Ljóðin - Eysteinn Björnsson
Eysteinn Björnsson er fæddur á Stöðvarfirði 1942 og hefur dvalið þar á sumrum síðastliðin 40 ár, ásamt konu sinni, Önnu Njálsdóttur, börnum þeirra og barnabörnum. Telja þau hjónin óspillta náttúruna í firðinum góða til mestu lífsgæða. Eysteinn hefur gefið út þrjár ljóðabækur, Dagnætur (1993), Fylgdu mér slóð (1998) og Logandi kveikur (2005). Einnig hafa komið út eftir hann þrjár skáldsögur, Bergnuminn (1989), Snæljós (1996) og Í skugga heimsins (1999). Í faðmi fjallanna á Stöðvarfirði hafa fæðst þrjár barna- og unglingabækur, Út í blámann (2002), Stelpan sem talar við snigla (2006) og Hrafnaspark (2010). Auk þess allmargar smásögur í blöðum og tímaritum. Ein þeirra, Hvalurinn (The Whale), fékk önnur verðlaun í alþjóðlegri bókmenntasamkeppni (1996).
Stund
Á meðan haustið bíður
eins og svalur skuggi
handan daganna
synda tvær straumendur
inn í lygnuna við bakkann
og stinga saman nefjum
List
Í framandleikanum
er galdurinn fólginn
en vel að merkja
þeim kunnuglega
og þögninni á eftir
Ósk
Hvísli mér orði
í þögn næturinnar
orði sem ég man
þegar morgnar
og fylgir mér
á vegi tímans
Í hlíðinni
Gefðu mér gleymsku
mildustu gjöf þinna gjafa
lof mér að sofna í sumar
þegar brönugrasið
breiðir úr sér í brekkunum
svo ég hafi ilminn
í óminnisnesti
Ákall
Fjötraður skilningi
friðarvana lengst af
hinn viti borni maður
þær tíðir munu upp renna
að hann stendur við ysta haf
og hrópar
góði guð
gerðu mig brjálaðan aftur
Messa
Í dag hlýði ég
á fagnaðarerindið
krýp í mosann
stari inn í krónu
holtasóleyjar
legg eyrun við
gult og hvítt
Kveðjustund
Þegar ég kyssti
kalt ennið
kom minningin
eins og leiftur
bátskel í hafi
endalaus víðáttan
og við tveir
á þessari fjöl
í leit að fjársjóði