Skip to main content

.

 

Víkur, fjöll og firðir - Ásta Þorleifsdóttir, Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Rannveig Þórhallsdóttir.

RitstjorarTileinkað minningu Helga M. Arngrímssonar

Ágæti lesandi!
Hér gefur að líta fjölbreytt Dyrfjallablað. Dyrfjöll eru há og tignarleg fjöll sem vekja áhuga allra sem augum líta. Í þessu blaði eru Dyrfjöll og nærsvæði þeirra í öndvegi með áherslu á jarðfræði, náttúru- og dýralíf í Borgarfirði eystra, Víknaslóðum og á Úthéraði. Blaðið er þó ekki einskorðað við náttúrufar heldur birtast hér einnig greinar sem tengjast menningu og sögu þessa svæðis.

Dyrfjöll eru forn eldstöð, mörkuð ógnarkrafti jökla sem sorfið hafa í hið forna fjall dyr, sem eiga á Íslandi engar sér líka. Þessi tignarlegu fjöll mynda hornstein svæðis, frá Loðmundarfirði í suðri að Jökulsá í norðri, sem löngu er þekkt fyrir einstakar jarðmyndanir og áhugavert lífríki og nú er rætt um sem mögulegan jarðminjagarð.

Hér mynda fjöllin, hafið og himinninn órjúfanlega heild fegurðar, sem er ógleymanleg þeim sem það upplifa. Skal engan undra að listamálarinn Jóhannes Kjarval skyldi taka ástfóstri við þau hughrif sem Dyrfjöllin og íbúar í stokkum og steinum kalla fram á léreft listamannsins. Í norðri er litríkt Þerribjargið, yst við Héraðsflóann, hornsteinninn. Þá tekur Húsey við með einstöku lífríki, þar sem selir, skúmar og kjóar ráða ríkjum í góðu samneyti við ábúendur. Jökulsorfin hvalbök og lífríkar tjarnir gera Úthérað að áhugaverðum áfangastað, að ógleymdum svörtum Héraðssandinum sem ber við hvítfyssandi öldur sem berja sandinn. Við Selfljótið má rekja sögu búsetu og verslunar aftur til landnáms, sögu sem mótast hefur af sambýli við síbreytilega náttúru og sjávarstöðu. Þá taka við Dyrfjöllin sjálf með Stórurð sem eitt er af undrum Íslands. Blómskrúð er mikið og frá Stapavík til Loðmundarfjarðar finnst fjöldi plantna sem hvergi annars staðar hafa fundist á Íslandi. Lundar eru á fáum stöðum aðgengilegri en í Hafnarhólmanum á Borgarfirði og ritur baða sig í Fjarðaránni. Hreindýr eru tíð sjón í fjalllendinu upp af Húsavík og Loðmundarfirði.

Merktar gönguleiðir skipta tugum sem leiða ferðamenn um víkur og skörð. Gistingu er víða að finna hvort sem er á fínum gistihúsum eða snotrum fjallaskálum. Ferðaþjónustuaðilar bjóða gönguferðir, fjallaklifur, hestaferðir og hefur mikil og góð þróun orðið í ferðaþjónustu sem gefur fleirum færi á að njóta. Nú er svo komið að Húsey og Víknaslóðir eru á óskalista margra þeirra sem leggja í Íslandsferð, og þeir eru ófáir sem eiga sér þann draum að eyða við Stórurð óskastund.

Einn var sá sem jók veg og virðingu Borgarfjarðar eystra sem áfangastaðar náttúruunnenda meira en aðrir á meðan hann lifði. Dyrfjallablað Glettings er tileinkað minningu eldhugans, útivistarmannsins og náttúruunnandans Helga M. Arngrímssonar, sem lést árið 2008, langt fyrir aldur fram, aðeins 57 ára að aldri. Helgi bar hag Borgarfjarðar eystra fyrir brjósti og sýndi mikla atorku við að efla framfarir í sinni heimabyggð. Helgi byggði upp starfsemi steiniðjunnar Álfasteins, þar sem hann var framkvæmdastjóri í hartnær 20 ár. Hann starfaði jafnframt sem leiðsögu- og kortagerðarmaður, var merkisberi nýmæla á mörgum sviðum og frumkvöðull í ferðaþjónustu. Helgi átti í góðu samstarfi við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs um skálabyggingar, sem gert hafa ferðamönnum fært að njóta Víknaslóða sem best. Enn er margt framundan í uppbyggingu á þessu einstaka landsvæði og er sá áfangi að fá svæðið viðurkennt sem jarðminjagarð mikilvægur liður í því.

Miklar og greinargóðar upplýsingar um náttúrufar, menningu, sögu og þjónustu fyrir ferðamenn á svæðinu er að finna á veraldarvefnum. Ber þar fyrst að nefna veglega heimasíðu Borgarfjarðar eystra: www.borgarfjordureystri.is. Þá er að finna margvíslegan fróðleik á vef Fljótsdalshéraðs
www.fljotsdalsherad.is, ber þar hæst Náttúrumæraskrá Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings og undirvef Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Að auki er margvíslegan fróðleik um áhugaverða staði og upplýsingar um þjónustu að finna á veraldarvefnum www.east.is.

Greinahöfundum og eigendum mynda er þakkað samstarfið og Magnús Stefánsson fær góðar þakkir fyrir aðstoð við yfirlestur á próförk.

Njótið vel Dyrfjallablaðs!

Ásta Þorleifsdóttir, Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Rannveig Þórhallsdóttir.