Að fornu skal hyggja - Sigurjón Bjarnason
Sigurjón Bjarnason
Sumir líta á fortíðina sem eitthvað úrelt, liðið. Eitthvað sem aldrei kemur aftur, sem óþarft er að velta sér upp úr. Gamalt fólk dvelur oft við liðna tíð, þeim yngri til mismikillar ánægju. Þá eru rifjaðir upp liðnir atburðir, sagt frá horfnum atvinnuháttum, sögð saga ættingja, mannvirkja, hetjusögur, slysfarir.
Sjóðir minninganna eru ótæmandi og sumt eldra fólk er svo miklir sagnamenn að það gæti þulið fræði sín dögum saman og aldrei talað tvisvar um sama hlutinn. Kemur þá upp í huga sagan „Nú, nú. Sagan sem aldrei var skrifuð“ en hún er nokkurn veginn óslitin frásögn Steinþórs Þórðarsonar á Hala, mælt af munni fram og flutt í útvarpi á svo tærri íslensku að unun var á að hlýða. Á síðustu árum hefur áhugi fyrir sagnalist farið vaxandi og vinnur Miðstöð munnlegrar sögu, sem starfar sem hluti af Landsbókasafni Íslands, að því að safna og varðveita frásagnir frá liðnum tíma.
En frásagnir af eldri tíma eru ekki einungis skemmtun þeim sem á hlýðir. Þær innihalda gjarna mikinn lærdóm sem nútímamanninum er ákaflega hollt að geyma í minni sínu og hafa til eftirbreytni. Öll mættum við gjarna tileinka okkur hugarfar þeirra sem byggðu upp íslenskt samfélag, já sjálfstætt íslenskt ríki á fyrri hluta síðustu aldar. Margur var sá sem miklu fórnaði þá og hlaut þó aðeins brot af ávinningnum. Meira máli skipti að eftirkomendur gætu notið góðs af.
Og enn er á meðal okkar fólk sem leggur mikið í sölurnar til að bæta samfélagið. Það gleymist oft þegar við höldum því statt og stöðugt fram að nútímamaðurinn sé sjálfselskan, græðgin og eigingirnin uppmáluð. Þannig er ekki hægt að stimpla heila þjóð og sem betur fer erum við mun marglitari hópur en svo. Nærtækasta dæmið er ef til vill Landsbjörg og það gífurlega sjálfboðaliðastarf sem þar er unnið til að koma öðrum til hjálpar. Reyndar eru hin frjálsu félagasamtök landsmanna afar fjölbreytt og framlag þeirra til menningar og líknar ómetanlegt.
„Endurminningin merlar æ,“ stendur í góðu ljóði. Það er mikilvægt að þeir sem komnir eru á efri ár láti þá sem yngri eru njóta birtunnar af hinum fornu minnum. Og þeir sem á hlýða þurfa að geta notið sagnafróðleiksins sér til gagns og ánægju.
Þetta Glettingshefti ber vitni þess að varðveita beri bæði ljúfar og sárar minningar þeirra sem komin eru á virðulegan aldur. Þetta er viðleitni okkar til að færa framtíðinni það sem fortíðin hefur fram að færa eða eins og skáldið Einar Ben kvað:
„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt.“
Lesefni sem þetta er afar vinsælt með vorri þjóð og margur drekkur það í sig af áfergju. En sá sem gleymir sér í fortíðinni verður alltaf verkasmár. Frásagnir af horfinni tíð ættu ef til vill helst að höfða til athafnamannsins, hins virka Íslendings. Ekki til eftiröpunar né til varnaðar, heldur til að kynnast þeim persónum sem lifðu og hrærðust í óvinsamlegu umhverfi en tókst að ryðja brautina til nútímans með seiglu, ósérhlífni og skynsemi að vopni.
Við þurfum ekki endilega að setja okkur í spor forfeðranna. Miklu fremur að tileinka okkur æðruleysi þeirra og kjark. Þannig fetum við veginn fram á við og verðum ekki stöðnun og sjálfselsku að bráð.