skrifað í febrúar 2012
Magnús Stefánsson