Skip to main content

.

 

Tímaritið Glettingur tuttugu ára - Magnús Stefánsson

Magnús StefánssonAustfirska tímaritið Glettingur hefur komið út um tuttugu ára skeið. Tveir áratugir virðast ekki langur tími þegar miðað er við aldur elstu og þekktustu tímarita landsins en þegar litið er til hliðstæðra rita, sem gefin hafa verið út á landsbyggðinni, kemur í ljós að Glettingur má teljast þó nokkuð lífseigur. Engin trygging var fyrir langlífi ritsins þegar það hóf göngu sína árið 1991. Hér gat alveg eins verið um stundarfyrirbrigði að ræða eins og svo algengt er um ýmiss konar útgáfustarfsemi. Sú spurning leitar því á hugann undir hvaða heillastjörnu Glettingur hafi orðið til. Hvað var það sem fleytti tímaritinu yfir erfiðasta hjallann á frumbýlingsárunum, skóp því rekstrargrundvöll og hefur haldið því á lífi til þessa dags?

Ég leyfi mér að nefna þrennt sem mér finnst skipta sköpum þegar litið er yfir sögu Glettings. Í fyrsta lagi er það þrautseigja og framsýni frumkvöðlanna. Þeir gáfust ekki upp þótt útgáfan reyndist erfið fyrstu árin og tókst að marka ritstjórnarstefnu sem féll lesendum í geð. Í öðru lagi nefni ég fjármálin, það fyrirbrigði sem löngum hefur ráðið örlögum margra ágætra hugmynda og verkefna. Örugg fjármálastjórn og varfærni hefur einkennt útgáfuna, allt frá því útgáfufélagið tók við henni árið 1994. Þarna er kannski að finna grunninn að langlífi tímaritsins. Áskriftargjöld og hóflegar auglýsingar hafa staðið undir útgáfukostnaðinum, um aðrar tekjur hefur ekki verið að ræða. Síðasta atriðið, sem ég nefni, er tryggð áskrifendanna. Glettingur á því einstaka láni að fagna að áskrifendur hans hafa haldið mikilli tryggð við hann. Tilvera og afkoma Glettings byggist á þessum trausta hóp, bregðist áskrifendurnir getur útgáfan ekki haldið áfram.

Tímaritið Glettingur hóf göngu sína á vordögum 1991. Fyrstu ritstjórn hans skipuðu Finnur N. Karlsson, Helgi Hallgrímsson og Sigurjón Bjarnason. Prentverk Austurlands, sem þá var starfandi í Fellabæ, gaf Gletting út fyrstu þrjú árin og var Ásgeir Már Valdimarsson ábyrgðarmaður hans fyrsta árið en þá tók Árni Margeirsson við. Nýstofnað félag, Útgáfufélag Glettings, tók við tímaritinu árið 1994 og hefur gefið það út síðan. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Helgi Hallgrímsson formaður, Sigurjón Bjarnason gjaldkeri og Þorsteinn Gústafsson ritari. Stjórnin hélst óbreytt til ársins 2001 er Þorsteinn P. Gústafsson varð formaður og Skúli Björn Gunnarsson ritari. Magnús Stefánsson tók við starfi formanns árið 2007 og Rannveig Þórhallsdóttir við starfi ritara árið 2008. Núverandi stjórn skipa: Magnús Stefánsson, Fáskrúðsfirði, formaður, Sigurjón Bjarnason, Egilsstöðum, gjaldkeri og Rannveig Þórhallsdóttir, Seyðisfirði, ritari.

Helgi Hallgrímsson átti hugmyndina að Glettingsheitinu. Þótti nafngiftin við hæfi þar sem áður höfðu heiti tveggja, þekktra fjalla verið valin á austfirsk tímarit. Fjórðungsþing Austfirðinga gaf út tímaritið Gerpi á árunum 1947-1951 og UÍA hafði gefið út tvö tímarit undir heitinu Snæfell. Það yngra hafði komið út á annan áratug þegar Glettingur leit dagsins ljós.

Glettingi hefur frá upphafi verið ætlað það hlutverk að fjalla um austfirsk málefni og ritstjórnin birti nokkurs konar stefnuskrá í fyrsta tölublaðinu. Þar segir að tímaritið sé ópólitískt en dragi taum fjórðungsins í heild og verði tímarit fyrir allt Austurland, engin svæði skuli lenda út undan. Talin eru upp margvísleg málefni sem fjallað verði um og þess getið að „Glettingi er ætlað að brúa bilið milli austfirsku landsmálablaðanna annars vegar og tímaritanna Múlaþings og Skaftfellings hins vegar."

Mörg stefnumiðanna halda enn gildi sínu þótt efnisval og efnistök hafi þróast, að einhverju leyti í takt við breytingar í þjóðlífinu. Glettingur varð ekki sá málsvari austfirskrar hagsmunabaráttu sem tímaritið Gerpir var um miðja síðustu öld og er þetta eitt þeirra atriða sem skapa honum sérstöðu. Þegar athugað er efni, sem tengist Fljótsdalshéraði annars vegar og öðrum hlutum fjórðungsins hins vegar, kemur í ljós að fyrstu tíu árin hafði Héraðið öruggan vinning. Fljótlega eftir aldamót komst jafnvægi á og má heita að hnífjöfn umfjöllun hafi verið um málefni þessara tveggja landsvæða síðasta áratug. Hlýtur því að vera fallin sú kenning að torveldara sé að afla efnis frá sjávarsíðunni en úr innsveitum. Lítið efni hefur enn verið birt úr sumum byggðarlögum en úrbætur í þeim efnum eru ofarlega á dagskrá Glettings.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fjölbreytni í efnisvali. Hvernig til hefur tekist síðasta áratug má sjá í efnisskránni sem birt er í þessu hefti. Í flestum blaðanna er um blandað efni að ræða og helstu flokkar eru sögulegt efni, bókmenntir og listir og náttúrufræðilegt efni. Nokkrum sinnum hafa verið gefin út þemablöð og eitt höfuðviðfangsefni þá tekið til umfjöllunar og fjórum sinnum hefur tveimur tölublöðum verið steypt saman í eitt. Fyrir eitt þessara blaða, Snæfellsblaðið, fékk útgáfufélagið viðurkenningu umhverfisráðuneytisins árið 1999 „fyrir vandaða umfjöllun um umhverfismál."

Nokkrir fastir liðir hafa unnið sér þegnrétt í Glettingi, sumir þeirra hafa fylgt útgáfunni frá byrjun en öðrum hefur verið bætt við á síðustu árum. Ljóð eftir austfirskan höfund eru venjulega kynnt á síðu fjögur og pistill ritstjóra er á fimmtu síðu. Gamla myndin á sér vísan stað innan á aftari kápusíðu og ritfregnir birtast aftast í hverju hefti. Aðrir liðir eru ekki eins fastir í sessi en birtir öðru hvoru, smásaga eftir austfirskan höfund, mynd og frásögn af minnismerki og kynning á austfirsku örnefni. Frá árinu 2002 hefur í flestum blaðanna verið birt ítarlegt viðtal við Austfirðing sem hefur frá ýmsu markverðu að segja úr atvinnu- eða menningarlífi. Kápumyndin hefur þá oftast verið tengd efni viðtalsins.

Fjölmargir höfundar hafa lagt Glettingi til efni. Eftir fyrstu tíu árgangana voru höfundar orðnir um 200 talsins og höfundar næstu tíu árganga eru um 220. Þar af eru nýir höfundar um 170 og hefur Glettingur því birt ritað efni eftir um 370 höfunda á þessum tuttugu árum. Eru þá ótaldir hinir fjölmörgu höfundar myndefnis sem prýðir síður tímaritsins. Átján einstaklingar hafa komið að ritstjórninni. Stjórnarmenn hafa oftast séð um hana en nokkrir aðrir hafa ritstýrt blaði og blaði. Lesendur geta skoðað höfundaskrá og skrá yfir ritstjóra síðustu tíu ára í þessu hefti.

Árni Margeirsson mótaði útlit Glettings í upphafi og vann að umbroti hans til ársins 1997 er hann lést. Skarphéðinn G. Þórisson tók þá við og var umbrotsmaður til ársins 2000 og Skúli Björn Gunnarsson árin 2001-2007. Með fyrsta tölublaði 2008 tók Unnar Erlingsson við umbrotinu. Unnar hannaði einnig nýja heimasíðu fyrir Gletting og var hún tekin í notkun sumarið 2009. Þar er hægt að skoða forsíður og efnisyfirlit nýlegra eintaka og lesa valdar greinar. Þar geta líka nýir áskrifendur að Glettingi skráð sig.

Glettingur hefur komið út í tuttugu ár og flestir árgangarnir telja þrjú tölublöð. Fyrsta árið, 1991, voru tölublöðin tvö og eins árið 1995 og aðeins kom út eitt tölublað árin 1993, 1994 og 2009. Hin venjulega stærð hvers heftis er 52 síður og hefur verið svo frá árinu 2002. Tölublöðin eru orðin 54 talsins og eru þau alls 2.644 síður.

Fyrstu árin var Glettingur unninn í Prentverki Austurlands en árið 1995 voru viðskiptin flutt til Ásprents - POB á Akureyri. Prentunin var boðin út árið 2004 og eftir það samið við Prentmet ehf. í Reykjavík. Enn var prentunin boðin út árið 2009 og þá var samið við Héraðsprent ehf. á Egilsstöðum og þar hafa fimm síðustu tölublöðin verið prentuð.
Áskriftarverði Glettings hefur jafnan verið í hóf stillt. Árið 2010 er verðið 3.000 krónur en tíu árum fyrr kostaði árgangurinn 2.000 krónur. Aldamótaárið voru áskrifendur 600 talsins og höfðu þá aldrei verið jafnmargir. Næstu ár var unnið markvisst að fjölgun áskrifenda og eru þeir nú um 1.200 að tölu. Stöðugt þarf að sinna útbreiðslu tímaritsins og stjórnendur þess ráðgera sérstaka kynningu Glettings á heimaslóðum í þeim tilgangi að fjölga áskrifendum. Rekstur útgáfufélagsins gengur vel og útgáfa Glettings stendur með blóma sem fyrr. Bjart er einnig yfir þegar litið er fram á veginn. Hundrað síðna Dyrfjallablað er rétt að koma út og undirbúningur þriðja tölublaðs ársins 2011 er hafinn. Þá eru nýmæli að konur munu skrifa allt efni fyrsta tölublaðs ársins 2012.

Skrám þeim sem birtar eru í þessu aukablaði er ætlað að auðvelda leit að efni í síðustu tíu árgöngum Glettings. Hliðstætt blað kom út árið 2000 þar sem birtar voru skrár yfir efni fyrstu tíu árganganna.

Að lokum ber ég fram þá ósk að Glettingur njóti vinsælda enn um langan aldur og velvildar áskrifenda og annarra lesenda. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnendur hans að leita fanga sem víðast í fjórðungnum og halda fast við kröfuna um fjölbreytt tímarit og vönduð vinnubrögð við útgáfu þess.

Magnús Stefánsson